fbpx

 

Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands 2024 er þátttaka sunnlenskra barna í Upptaktinum. 

Upptakturinn er árviss viðburður á vegum Hörpu sem nú er haldinn í tólfta sinn. Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Markmið Upptaksins er að stuðla að tónsköpun, fullvinnslu hugmynda með fagfólki í gegnum vinnusmiðjur og fá svo tækifæri að upplifa tónverkið vakna til lífsins á sviði með flutningi fagfólks á tónleikum í Hörpu.

Lokahnykkur Upptaktsins er svo flutningur verkanna á opnunarhátíð Barnamenningar í Reykjavík þann 24. apríl nk. Nánar á heimasíðu Upptaktsins


 
Fulltrúi Suðurlands

Hin 14 ára Manúela Maggý Friðjónsdóttir Morthens Heal, nemandi í Tónlistarskóla Rangæinga og Grunnskólans á Hellu, hlaut náð dómnefndar Upptaktsins og er eini fulltrúi Suðurlands í ár.

Manúela Maggý

Manúela Maggý heyrði af Upptaktinum í skólanum, þar sem kennarar hvöttu hana til að senda inn tónverk. Hún er fjölhæf tónlistarkona og skapar alls konar tónlist. Manúela Maggý sendi inn hljóðupptöku af tónverki í Upptaktinn en reglurnar kveða um á að frjálst sé að senda tónsmíðina í hvaða formi sem er og því ekki nauðsynlegt að kunna að lesa nótur eða spila á hljóðfæri.

Hún kveðst hafa verið afar stolt, glöð og spennt þegar hún fékk fréttirnar um þátttöku. Hópurinn sem komst áfram hefur nú þegar hist og unnið saman í tónlistartengdum verkefnum ásamt að hitta tónskáld og nokkuð ljóst að spennandi tímar eru framundan hjá henni.

Upptakturinn er einstakt tækifæri fyrir ung tónskáld að skapa eigin tónlist og fá hana flutta á tónleikum í Hörpu með fagfólki í tónlist. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga óska Manúelu Maggý innilega til hamingju með árangurinn og hlakka til að heyra lokaafurðina.