fbpx

Lýsing

Verkefnið er unnið með það í huga hvað Skógasafn hefur upp á að bjóða. Nemendur munu kynnast munum sem notaðir voru á Íslandi á síðmiðöldum og fram til byrjun 20. aldar. Hluti af verkefninu verður unninn í húsasafni safnsins þar sem nemendur munu ímynda sér hvernig hefur verið að búa í torfbæ. Að lokum fara nemendur í gegnum Samgöngusafnið og kynnast því og svara spurningum um samgöngu- og tækiþróun á Íslandi á 20. öld.

Markhópar

Samkvæmt 9. msg. 7. gr. Aðalnámskrár grunnskóla frá árinu 2011 er fjallað um tengsl skóla við nærsamfélag:

Mikilvægt er að skólar byggi upp virk tengsl við nærsamfélag sitt og stuðli þannig að jákvæðum samskiptum og samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. Þetta er mikilvægt til að auka fjölbreytni í námi, t.d. í valgreinum á unglingastigi og til þess að tengja nám nemenda veruleikanum í nærumhverfi þeirra svo það verði merkingarbærara. Þessi tenging snýr t.d. að umhverfi, menningu, listum, íþróttum, félags og tómstundastarfi og atvinnulífi.

Verkefnið mun nýtast nemendum í námi og kennurum við kennslu vegna þess að samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla frá 2011 eiga nemendur við lok 7. bekkjar meðal annars að geta:

  • Skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú
  • Gert grein fyrir einkennum og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins, breytilegrar menningar, trúar og lífsviðhorfa
  • Greint samhengi heimabyggðar við umhverfi, sögu, menningu og félagsstarf
  • Greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum

Hentar aldurshópi: Þetta verkefni er hugsað fyrir nemendur sem eru tíu til fjórtán ára gamlir.

Form á afurð: Verkefnið er á pappír og ætlast er að þrír til fjórir nemendur leysi það með skriffærum. Skólarnir sjá þá um að prenta út verkefnin áður en farið er í safnheimsóknina.

Stutt lýsing á fræðsluefni: Verkefnið er hópaverkefni og miðað er við að þrír til fjórir í hverjum hóp. Verkefnið skiptist í fimm hluta í eftirfarandi röð:

Fyrstu tveir hlutarnir verða unnir á Byggðasafninu.

Í þriðja hluta verkefnisins fara nemendur fari út í torfbæina og skrifa stutta greinargerð um það hvernig hefur verið að búa í torfbæ á 19. öld. Þá er mælt með því að nemendur lýsi einum degi í lífi einum ábúenda í viðkomandi torfbæ.

Í fjórða hluta fara nemendur í Samgöngusafnið og svara nokkrum spurningum um þróun samgangna og tækni á Íslandi.

Í síðasta hluta verkefnisins mun hver og einn meðlimur hópsins finna einn mun sem viðkomandi myndi vilja taka með sér heim og rökstyðja hvers vegna.

Þegar verkefninu hefur verið lokið verður því skilað til kennara sem fer yfir það og þá verður hægt að gefa einkunn fyrir það ef viðkomandi kennari kýs að gera það. Síðan er einnig möguleiki að skila því aftur til nemenda að loknum yfirlestri.

Afurðin og ávinningur

Afurðin mun nýtast nemendum vel í námi. Nemendur munu öðlast skilning á fortíðinni og þannig áttað sig betur á íslenskum þjóðháttum og íslensku samfélagi eins og það var áður fyrr.

Þá mun verkefnið einnig nýtast kennurum/skólum vel en samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla frá árinu 2011 eiga nemendur við lok 7. bekkjar að geta greint hvernig sagan birtist í textum, munum, hefðum og minningum. Í þessu verkefni fá nemendur að kynnast munum og þjóðháttum liðinna tíma og verkefnið getur veitt aukinn skilning á stöðu Íslands fyrr á tímum.

Skógasafn

Verkefnisstjórar Andri Guðmundsson og Helga Jónsdóttir
Tölvupóstur: andri@skogasafn.is
Heimasíða: skogasafn.is
Sími: 487-8845

Hvert og eitt safn kynnti verkefni sín á sameiginlegri kynningu 31. maí 2018 og má finna öll kynningarmyndböndin hér.