fbpx

Fundargerð
aðalfundar SASS
haldinn á Hótel Höfn 
27. og 28. október 2022

Setning ársþings

Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður SASS setur fundinn og býður fulltrúa velkomna á ársþing SASS. Ræðir hún um tímann frá síðasta SASS þingi. Þakkar hún Sveitarfélaginu Hornafirði fyrir móttökurnar.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður tilnefnir Eyrúnu Fríðu Árnadóttur og Sigurjón Andrésson sem fundarstjóra og Rósu Sif Jónsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt samhljóða.

Í lok máls felur formaður fundarstjórum stjórn fundarins.

Sigurjón Andrésson og Eyrún Fríða Árnadóttir taka til máls og bjóða fundargesti velkomna á Höfn á aðalfund SASS.

Kosning kjörbréfanefndar

Eyrún Fríða Árnadóttir tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu stjórnar SASS að kjörbréfanefnd.

Kjörbréfanefnd                                   Sveitarfélag
Aldís Hafsteinsdóttir                           Hrunamannahreppur
Eyþór Harðarson                                Vestmannaeyjabær
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir            Rangárþing ytra

Er tillagan samþykkt samhljóða og tekur kjörbréfanefnd þegar til starfa.

Starfsskýrsla 2021 -2022

Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður flytur skýrslu stjórnar. Fer hún yfir skipan stjórnar og skipurit SASS. Fastráðnir starfsmenn SASS eru átta. Fjöldi er af samstarfsaðilum og ráðgjöfum sem starfa á þeirra vegum sem dreifðir eru um allt Suðurland, en ráðgjafaþjónusta er mikilvægur þáttur í starfi SASS.

Byggðaþróun er samstarfsverkefni og byggir á samningi við Byggðastofnun, Sóknaráætlun Suðurlands og þeirri vinnu sem íbúar og hagaðilar hafa unnið að; að verkefninu koma ráðgjafar. Megin starfssvið ráðgjafaþjónustunnar er atvinnuþróun og nýsköpun, menningarstarf og samstarfsverkefni á sviði byggðarþróunar.

Helsta hlutverk og markmið Sóknaráætlunar er að vinna að stefnumörkun fyrir landshlutann, ráðstafa fjármunum til áhersluverkefna og úthluta styrkjum til menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefna. Verið er að yfirfara umsóknir sem bárust nú á haustmánuðum í Uppbyggingarsjóð Suðurlands en 90 umsóknir bárust.

Gerð er þjónustukönnun árlega meðal umsækjenda í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Umsækjendur eru almennt ánægðir bæði með sjóðinn og uppbyggingu hans. Er þessi könnun gerð til að sjá hvað má betur fara og hvað er sagt um vinnuna. Margir segja að þeir hefðu ekki farið af stað með verkefni án úthlutunar og eru jafnframt mjög ánægðir með eftirfylgni og handleiðslu ráðgjafanna.

Hjá nýrri stjórn hefur m.a. verið til umfjöllunar stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036, drög að frumvarpi um sýslumann, skort á heilbrigðisstarfsmönnum, farsældarráð á Suðurlandi, Ungmennaráð Suðurlands og heimavist við FSu. Hægt er að þakka kraftmiklum sveitarstjórnarmönnum að heimavist við FSu var opnuð og er enn opin.

Ræðir hún um áhersluverkefni Sóknaráætlunar og minnir á að allir geta sent inn tillögu að áhersluverkefni á vef SASS og er opið fyrir tilnefningar fram í miðjan nóvember.
Fer hún yfir áhersluverkefni sem voru árið 2021.

Helstu áhersluverkefni ársins 2022 eru:

 • Sigurhæðir, markmið verkefnisins er að styðja við úrræði til að takast á við heilsu- og lífsgæðaskerðandi áhrif kynbundins ofbeldis á Suðurlandi og auka samvinnu aðila sem vinna með málaflokkinn.
 • Eldfjallaleiðin, markmið verkefnisins er að hanna og setja fram nýjar ferðaleiðir á Suðurlandi með það að markmiði að þétta net ferðaleiða á Suðurlandi til að stýra og hægja á gestum á svæðinu.
 • Innleiðing loftslagsáætlana sveitarfélaga, markmiðið er að draga saman þekkingu við innleiðingu loftslagsáætlana sveitarfélaga á Suðurlandi svo verði til samræmt verklag, þekking og hagræðing sem nýtist heildinni. Ásamt því að draga saman markmið og aðgerðir sveitarfélaga. Með þessu getur stefnumótun sveitarfélaga og Sóknaráætlun Suðurlands náð hámarks samlegð og árangri.
 • Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, markmið að skapa grundvöll fyrir starfsemi klassískrar hljómsveitar á Suðurlandi og kynna klassíska tónlist fyrir nemendum í grunnskólum á Suðurlandi.
 • Orkídea, markmið að efla nýsköpun í orkutengdri matarframleiðslu og líftækni á Suðurlandi.
 • Sóknarfæri Suðurlands, markmið að hagnýta tækifæri til nýsköpunar og markaðssóknar hjá starfandi fyrirtækjum og frumkvöðlum á Suðurlandi. Með áframhaldandi þróun og framkvæmd á Sóknarfærum, sem er stuðningsferli frumkvöðla sem vilja koma viðskiptahugmyndum á næsta skref.
 • Svæðisskipulag Suðurhálendisins, markmið að vinna að gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið með þeim ellefu sveitarfélögum á Suðurlandi sem eiga land eða réttindi að hálendi Suðurlands.
 • Stórskipakantur í Vestmannaeyjum, markmið er að meta efnahagsleg áhrif vegna byggingar stórskipakants í Vestmannaeyjum, meta samfélagsleg áhrif, og leggja mat á vænt tækifæri og viðskiptalegar forsendur.
 • Þróun ferðamennskusamfélags, markmið í fyrsta hluta verkefnisins er að vinna að gerð stöðu- og þarfagreiningar á ferðamennskusamfélaginu í Hornafirði til að undirbyggja stefnumótun með áherslu á sjálfbæra ferðamennsku, byggðaþróun, menningu, menntun, nýsköpun og rannsóknir.
 • Fyrirtækja- og íbúakannanir, markmið að kanna viðhorf íbúa og forsvarsaðila fyrirtækja á Suðurlandi, út frá búsetuþáttum annars vegar og stöðu rekstrar og framtíðarhorfur í rekstri hins vegar.

Önnur áhugaverð verkefni sem SASS vann að á tímabilinu eru:

 • Menntaverðlaun Suðurland, Magnús J. Magnússon fyrrum skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hlaut verðlaunin 2021.
 • Ungmennaráð Suðurlands, hefur verið starfandi frá árinu 2017 og skilað miklum og góðum árangri í þágu ungmenna í landshlutanum.
 • ART verkefnið, hefur margsannað sig, hefur oft verið í óvissu en er nú tryggt næstu tvö árin en tíminn er fljótur að líða og því þarf að huga að því hvort hægt sé að koma því í varanlega fjármögnun.
 • Almenningssamgöngur, kannað hefur verið viðhorf íbúa til almenningssamgangna og eru íbúar á Suðurlandi jákvæðir gagnvart þeim, þó hefur notendum einkabifreiða fjölgað sem nota bíl til og frá vinnu frá árinu 2016. Til að íbúar noti strætó oftar þarf að fjölga ferðum og lækka fargjöld.
 • Stöðugreining hjúkrunarheimila á Suðurlandi, er verkefni sem stendur sveitarfélögunum nærri, huga þarf að endurbótum og nýbyggingu, rekstur er þungur og hafa nokkur sveitarfélög skilað rekstrinum til ríkisins.
 • Crethink, er tveggja ára Erasmus+ verkefni sem miðar að því að styðja íbúa sveitarfélaga í því að öðlast hæfni við að leysa flókin samfélagsleg viðfangsefni með hugmyndafræði og aðferðum samsköpunar. Unnið var með heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna nr. 11 – Sjálfbærar borgir og samfélög.

 

Unnið er samkvæmt samningi um atvinnu- og byggðaþróun við Byggðastofnun og verið er að endurskoða þann samning. Vilji er til þess hjá SASS að fá skilgreind sjö vinnusóknarsvæði á Suðurlandi í stað sex. Fjölmörg mál koma til umsagna hjá stjórn og einnig er mikil samvinna við önnur landshlutasamtök og Samband íslenskra sveitarfélaga og er unnið að þéttara samstarfi þar á milli. Áskoranir SASS á komandi starfsári eru m.a. samningar við samstarfsaðila í byggðarþróun en þar þarf aukið framlaga frá ríkinu og viðurkenningu á sjöunda vinnusóknarsvæðinu. Endurskoða þarf samgönguáætlun SASS um þjóðveg 1, en það er mál er varðar öryggi íbúa og ferðamanna. Lausnir í úrgangsmálum sveitarfélaga er forgangsverkefni, auka þarf framboð fjarnáms og hækka menntunarstig. Mikilvægt er að tengja íbúa af erlendum uppruna betur við samfélagið og bæta þarf heilbrigðisþjónustu, álag hefur aukist með fjölgun ferðamanna.

Stjórn SASS þarf að vera enn sterkari rödd Suðurlands. Að lokum þakkar hún Bjarna og starfsmönnum SASS fyrir gott samstarf.

Niðurstaða kjörnefndar um lögmæti fundarins

Aldís Hafsteinsdóttir formaður kjörnefndar kveður sér hljóðs og kynnir niðurstöður um lögmæti fundarins. Kemur fram að kjörnir fulltrúar eru 67 en gild kjörbréf eru fyrir 67 fulltrúa. Alls eru 54 aðalfulltrúar mættir, fimm varamenn og átta fjarverandi. Fundurinn úrskurðast því lögmætur.

Ársreikningur SASS 2021

Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS kynnir ársreikning SASS fyrir árið 2021. Tekjur SASS 2021 voru 187 m.kr., rekstrargjöld tæplega 227 m.kr. og fjármunatekjur um 100 þús.kr. Rekstrartap ársins var því 40 m.kr. Tapið má rekja til breytingar á lífeyrisskuldbindingum en hún hækkaði um 54 m.kr.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Fjárhagsáætlun SASS 2023

Bjarni Guðmundsson kynnir fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2023 og fer yfir forsendur tekju- og gjaldaliða. Gert er ráð fyrir að gjald á íbúa hvers sveitarfélags sem aðild á að samtökunum hækki um 7%, almennt hækki gjaldaliðir um 3% en laun til samræmis við áætlaðar breytingar á kjarasamningum.

Sigurjón Andrésson fundarstjóri tekur við stjórn fundarins og gefur orðið laust, til máls taka Álfheiður Eymarsdóttir og Íris Róbertsdóttir.

TILLAGA UM LAUN STJÓRNAR OG NEFNDA/RÁÐA

Sigurjón Andrésson fundarstjóri kynnir tillögu stjórnar um laun stjórnar, ráða og nefnda. 

Tillaga til aðalfundar SASS 27. október 2022 um laun stjórnar, ráða og nefnda sem send var út með fundarboði.

 1. Laun stjórnar skulu nema kr. 53.298.- fyrir hvern fund. Föst mánaðarlaun formanns skulu nema kr. 133.246.- en auk þess fær formaður kr. 59.960.- fyrir hvern stjórnarfund. Fyrir aðra fundi í ráðum og nefndum skulu þau nema kr. 39.974.- fyrir hvern fund.
 2. Laun fulltrúa í ráðum og nefndum skulu nema kr. 39.974.- fyrir hvern fund. Laun formanns ráðs eða nefndar skulu nema kr. 53.298.- fyrir hvern fund.
 3. Fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum skulu fá greitt fyrir akstur til og frá fundarstað skv. akstursdagbók í samræmi við reglur RSK um aksturskostnað.

Framangreind þóknun skal taka breytingum samkvæmt breytingu á launavísitölu frá nóvember 2022 til janúar 2023.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Kosning í stjórn og nefndir

 1.  

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður kjörnefndar SASS leggur til eftirfarandi tillögur kjörnefndar að skipan í nefndir og ráð á aðalfundi samtakanna:

Stjórn Fræðslunets Suðurlands skipað til 1 árs í senn

Aðalmaður: Hulda Kristjánsdóttir, Flóahreppur

Varamaður: Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands til 1 árs í senn

Aðalmenn:
Ásgerður Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður

Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:

Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes og Grafningshreppur

Árni Eiríksson, Flóahreppur

Mögulega verður samstarfi um Upplýsingamiðstöð Suðurlands slitið en tillaga er um eftirtalda fulltrúa í fagráðið.

Fagráð Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands til 1 árs í senn

Aðalmaður: Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur

Til vara: Drífa Bjarnadóttir, Mýrdalshreppur

Stjórn SASS

Aðalmenn:

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður

Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra

Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær

Árni Eiríksson, Flóahreppur

Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg

Arnar Freyr Ólafsson, Sveitarfélagið Árborg

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Hveragerðisbær

Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:

Gauti Árnason, Sveitarfélagið Hornafjörður

Jóhannes Gissurarson, Skaftárhreppur

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Vestmannaeyjabær

Anton Kári Halldórsson, Rangárþing eystra

Bragi Bjarnason, Sveitarfélagið Árborg

Ellý Tómasdóttir, Sveitarfélagið Árborg

Jón Bjarnason, Hrunamannahreppur

Sandra Sigurðardóttir, Hveragerðisbær

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus

Formaður: Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður

Varaformaður: Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus

Kjörnefnd SASS

Aðalmenn:

Eyrún Fríða Árnadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður

Auður Guðbjörnsdóttir, Skaftárhreppur

Íris Róbertsdóttir, Vestmannaeyjabær

Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra

Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppur

Smári B. Kolbeinsson, Grímsnes- og Grafningshreppur

Kjartan Björnsson, Sveitarfélagið Árborg

Njörður Sigurðsson, Hveragerðisbær

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:

Hjördís Edda Olgeirsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður

Björn Þór Ólafsson, Mýrdalshreppur

Helga Jóhanna Harðardóttir, Vestmannaeyjabær

Eggert Valur Guðmundsson, Rangárþing ytra

Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg

Ásta Stefánsdóttir, Bláskógabyggð

Bjarni Ásbjörnsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Halldór Benjamín Hreinsson, Hveragerðisbær

Erla Sif Markúsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus

Formaður: Aldís Hafsteinsdóttir, Hrunamannahreppur

Varaformaður: Tómas Birgir Magnússon, Rangárþing eystra

Eignarhaldsfélag Suðurlands: 

Aðalmenn:

Bragi Bjarnason, Sveitarfélagið Árborg

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra

Varamenn:

Kjartan Björnsson, Sveitarfélagið Árborg

Nanna Jónsdóttir, Ásahreppur

Fundarstóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Tillaga kjörnefndar er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

Umræður

Eyrún Fríða Árnadóttir tekur við stjórn fundarins og gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

 

Hver er framtíð þekkingarsetra?

Hugleiðingar um tilgang og gildi þekkingarstarfs, erindi flutt af Þorvarði Árnasyni forstöðumanni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Þorvarður ræðir um gildi þekkingarsetra sem eru Þekking – setur og framtíð. Fer hann yfir staðsetningu setranna sem öll er starfandi úti á landsbyggðinni en grunnhlutverk þeirra er varðveisla, miðlun og sköpun. Það sem þau eiga sameiginlegt er m.a. óspilt náttúra, landslagið og dýralíf. Ef miðlun menningarafurða er ekki miðlað út til almennings þá deyr hún út, það þarf að passa upp á að það gerist ekki.

Þekkingarsetur eru mjög lauslega skilgreint hugtak. Þekkingarsetur sem mynda netverk eru Náttúrustofur og eru fjórar á Suðurlandi. Rannsóknasetur HÍ eru þrjú á Suðurlandi, Nýheimar á Höfn í Hornafirði, Háskólafélag Suðurlands og Þekkingarsetur Vestmannaeyja, þeim hefur því miður ekki verið gefinn mikill gaumur. Gefnar hafa verið út tvær skýrslur önnur með jákvæðu hliðunum en hin fjallar að miklu leyti um hvernig má leggja setrin niður eða sameina. Í Nýheimum og Fjölheimum eru ólíkir aðilar sem vinna saman að því að hlúa að þekkingu með einum eða öðrum hætti og hefur það góð áhrif á samfélagið. Það er mun auðveldara að vera í samskiptum án þess að vera undir sama þaki því er þekkingin að dreifa sér enn frekar um samfélagið.

Þrjár skýrslur hafa komið út um byggðaþróun á síðustu árum. Hugtakið byggðarþróun hefur aldrei verið skilgreint af ríkinu en það þarf að fara fram samtal milli samfélagana og setranna um starfsemina. Gerð hefur verið rannsókn og var spurt um mikilvægi þess að vera með setrin í samfélaginu. Með því að vera með starfsemi rannsókna- og háskólastofnana á landsbyggðinni gerir það dreifðum byggðum kleift að skapa sjálfbær samfélög sem sýna seiglu en það er einmitt eitt að markmiðum byggða- og sóknaráætlana landshlutanna. Háskólastofnanir þurfa að átta sig á að lítil starfseining á landsbyggðinni gegnir samfélagslegu hlutverki til jafns við fræðimennsku og greinaskrif.

Ræðir hann um mikilvægi þess að styrkja innviði mannlegs samfélags því það tengir fólk saman, það er ekki nóg að vera með flugvelli og brýr í lagi það þarf að huga vel að samfélaginu og fólkinu sem þar býr en samfélögn sjálf þurfa að taka þátt í að þróa setrin og taka þátt í því sem boðið er upp á. Framundan eru miklar samfélagslegar breytingar, fjórða iðnbyltingin er að umbreyta vinnumarkaði og lífinu með nýrri tækni. Þróun gervigreindar og önnur tækni mun hafa áhrif á fjölda starfa.

Það hefur ýmislegt verið að gerast sem vekur bæði von og ótta það er búið að stokka upp í ráðuneytunum en nýlega kom fram frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð. Það þarf að huga að því hvernig nýsköpun er skilgreind.

Þekkingarstarf er verðmæti sem hefur bæði gildi í sjálfri sér og margvíslega samfélagslega og hagnýta þýðingu. Virkt þekkingarstarf „heima í héraði“ er meginforsenda þess að byggðir séu raunverulegir þátttakendur í nútíma þjóðfélagi og að byggðir njóti þess ávinnings sem þekkingarstarf annars staðar leiðir af sér. Það er mikilvægt að deila þekkingu með öðrum og hún er forsenda raunverulegrar nýsköpunar og eflandi byggðaþróunar. Hvað þekkingu varðar er „jaðarstaða” hugarástand – miðjan er þar sem þekkingin er hverju sinni. Jaðarinn er hin nýja miðja.

Framtíðin einkennist fyrst og frest að óvissu, áhættu og ógn. Það þarf að efla aðlögunarhæfni og seiglu byggða svo hægt sé að mæta þeim breytingum sem verða s.s. vegna fjórðu iðnbyltingarinnar, heimsfaralda, loftslagsmála o.fl. Það þarf skýr fyrirmæli frá stjórnvöldum varðandi skilgreiningu lykilorða eins og byggðaþróun, nýsköpun, þekkingarstaf.

Er hægt að líta á öll þekkingarsetur á Suðurlandi sem samfellt þekkingarsamfélag? Hvernig og hvers vegna á að hlúa að samfélaginu?

 

Hefur rödd ungmenna á Suðurlandi áhrif?

Sólmundur Sigurðarson formaður Ungmennaráðs Suðurlands kynnir starfsemi þess. Sólmundur ræðir um starf ungmennaráðsins og þakkar SASS fyrir að gefa ungmennaráðum tækifæri.

Ungmennaráð veita ungmennum heimild til að koma fram og taka þátt í störfum hjá sveitarfélögum. Það hefur orðið fækkun á aðilum í ungmennaráðum og einnig hefur vantað endurnýjun í þeim. Hann hvetur sveitarfélög til að vera með ungmennaráð og setja í samþykktir að ungmennaráð séu starfandi í hverju sveitarfélagi. Það þarf að hlusta á ungmenni, einnig er mikilvægt að greiða fulltrúum ungmennaráða fyrir fundarsetu. Það kemur fram í barnasáttmálanum að réttur ungmenna til þátttöku og skiptir máli og það er mikilvægt að fara eftir því. Ræðir hann um verkefnið UNICEF barnvæn sveitarfélög en til að fá vottun þá þurfa að vera virk ungmennaráð í sveitarfélögunum.

Í Ungmennaráði Suðurlands eru fulltrúar frá hverju aðildarsveitarfélagi og er þar vettvangur til að funda saman um sameiginleg málefni og koma þeim á framfæri. Sýnir hann myndband sem gert var af Ungmennaráði Suðurlands um Betra umhverfi á Suðurlandi.

Það þarf að bæta aðgengi að námi svo að hægt sé að klára nám á Suðurlandi. Það þarf að huga að skólahúsnæði, skapa þarf aðstöðu í störfum óháð staðsetningu, það þarf að bæta skapandi greinar og störf einnig er mikilvægt að auka samstarf milli sveitarfélaga.

Fyrstu kynni ungmenna að sveitarstjórnarmálum er oft á vettvangi sem þessum. Jafningjafræðsla Suðurlands liggur þungt á ráðinu en þau vilja að aftur verði ráðist í svona verkefni. Með jafningjafræðslu náðist gríðarlega mikill árangur og má sjá það í niðurstöðu könnunar sem gerð var í kjölfar fræðslunnar. Verkefnið er því miður ekki í gangi núna en það er mikilvægt að fá fræðsluna aftur í gang og hvetur hann sveitarfélög til að huga vel að endurupptöku á þessu mikilvæga verkefni. Einnig hvetur hann þau sveitarfélög sem ekki eru með ungmennaráð að stofna þau sem fyrst.

 

Svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið – Er kominn tími á fleiri svæðisskipulög?

Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggð kynnir á stöðu verkefnisins og er með hugleiðingar um tækifæri sem felast í gerð svæðisskipulags. Helgi ræðir um gerð svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið sem nú er í vinnslu. Upphafið er að árið 2014 er ályktað á SASS þingi að samstarf verði aukið með gerð svæðisskipulaga sem stuðli að meira samstarfi og samræmi skipulagsáætlana sveitarfélaga, í framhaldi eru haldnir vinnufundir og á ársþingi SASS 2015 var niðurstaðan að byggja upp kortagrunn. Það er svo á ársþingi SASS 2018 að hvatt er til þess að unnið verði svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið og varð þá mikil umræða um verndun og nýtingu á svæðinu í heild.

Fer hann yfir svæðið sem um ræðir en það eru ellefu sveitarfélög sem koma að vinnunni en níu sveitarfélög eru með beina aðild að svæðinu og tvö með óbeina. Unnið er í samvinnu við verkfræðistofuna Eflu. Fer hann yfir markmiðin með vinnunni sem m.a. er að verndun og nýting sé í samræmi við sjálfbæra þróun og þolmörk einstaka svæða. Verið er að kortleggja auðlindir sem eru miklar á hálendinu einnig er unnið að stefnumörkun á innviðum, gerð vega, þjónustustaðir ferðamanna og nýting auðlinda eru skilgreindir, einnig er mörkuð stefna um dreifikerfi raforku og fjarskipta. Hann telur að verið sé að ná góðri lendingu varðandi samgöngumálin. Fer hann yfir tímaramma verkefnisins, en hann vonast til að hægt verði að fara með skipulagið í kynningu á árinu 2022 sem fer svo í afgreiðslu/samþykkt hjá sveitarstjórnum árið 2023.

Hann spyr hvort í framhaldinu eigi að taka næsta skref eða ekki? Á þá að fara lengra t.d. að vinna svæðisskipulag niður í byggð? Hvenær er tímabært að fara í þá vinnu? Á að taka þetta í stórum skrefum, eða setja þetta niður á færri sveitarfélög? Hver gætu viðfangsefnin verið? Samgöngur, vindorka, auðlindagarður, ferðaþjónusta, landbúnaður, menning eða menntun.

Hann hvetur sveitarstjórnarmenn til að hugsa þetta víðara og til að skoða þetta vel og hafa skoðun á málinu.

.

Aðlögun íbúa af erlendum uppruna

Harpa Elín Haraldsdóttir forstöðumaður Kötluseturs kynnir stöðu verkefnisins og þeim aðgerðum sem hugmyndin er að ráðast í. Að verkefninu standa Rangárþing ytra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður. Byggðarþórunnarfulltrú SASS er staðsettur í Kötluseti í Vík sem er miðstöð menningar, fræða og ferðamála í Mýrdalshreppi. Unnið er að aðgerðaráætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðis Suðurlands er verkefni unnið í samvinnu við SASS til að styðja jákvæða byggðaþróun. Það er mikil íbúavelta á svæðinu og samsetning íbúa hefur breyst, það er mikið af ferðamönnum, störfin á svæðinu eru einhæf og einnig eru launin lág. Það er mikilvægt að skoða hvernig hægt er að gera svæðið sjálfbært og hvað það er sem þarf að bæta til að ná þeim árangri.

Það koma margir aðilar að greiningunni. Skoðaðir voru styrk- og veikleikar svæðisins í samvinnu við erlenda íbúa á svæðinu bæði var gerð netkönnun en einnig voru einstaklingar teknir í einkaviðtöl. Hægt er að sjá niðurstöðu rannsóknarinnar í skýrslu á vef SASS.

Komið var upp gagnatorgi, lýðfræðilegum gagnagrunni, sem Byggðastofnun sér nú um að reka og uppfæra. Helstu niðurstöður eru að það þarf að fara í almennar umbætur, auka þarf aðgengi að húsnæði hvort sem um ræðir leigu eða sölu og það þarf að útbúa leiðbeiningar fyrir fólk sem vill kaupa eða selja hús. Það þarf að kynna aðilum sem vilja fara út í eigin atvinnurekstur, kynna fyrir þeim t.d. ráðgjafaþjónustu SASS, og einnig að kynna aðra atvinnumöguleika fyrir þeim. Það þarf að upplýsa fjölskyldur um samfélagið, hvort að það er einhver félagastarfsemi sem hægt er að sækja í og hvetja erlenda íbúa til þátttöku. Einnig er mikilvægt að bæta almenningssamgöngur og kynna möguleika sem eru í boði í sambandi við menntun á svæðinu. 59% svarenda höfðu upplifað erfiðleiki við að tengjast nýju samfélagi og þessa tölu þarf að lækka. Það er mikilvægt að hafa móttökuáætlun og einnig er gott ef hægt er að tilgreina fjölmenningarfulltrúa.

Það þarf að byggja brú til að hægt sé að búa til samfélag. Sveitarfélagið Hornafjörður kom mjög vel út í verkefninu enda með starfandi fjölmenningarfulltrúa og einnig fjölmenningarráð og eru gæði þjónustunnar þar hátt metin.

Öll sveitarfélögin hafa tekið skýrsluna og niðurstöðuna fyrir og hafa þau öll nýtt sér það sem kom fram í skýrslunni og gert einhverjar breytingar.

En hvað þarf að gera í framtíðinni? Það þarf að ná samfélaginu með og fá einstaklinga af erlendum uppruna inn í það sem verið er gera í hverju sveitarfélagi til dæmis í kórastarf. Það er mikilvægt að fá áframhaldandi stuðning frá SASS og Byggðastofnun. Styðja á við sveitarfélögin til að ná þeim árangri sem kemur fram í skýrslunni og það er spennandi samráð við Fjölmenningarsetur.

Þetta er lítið tilraunaverkefni með stórt hjarta og mikla löngun og þau vilja fá fleiri sveitarfélög af Suðurlandi með.

 

Þróun ferðamennskusamfélags

Ragnhildur Jónsdóttir verkefnisstjóri á Höfn hefur unnið að verkefninu Þróun ferðamennskusamfélags en verkefnið varð til að frumkvæði Framhaldsskólans í Austur Skaftafellssýslu í Nýheimum á Höfn og í samstarfi við nokkra aðila.

Þetta er aðeins fyrstu skref að miklu stærra verkefni en hún er að safna saman upplýsingum um ferðamennsku á svæðinu. Hún er að vinna að gerð stöðu- og þarfagreiningar á ferðamennskusamfélagi á Hornafirði til að geta farið svo í áframhaldandi vinnu. Það varð ferðaþjónustusprengja eftir hrun. Hlutfall erlendra ferðamanna jókst gríðarlega en aukningin í Sveitarfélaginu Höfn var um 450% á árabilinu 2010-2018. Áhrif fjölgunarinnar voru sérstaklega sýnileg í afþreyingunni, það varð mikil sköpunargáfa og spruttu upp mörg fyrirtæki sem sinna afþreyingu. Það sem var ánægjulegast var að aukningin dreifðist yfir árið. Það varð því í fyrsta skipti mögulegt að vera með atvinnu yfir allt árið tengda ferðamennsku.

Árið 2020 var stór rannsókn unnin á vegum SASS í samstarfi við Hagstofu Íslands og var tilgangur vinnunnar að svara ákveðnum kjarnaspurningum varðandi ferðaþjónustu á Suðurlandi. Kannað var með störf einstaklinga í aðalstarfi allar atvinnugreinar og svo störf einstaklinga í ferðaþjónustu, þar var Höfn í öðru sæti og er því ferðaþjónusta mikilvæg atvinnugrein í sveitarfélaginu.

Fer hún yfir rannsókn um viðhorf íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðaþjónustu og ferðamönnum. Íbúum hefur fjölgað með aukningu ferðamanna, en áskoranir eru álag á vegakerfi og heilbrigðisstofnanir, einnig þarf að skoða hvað verður mikið eftir af tekjum í sveitarfélögum með fjölgun ferðamanna.

Nú er í gangi á Hornafirði endurreisn ferðaþjónustunnar eftir COVID en hafa ber í huga að ekkert af fyrirtækjunum sem voru í rekstri fyrir COVID í sveitarfélaginu þurfti að hætta sem er fagnaðarefni.

Umræður

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

 

Ávörp

Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri innviðaráðuneytis

Aðalsteinn er nýskipaður skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu og fer fyrir skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála, áður hefur hann starfað í rúm 20 ár sem forstjóri Byggðastofnunar og þekkir hann því vel málefni sveitarfélaga. Biður hann fyrir góðar kveðjur frá Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra sem ekki getur verið á fundinum.

Suðurland er landsstór og fjölbreyttur landshlut með mörg tækifæri og sérstöðu hvað varðar náttúru og sögu. Tækifærin tengjast bæði nálægð og fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Sóknaráætlun Suðurlands sameinar áherslur svæðisins í umhverfis- og loftslagsmálum og hvetur hann sveitarfélögin við vinna áfram að þeim málum. Verkefni nýs ráðuneytis spannar flest svið mannlegrar tilveru eins og samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál, húsnæðis- og mannvirkjamál og skipulagsmál. Með því að fá húsnæðismálin í ráðuneytið er verið að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögunum og nýta samlegðarkraftinn til að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Undir húsnæðismálin heyra húsnæðis- og vaxtabætur, stofnframlög og HMS. Verið er að samhæfa áætlanir sem undir innviðaráðuneytið heyra þ.e. samgönguáætlun, húsnæðisáætlun, sveitarstjórnaráætlun og skipulagsstefnu. Byggðaáætlun hefur þegar verið samþykkt.

Hann segir ráðherra leggja mikla áherslu á að allar áætlanir ráðuneytisins stuðli að búsetufrelsi. Lífsgæði fólks skiptir máli og er unnið að skilgreiningu á hugtakinu. Lífgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að búa sér heimili þar sem það helst kýs, í því formi sem hentar og að opinber og almenn þjónusta, atvinna og innviðir séu viðunandi og til staðar, sama hvar fólk býr á landinu. Í innviðaráðuneytinu er unnið að búsetufrelsi m.a. með því að stuðla að öflugum sveitarfélögum, fjölbreyttu framboði húsnæðis, að sem flest störf séu án staðsetningar og gott aðgengi að þjónustu. Það skiptir mála að stuðla að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða.

Það er brýnt að ná góðu jafnvægi í húsnæðismálum og hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir ýmsum umbótum í tengslum við lífskjarasamninginn. Með flutningi á fasteignaskrá og faseignamati til HMS var stigið stórt skref til að einfalda þjónustu.

Áfram er lögð áhersla á verkefnið „Tryggð byggð“ sem er samstarfsvettvangur í landsbyggðum um húsnæðisuppbyggingu. Markmiðið er að bæta aðgengi að upplýsingum um sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög sem og samstarfi við leigufélagið Bríeti. Miðað við niðurstöður starfshóps um húsnæðismál þá þarf að byggja yfir 3.500-4.000 íbúðir á komandi árum. Það þarf að leita samninga við sveitarfélögin um skipulag lóða í takt við mannfjöldaspá. Óuppfyllt íbúðaþörf er gríðarleg og er mikilvægt að ríki og sveitarfélög séu með sameiginlega sýn á þörfina.

Eftir að skipulagsmálin vistuðust í innviðaráðuneytinu felast miklir möguleikar í því að styrkja innviði s.s. samgöngur, uppbyggingu húsnæðis og nýrra atvinnusvæða. Þó eru loftslagsmálin í forgrunni og er mikilvægur þáttur sem þarf að huga vel að.

Svæðiskipulag fyrir Suðurhálendið sem sveitarfélög á Suðurlandi hafa tekið höndum sama um í gegnum Sóknaráætlun landshlutans er frábært verkefni sem er áhugavert að fylgjast með. Góð samskipti milli sveitarfélaga og ríkisins er mikilvægur þáttur í yfirstandandi endurskoðun á stefnu og aðgerðaráætlunum sveitarfélaganna. Fundir hafa verið haldnir og var einn sérstaklega tileinkaður Suðurlandi og sköpuðust þar góðar umræður um hvar brýnast sé að taka til hendinni, má þar nefna aðgengi að grunnþjónustu, samgöngur og almenningssamgöngur og þörf fyrir búsetuúrræði, einkum mannsæmandi húsnæði fyrir farandverkafólk.

Stefnt er að því að setja drög að grænbók í málaflokki sveitarfélaga í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda fljótlega og hvetur hann sveitarstjórnir til að kynna sér þau og senda ábendingar. Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru krefjandi verkefni og eru sífellt í skoðun. Skipuð var verkefnastjórn um endurskoðun tekjustofna sveitarfélag og reglna Jöfnunarsjóðs og hefur hún unnið samantekt sem mun nýtast ráðherra vel við gerð stefnumótunar. Hafin er vinna við endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs.

Endurskoða á sveitarstjórnarlögin en þar er margt sem betur má fara m.a. um atvinnuþátttöku sveitarfélaga, samstarf þeirra á milli og starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Samgöngur á Suðurlandi eru býsna góðar og er unnið jafnt og þétt að nýframkvæmdum og mikilvægum viðhaldsverkefnum m.a. var nýlega opnuð brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi en markmiðið er að útrýma einbreiðum brúm, í árslok verða eftir 29 einbreiðar brýr á landinu.

Byggðaráætlun var samþykkt á Alþingi í júní sl. Aðgerðaráætlunin nær til fimm ára. Virkt samráð og samstarf ráðuneytisins við sveitarfélög skiptir miklu máli þegar kemur að mótun, framkvæmda og eftirfylgni byggðaráætlunar. Hann nefnir hvað Sóknaráætlun Suðurlands gengur vel og er fjármálum til málaflokksins vel varið. Mörg áhugaverð verkefni hafa verið unnin í kjördæminu nefnir hann m.a. hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi Skjálftann, Orkídeu, Sigurhæðir og Þróun ferðamennskusamfélagsins – fyrstu skref. Samvinna og samskipi sveitarfélaga í sóknaráætlunum er mikilvægur þáttur og er til fyrirmyndar um allt land.

Að lokum hvetur hann sveitarstjórnarmenn til að kynna sér Sóknaráætlun Suðurlands og nýsamþykkta byggðaáætlun. Hann leggur áherslu á að samskipti ríkis og sveitarfélaga sé mikilvægt fyrir innviðaráðuneytið.

 

Guðjón Bragson sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga

Guðjón skilaði kveðju frá Heiðu Björg Hilmarsdóttur, formanni sambandsins og Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra sambandsins. Fer hann yfir hlutfall kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem eru 470. Konur eru 237 en karlar 233. Ræðir hann um sambandið og hlutverk þess en í sveitarstjórnarlögum er sambandið skilgreint sem sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna. Það gætir hagsmuna sveitarfélaga sérstaklega gagnvart ríki og Alþingi. Hann hvetur sveitarstjórnarfólk til að kynna sér efni Sveitarfélagaskólans og þau námskeið sem þar eru í boði. Það er alltaf verið að bæta við fróðleik og eins er stefnan að setja á vinnustofur í hverjum landshluta.

Ræðir hann um stefnumótunarvinnu á landsþingi en með þeim er náð góðum grunni að góðu samfélagi. Hvernig er hægt að ná meiri árangri með samnýtingu krafta sambandsins og landshlutasamtakanna?

Það þarf að breikka aðkomu að stórum verkefnum, meiri samvinna um gerð umsagna, gera sveitarstjórnarstigið sýnilegra út á við, sameinast í vinnu að stafrænni þróun, vinna sem er í gangi hjá sambandinu en mætti nýta betur, einnig eru fundir framkvæmdastjóra sambandsins við landshlutasamtökin gríðarlega mikilvægir.

Stafræn umbreyting er í ferli það eru þrír starfsmenn í því verkefni en það þarf að verða meira samstarf við sveitarfélög, það næst gríðarleg hagkvæmni ef unnið er að þessu verkefni í sameiningu.

Stefnumörkun á sveitarstjórnarstigi var rædd á landsþingi sambandsins á Akureyri og má nefna dæmi þaðan um að verkaskipting í opinberri stjórnsýslu skal vera skýr og miðast við að sveitarfélögin annist nærþjónustu miðað við staðbundnar aðstæður og þarfir, að sambandið beiti sér fyrir auknu samstafi sveitarfélaga og ríkisins um málefni fólks af erlendum uppruna til að sinna þörfum þessa íbúa. Sambandið skal beita sér fyrir einföldun löggjafar ferla og samráðs í skipulags- og byggingarmálum. Áhersla verði lög á að samþætta og stytta ferla og gera þá stafræna og auðskiljanlega fyrir almenning.

Það er mikilvægt að sambandið og landshlutasamtölin styðji hvert annað t.d. við umsagnir um fjárlagafrumvarpið. Sambandið vinnur ekki endilega alltaf af því sama eins og sveitarfélögin þó að það sé í flestum tilfellum.

Fjármál sveitarfélaga á svæðinu, það þarf að vera markmið sveitarfélaga að ná niður skuldaviðmiðinu eins og kostur er. Það þarf að fara í aðgerðir í að auka tekjur og lækka útgjöld. Ræðir hann rekstur þjónustu við fatlað fólk, ríkið þarf að koma með fjármagn í málflokkinn, það er erfitt framundan en þetta verður að leysa. Rammasamningur um húsnæðismál er grunnur að beinum samningi milli ríkisins og einstakra sveitarfélaga með það að markmiði að auka lóðaframboð en það þarf nauðsynlega fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu. Samræður þurfa að fara fram milli HMS og sveitarfélaga til að greina þarfir sem eru mismunandi milli sveitarfélaga.

Að lokum minnir hann á að Samband íslenskra sveitarfélag er til þjónustu fyrir sveitarfélögin.

 

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls. 

Sigurjón Andrésson tekur við stjórn fundarins.

 

Hver er stefna SASS til 2026?

Kynning formanna nefnda og umræður

Allsherjarnefnd

Ásgerður Kristín Gylfadóttir nefndarmaður allsherjarnefndar, tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

Ályktanir allsherjarnefndar:

Ársþing SASS 2022 fagnar því að ráðherra umhverfismála muni leggja fé til Sóknaráætlunar Suðurlands. Það er ríkur vilji íbúa og kjörinna fulltrúa á Suðurlandi að unnið sé að umhverfismálum í samhengi við önnur málefni byggðaþróunar í landshlutanum.

Ársþing SASS 2022 skorar á ráðherra nýsköpunarmála að leggja fé til sóknaráætlana landshluta og koma að samningi milli SASS og Byggðastofnunar um atvinnu- og byggðaþróun. Að það stuðningskerfi frumkvöðla og atvinnulífs sem hefur verið byggt upp í landshlutunum sé metið að verðleikum og viðurkennt sem hluti af stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar í landinu. Þar sem hvatning, ráðgjöf og stuðningur við verkefnaþróun í heimabyggð er ein árangursríkasta leiðin til að fjölga umsóknum í opinbera sjóði og þar með að efla nýsköpun á landsbyggðinni.

Ársþing SASS 2022 skorar á ráðherra nýsköpunarmála að hraða vinnu við gerð Nýsköpunargáttar stjórnvalda. Öll þau verkefni sem miða að því að auka skilvirkni og einfalda stoðkerfi nýsköpunar á landinu öllu eru í senn mikilvæg frumkvöðlum og aðilum í stoðkerfinu.

Ársþing SASS 2022 skorar á innviðaráðherra að endurskoða reiknireglu við skiptingu fjármagns milli sóknaráætlunarsvæða og þar sé tekið mið af sjö atvinnusóknarsvæðum á Suðurlandi.

Ársþing SASS 2022 skorar á innviðaráðherra að skýra nánar hlutverk og skyldur landshlutasamtaka með lúkningu og framlagningu á frumvarpi, á grunni skýrslu starfshóps um stöðu og hlutverk landshlutasamtaka.

Ársþing SASS 2022 skorar á innviðaráðherra og Byggðastofnun að taka mið af sjö atvinnusóknarsvæðum á Suðurlandi við endurnýjun samninga um atvinnu- og byggðaþróun á Suðurlandi. Mikilvægt er að snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað með raunlækkun framlaga til þeirra samninga á undanförnum árum. Auka þarf framlagið svo efla megi byggðaþróunarstarf í landshlutanum.

Tillögur allsherjarnefndar:

Allsherjarnefnd fagnar þeirri breytingu sem varð í framhaldi af síðasta ársþingi með reglubundna upplýsingafundi SASS meðal kjörinna fulltrúa. Allsherjarnefnd hvetur stjórn til að viðhalda því fyrirkomulagi.

Allsherjarnefnd hvetur stjórn SASS til að vinna að auknum sýnileika og kynningu á starfsemi samtakanna á komandi starfsári.

Allsherjarnefnd leggur til við ársþing SASS 2022 að fyrirliggjandi starfsskýrsla stjórnar SASS verði samþykkt.

Allsherjarnefnd 2022:

Páll Magnússon, Ása Valdís Árnadóttir, Haraldur Þór Jónsson, Jón G. Valgeirsson, Eydís Þ. Indriðadóttir, Árni Eiríksson, Rafn Bergsson, Nanna Jónsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Fjóla St. Kristinsdóttir og Eyrún Fríða Árnadóttir.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka auk Ásgerðar Kristínar, Ása Valdís Árnadóttir, Arnar Freyr Ólafsson og Álfheiður Eymarsdóttir.

Ályktanir allsherjarnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykkt samhljóða að vísa þeim til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

Mennta- og menningarmálanefnd

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður mennta- og menningarmálanefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

Tillögur mennta- og menningarmálanefndar:

Þátttaka sunnlensks skóla- og sveitastjórnarfólks í mótun nýrrar menntamálastofnunnar

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27.-28. október 2022, fer fram á að kraftar og þekking sunnlensks skóla- og sveitastjórnarfólks verði nýttir í þá vinnu sem er að hefjast við mótun nýrra heildstæðra laga um skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla ásamt umgjörðar stofnunar um menntamál. Aðkoma landshlutasamtaka líkt og SASS að þessum breytingum er mikilvæg svo að hún verði sem breiðust, enda sé rekstur leik- og grunnskóla stór partur að rekstri sveitarfélaganna.

Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandir: 

Á ársþingi SASS, sem haldið á Hellu 28.-29. október 2021, er lagt til við stjórn SASS að Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi yrði skilgreint sem áhersluverkefni til næstu þriggja ára. Niðurstaðan varð að verkefnið var skilgreint sem eins árs verkefni og fékk styrk upp á 3.000.000 kr. Til stóð að halda Skjálftann haustið 2022 en þar sem enn er skortur á fjármagni er honum frestað fram í mars 2023 með það fyrir augum að fullfjármagna Skjálftann fyrir þetta skólaár og standa að verkefninu með þeirri umgjörð sem unglingarnir eiga skilið. Beinn kostnaður verkefnastjóra við verkefnið er áætlaður rúmar 11 m.kr. og þá er ekki talinn með sá kostnaður sem skólarnir bera.

Nú hafa safnast 4,5 m.kr. í styrkjum, áætluð þátttökugjöld og aðgangseyrir er 1.250.000 kr. svo eftir stendur að það vantar rúmlega 4 m.kr. til þess að verkefnið gangi upp. Kostnaður hefur vaxið mikið frá fyrstu tilraun, þar sem hún var gerð fyrir skóla í Árnessýslu en styrkur SASS er eyrnamerktur því að allir skólar á Suðurlandi fái boð um þátttöku, sem er það sem að var stefnt, en það þýðir að í stað þess að koma keppninni fyrir á einum degi þá þarf hún að vera í þrjá daga, með tilheyrandi tæknivinnu og leigu á búnaði, sem eru langstærsti kostnaðarliðirnir.

Reykjavíkurborg fullfjármagnar verkefnið fyrir sína grunnskóla. Þetta er talsvert flóknara þegar það er um svo mörg sveitarfélög að ræða, með misstóra skóla og misgott aðgengi. SASS er eini samnefnari þátttakenda þessa verkefnis og því væri farsælast að SASS gæti fullfjármagnað verkefnið og séð um verkefnastjórn, svo verkefnið standi ekki og falli með núverandi verkefnastjóra og þrautseigju hennar til að safna styrkjum. Verkefnið hefur gríðarlega mörg og mikilvæg gildi, en auk þess að gefa ný tækifæri í menntun fyrir sunnlensk ungmenni þá er vel hægt að sjá jákvæð áhrif á líðan þátttakenda og skólamenningu, bæði í svörum þátttakenda sem birtast í skýrslu sem og þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á Skrekk.

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27.-28. október 2022 leggur til að stjórn SASS finni leiðir til þess að full fjármagna verkefnið svo hægt verði að halda keppnina í mars 2023 líkt og áætlanir standa til og unnið verði að því í framhaldi að gera samning um verkefnið til næstu 5 ára.

Starfamessan á Suðurlandi:

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27.-28. október 2022, kallar eftir að verkefninu Starfamessa Suðurlands verði haldið áfram enda hafi það sannað gildi sitt sem hvatning til ungs fólks í að sækja sér iðn-, verk- og tækninám og orðið til þess að sprenging varð í umsóknum. Verkefni sem þessi auka jafnframt þann þrýsting sem þarf til þess að innviðum námsins sé sinnt sem skildi og eykur líkur á að hægt sé að uppfylla þarfir atvinnulífisins um iðn-, verk og tæknimenntað starfsfólk.

Ársþingið leggur til að verkefnið verði fjármagnað sem áhersluverkefni á vegum SASS líkt og áður hefur verið gert og að næsta Starfamessa verði haldin vorið 2024 – og í framhaldi annað hvert ár, á móti Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem haldið er í Reykjavík annað hvert ár.

Efling iðnnáms á Suðurlandi:

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022, telur brýnt að ríki og sveitarfélög hugi að áframhaldandi innviðauppbyggingu iðn-, verk- og tæknináms á Suðurlandi. Mikið hefur verið unnið í því að vekja áhuga ungs fólks á náminu og hefur sú vinna skilað því að eftirspurnin er orðin umfram framboðið, þ.e. framhaldsskólar á svæðinu anna ekki eftirspurn nemenda þar sem bæði húsnæði og kennara vantar og því hefur þurft að beina nemendum í aðra skóla og/eða greinar. Þetta er á skjön við þarfir atvinnulífsins á Suðurlandi sem samkvæmt fyrirtækjakönnun landshlutanna 2022 segir að þörf á starfsfólki með iðnmenntun hafi aukist um 11% frá árinu 2019. Mikilvægt er að ekki verði afturför í uppbyggingu þessa náms sökum veikra innviða.

Ársþing SASS skorar á ríkisstjórn Íslands að fara í frekari uppbyggingu innviða m.a. með stækkun verknámshúss Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Landsbyggðarheimavist í höfuðborgarsvæðinu:

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022 er meðvitað um að þó væntingar standi til þess að sem flest nám sé aðgengilegt í heimabyggð er staðan sú að slík uppbygging tekur tíma. Til þess að jafna stöðu sunnlenskra ungmenna sem vilja sækja sér menntun á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega það nám sem enn er ekki í boði á Suðurlandi, er nauðsynlegt að tryggja viðeigandi búsetuskilyrði fyrir ólögráða einstaklinga utan af landi, sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu.

Sama staða blasir við ungmennum annarra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins og því skorar Ársþing SASS á ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga að skoða uppbyggingu landsbyggðarheimavistar á höfuðborgarsvæðinu fyrir ungmenni á aldrinum 16 – 19 ára sem myndi nýtast nemendum úr öllum landshlutum og jafna þannig tækifæri ungmenna til náms, óháð búsetu.

Framboð og aðgengi að háskólamenntun:

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022, telur brýnt að ríki og sveitarfélög taki höndum saman við að hækka hlutfall háskólamenntaðra á svæðinu. Ítrekað hefur verið sýnt fram á að hlutfall háskólamenntaðra á Suðurlandi er talsvert undir landsmeðaltali sem gefur vísbendingar um lýðfræðilega veikleika sem mikilvægt er að bregðast við. Ársþingið leggur áherslu á að jafnframt verði jöfnuð tækifæri til náms, óháð búsetu.

Á ársþingi SASS í fyrra var stjórn falið að skipa starfshóp um hækkað menntunarstig á Suðurlandi sem skila átti tillögum fyrir ársþing 2022. Þar sem sá hópur var ekki skipaður er beiðnin ítrekuð og lagt til að starfshópurinn skili tillögum fyrir ársþing 2023. Viðfangsefni starfshópsins verði eftir sem áður að leita leiða til að styrkja vettvang náms, rannsókna og þróunar á Suðurlandi. Tilgreindar verði mikilvægar staðsetningar ólíkra starfsstöðva á Suðurlandi og leiðir til að auðga samskipti og samstarf á slíkum vettvangi.

Miðlun upplýsinga til nýbúa:

Á ársþingi SASS sem haldið var á Hellu 28. – 29. október 2021 var talið brýnt að hagnýtar upplýsingar til nýbúa á svæðinu yrðu gerðar áberandi og aðgengilegar. Ársþingið lagði til að send yrði könnun til sveitarfélaganna á Suðurlandi þar sem kannað væri með hvaða hætti sé verið að leiðbeina nýbúum og auðvelda þeim að setjast að. Að lokinni greiningu niðurstaðna var stjórn SASS falið að meta hvort ástæða væri til að útbúa leiðbeiningar til sveitarfélaganna sem hefðu það að augnamiði að samræma upplýsingagjöf.

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022, telur brýnt að þar sem verkefnið er enn óunnið verði farið af stað með það hið fyrsta enda þörfin síst minni en fyrir ári. Nokkur sveitafélög á Suðurlandi hafa sett af stað sína eigin vinnu í tengslum við fjölmenningu og erlenda íbúa og ætti því að líta til þeirra varðandi framkvæmd. Í framhaldi ætti að skoða mótun áhersluverkefnis sem felur í sér að miðla upplýsingum til nýbúa, hvetja til þátttöku í íslenskukennslu og hvernig hægt er að meta erlenda menntun að verðleikum í íslensku atvinnulífi.

Fræðsla frá Samtökunum ´78:

Í ljósi þess bakslags sem virðist vera í réttindamálum samkynhneigðra og kynsegins fólks í íslensku samfélagi, hvetur ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022, stjórn SASS til þess að gera heildarsamning við Samtökin ´78 um fræðslu fyrir öll sveitarfélögin á Suðurlandi sem feli í sér m.a. almenna fræðslu- og upplýsingafundi fyrir íbúa, auk þeirrar fræðslu sem skólar og starfsfólk sveitarfélaganna vilja nýta sér. Að sama skapi vill ársþingið beita sér fyrir því að til verði einhverskonar samtarf milli sveitarfélaga um hinsegin félagsmiðstöð sem myndi styðja við hinsegin ungmenni á Suðurlandi.

Betri miðlun menningar á Suðurlandi:

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022, leggur til við stjórn SASS að leitað verði leiða til að lyfta menningu enn betur upp og tengja hana sterkar við íbúa Suðurlands. Lagt er til að fyrsta skrefið í þeirri vinnu verði að kalla saman menningarfulltrúa og/eða tengiliði menningar allra sveitarfélaga á Suðurlandi í vinnuhóp þar sem miðlun upplýsinga og leiðir til samvinnu eru ræddar. Möguleg útkoma slíkrar vinnu gæti verið samráðsvettvangur allra sem starfa við menningu.

Mennta- og menningarmálanefnd 2022

Gísli Stefánsson, Guðlaug Einarsdóttir, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir, Vilborg Ástráðsdóttir, Eggert Valur Guðmundsson, Harpa Magnúsdóttir, Anna Gréta Ólafsdóttir, Guðni Sighvatsson, Sólmundur Magnús Sigurðarson, Alexandra Rós Jóhannesdóttir, Björn Þór Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Kjartan Björnsson, Gauti Árnason, Gísli Guðjónsson og Íris Róbertsdóttir.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka auk Jóhönnu Ýrar, Bjarni Ásbjörnsson, Sveinn Ægir Birgisson, Íris Róbertsdóttir, Daði Geir Samúelsson, Kjartan Björnsson, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Einar Freyr Elínarson.

Ályktanir mennta- og menningarmálanefndar eru bornar undir atkvæði og samþykkt samhljóða að vísa þeim til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

 

Fundarstjóri gefur orðið laust, Ásgerður Kristín Gylfadóttir tekur til máls.

 

Umhverfis- og skipulagsnefnd

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

Heimsmarkmið

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022 skorar á sveitarfélögin á Suðurlandi að þau verði öll sýnilega byrjuð að vinna að innleiðingu heimsmarkmiða fyrir næsta ársþing. Ársþing SASS felur samtökunum að framkvæma athugun á hversu mörg sveitarfélög á Suðurlandi tóku þátt í heimsmarkmiðavinnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og séu með tilbúið stöðumat. SASS veiti heildarsýn yfir stöðu sveitarfélaga í þessari vinnu jafnt og þétt yfir árið 2023.

Borgað þegar hent er (PAYT)

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022 felur SASS að athuga möguleikana á samvinnu við SOS um að þróa lausn í gjaldtöku sem hentar öllum sveitarfélögum á Suðurlandi til að uppfylla eftirfarandi lagabreytingar sem taka gildi um komandi áramót:

 • Skylt er að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi og byggðasamlagi er þó heimilt að færa innheimtu gjalda á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laga þessara og ákvæðum 7. gr., að teknu tilliti til 3. mgr. Jafnframt er sveitarfélagi heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr.
 • Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélag eða byggðasamlag skal árlega birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.
 • Þrátt fyrir ákvæði 5. ml. 2. mgr. 23. gr. er sveitarfélagi heimilt að innheimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins til 1. janúar 2025.
 • Hér er því alveg skýrt að ef sveitarfélag ætlar að fá einn reikning og deila flatt niður á alla þá má sú upphæð ekki vera meiri en 50% af heildarupphæð á árinu 2023, og svo 25% eftir það. Restin þarf að greiðast af viðkomandi aðila, þ.e.a.s. hverri fasteign fyrir sig út frá notkun á kerfinu.

Loftslagsáætlanir sveitarfélaga

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022 skorar á öll aðildarsveitarfélög SASS að hefja vinnu við gerð loftslagsáætlana. Óskastaðan væri að öll sveitarfélögin væru komin með virkar loftslagsáætlanir í lok árs 2023. Það er lykilatriði að sveitarfélögin vinni þetta samræmt og því þarf að athuga hvort SASS hafi heimild til að aðstoða sveitarfélögin í þessari vinnu. SASS veitir yfirsýn yfir hvaða sveitarfélög eru byrjuð, komin vel áleiðis eða hafa skilað inn sinni áætlun.

Svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022 leggur til að Sorpstöð Suðurlands verði nýtt betur til að vinna að sameiginlegum verkefnum.

Svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið

Núna stendur yfir vinna við gerð svæðisskipulagsins og gengur vel. Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022, brýnir fyrir sveitarstjórnarfólki að kynna sér vel vinnu við gerð svæðisskipulags Suðurhálendisins í gegnum samráð og fundagerðir. Einnig eru fulltrúar sveitarfélaganna í skipulagsnefnd hvattir til að vera virkari í að miðla upplýsingum áfram til síns sveitarfélags.

Orkuvinnsla – vindmyllur

Ársþing SASS, haldið á Höfn 27. – 28. október 2022 hvetur stjórn SASS að vera í virku samtali við stjórnvöld við vinnu við að þróa stefnu og leiðbeiningar í vindorkumálum og að SASS sé virkt í að miðla upplýsingum um fundi og samráð sem hefur átt sér stað.

Umhverfis og skipulagsnefnd 2022:

Hrönn Guðmundsdóttir, Björn Kristinn Pálmarsson, Gunnar Örn Marteinsson, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Ingvar P. Guðbjörnsson, Walter Fannar Kristjánsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Anton Kári Halldórsson, Jón Bjarnason, Páll Tómasson, Þórhildur Dröfn Ingvadóttir, Skúli Ingólfsson.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka auk Margrétar Hörpu, Guðjón Bragason, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Helgi Kjartansson.

Ályktanir umhverfis- og skipulagsnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykkt samhljóða að vísa þeim til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

Velferðarnefnd

Brynhildur Jónsdóttir formaður velferðarnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

ART verkefnið

Ársþing SASS fagnar því að ART verkefnið sé fjármagnað næstu tvö árin en að auki er mikilvægt að áfram sé unnið að því að tryggja tilveru þess til framtíðar, bæði á faglegum grundvelli sem og fjárhagslegum.

Öldrunarþjónusta og hjúkrunarrými

 • Ársþing SASS 2022 skorar á stjórnvöld, í samvinnu við sveitarfélög og þau sem sinna og nýta þjónustuna í dag, að skapa skýra framtíðarsýn í málefnum eldra fólks með því að endurhugsa þjónustuna frá grunni. Veruleg fjölgun elstu íbúa landsins næstu áratugi mun kalla á umtalsverða fjölgun hjúkrunarrýma með aukinni hjúkrunarþyngd. Rekstrarkostnaður við hjúkrunarheimili muni því vaxa umtalsvert.
 • Nauðsynlegt er að tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila án tafar samhliða endurskoðun málaflokksins í heild sinni og gera upp þann kostnað sem ríkinu ber að greiða og sveitarfélögin hafa þurft að bera fram að þessu. Efla þarf kvöld- og helgarþjónustu í heimahjúkrun en það er grunnforsenda þess að hægt sé að mæta áherslum stjórnvalda um sjálfstæða búsetu eldri borgara eins lengi og kostur er.
 • Samstarf ríkis og sveitarfélaga varðandi heilsueflingu fyrir aldraða þarf að formgerast enn frekar, þar með talið skipulag og fjármögnun fyrir slíkt starf sem þarf að vera tryggt.

HSu – heilbrigðisþjónusta

 • Ársþing SASS 2022 leggur áherslu mikilvægi góðrar yfirsýnar yfir rekstur HSu og þjónustu sem veitt er á hverjum stað. Taka þarf tillit til umfang starfseminnar og gæta jafnræðis starfstöðva.
 • Þá er mikilvægt að fjármagn til rekstrar HSu sé tryggt. Umfang starfseminnar hefur aukist ár frá ári og gríðarlega vaxandi álag á bráðamóttöku og aukin pressa á lyflæknadeild á sjúkrahúsinu á Selfossi er staðreynd. Í ört vaxandi samfélagi og með verulegri aukningu ferðamanna á svæðinu er mikilvægt að tryggja gott aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu og fjármagn til mönnunar fagfólks á heilsugæslum HSu og við utanspítalaþjónustu s.s. sjúkraflutninga o.fl.
 • Mönnun í heilbrigðisþjónustu er mikið áhyggjuefni og mikilvægt er að bregðast við þeim áskorunum sem blasa við okkur í þeim efnum. Hægt er að leita fjölbreyttra leiða til að mæta mönnunarvanda heilsugæslunnar t.a.m. með stoðkerfismóttökum, útvistun afmarkaðra þjónustuþátta, markvissri eflingu fjarheilbrigðisþjónustu eða annarra leiða sem nýta krafta fleiri stétta heilbrigðisstarfsmanna ásamt því grundvallaratriði að nægt fjármagn sé tryggt til þjónustunnar.

Sjúkraflutningar, þ.m.t. sjúkraþyrlur

Ársþing SASS 2022 hvetur heilbrigðisráðherra til þess að fjármagna hið fyrsta áður samþykkt verkefni um rekstur sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Brýnt er að slík þyrla verði staðsett á Suðurlandi og sé hluti af starfsemi HSu.

Mikil aukning ferðamanna hefur átt sér stað á undanförnum árum og samhliða hefur sjúkraflutningum fjölgað verulega. Skerðingar á bráðaþjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hafa leitt til þess að í enn fleiri tilfellum en áður þarf að flytja sjúklinga til Reykjavíkur ef alvarlega sjúkdóma eða slys ber að garði. Mikilvægt er að íbúum Suðurlands og ferðamönnum svæðisins sé tryggt öruggt og skjótt bráðaviðbragð við alvarlegum, lífsógnandi veikindum. Nauðsynlegt er að staðsetning miðstöðvar innanlandsflugs verði áfram tryggð í Vatnsmýri enda er Landspítali háskólasjúkrahús, sjúkrahús allra landsmanna.

Úrræði í húsnæðismálum

Sveitarfélög standa frammi fyrir miklum áskorunum þegar kemur að því að tryggja nægilegt framboð á íbúðarhúsnæði ásamt þeirri uppbyggingu innviða sem þarf að eiga sér stað samhliða mikilli fjölgun íbúa. Ekki nægir að byggja íbúðarhúsnæði, það þarf að byggja upp innviði eins og grunnskóla, leikskóla, vatnsöflun o.fl. Staðreyndin er sú að á síðustu misserum hafa sveitarfélög ekki fengið nein tilboð þegar auglýst hafa verið útboð sem snúa að uppbyggingu ýmissa innviða í sveitarfélögunum. Þessi staðreynd er mikið áhyggjuefni og nauðsynlegt að bregðast við þessu með viðeigandi hætti.

Þá er einnig afar mikilvægt að ríkið komi að með einhverskonar ívilnanir við uppbyggingu á innviðum hjá sveitarfélögum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Ársþing SASS 2022 skorar á stjórnvöld að leggja til ívilnanir til sveitarfélaga þar sem uppbygging íbúðarhúsnæðis er mikil, eins og með því að veita vaxtalaus lán, endurgreiðslu á vsk. o.fl.

Löggæsla og sýnileiki

Ársþing SASS 2022 telur ljóst að efla þurfi löggæslu enn frekar þrátt fyrir aukið fjármagn á síðustu árum. Ítrekuð er nauðsyn þess að stækka það svæði sem nýtur sólarhringsþjónustu þar sem ekki eru bakvaktir og þá um leið að stytta útkallstíma vegna forgangsútkalla þannig að hann verði ásættanlegur fyrir íbúa og ferðamenn á öllum tímum sólarhrings. Tryggja þarf fjármagn til styttingar vinnuviku starfsmanna sem vinna í vaktavinnu þannig að ekki myndist svo kallað „mönnunargat“. Ársþingið vekur einnig athygli á að erfitt hefur verið að ráða menntaða lögreglumenn til starfa og ljóst þykir að skoða þurfi alvarlega mannaflaþörf lögreglunnar og hvernig sé hægt að mæta henni með lögreglumenntuðu starfsfólki ekki síst í hinum dreifðari byggðum. Þá er lögð áhersla á að mikilvægt sé að styrkja frekar löggæslu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sigurhæðir – velferðarverkefni

Enginn velkist lengur í vafa um mikilvægi þjónustu Sigurhæða fyrir sunnlenskt samfélag. Með tilkomu þjónustunnar hefur orðið bylting í aðstoð við konur sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi á Suðurlandi. Þjónusta Sigurhæða er afar fagleg og gerir það að verkum að margar konur sem þangað leita upplifa mikla breytingu á líðan og virkni í kjölfar þeirrar meðferðar sem boðið er upp á. Það er afar mikilvægt að sveitarfélögin á Suðurlandi standi saman, átti sig á mikilvægi þeirrar þjónustu sem þarna er veitt og taki þátt í rekstrinum með rekstrarsamningum við Sigurhæðir út frá íbúafjölda í hverju sveitarfélagi.

Geðheilbrigði og lýðheilsa

Ársþing SASS 2022 leggur þunga áherslu á að ríkið hefji samráð um og fjármagni nýja aðgerðaráætlun heilbrigðisráðherra til að fylgja eftir nýsamþykktri stefnu geðheilbrigðismála til ársins 2030.

Ársþing SASS 2022 hvetur sunnlensk sveitarfélög til að leggja sérstaka áherslu á aðstæður og umhverfi til heilsueflingar almennings á borð við hreystivelli, hjóla- og göngustíga, opnunartíma sundstaða og þess háttar. Einnig hvetur ársþingið sveitarfélögin til að huga vel að lýðheilsu starfsmanna sinna enda eru sveitarfélögin sjálf oftast meðal stærstu vinnuveitenda í hverju byggðarlagi og færu þannig fram með góðu fordæmi.

Málefni fatlaðra

Vanfjármögnun vegna þjónustu við fatlað fólk er ein megin orsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. Ítarleg greining starfshóps félagsmálaráðherra um rekstur málaflokks fatlaðs fólks sýnir að hallinn á málaflokknum árið 2020 nam 8,9 milljörðum króna. Ætla má að hallinn nemi nú um 12 til 13 milljörðum króna. Í yfirstandandi viðræðum sveitarfélaga og ríkisins leggur sambandið þunga áherslu á að fá fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, en gríðarlegur vöxtur útgjalda er einkum til kominn vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig. Mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2022 og að sveitarfélögin fái þá strax leiðréttingu. Taka þarf strax upp viðræður við ríkið um framtíðarfyrirkomulag og fjármögnun þjónustu við fatlað fólk.

Sveitarstjórnarlög kveða á um skyldu stjórnvalda að kostnaðarmeta þau verkefni sem sveitarfélögum er falið að sinna. Þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og vegur að möguleikum sveitarfélaga til að ná sjálfbærni í rekstri. Enginn ávinningur er af því fyrir ríkið og samfélagið í heild að sveitarfélög reki verkefni með halla eða taki að sér ný verkefni sem ekki eru fjármögnuð.

Ársþing SASS hvetur sveitarfélögin til að kynna sér styrkmöguleika í gegnum Framkvæmdarsjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna úrræða sem í boði eru fyrir verkefni í þessum málaflokki.

Velferðarnefnd 2022:

Í velferðarnefnd SASS fyrir ársþing 2022 sátu Brynhildur Jónsdóttir, sem einnig var formaður nefndarinnar, Helga Jóhanna Harðardóttir, Dagný Davíðsdóttir, Elín Höskuldsdóttir, Stefanía Hákonardóttir, Árný Hrund Svavarsdóttir, Bjarney Vignisdóttir, Anna Huld Óskarsdóttir, Dagný Sigurbjörnsdóttir, Katrín Þrastardóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Karen Óskarsdóttir, Erla Sigríður Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Helga Lind Pálsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir, Ellý Tómasdóttir og Hjördís Olgeirsdóttir. Harpa Elín Haraldsdóttir var starfsmaður nefndarinnar. 

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka auk Brynhildar, Aldís Hafsteinsdóttir, Þráinn Ingólfsson, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Njáll Árnason, Arna Ír Gunnarsdóttir, Einar Freyr Elínarson, Fjóla St. Kristinsdóttir, Þórður Freyr Sigurðsson, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Ása Valdís Árnadóttir og Íris Róbertsdóttir.

Lagt er til að SASS fjármagni Sigurhæðir áfram sem áhersluverkefni Sóknaráætluna Suðurlands. Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Aðrar ályktanir velferðarnefndar bornar undir atkvæði og samþykkt samhljóða að vísa þeim til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

Atvinnumálanefnd

Arnar Freyr Ólafsson formaður atvinnumálanefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

Ályktanir atvinnumálanefndar fyrir ársþing SASS 2022

Ársþing SASS skorar á umhverfis- orku- og loftlagsráðherra að jafna raforkuverð og auka afhendingaröryggi á svæði sem eru skilgreind sem dreifbýli á Suðurlandi þrátt fyrir að vera nærri uppsprettu orkunnar.

Ársþing SASS skorar á innviðaráherra að halda áfram að efla og styrkja uppbyggingu á húsnæðismarkaði á Suðurlandi sem styður þannig við atvinnuuppbyggingu og búsetu.

Ársþing SASS skorar á matvælaráðherra að styðja við nýliðun í matvælaframleiðslu ásamt því að efla stuðning við nýsköpun og fullvinnslu í heimabyggð.

Ársþing SASS hvetur innviðaráðherra til að fjölga vinnusóknarsvæðum á Suðurlandi um eitt á Suðurlandi, úr sex í sjö þannig að styðja megi betur við atvinnu- og byggðaþróun á fjölmennasta svæðinu.

Tillögur atvinnumálanefndar fyrir stjórn SASS

Atvinnumálanefnd leggur til við stjórn SASS að skipaður verði byggðaþróunarfulltrúi á atvinnusóknarsvæði eitt í sem hæstu starfshlutfalli. Nefndin er fylgjandi því að atvinnusóknarsvæðum á Suðurlandi verði skipt upp í sjö í stað sex sem nú þegar er.

Atvinnumálanefnd leggur til við stjórn SASS að byggðaþróunarfulltrúar á Suðurlandi verði vel sýnilegir og í góðum tengslum við atvinnulífið og samfélagið.

Atvinnumálanefnd leggur til við stjórn SASS að hvetja til við uppbyggingu og sýnileika á hleðslustöðvum um Suðurland.

Atvinnumálanefnd leggur til við stjórn SASS að beita sér fyrir niðurfellingu á VSK vegna uppbyggingu á innviðum (dæmi vatnslögn til Vestmannaeyja).

Forgangsröðun atvinnumálanefndar á lykiláherslum 2022-2023

 1. Bætt heilbrigðisþjónusta
 2. Lausnir á úrgangsmálum sveitarfélaga á Suðurlandi
 3. Endurskoðun á samgönguáætlun SASS
 4. Tengja íbúa af erlendum uppruna betur við samfélagið
 5. Aukið framboð fjarnáms og menntunarstig með áherslu á ferðaþjónustu

Atvinnumálanefnd 2022:

Eyþór Harðarson, Grétar Ingi Erlendsson, Erla Sif Markúsdóttir, Ragnheiður Eggertsdóttir, Bjarni Hlynur Ásbjörnsson, Þórunn Dís Þórunnardóttir, Þröstur Sigurðsson, Jón Forni Snæbjörnsson, Tómas Birgir Magnúson, Herbert Hauksson, Geir Sveinsson, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Guðrún Stefanía Ingólfsdóttir.

 

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Ályktanir atvinnumálanefndar eru bornar undir atkvæði og samþykkt samhljóða að vísa þeim til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

Samgöngunefnd

Njáll Ragnarsson formaður samgöngunefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

Umferðaröryggi – einbreiðar brýr – yfirborð vega

Ársþing SASS 2022 áréttar niðurstöður Samgönguáætlunar SASS 2019-2029 er varðar öryggi á vegum og fagnar jafnframt þeim úrbótum sem gerðar hafa verið og tilteknar voru í áætluninni, t.a.m. á þjóðvegi 1 á milli Selfoss og Hveragerðis, tilkomu nýrrar Ölfusárbrúar og nýrrar leiðar um Hornafjarðarfljót.

Áfram þarf að vinna að styttingu þjóðvegarins á Suðurlandi og halda áfram að fækka einbreiðum brúm, hættulegum og vindasömum vegköflum og gera stórátak í að fækka hættulegum gatnamótum.

Um 80% ferðamanna sem koma til landsins fara um Gullfoss og Geysi sem hefur í för með sér gríðarlegt álag á vegum í uppsveitum. Ársþing SASS 2022 leggur þar af leiðandi áherslu á að hugað verði að viðhaldi þessa fjölfarnasta ferðamannavegar landsins um Gullna hringinn. Þá er nauðsynlegt að huga að færslu Biskupstungnabrautar suður fyrir Geysi þannig að fjölfarnasta einbreiðu brú landsins verði tekin úr umferð.

Ársþing SASS 2022 hvetur ríkisvaldið áfram til að auka enn frekar fjármagn í uppbyggingu tengivega á Suðurlandi til að tryggja öryggi íbúa, skólabarna og ferðamanna. Áfram þarf að vinna að því að leggja á tengivegi bundið slitlag, bæta vegaxlir, yfirborðsmerkingu vega og bæta afreinar við fjölfarin gatnamót.

Þá leggur ársþing SASS 2022 áherslu á að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar verði efld enn frekar þannig að hún sé skilgreind með hliðsjón af þörfum hverju sinni en ekki fyrirfram tilgreindum mokstursdögum.

Tryggja þarf fjármagn til færslu þjóðvegar við Jökulsárlón vegna landrofs en suðurströndin er nú aðeins rúmar tvær vegbreiddir frá þjóðveginum þar sem rofið er mest.

Huga þarf að öryggi hjólreiðamanna með þjóðvegi 1. Víða eru vegir mjóir og vegaxlir ekki þannig að hjólreiðamenn geti nýtt þær til hjólreiða. Hjólreiðaleiðir sem væru að hluta utan við þjóðveg 1 myndu auka öryggi hjólreiðamanna, auka fjölbreytni ásamt því að skapa tækifæri fyrir ferðaþjónustu í sveitarfélögum sem liggja við þjóðveginn. 

Hestamennska og ferðaþjónusta tengd íslenska hestinum er stunduð víða nærri vegum, bæði þjóðveg 1 og fjölförnum tengivegum. Tryggja þarf fjármagn í uppbyggingu góðra og öruggra reiðvega.

Grynnslin og hafnir á Suðurlandi 

Ársþing SASS 2022 leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi áframhaldandi fjármagn til uppbyggingar og eflingar hafna á suðurlandi. Þannig er mikilvægt að tryggja fjármagn til framkvæmda og dýpkunar á Hornafirði, í Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. 

Ársþing SASS 2022 skorar á stjórnvöld að ljúka úttekt á Landeyjahöfn og hefja í framhaldinu framkvæmdir þannig að höfnin geti sinnt sínu hlutverki allan ársins hring.

Flug

Ársfundur SASS 2022 fagnar Loftbrú stjórnvalda og telur hana styrkja innanlandsflug í sessi sem hluta af almenningssamgöngum til dreifðra byggða landsins.

Mikilvægt er að tryggja opinberan stuðning við flugsamgöngur til Hornafjarðar og Vestmannaeyja sem tryggir aðgengi íbúa á svæðunum að heilbrigðis- og sérfræðiþjónustu í höfuðborginni.

Ársfundur SASS 2022 telur óásættanlegt að ekki sé reglulegt áætlunarflug til Vestmannaeyja og aðeins ein samgönguleið fær á milli lands og Eyja.

Þá er mikilvægt að styrkja í sessi flugvelli á landsbyggðinni og skoða sérstaklega möguleikann á móttöku smærri flugvéla erlendis frá.

Almenningssamgöngur og loftslagsmál

Ársþing SASS 2022 ítrekar fyrri áskoranir þess efnis að ríkið að standa vörð um almenningssamgöngur í landinu sem bæta búsetuskilyrði í dreifðum byggðum. Brýnt er að ráðast í þarfagreiningu á þjónustu almenningssamgangna til að mæta betur þörfum notenda.

Þá hvetur ársþing SASS 2022 stjórnvöld og einkaaðila til að gera stórátak í fjölgun rafhleðslustöðva á Suðurlandi. Landshlutinn á að vera leiðandi í minnkun kolefnislosunar á hringveginum og hvetja þannig til vistvænni samgöngumáta.

Fjarskipti

Ástæða er til að fagna uppbyggingu ljósleiðara um land allt og leggur áherslu á að áfram verði haldið þannig að allt dreif- og þéttbýli verði ljósleiðaratengt.

Ársþing SASS 2022 telur óásættanlegt að ekki sé til staðar farsímasamband á mörgum stöðum á Suðurlandi og inni á hálendinu. Mikilvægt er að gera átak í því að styrkja farsímasamband sem er lykilatriði til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna m.a. þegar náttúruvá ber að höndum.

Áfram er mikilvægt að hraða uppbyggingu 5G senda að sama marki. 

Nýframkvæmdir 

Ársþing SASS 2022 ítrekar fyrri ályktanir og leggur áherslu á að farið verði strax í stórar nýframkvæmdir við fjölförnustu vegi landsins. Slíkar nýframkvæmdir er hægt að fjármagna með hóflegum veggjöldum í samstarfi ríkis og einkaaðila.

Ársþing SASS 2022 skorar á stjórnvöld að ljúka fullnaðarrannsóknum á jarðlögum milli lands og Vestmannaeyja og fullkanna þannig möguleikann á göngum.

Ársþing SASS hvetur til þess að sjóðir sem styrkja uppbyggingu ferðamannavega verði efldir þannig að raunverulegt fjármagn fáist til framkvæmda.

Samgöngunefnd 2022: 

Njáll Ragnarsson, Gunnar Örn Marteinsson, Svavar Leópold Torfason, Hulda Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Lilja Einarsdóttir, Daði Geir Samúelsson, Ísleifur Jónasson, Jóhannes Gissurarson, Arnar Freyr Ólafsson, Sveinn Ægir Birgisson og Sigurjón Andrésson.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka auk Njáls, Grétar Ingi Erlendsson, Álfheiður Eymarsdóttir og Einar Freyr Elínarson.

Einar Freyr Elínarson leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun:

Ársþing SASS skorar á stjórnvöld að bregðast við landrofi við Vík í Mýrdal með gerð nýrra sandfangara sem verja munu húseignir, Kötlugarð og þjóðveg 1.

Grétar Ingi Erlendsson leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun: Ársþing SASS leggst eindregið gegn skattlagningu á notkun nagladekkja. Samgöngur, þá sérstaklega að vetri til, geta verið þungar sökum veðurs. Ríkið valdi að byggja stoðkerfi sitt upp í Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna, fyrir fjármuni sem koma úr sameiginlegum sjóðum allra Íslendinga. Ársþing SASS bendir á að íbúar á Suðurlandi þurfa að keyra yfir fjallvegi, sem geta verið illfærir, til að sækja þangað nauðsynlega þjónustu og atvinnu. Skattlagning á notkun nagladekkja er til þess fallin að ógna öryggi vegfarenda sem er óásættanlegt.

Ályktanir samgöngunefndar, Einars Freys og Grétars Inga eru bornar undir atkvæði og samþykktað vísa þeim til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

Fjárhagsnefnd

Einar Freyr Elínarson formaður fjárhagsnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2022.

 

Umfjöllunarefni

 • Ársreikningur SASS 2021
 • Fjárhagsáætlun SASS 2023
 • Tillaga að launum stjórnar og nefnda/ráða
 • Tekjustofnar sveitarfélaga s.s. gistináttagjald
 • Framlög ríkisins til Sóknaráætlunar og byggðaþróunar og atvinnuráðgjafar
 • Málefni fatlaðs fólks
 • Fulltrúar í fjárhagsnefnd

 

Ársreikningur SASS 2021

Staðfestur án athugasemda 

 

Fjárhagsáætlun 2023

Fjárhagsnefnd leggur til við ársþing að samningi um þátttöku SASS í rekstri Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands í Hveragerði verði sagt upp og að framlög aðildarsveitarfélaga verði lækkuð sem því nemur.

Framkvæmdastjóri kynnti uppfærða áætlun fyrir tekjur úr Jöfnunarsjóði sem nemur hækkun um 5 m.kr. m.v. fyrri áætlun. Fjárhagsnefnd mælist til þess að framlög sveitarfélaga til SASS haldist óbreytt m.v. fyrri tillögu sem miðar að 7% hækkun. Viðbótarframlag frá Jöfnunarsjóði verði nýtt til eflingar atvinnuþróunar m.a. með hliðsjón af tillögu um skiptingu Suðurlands í sjö vinnusóknarsvæði.

Gert er ráð fyrir um 7% hækkun á tekjum og um 3% á gjöldum en launalið er breytt skv. áætluðum breytingum á kjarasamningum.

Gjald til SASS á íbúa verði kr. 2.240.- en það var kr. 2.100.- árið 2022.

Samningi við Upplýsingamiðstöð Suðurlands verði sagt upp.

Endursamið verði við samstarfsaðila.

Áætlað 1,2 m.kr. tap af rekstri ART verkefnisins verði mætt með lækkun eigin fjár.

 

Tillaga að launum stjórnar og nefnda/ráða

Þóknun sækir grunn í þingfarakaupi árið 2021 og fylgir svo launavísitölu.

 1. Laun stjórnar skulu nema kr. 53.298.- fyrir hvern fund. Föst mánaðarlaun formanns skulu nema kr. 133.246.- en auk þess fær formaður kr. 59.960.- fyrir hvern stjórnarfund. Fyrir aðra fundi í ráðum og nefndum skulu þau nema kr. 39.974.- fyrir hvern fund.
 2. Laun fulltrúa í ráðum og nefndum skulu nema kr. 39.974.- fyrir hvern fund. Laun formanns ráðs eða nefndar skulu nema kr. 53.298.- fyrir hvern fund. Fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum skulu fá greitt fyrir akstur til og frá fundarstað skv. akstursdagbók í samræmi við reglur RSK um aksturskostnað.

Framangreind þóknun skal taka breytingum samkvæmt breytingu á launavísitölu frá nóvember 2022 til janúar 2023.

 

Fjárhagsnefnd leggur til óbreytt fyrirkomulag sem miðar að því að stjórnarlaun taki breytingum í samræmi við launavísitölu 1. janúar ár hvert.

 

Tekjustofnar sveitarfélaga

Ársþing SASS tekur undir tillögur fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í tekjustofnanefnd og krefst þess að vinnan verði tekin upp að nýju. Sveitarfélögin una því ekki að ríkið og fulltrúar fjármálaráðuneytisins skili auðu þegar fjárhagslegri sjálfbærni sveitarfélagana er ógnað eins og nú er.

 

Gistináttaskattur

Tekin var til umræðu samantekt frá Markaðsstofu Suðurlands um dreifingu ferðamanna og fjölda gistinátta eftir sveitarfélögum. Nefndin varð sammála um að frekari umræðu yrði frestað en að samantekt markaðsstofunnar verði lögð fram til kynningar.

 

Málefni fatlaðs fólks

Ársþing SASS skorar á ríkisstjórnina að bregðast tafarlaust við vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks við afgreiðslu fjárlagafrumvarps næsta árs. Ljóst er að yfirfærsla málaflokksins frá ríkis til sveitarfélaga gerði ekki ráð fyrir auknum kostnaði sem hlytist af því að bæta þjónustuna í samræmi við auknar kröfur frá hendi ríkisins. Meira þarf til að koma heldur en sú hækkun útsvars sem innviðaráðherra boðaði á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna 2022.

 

Framlög ríkisins til Sóknaráætlunar og byggðaþróunar og atvinnuráðgjafar

Með breyttri skiptareglu Sóknaráætlana, sem tók gildi 2020, lækkaði árlegt framlag SASS um tæplega 16 m.kr. frá 2019. Eðli málsins samkvæmt hefur lækkað framlag áhrif á hversu mikið Sóknaráætlun Suðurlands getur stutt við samfélagið í landshlutanum. Gerð var athugasemd við breytta skiptareglu þegar hún tók gildi en ekki var tekið tillit til ábendinga samtakanna. Ársþing SASS áréttar mikilvægi Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir sunnlenskt samfélag.

Landshlutasamtökin eru með samning við Byggðastofnun um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf. Fjárframlögin hafa rýrnað um 50% að teknu tilliti til breyting á launavísitölu á árabilinu 2009 til 2022. Eigi atvinnuráðgjöf að standa undir nafni er mikilvægt er að hækka framlagið strax.

Sveitarfélögin á Suðurlandi mælast til þess að Byggðastofnun taki mið af því að Suðurland sé skipt í sjö atvinnusóknarsvæði. Eðlilegt væri að starfandi verði byggðaþróunarfulltrúi fyrir hvert svæði og mikilvægt er að framlag Byggðastofnunar til atvinnuráðgjafar taki mið af því.

 

Fulltrúar í fjárhagsnefnd 2022: 

Einar Freyr Elínarson formaður, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Smári Bergmann Kolbeinsson, Haraldur Þór Jónsson, Ásta Stefánsdóttir, Bjarki Oddsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Bragi Bjarnason og Björgvin Óskar Sigurjónsson. Bjarni Guðmundsson var starfsmaður nefndarinnar.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka auk Einars, Njörður Sigurðsson, Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Íris Róbertsdóttir.

Fjárhagsáætlun SASS 2023

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka Álfheiður Eymarsdóttir, Bjarni Guðmundsson, Arna Ír Gunnarsdóttir, Njáll Ragnarsson.

Fjárhagsáætlun SASS 2023 er borin undir atkvæði með þeim breytingum sem áður hafa komið fram og samþykkt samhljóða.

Ársreikningur SASS 2021

Ársreikningur SASS 2021 var afgreiddur af nefndinni án athugasemda.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Tillaga um laun stjórnar, ráða og nefnda

Tillaga um laun stjórnar, ráða og nefnda borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Ályktanir fjárhagsnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða og vísað til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu og forgangsröðunar.

 

 

Umræður og ályktanir

 

Samtal sveitarstjórnarfólks og þingmanna

Þingmenn Suðurkjördæmis þau: Guðrún Hafsteinsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson taka þátt í pallborðsumræðum.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður tekur til máls. Hún skilar góðum kveðjum frá þingmönnum Suðurkjördæmis sem ekki gátu ekki verið með á fundinum. Hún þakkar sveitarstjórnarmönnum fyrir móttökur sem þingmenn fengu í nýliðinni kjördæmaviku. Hélt hún fundargerð þessa viku og var margt sem brann á sveitarstjórnarmönnum s.s. heilbrigðisþjónusta, málefni fatlaðs fólks, samgöngur, almannavarnir, nýbúar, löggæsla, heimavistarmál og betri orkunýting.

 

Fundarstjóri gefur orðið laust. Til máls tekur Njáll Ragnarsson og spyr: Hvar eru tækifæri í þeim efnum sem SASS hefur ályktað um?

 

Jóhann Friðrik tekur til máls og ræðir um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Guðbrandur Einarsson tekur til máls og ræðir um hvað hópurinn í kjördæminu er samheldinn, málaflokkur fatlaðra það þarf að horfa í tekjuskiptinguna. Ásthildur Lóa Þórsdóttir tekur til máls og ræðir um hvað hlutverk sveitarstjórna er mikið, hún hugsar um málefni skólanna. Guðrún Hafsteinsdóttir finnst mikil samheldni meðal sveitarstjórnarfólks í umdæminu en það þarf að vinna sameiginlega ríki og sveitarfélög, innviðir og menntamál. Nýta styrkleika sem eru í hverju sveitarfélagi sama hversu stór þau eru. Bjartsýni, framsýni og samvinna er það sem skiptir máli.

 

Fundarlok aðalfundar SASS kl. 17:00.

 

Sigurjón, fundarstjóri setur ársþing SASS kl. 11:55 föstudaginn 28. október.

 

Fundarstjóri óskar eftir heimild til handa fundarritara og fundarstjórum að ganga frá fundargerðinni og senda hana til sveitarfélaganna.

 

Nú er komið að fundarlokum ársþings SASS og gefur fundarstjóri Ásgerði Kristínu Gylfadóttur formanni orðið. Þakkar hún sveitarstjórnarmönnum fyrir góðan, málefnalegan og gagnlegan fund. Einnig þakkar hún fundarstjórum, starfsmönnum SASS og öðrum fyrir góðan undirbúning fyrir fundinn og Sveitarfélaginu Hornafirði fyrir viðurgjörning allan.

 

Fundi slitið kl.: 12:00.                                                            

Rósa Sif Jónsdóttir fundarritari.

Fundargerð aðalfundar SASS 2022 (.pdf)