fbpx

536. fundur stjórnar SASS
haldinn í Rauða húsinu á Eyrarbakka
18. september 2018, kl. 09:00 – 18:00

Mætt: Eva Björk Harðardóttir, formaður, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Björk Grétarsdóttir, Helgi Kjartansson, Friðrik Sigurbjörnsson, Grétar Erlendsson, Arna Ír Gunnarsdóttir og Ari Thorarensen. Einnig sat fundinn Haraldur Hjaltason rágjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu Artemis og Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna á vinnufund stjórnar.

1. Fundargerð
Fundargerð 535. fundar undirrituð.

2. Vinnufundur stjórnar
Haraldur Hjaltason, ráðgjafi hjá Artemis, leiddi umræður. Framkvæmdastjóri fór yfir starf samtakanna og helstu verkefni. Í framhaldi var farið yfir hlutverk samtakanna og horft til framtíðar. Fjallað var um tækifæri og ógnanir í ytra umhverfinu og í innra umhverfi hvað væri vel gert og hvað mætti betur fara. Í framhaldi var farið yfir helstu verkefni og þeim forgangsraðað. Niðurstöður fundarins verða ræddar á næsta stjórnarfundi og verða í framhaldi sendar til þingfulltrúa á komandi ársþingi SASS en verða þær ræddar nánar.

3. Drög að dagskrá ársþings og aðalfundar SASS
a. Dagskrá ársþings og aðalfundar
Formaður og framkvæmdastjóri kynntu uppfærð drög að dagskrá komandi ársþings og aðalfundar SASS sem fram fer í Hveragerði 18. – 19. október nk. Lagt er til að Eyþór H. Ólafsson og Þórunn Pétursdóttir verði fundarstjórar á þinginu og að Rósa Sif Jónsdóttir verði fundarritari og var það samþykkt. Endanleg dagskrá verður staðfest á næsta fundi stjórnar.

b. Starfsskýrsla SASS 2017 – 2018
Er í vinnslu hjá starfsmönnum samtakanna.

c. Tillaga að launum stjórnar, ráða og nefnda
Drög að tillögu um laun stjórnar, ráða og nefnda á vegum SASS lá fyrir fundinum. Framkvæmdastjóra falið að kalla eftir upplýsingum um launakjör stjórna, ráða og nefnda hjá öðrum landshlutasamtökum.

d. Drög að fjárhagsáætlun SASS 2019
Framkvæmdastjóri kynnti drög að fjárhagsáætlun 2019 og fór yfir forsendur sem liggja til grundvallar henni. Samþykkt að senda framkomin drög á stjórn og vísa umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs til annarrar umræðu á næsta fundi stjórnar.

4. Menntaverðlaun Suðurlands 2018
Stjórn SASS samþykkir að skipa Sigurð Sigursveinsson og Ásgerði Kristínu Gylfadóttur í samstarfshóp um úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands 2018. Til vara er Arna Ír Gunnarsdóttir. Ráðgjafi á vegum SASS verður hópnum til aðstoðar.

5. Önnur mál til kynningar og umræðu
a. Almenningssamgöngur
Friðrik vék af fundi undir þessum lið vegna tengsla við aðila málsins.
Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir stöðu málsins en frá síðasta fundi hefur verið rætt við hópferðaleyfishafa og fulltrúa frá SAF og á þeim fundi var opnað á möguleika á samvinnu til hagsbóta fyrir sunnlenskt samfélag.
Málið er enn í efnislegri meðferð hjá Samgöngustofu en hópferðaleyfishafar hafa svarað erindi stofnunarinnar og samtökin hafa einnig svarað stofnuninni.

b. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. – 28. september nk. á Akureyri
Í framhaldi af síðast fundi stjórnar var tölvupóstur sendur á aðildarsveitarfélögin og óskað eftir upplýsingum frá þeim um hvaða hagsmunamál þau vildu að sambandið legði megináherslu á næstu misserin. Nokkur aðildarsveitarfélög hafa þegar skilað inn hugmyndum og þær tengjast oftast eftirtöldum málaflokkum:
• Samgöngumál og umferðaröryggi
• Skipulagsvald sveitarfélag verði ekki skert
• Löggæsla og sjúkraflutningar fái aukið fjármagn
• Fjölga tekjustofnum sveitarfélaga
• Þjónusta við aldraða – uppbygging hjúkrunar- og dvalarrýma
• Almenningssamgöngur – tryggja rekstrarumhverfi
• Afhendingaröryggi raforku og hækkandi rekstrarkostnaður dreifikerfisins

c. Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi
Fyrir liggur skýrsla starfshóps velferðarráðuneytisins, dagsett á ágúst sl., um mögulega aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. Stjórn SASS tekur undir sjónarmið tveggja af sjö fulltrúum í starfshópnum um að leggja til við heilbrigðisráðherra að sérstakri sjúkraþyrlu verði komið á fót, með stuttum útkallstíma (<10 mínútur) og sérhæfðum mannskap (lækni og hjúkrunarfræðingi/bráðatækni). Áætlaður kostnaður er á bilinu 500 til 880 milljónir kr. á ári eftir því hvaða þyrla yrði valin til verkefnisins og hvort einn eða tveir flugmenn yrðu í áhöfn. Stjórn SASS leggur jafnframt til að þyrlan verði staðsett á Suðurlandi.
Stjórn SASS áréttar nauðsyn þess að sem fyrst verði farið í tilraunverkefni þar sem þyrlur verði notaðar í sjúkraflug.

d. Sóknaráætlun Suðurlands 2015-2019
Framkvæmdastjóri kynnti niðurstöður af fundi verkefnastjórnar Sóknaráætlunar. Á fundinum var samþykkt að kalla eftir tillögum að fulltrúum í samráðsvettvang Sóknaráætlunar Suðurlands frá öllum sveitarfélögunum á Suðurlandi. Verkefnastjórn velur síðan saman samráðvettvang úr þeim hópi einstaklinga þannig að hann endurspegli jafna skiptingu fulltrúa eftir aldri, kyni og búsetu um landshlutann.
Þá var einnig samþykkt að fela framkvæmdarstjóra SASS og sviðsstjóra þróunarsviðs að kanna möguleikann á því að fresta fundi samráðsvettvangs á þessu ári og að nýr samráðsvettvangur komi saman í byrjun næsta árs. Á þeim fundi verði mörkuð stefna fyrir Sóknaráætlun Suðurlands til næstu 5 ára en gert er ráð fyrir að samningur um Sóknaráætlun verði endurnýjaður og taki hann gildi frá og með ársbyrjun 2020.

Næsti fundur stjórnar verður 3. október nk.

Fundi slitið kl. 17:40.

Eva Björk Harðardóttir
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Björk Grétarsdóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Ari Thorarensen
Helgi Kjartansson
Friðrik Sigurbjörnsson
Grétar Erlendsson

536. fundur stjórnar SASS