fbpx

 

424. fundur stjórnar SASS

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi

föstudaginn 12. júní   2009  kl. 12.00

Mætt: Sveinn Pálsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Katrín Erlingdóttir, Elliði Vignisson,  Ingvar Pétur Guðbjörnsson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.    Reynir Arnarson og Guðmundur Þór Guðjónsson boðuðu forföll.

 

Dagskrá

 

 1. 1. Fundargerð velferðarmálanefndar frá 9. júní.

Á fundinum var kynnt núverandi þjónusta Svæðisskrifstofu  málefna fatlaðra á Suðurlandi.

Stjórnin samþykkir að taka væntanlegan tilflutning málefna fatlaðra til sérstakrar umræðu og kynningar á aðalfundi SASS í haust.

Fundargerðin staðfest.

 1. 2. Bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags.29. apríl 2009, varðandi breytingu á framlagi til menningarsamnings.

Samkvæmt bréfinu lækkar framlag ríkisins árið 2009  úr 36 milljónum króna eins og kveðið er á um í menningarsamningi fyrir Suðurland í 35 milljónir króna.

 1. 3. Ályktun aðalfundar Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi frá 7. maí sl.

Til kynningar.

 

 1. 4. Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 20. og 28 maí 2009, þar sem óskað er eftir því að ársþing SASS verði haldið 16. og 17. október í stað 15. og 16. október.

Samþykkt að standa við upphaflega tímasetningu ársþingsins.

 

 1. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. maí 2009,  varðandi  ályktun stjórnar Sambandsins um  samninga sveitarfélaga við Vegagerðina um viðhald vega.

Stjórn SASS tekur undir ályktun stjórnar Sambandsins um að sveitarfélög gangi ekki frá samningum  við Vegagerðina um ábyrgð þeirra á viðhaldi vega fyrr en örugg og fullnægjandi fármögnun liggur fyrir.

 1. 6. Bréf frá Skólastjórafélagi Suðurlands, dags. 22. maí 2009, þar sem kynnt er fundarályktun félagsins vegna hugmynda um sparnað í rekstri grunnskólanna.

Til kynningar.

 1. 7. Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 29. maí 2009, til Þingvallanefndar o.fl. aðila, þar sem kynnt er aðgerðaáætlun  um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns.

Til kynningar.

 1. 8. Afrit af bréfi Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða til Umhverfisráðuneytisins, dags. 29. maí 2009, varðandi framsal eftirlitsverkefna frá Umhverfisstofnun til heilbrigðiseftirlitssvæða.

Stjórn SASS tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í bréfinu að óeðlilegt sé að færa verkefni frá sveitarfélögum  til ríkis sem unnt er að sinna á faglegum nótum og á hagkvæmari máta frá starfsstöðvum   sem þegar eru fyrir hendi á landsbyggðinni.

 

 1. 9. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um eftirfarani þingmál:
  1. Frumvarp til laga um erfðabreyttar lífverur 2. mál, upplýsingar til almennings, EES-reglur.

Stjórn SASS tekur ekki afstöðu til málsins.

 1. Frumvarp til laga um eiturefni og hættuleg efni 3. mál, flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, EES-reglur.

Stjórn SASS tekur ekki afstöðu til málsins.

 1. Frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs, 4. mál, flutningur úrgangs á milli landa, EES-reglur.

Stjórn SASS tekur ekki afstöðu til málsins.

 1. Tillögur til þingsályktunar er varða aðild að Evrópusambandinu, 38. mál, aðildarumsókn að Evrópusambandinu og 54. mál,. undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðilda Evrópusambandinu.

Stjórn SASS tekur ekki afstöðu til tillagnanna en hvetur til vandaðrar umfjöllunar og víðtæks samráðs um  málið.

 1. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun  2009 – 2013, 52. mál.

Stjórn SASS vekur athygli á því að sveitarstjórnir á Suðurlandi og stjórn SASS gerðu miklar athugasemdir við samljóða tillögu sem lögð var fram á síðastliðnu þingi og vísar til þeirra og ítrekar fyrri afstöðu.

 

 

 1. 10. Atvinnumál á Suðurlandi.

Elliði Vignisson lagði fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga varar sterklega við svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi og telur hana skaðlega fyrir atvinnulíf sjávarbyggða.

Sveitarfélög á starfssvæði SASS byggja m.a. grundvöll sinn á sjávarútvegi og felst styrkur útgerðarinnar í fjölbreytileika veiða og vinnslu. Bein störf í sjávarútvegi á starfssvæði SASS eru ríflega 1600 og eru sjávarútvegsfyrirtæki kjölfesta sjávarbyggða.  Öllum má því vera ljóst að ef hriktir í stoðum sjávarútvegarins, þá hefur það róttæk áhrif á alla samfélagsgerð þar.  Kjölfesta atvinnulífs er skilyrði fyrir því að  þróun, nýsköpun og nýjar atvinnugreinar fái þrifist.

SASS vísar til umfjöllunar um  nýja úttekt Deloitte sem bendir á að verði fyrningaleiðin farin munu sjávarútvegsfyrirtæki verða gjaldþrota á fáum árum.  Enn fremur kemur þar fram að slíkt yrði til þess að miklar skuldir myndu við það lenda á ríkisbönkunum og óvíst yrði með framtíð þeirra.

Nú þegar hafa tugir sjávarbyggða varað mjög eindregið við boðaðri fyrningaleið ríkisstjórnar. Þessi sömu byggðarlög hafa einnig bent á að stefna ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum séu nú þegar farin að valda skaða í sjávarbyggðum enda halda fyrirtækin að sér höndum í því óvissuástandi sem ríkir.  Boðuð stefna eykur atvinnuleysi og skaðar íbúa í sunnlenskum sveitarfélögum eins og víðar.  Því hvetur stjórn SASS ríkisstjórn til að gefa sem fyrst út yfirlýsingu þess efnis að horfið verði frá boðaðri fyrningarleið.  Einungis þannig er hægt að afstýra frekari skaða.

Stjórn SASS hvetur ríkisstjórn Íslands til að vinna með hagsmunaaðilum og sveitarfélögum í landinu að því að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið þannig að sanngirni sé gætt. Sanngirnin er ekki fólgin í því að setja fyrirtæki og sveitarfélög í rekstrarvanda. Fiskveiðistjórnunarkerfið er mannanna verk og stjórn SASS telur mikilvægt að það sé sífellt til endurskoðunar en þó þannig að stöðugleika sé gætt, bæði fyrir fyrirtækin, starfsmennina og ekki síst íbúa sveitarfélaga sem eiga allt sitt undir.

Vilji stjórnar SASS er sá hinn sami og kemur fram í ályktunum þeirra tuga sjávarbyggða sem ályktað hafa gegn fyrningarleið ríkisstjórnar.  Viljinn er að skapa vinnufrið um sjávarútveg þannig að horfa megi til lengri tíma. Hin sameiginlega sannfæring er að sjávarútvegurinn gegni lykilhlutverki í endurreisn hagkerfisins.“

Tillagan samþykkt.

 

 1. 11. Erindi til kynningar.
  1. Kynningar- og upplýsingabréf frá Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi.
  2. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  3. Efni frá landshlutasamtökunum.

 

Næsti fundur verður haldinn  14. ágúst kl. 14.00.

 

Fundi slitið kl. 14.20

 

Sveinn Pálsson

Sigurður Ingi Jóhannsson

Ingvar Pétur Guðbjörnsson

Margrét K. Erlingsdóttir

Elliði Vignisson

Þorvarður Hjaltason