Umsóknarfrestur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands framlengdur

Umsóknarfrestur fyrir haustúthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands hefur verið framlengdur fram á þriðjudaginn 28. október kl. 12:00. Áður auglýstur umsóknarfrestur var miðvikudaginn 22. október kl. 12:00.

Hvaða verkefni eru styrkhæf?

Uppbyggingarsjóður Suðurlands hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar á Suðurlandi.

 Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar eru það atvinnuskapandi og/eða framleiðniaukandi verkefni sem eiga kost á stuðningi ásamt nýsköpunarverkefnum sem efla fjölbreytileika atvinnulífs. Markmið menningarflokks sjóðsins er að verkefnin efli menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi.

Vönduð umsókn er lykilatriði

Umsækjendum er bent á að kynna sér vel úthlutunarreglur sjóðsins, áherslur, markmið og mat á umsóknum sem eru aðgengilegar hérSjóðurinn er samkeppnissjóður og eru vel mótuð verkefni, skýrar og góðar umsóknir líklegri til að hljóta styrki. 

Umsóknir fyrir verkefni í sjóðinn geta uppfyllt eina eða fleiri áherslur sjóðsins en skilyrði er að öll verkefni uppfylli að lágmarki markmið sjóðsins í þeim flokki sem það tilheyrir, menningu eða atvinnu- og nýsköpun.

Aðstoð og ráðgjöf fyrir umsækjendur

Byggðaþróunarfulltrúar SASS eru staðsettir víða á Suðurlandi og aðstoða við mótun verkefna og veita ráðgjöf. Sunnlendingar eru hvattir til að nýta sér þá ráðgjöf og þjónustu sem í boði er, bæði vegna umsókna í Uppbyggingarsjóð sem önnur verkefni á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar. Á ráðgjafasíðu SASS má jafnframt nálgast gagnlegar upplýsingar og leiðbeiningar um gerð umsókna.

Rafræn skil og önnur mikilvæg atriði

Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum umsóknarvef sjóðsins. Umsækjandi þarf að skrá sig inn á umsóknarformið með rafrænum skilríkjum og þarf að hafa lögheimili á Suðurlandi.

Athugið að ekki er hægt að breyta kennitölu og nafni umsækjanda eftir að umsókn hefur verið stofnuð. 

Hægt er að kynna sér sjóðinn nánar á heimasíðunni www.sass.is/uppbyggingarsjodur

Umsóknir skulu berast fyrir kl. 12.00 þann 28. október 2025.

Umsóknarvefur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands