fbpx

Á ársþingi SASS, sem var haldið 20. og 21. nóvember sl.,  voru samþykktar fjölmargar ályktanir.  Lokaályktun þingsins var samin í ljósi þess efnahagsfárviðris sem hefur riðið yfir þjóðina á undanförnum vikum.
,,Aðalfundur SASS, haldinn á Hvolsvelli 20. Og 21. Nóvember 2008,  ítrekar mikilvægi þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita en hún myndar grunninn að því velferðarkerfi sem þjóðin treystir nú á. Suðurland er ríkt af náttúruauðlindum og hefur alla möguleika til öflugs vaxtar til framtíðar eins og hinar fjölmörgu tillögur sem hér hafa komið fram bera vitni um. Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi munu leggja sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og öflugt mannlíf á svæðinu. Íbúar bæði núverandi og tilvonandi geta treyst því að sveitarstjórnarmenn munu áfram standa vörð um atvinnulíf, velferð og umhverfi. Saman getum við lyft grettistaki og það munum við gera – þörfin hefur aldrei verið brýnni en nú!“

Sjá aðrar ályktanir þingsins

Ályktanir ársþings Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 20. og 21. nóvember 2008

 

 

Stöndum vörð um Suðurland og sunnlenskt samfélag

Aðalfundur SASS, haldinn á Hvolsvelli 20. Og 21. Nóvember 2008,  ítrekar mikilvægi þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita en hún myndar grunninn að því velferðarkerfi sem þjóðin treystir nú á. Suðurland er ríkt af náttúruauðlindum og hefur alla möguleika til öflugs vaxtar til framtíðar eins og hinar fjölmörgu tillögur sem hér hafa komið fram bera vitni um. Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi munu leggja sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og öflugt mannlíf á svæðinu. Íbúar bæði núverandi og tilvonandi geta treyst því að sveitarstjórnarmenn munu áfram standa vörð um atvinnulíf, velferð og umhverfi. Saman getum við lyft grettistaki og það munum við gera – þörfin hefur aldrei verið brýnni en nú!

 

Samskipti ríkis og sveitarfélaga.

 

Aðalfundur SASS, sem haldinn er á Hvolsvelli þann 20. og 21. nóvember 2008, leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög annast hina opinberu þjónustu við íbúa þessa lands. Afar mikilvægt er að öll samskipti þessara aðila séu á jafnréttisgrunni og fullt tillit sé tekið til hvors annars, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Algerlega er óásættanlegt að ríkisvaldið líti á sveitarfélög landsins sem óþægilegan þrýstihóp þegar umræða um tekjustofna sveitarfélaga og önnur samskipti milli aðila eiga sér stað.

 

 

Atvinnumál

 

Inngangur:

Sunnlenskt atvinnulíf einkennist af fjölbreytni og styrk. Sérstaklega á þetta við í landbúnaði sem hvergi er fjölbreyttari eða öflugri á landinu. Sjávarútvegur er óvíða sterkari. Sama gildir um ferðaþjónustu, iðnað af margvíslegu tagi, verslun og þjónustu, jafnt almennri sem opinberri þjónustu.

 

Þessi megineinkenni verða enn skýrari núna, með þátttöku sveitarfélagsins Hornafjarðar í samstarfi sveitarfélaga á Suðurlandi.

 

1)      Ársþing SASS 2008 hvetur til þess að fjölbreytileiki sunnlensks atvinnulífs verði virkjaður enn frekar. Sóknarfærin felast í samvinnu öflugra sunnlenskra fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklinga. Virkja þarf frumkvæði, efla rannsóknir, þróun og nýjungar í sunnlensku atvinnulífi. Sækja þarf fram með samstarfi við sérfræðinga og ráðgjafa. Tryggja þarf aðgengi að fjármagni, frá opinberum aðilum jafnt sem einkaaðilum. Sækja þarf fram með því að kanna nýja markaði og undirbúa sunnlenskt atvinnulíf til að grípa þau tækifæri eða verjast þeim ógnunum, sem framundan kunna að bíða. Sérstaklega þarf að huga að eflingu menntunar og þekkingar til að styrkja þessa sunnlensku sókn. Það er þeim mun mikilvægari núna, þegar við blasa efnahagslegar þrengingar innanlands jafnt sem utanlands.

 

2)      Ársþing SASS 2008 telur í ljósi alvarlegs efnahagsástands, enn meira áríðandi en nokkru sinni áður að standa vörð um sunnlenskt samfélag, sunnlenskt atvinnulíf og sunnlenskar auðlindir. Til að verja þessa mikilvægu, en viðkvæmu hagsmuni, lýsir ársþing SASS 2008 því yfir að ekki verði fallist á að sunnlensk orka verði nýtt til stóriðjuuppbyggingar utan landsfjórðungsins. Auðlindanýting og orkuframleiðsla á Suðurlandi krefst fórna, sem ekki er ásættanleg, nema með áþreifanlegum ávinningi fyrir sunnlenskt samfélag. Sunnlensk auðlindanýting á að leysa úr læðingi sunnlenskt frumkvæði og verða segull nýrra hugmynda og fjármagns til að hlúa að, efla og byggja upp sunnlenskt atvinnulíf.

 

 

 

Mennta- og menningarmál

Menntun fyrir alla alls staðar

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, leggur ríka áherslu á uppbyggingu menntunar á öllum skólastigum og góðrar aðstöðu til fjarkennslu í öllum fjórðungnum. Gott aðgengi að menntun er ein mikilvægasta forsenda byggðar í landinu og stuðlar að nýsköpun í atvinnulífi. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að efla aðgengi fólks að endur- og símenntun.

 

ART verkefnið á Suðurlandi

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, skorar á ríkisvaldið að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til ART verkefnisins á Suðurlandi, sbr. þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem samþykkt var á Alþingi 13. júní 2007.

 

ART verkefnið í Gaulverjaskóla hefur staðið frá árinu 2006. Í haust var tekin ný stefna. Starfseminni í Gaulverjaskóla var hætt en frá og með þessu hausti starfa nú 3 sérfræðingar í 2,5 stöðugildum við meðferð og ráðgjöf úti í skólunum sjálfum. Mikill áhugi er á að þetta starf haldi áfram en til þess þarf fjárstuðning frá ríkinu, þar sem um meðferðarúrræði er að ræða en ekki eiginlegt skólastarf. Ekki er vafi á að ART verkefnið skiptir miklu máli fyrir fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur auk þess að styrkja skólastarf á Suðurlandi í heild. ART verkefnið er meðferðarúrræði og þar með á ábyrgð ríkisins. Áhersla er lögð á að verkefnið haldi áfram að þróast og nauðsynlegt að halda því áfram með öllum tiltækum ráðum. (sjá meðfylgjandi greinargerð).

Háskólafélag Suðurlands og önnur þekkingarsetur á Suðurlandi

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, skorar á menntamálaráðuneytið að tryggja að framlög til Háskólafélags Suðurlands verði samsvarandi og til annarra þekkingarsetra á lands­byggðinni. Einnig að tryggt verði að þeim háskóla- og þekkingarsetrum sem þegar eru starfandi í fjórðungnum verði tryggt áframhaldandi fjármagn.

 

Háskólafélag Suðurlands, sem að mestu er í eigu sveitarfélaga á Suðurlandi, mun hefja starfsemi á næstunni eftir langan undirbúning. Sveitarfélögin settu umtalsverða fjármuni til félagsins þar sem ekki var vilji fyrir hendi af hálfu ríkisvaldsins til að koma á háskóla- og þekkingarsetri á Suðurlandi. Lágmarkskrafa er þó að ríkisvaldið komi að rekstri þeirrar starfsemi eins og annarra háskólasetra sem nú þegar hefur verið komið á fót á lands­byggðinni. Mjög mikilvægt er að greiða fyrir aðgangi fólks að framhalds- og háskóla­námi á Suðurlandi og ekki síst nú þegar kreppir að í atvinnumálum.Þá ríður á að treysta grunnstoðir þjóð­félagsins til framtíðar. Menntun skiptir þar hvað mestu máli.

Minjavörður Suðurlands

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, skorar á menntamálaráðherra að koma á fót stöðu minjavarðar Suðurlands eins og lög heimila og bendir á að Suðurland er eini landshlutinn þar sem minjavörður hefur ekki aðsetur þrátt fyrir að yfir helmingur skráðra fornminja landsins sé á Suðurlandi.

 

Ekki hefur enn verið komið á stöðu minjavarðar á Suðurlandi þrátt fyrir margítrekaðar óskir Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og annarra aðila. Ársþing SASS styður framkomna tillögu um að minjavörður Suðurlands fái aðsetur í Skógum í Rangárþingi eystra, sem er einnig í samræmi við stefnumótun í Vaxtarsamningi Suðurlands. Minnt er á að þessi tillaga er í samræmi við stefnu og ítrekaðar óskir Fornleifaverndar ríkisins.

Áskorun til menntamálaráðherra vegna svæðisútvarps fyrir Suðurland

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, skorar á menntamálaráðherra að hlutast til um það við RÚV að svæðisútvarp fyrir Suðurland verði sett á laggirnar á nýjan leik.

Svæðisútvarp fyrir Suðurland var lagt niður 2007. Slík starfsemi er áfram rekin á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Það felur í sér illskiljanlega mismunun milli landshluta.

Þróun náms í hestamennsku í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, hvetur menntamálaráðuneytið til að tryggja framhald áhugaverðrar tilraunar Fjölbrautaskóla Suðurlands með nám í hestamennsku í framhaldsskólum. Til þess þarf fjárveitingu á fjáraukalögum að upphæð 4 millj. kr., en nám í hestamennsku er nokkru dýrara en annað verknám. Óskað er eftir því að menntamálaráðuneytið styrki skólann í þeirri tilraun að þróa námið áfram í þriggja ára nám og ráðherra skipi nefnd til að vinna að málinu, skipaða fulltrúum frá Landssambandi hestamannafélaga, ráðuneyti og Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Viðbygging við Hamar, verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, skorar á ríkisvaldið að tryggja fé til framkvæmda við viðbyggingu Hamars, verknámshúss F.Su. árið 2009 þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir haustið 2009 og byggingin yrði tekin í notkun haustið 2010. Að öðrum kosti verði nægt fé tryggt til framkvæmda 2010 og byggingin yrði tekin í notkun haustið 2010. Að öðrum kosti verði nægt fé tryggt til framkvæmda 2010 og 2011 þannig að byggingin yrði í síðasta lagin tilbúin haustið 2011 þegar Fjölbrautaskóli Suðurlands verður 30 ára.

 

„Þátttaka er lífsstíll“. Málþing fyrir unglinga á Suðurlandi

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008,, beinir því til stjórnar SASS að óska eftir samstarfi við HSK og æskulýðsfulltrúa sveitarfélaga um að halda á nýjan leik málþing með yfirskriftinni „Þátttaka er lífsstíll“, fyrir unglinga á starfssvæði SASS. Markmiðið með málþinginu væri að gefa þeim tækifæri til að hittast, bera saman bækur sínar og tjá sig um þau málefni sem heitast á þeim brenna. Teknar verði saman niðurstöður og þær senda sveitarstjórnum, félagasamtökum, þingmönnum og öðrum sem hafa með málefni unglinga að gera, eða láta sig þau varða.

„Æskan á óvissutímum“. Málþing fyrir umsjónarmenn æskulýðs- og íþróttastarfs

Ársþing SASS, haldið á Hvolsvelli 20.-21. nóvember 2008, beinir því til stjórnar SASS að óska eftir samstarfi um að halda málþing fyrir starfsmenn sveitarfélaga og félagasamtaka sem eru í beinu sambandi við börn og unglinga í hvers kyns æskulýðsstarfi á starfssvæði SASS. Markmiðið með málþinginu væri að fræða þetta lykilfólk um rétt viðbrögð og sérstaka umönnun æskunnar á þessum erfiðu tímum.

Framhaldsskóli í Rangárvallasýslu

Ársþing SASS 2008 á Hvolsvelli styður hugmyndir Rangæinga um starfsemi framhaldsskóla á Hellu fyrir Rangárvallasýslu og skorar á menntamálaráðherra að veita þessum hugmyndum brautargengi.

 

 

Samgöngumál

 

Inngangur

Þrátt fyrir efnahagsáföll sem dunið hafa yfir þjóðfélagið er mikilvægt að staðið verði við áformaða uppbyggingu samgangna á Suðurlandi. Nauðsynlegt er fyrir framtíðaruppbyggingu samfélagsins að innviðir þess verði styrktir og þar eru samgöngur ein af grunnstoðunum. Greiðar samgöngur eru ekki síst mikilvægar í ljósi atvinnuuppbyggingar t.d. ferðaþjónustu.

 

 1. Suðurlandsvegur

Ársþing SASS 2008 leggur áherslu á að staðið verði við samgönguáætlun um tvöföldun Suðurlandsvegar, þar sem reiknað er með útboði á verkinu í ársbyrjun 2009. Jafnframt telur nefndin skynsamlegast að verkið verði unnið í einum áfanga og verkinu verði lokið árið 2011.

 

 1. Hornafjarðarfljót

Ársþing SASS 2008 leggur áherslu á að staðið verði við áform um vegalagningu og brúargerð yfir Hornafjarðarfljót.

 

 1. Samgöngur milli Vestmannaeyja og Bakka

Ársþing SASS 2008 leggur áherslu á að hið fyrsta verði boðin út smíði á nýrri ferju sem siglir milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Einnig er bent á mikilvægi þess að ferjan og þjónusta hennar styrki og stækki atvinnusvæði á Suðurlandi. Ársþing SASS leggur áherslu á að staðið verði við áætluð verklok í júlí 2010.  Ársþing SASS 2008 lýsir einnig áhyggjum sínum á því að flugsamgöngur milli Vestamannaeyja og Bakka hafa verið lagðar niður. Síðustu ár hafa um 30 þúsund farþegar nýtt þessar sunnlensku samgöngur. Skorað er á samgönguráðherra að beita sér fyrir flugi milli Bakka og Vestmannaeyja.

 

 1. Suðurstrandarvegur

Ársþing SASS 2008 fagnar því að búið er að bjóða út fyrsta áfanga Suðurstrandarvegar og leggur áherslu á að annar áfangi verði boðinn út hið fyrsta. Lögð er áhersla á að staðið verði við áætluð verklok árið 2010.

 

 1. Brú yfir Hvítá

Ársþing SASS 2008 hvetur til þess að sem fyrst verði ráðist í framkvæmdir við nýja brú yfir Hvítá við Bræðratungu. Framkvæmd þessi verður til þess að uppsveitir Árnessýslu verða eitt öflugt atvinnusvæði.

 

 1. Jarðgöng gegnum Reynisfjall

Ársþing SASS 2008 vekur athygli á því að vegurinn fyrir Reynisfjall er einn erfiðasti faratálmi á þjóðvegi 1 allt austur á land. Nauðsynlegt er að koma framkvæmdinni inn í samgönguáætlun.

 

 1. Lónsheiðargöng

Ársþing SASS 2008 telur mikilvægt að haldið verði áfram undirbúningi framkvæmda við veggöng undir Lónsheiði og þær hafnar svo fljótt sem kostur er.

 

 1. Uppbygging tengi- og safnvega

Ársþing SASS 2008 telur ástand tengi- og safnvega víðast hvar algjörlega óviðunandi. Mikilvægt er að haldið verði áfram uppbyggingu tengivega á Suðurlandi og fjármagn til þeirra verði stóraukið og ennfremur að einbreiðar brýr verði með öllu aflagðar. Lagt er til að vegir verði ekki teknir úr umsjón Vegagerðarinnar nema að höfðu samráði við sveitarfélög og stjórnvöld.

 

 1. Þjóðgarðsvegir

Ársþing SASS 2008 leggur áherslu á að samhliða uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs verði tryggt fjármagn til uppbyggingar vegakerfis innan þjóðgarðsins.

 

 1. Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar

Ársþing SASS 2008 skorar á samgönguyfirvöld og þingmenn kjördæmisins að stórefla vetrarþjónustu vegakerfis á Suðurlandi.

 

 1. Fjarskipti

Ársþing SASS 2008 vekur athygli á því að í nútíma samfélagi eru öflug fjarskipti nauðsynleg forsenda lífvænlegrar byggðar og í raun jafn mikilvæg og greiðar hefðbundnar samgöngur. Mikilvægt er að gætt verði jafnræðis milli markaðssvæða og þeirra svæða sem Fjarskiptasjóður hefur unnið að útboði á varðandi gæði þjónustunnar.

 

 1. Flugsamgöngur

Ársþing SASS 2008 skorar á flugmálayfirvöld að veita Hornafjarðar- og Vestmannaeyjaflugvöllum löggildingu sem millilandaflugvellir með áherslu á ferju- og einkaflug.

 

 1. Hafnamál

Ársþing SASS 2008 skorar á alþingi að ákvæði núgildandi hafnalaga er varða framlög ríkisins til hafnaframkvæmda verði tekin til endurskoðunar hið allra fyrsta.

 

Velferðarmál

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 skorar á stjórnvöld að ljúka nýbyggingu Heilbrigðisstofnunar eins og til stóð, útboðsgögn eru tilbúin og er beðið eftir að fjármálaráðuneyti gefi leyfi fyrir útboðinu. Sveitarstjórnarmenn og þingmenn Suðurkjördæmis eru hvattir til að fylgja málinu eftir þannig að verkið tefjist ekki frekar.

 

Heilbrigðisþjónusta á Suðurlandi

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 vill vekja athygli á að sá niðurskurður sem stjórnvöld krefjast af heilbrigðisstofnunum kemur til með að leiða af sér tilflutning á þjónustu og fjármagni til höfuðborgarsvæðisins. Í því felst enginn sparnaður heldur aukin útgjöld og fyrirhöfn fyrir Sunnlendinga. Eru því þingmenn Suðurkjördæmis hvattir til að standa vörð um heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

 

ART verkefnið á Suðurlandi

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 skorar á stjórnvöld að þeir tryggi áframhaldandi fjárveitingu til ART verkefnisins. Einnig eru sveitarstjórnarmenn og þingmenn Suðurkjördæmis hvattir til að fylgja málinu eftir. ART verkefnið skiptir miklu máli fyrir fjölmörg börn og fjölskyldur þeirra og væri það mikill skaði ef verkefnið legðist af. ART verkefnið hefur ótvírætt sannað forvarnargildi sitt og er skilvirkt meðferðarúrræði. Mun sú reynsla og þekking sem safnast hefur á undanförnum þremur árum glatast ef ekki verður haldið áfram með verkefnið.

 

Flutningur málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 leggur áherslu á að málefni einstakra hópa þjóðfélagsins verði ekki færð ein og sér frá heilsugæslustöðvunum, slíkt samræmist ekki áherslum um heildræna þjónustu og aðgreiningu hópa samfélagsins. Með því að aðskilja þjónustu heimilislækna og hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun eru hagsmunir og heilsa einstaklingsins ekki hafðir að leiðarljósi. Til að koma á meiri samþættingu og heildrænni þjónustu er bent á samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og heilsugæslunnar í Kópavogi.

Heildræn einstaklingsmiðuð þjónusta

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 leggur til að skipulögð þverfagleg teymi séu í hverju sveitarfélagi sem samanstendur af fulltrúa frá félagsþjónustu, heimahjúkrun og svæðisskrifstofu þegar það á við ásamt öðrum þeim sem að þjónustu koma í heimahúsi.

 

Mikilvægt er að tekið sé mið af þörfum hvers og eins. Veita þarf þjónustu samhliða frá þeim aðilum sem að skjólstæðingnum koma. Þá er sérstaklega verið að tala um kvöld- og helgarþjónustu. Á þeim svæðum sem Heilsugæslan veitir kvöld- og helgarþjónustu þarf að sama skapi að vera aðgengileg félagsþjónusta á þeim tíma. Einnig er mikilvægt að bæði heilsugæslur og sveitarfélög séu tilbúin að veita þjónustu til íbúa svæða á öðrum tímum en dagtímum þegar þörf þykir og fagaðilar hafa metið svo. Gæta þarf að jafnræði íbúa innan svæða og leitast skal við að jafnræði sé á milli svæða.

 

Kortlagning þjónustuþarfar aldraðra – Heilsueflandi heimsóknir.

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 leggur til að sveitarfélög í samvinnu við heilsugæslustöðvar komi á heilsueflandi heimsóknum til aldraðra íbúa. Markmiðið ætti að vera að öllum íbúum 80 ára og eldri verði boðin heimsókn. Í samfélagi þar sem öldruðum fjölgar er mikilvægt að stofnanir sem koma að þjónustu við þennan hóp geri sér grein fyrir umfangi væntanlegrar þjónustuþarfar. Skulu heimsóknirnar hafa forvarnargildi, meta heilbrigði einstaklingsins ásamt því að vera kynning á þeirri þjónustu sem til boða stendur.

 

Verkferlar um tilhögun slíkra heimsókna verða sendir sveitarfélögum og heilsugæslustöðvum sem mögulegt er að nýta sér við skipulagningu slíks verkefnis.

 

Þjónusta við heilabilaða.

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 telur afar mikilvægt að dagdvöl sem er sérsniðin að þörfum heilabilaðra sé í boði á vegum sveitarfélaga. Sveitarfélög sem reka dagdvalarrými eru hvött til að sækja um rými sérsniðin fyrir heilabilaða til ráðuneytis. Með tilkomu nýrrar hjúkrunardeildar á HSu fyrir heilabilaða er þjónustu við þennan hóp að einhverju leyti mætt, auk þess sem þar verður boðið upp á hvíldarinnlagnir.

 

Þjónusta við aldraða og langveika

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 vill beina þeim tilmælum til þeirra sveitarfélaga sem reka stofnanir þar sem boðið er upp á hvíldarinnlagnir að virk endurhæfing fari þar fram. Með því er verið að efla einstaklinginn og lengja þann tíma sem hann getur búið heima. Einnig er afar mikilvægt að endurhæfing og dægradvöl standi íbúum dvalar- og hjúkrunarheimila til boða. Einnig er afar brýnt að komið verði á þverfaglegum öldrunarteymum við heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi.

 

Málefni geðfatlaðra

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 telur mikilvægt að geðteymi verði að veruleika sem getur verið til ráðgjafar og stuðnings fyrir svæðið. Einhverskonar dagdvalarstaði vantar þar sem boðið er upp á mat og dægradvöl auk samveru. Dæmi um slíkt er Strókur í Árborg.

 

Tillögur til leik- og grunnskóla um nemendaverndarráð

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 leggur til að meðfylgjandi verklagsreglur verði teknar upp í leik- og grunnskólum á Suðurlandi þar sem viðlíka verklagsreglur eru ekki í gildi. Lagt er til að sveitarfélög vinni þessu máli brautargengi innan sinna skóla. Áhersla er lögð á að unnið verði þverfaglega, þar sem þeir fagaðilar sem að börnunum koma vinni saman. Með þessu telur hópurinn að heildræn einstaklingsmiðuð þjónusta náist. Við vinnu við verklagsreglur var stuðst við reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum 388/1996 og frumvarp til laga um grunnskóla og leikskóla. Vísað er til meðfylgjandi tillagna um verklagsreglur um nemendaverndarráð.

 

Áfallaráð

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 vill hvetja Sveitarstjórnir og Heilbrigðisstofnanir til að kynna sér áfallaráð við skólastofnanir, má benda á bækling áfallaráðs Austurbæjarskóla, ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Væri hugsanlegt að fela nemendaverndarráðum hlutverk áfallaráða.

Tilkynningaskylda starfsfólks sem vinnur með börnum til barnaverndarnefnda

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 vill minna á skyldu þeirra sem vinna með börnum að tilkynna ef grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi eða sæti vanrækslu. Grunur þarf ekki að vera rökstuddur heldur er það í höndum barnaverndarnefnda að rannsaka slíkar tilkynningar. Bent er á að skólahjúkrunarfræðingar starfa undir stjórn heilsugæslustöðva og ber skylda til að tilkynna til barnaverndarnefnda ef grunur er um að barn sæti ofbeldi eða vanrækslu. Einnig er minnt á heimasíðu barnaverndarstofu www.bvs.is þar sem verkferlar um tilkynningaskyldu eru.

 

Geðheilbrigði barna

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 lýsir yfir ánægju sinni með að bætt hafi verið við hálfu stöðugildi sálfræðings við HSu sem sinnir börnum og starfa nú þrír sálfræðingar í einu og hálfu stöðugildi við stofnunina. Lagt er til við sveitarfélög og félagsráðgjafa þeirra að skoðuð verði ýmis módel sem verið er að nota annarsstaðar á landinu s.s. Janusprógrammið í Reykjavík og Fjölsmiðjan fyrir ungt fólk svo eitthvað sé nefnt. Bent er á að áhugavert verkefni fyrir sveitarfélögin væri að koma á fjölsmiðjum hér á Suðurlandi báðu megin Þjórsár. Væri hægt að byggja hugmyndina á Fjölsmiðjunni í Kópavogi. Einnig er talið að stuðningshópur fyrir mæður með ung börn sé mikilvægt verkefni fyrir sveitarfélög með fulltingi og fræðslu frá heilbrigðisstofnunum.

 

Innflytjendur

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 telur skynsamlegt að sveitarfélögin komi á fót aukinni þjónustu við innflytjendur ýmist ein sér eða í samvinnu við aðra ef vilji er til slíks. Lagt er til að sveitarfélög sem hafa áhuga á slíkri samvinnu myndi sameiginlegan starfshóp til að vinna að framgangi málsins.

Heilsustefna Íslendinga

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 vill benda sveitarfélögum og Heilbrigðisstofnunum á að kynna sér Heilsustefnu Íslendinga (National public health policy) og aðgerðaráætlun hennar.

 

Þjónustusamningur Sveitarfélagsins Hornafjarðar og ríkis um heilbrigðis og öldrunarmál

Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 hvetur heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið til þess að ganga til samninga við sveitarfélagið Hornafjörður um endurnýjun á þjónustusamningum um heilbrigðis- og öldrunarmál í sveitarfélaginu. Samningar hafa verið lausir frá 1. janúar 2007. Sveitarfélagið hefur annast reksturinn frá 1996 og mikilvægt er að eyða óviss

 

Umhverfis- og skipulagsmál

Andstaða gegn landskipulagi

Aðalfundur SASS, haldinn á Hvolsvelli 20. til 21. nóvember 2008, mótmælir þeim hugmyndum um landsskipulag sem fram komu fyrr á árinu í framvarpi til skipulagslaga. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir því að umhverfisráðherra láti vinna landsskipulag sem verði æðsta skipulagsstigið og komi jafnframt í stað núgildandi svæðisskipulags miðhálendis Íslands. Hlutverk sveitarfélaga yrði síðan að aðlaga sín aðal- og svæðisskipulög að landsskipulaginu. Með þessu væri verið að taka skipulagsvaldið og forræði í skipulagsmálum af sveitarfélögunum og er það óásættanlegt. Fram hefur komið að frumvarpið er í endurskoðun í umhverfisráðuneytinu og skorar aðalfundurinn á alþingismenn og ráðuneytið að tryggja að í endurskoðuðu frumvarpi verði skipulagsvald sveitarfélagana ekki skert.

 

Meðhöndlun úrgangs

Aðalfundur SASS haldinn á Hvolsvelli 20. til 21. nóvember 2008 hvetur sveitarfélög á Suðurlandi til þess að gripa nú þegar til aðgerða, ef þau hafa ekki þegar gert það, til þess að uppfylla ákvæði reglugerðar 737/2003 um meðhöndlun úrgangs sem hefur það að markmiði að auka flokkun og endurnýtingu og lágmarka urðun. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að nú í janúar 2009 ber landsmönnum að hafa minnkað urðun á lífrænum úrgangi niður í 75 % þess magns sem urðað var árið 1995 auk annarra ákvæða sem fram koma í reglugerðinni og landsáætlun um meðhöndlun úrgangs.

 

Eldsneyti úr lífrænum úrgangi

Aðalfundur SASS , haldinn á Hvolsvelli 20 -21. nóvember 2008, hvetur stjórnvöld til þess að kanna möguleika á framleiðslu eldsneytis úr lífrænum úrgangi, en fram kom á aðalfundi SASS að hugsanlega séu möguleikar Suðurlands til framleiðslu á slíku eldsneyti miklir. Komi í ljós að slík eldsneytisframleiðsla sé arðbær mun slík framleiðsla efla landshlutann auk þess að vera þjóðhagslega hagkvæm. Einnig eru stjórnvöld hvött til að koma að þróun og að auka nýtingu innlenda orkugjafa þar sem því er við komið.

 

Neysluvatn

Aðalfundur SASS , haldinn á Hvolsvelli 20 -21. nóvember 2008 skorar á sveitarfélög Suðurlands að huga vel að neysluvatnsmálum sínum og þar sem það á við að sameinast um neysluvatnsframkvæmdir þar sem aðgengi að góðu vatni er mjög misskipt milli svæða. Jafnframt skorar aðalfundurinn á ríkisvaldið að koma að kaldavatnsframkvæmdum á landsbyggðinni í ljósi þess að stöðugt eru gerðar auknar kröfur til sveitarfélaga um miðlun á neysluvatni í hinum dreifðu byggðum. Erfitt verður að koma til móts við auknar kröfur nema með aðkomu ríkisvaldsins.

 

Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga

Aðalfundur SASS , haldinn á Hvolsvelli 20 -21. nóvember 2008 skorar á ríkið að styrkja áfram fráveituframkvæmdir sveitarfélaga. Ljóst er að sveitarfélög munu eiga mjög erfitt að uppfylla þær lagaskyldur sem á þau eru lagðar nema með áframhaldandi stuðningi. Sveitarfélög á landsbyggðinni búa mörg hver við mjög viðkvæma viðtaka og verða því að fara í mjög kostnaðarsamar aðgerðir til þess að koma sínum fráveitumálum í lag. Hafa verður þessa erfiðu stöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni í huga í allri umræðu um auknar kröfur gagnvart sveitarfélögum um úrlausnir í fráveitumálum í dreifbýli s.s. innan skipulagðra frístundahúsasvæða. Í vinnslu er frumvarp til laga um fráveitur. Ef frumvarpið verður að lögum mun það setja auknar skyldur á herðar sveitarfélaga og verður í því sambandi að meta hugsanlegan kostnaðarauka í rekstri sveitarfélaga.