fbpx

SASS veitir ráðgjöf og eftirfylgni með Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun Suðurlands og stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári, í mars og október. Sjóðnum er skipt í tvo flokka; Menning og Atvinnuþróun og nýsköpun. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).

Við mat á umsóknum skipar stjórn SASS í tvö fagráð, eitt fyrir menningu og annað fyrir atvinnuþróun og nýsköpun. Fagráðin fara yfir umsóknir og skila tillögum til stjórnar SASS, sem þá staðfestir úthlutun. Þegar úthlutun hefur verið kunngjörð er um að ræða endanlega niðurstöðu. Ekki er hægt að fara fram á endurmat á einstökum umsóknum. Sjá nánar upplýsingar í úthlutunarreglum.

KYNNINGARMYNDBAND VORIÐ 2021

LEIÐBEININGAR UM UMSÓKNARFORMIÐ

Þegar sækja á um styrk í Uppbyggingarsjóð SASS þarf að fylla út umsókn í gegnum rafrænt umsóknarkerfi sjóðsins. Aðeins er hægt að sjá rafræna umsóknarformið þegar opið er fyrir umsóknir í sjóðinn. Hér má finna vinnuskjal á word þar sem allar spurningar koma fram.

Innskráning

Til að sækja um í Uppbyggingarsjóð þarf að skrá sig inná vef Sóknaráætlunar Suðurlands með Íslykli eða rafrænum skilríkjum umsækjenda. Mikilvægt er að nota réttan íslykil eða rafræn skilríki. Ef upphæð styrks á að renna inn á bankareikning fyrirtækis þarf að nota íslykil eða rafræn skilríki þess fyrirtækis, sama á við um félagasamtök, einstaklinga og stofnanir.
Ef umsóknaraðili er ekki með rafræn skilríki má má sækja um íslykil á heimasíðunni island.is. Íslykill er sendur í heimabanka og tekur yfirleitt um 5-10 mínútur að berast.

Athugið að ekki er hægt að breyta kennitölu og nafni umsækjanda á seinni stigum ferlisins. Ef það kemur í ljós í miðjum umsóknarskrifum að verið er að sækja um styrk á ranga kennitölu þá þarf að skrá sig inn með réttum íslykli og stofna nýja umsókn. Þá er hægt að „líma og klippa“ það sem þegar hefur verið gert í fyrri umsókn. Hægt er að henda út eldri umsókn eða sleppa því að senda hana inn. Ef hún hefur þegar verið send inn má hafa samband við ráðgjafa sem getur látið henda henni út úr kerfinu.

Frekari upplýsingar um Íslykil má finna hér 

Nánari upplýsingar um umsækjanda:

Hér þarf að gefa upp persónuupplýsingar s.s. heimilisfang umsækjanda, netfang, bankanúmer til að leggja styrk inná, hljóti verkefnið styrk o.fl.

Aðrir opinberir styrkir umsækjanda:

Hér skal skrá alla opinbera styrki sem umsækjandi hefur fengið síðastliðin þrjú ár, hvort sem styrkurinn er í formi fjárframlags eða annars konar stuðnings sem tengist því verkefni sem sótt er um.

Hér þarf að gera grein fyrir heiti verkefnis og gefa nánari upplýsingar um verkefnið.

Markmið

Markmið verkefnis er sá árangur sem verkefnið á að ná, ný vara eða þjónusta, viðburður eða áhrif sem verkefnið mun hafa á Suðurlandi.

Hvert viltu vera komin í lokin, hverju viltu ná fram með verkefninu? Markmið eru gjarnan tímasett eða mælanleg.  Markmiðin geta verið eitt eða fleiri.

Ágætt er að huga að “SMART” reglunni þegar hugsað er um hvert markmið verkefnisins er:

S SKÝRT Markmiðið þarf að vera mikilvægt, læsilegt og skljanlegt
M MÆLANLEGT Markmiðið þarf að hafa mælikvarða, hvenær, hversu mikið?
A AÐLAÐANDI Er markmiðið áhugavert, er vilji til að ná því
R RAUNHÆFT Næst að klára markmiðið, er til staðar þekking, geta og nægur tími?
T TÍMASETT Hvenær skal markmið hafa náðst?

Dæmi um markmið:

  • Markmiðið með verkefninu er að hanna, þróa og koma nýrri vöru á markað fyrir lok maí á næsta ári.
  • Markmiðið er að auka starfsgildi um 1
  • Markmiðið er opna sýningu 1. júní nk.
  • Markmiðið er að fá 100 gesti á sýninguna.

Stutt lýsing á verkefni

Stutta lýsingu er gott að skrifa eftir að greinagóð lýsing hefur verið skrifuð. Í stuttu lýsingunni er verið að biðja um stutta og hnitmiðaða lýsingu á verkefni í nokkrum setningum sem lýsir verkefninu vel – einskonar „lyfturæða“.

Hvað er lyfturæða?
Lyfturæða er stutt lýsing á verkefni, vöru eða fyrirtæki sem útskýrir hugmyndina á þann hátt að sá er hlustar getur skilið hana á stuttum tíma.

Greinargóð lýsing á verkefninu

Hér skal verkefni lýst eins ýtarlega og þörf er á. Gott er að huga að því að endurtaka ekki og leggja áherslu á að koma aðalatriðum á framfæri.

Núverandi starfsemi og/eða staða verkefnis (hugmyndar)

Hér skal setja fram nokkur orð um núverandi starfsemi eða stöðu verkefnisins.  Það getur verið allt frá því að vera á hugmyndastig yfir í að vera starfandi fyrirtæki sem vinni að vöruþróun þessa verkefnis.

Hér skal skrá verkefnisstjóra. Ef umsækjandi er persóna getur hann einnig verið verkefnastjóri. Ef umsækjandi er fyrirtæki, félag eða stofnun þarf að skilgreina ákveðna persónu sem verkefnastjóra.

Skráið nánari upplýsingar ásamt stuttri lýsingu og framlag hlutverk og ábyrgð verkefni

Ef um samstarfsaðila er að ræða, vinsamlegast skráið þá hér ásamt lýsingu á hlutverki þeirra og framlagi í verkefninu. Uppbyggingarsjóður Suðurlands áskilur sér rétt á að óska eftir staðfestingu frá samstarfsaðila.

Smellið á „bæta við samstarfsaðila“ til að bæta við nýjum aðila.

Upphaf verkefnis og áætluð verklok

Skráið inn upphaf verkefnis og áætlaða dagsetningu á lokum verkefnis.

Verkáætlun

Til þess að útbúa verkáætlun er fyrsta skref að fara yfir þá verkþætti sem þarf að klára til að komast að því markmiði sem sett hefur verið. Hvaða skref þarf að taka til að ná því markmiði? Skrifaðu þau niður og útfrá því verðu til verkáætlun. Þá þarf að tímasetja hvern verkþátt, hvenær hann hefst og hvenær honum verður lokið. Hér er um áætlun að ræða og því getur verkáætlun breyst með tímanum. En mikilvægt er að muna hvert markmiðið með verkefninu er og reyna að komast nær því á sem bestan hátt.

Kostnaður

Skiptið verkefninu upp í kostnaðarliði. Sundurliðið kostnaðarliði verkefnisins, s.s. laun, aðkeypt þjónusta, útlagður kostnaður osfr. Hvað kostar hver verkþáttur? Hvað þarf að greiða fyrir til að geta klárað verkefnið?

Athugið breyttar úthlutunarreglur sjóðsins þar sem ekki er lengur krafist mótframlags styrkþega. Allar tölur skal færa inn án vsk.

Áætlun um fjármögnun

Hvernig á að fjármagna verkefnið? Er til eigið fé sem verður nýtt í verkefnið. Má vinna ákveðna verkliði með eigin vinnuafli? Fást aðrir styrkir í verkefnið eða ætla aðrir aðilar að koma með fjármagn eða vinnu inní verkefnið? Alla þessa þætti þarf að skrá inn í áætlun um fjármögnun.

Vinnuframlag skal reikna á 5.700 kr. á klst. Ef tekjur eru af verkefninu færast þær sem önnur fjármögnun.

Styrkupphæð sem óskað er eftir er líka hluti af fjármögnunaráætlun og er skráð inn í næsta dálk á eftir. „Upphæð styrks sem sótt er um“.

Upphæð styrks sem sótt er um

Hversu háa upphæð óskar þú eftir í styrk? Athugið breyttar úthlutunarreglur sjóðsins þar sem ekki er lengur krafist mótframlags styrkþega.

Fjármögnun verkefnis með styrk

Fjármögnun verkefnis með styrk þarf að vera 100% og mun koma upp villa þegar skila á inn umsókn sé það ekki raunin. Ef sú tala er lægri en 100% þarf að lagfæra og bæta við „eigið framlag“ eða „upphæð styrks sem sótt er um“ eða lækka kostnaðaráætlun sem um nemur. Ef talan er yfir 100% þarf að lagfæra og bæta við kostnaðaráætlun eða lækka „eigið framlag“ eða „upphæð styrks sem sótt er um“.

Hvernig fellur verkefnið að áherslum, markmiðum og matsþáttum Uppbyggingarsjóðs Suðurlands

Hér þarf að hafa lesið úthlutunarreglurnar vel yfir og hugsað út í hvernig áherslur, markmið og matsþættir sjóðsins tengjast verkefninu. Verkefnið þarf að tengjast markmiðum sjóðsins á einn eða annan hátt og það styrkir umsóknina ef það tengist einnig áherslum þess. Þannig má strax við upphaf verkefnahugmyndar hafa áherslur og markmið sjóðsins í huga við mótun þess.

Matsþættir sjóðsins eru notaðir þegar verið er að fara yfir umsóknir og gefa þeim einkunnir. Kemur allt fram í umsókn sem fjallað er um í matsþáttum eða þarf að bæta einhverju við umsókn svo þeim spurningum sé örugglega svarað?

Fjallað er nánar um áherslur, markmið og matsþætti neðar á síðunni.

Í hverju felst ávinningur af verkefninu

Hér er átt við hvers kyns ávinning sem getur falist í ólíkum þáttum; efnahagslegum, samfélagslegum, út frá listrænu gildi o.s.frv. Vinsamlega skilgreinið árangursmælikvarða og setjið fram viðmið um mælanlegan ávinning ef þess er kostur.

Nýnæmi verkefnis

Í hverju felst nýnæmi verkefnisins á svæðis-, lands- eða heimsvísu? Ef um nýsköpunarvekefni er að ræða er mikilvægt að tilgreina nýnæmi vandlega hér. Í hverju felst helsta samkeppnin? Hefur þetta verið gert áður eða er þessi vara/þjónusta til fyrir. Hefur einhver framkvæmt slíkan gjörning áður?

Hvað er nýsköpun?

Nýsköpun í sinni einföldustu mynd er að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Á þetta jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Nýsköpun er ekki það sama og ný hugmynd heldur er aðeins talað um nýsköpun þegar hugmyndinni eða endurbótinni hefur verið hrint í framkvæmd.

Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum. Hún er mikilvæg í viðskiptum, öllu vísindastarfi, tækniþróun, stjórnunarstörfum, listum, menningu og svo að segja í öllu okkar umhverfi. Algengast er þó að tala um nýsköpun í samhengi við nýja tækni, viðskiptatækifæri eða leið til markaðssetningar.

Nýsköpun getur verið ný fyrir allan heiminn eða einungis fyrir afmarkað svæði svo sem heimsálfu, land, borg eða jafnvel bara tiltekið fyrirtæki eða stofnun. Það er því dæmi um nýsköpun í Afríku en ekki Evrópu þegar byrjað er að flytja inn og selja vöru í Afríku sem áður hefur verið á markaði í Evrópu í nokkurn tíma.

Nýsköpun er talin einkar mikilvæg fyrir efnahagslífið á því svæði sem hún á sér stað. Hún getur ýtt verulega undir hagvöxt vegna þess að í henni felst framleiðsluaukning eða hagræðing sem leiðir af sér meiri framleiðni hjá þeim sem að nýsköpuninni standa.

Texti fenginn á vísindavefur.is.

Nýsköpun = það að stuðla að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi eða uppgötvunum. Fengið á vef Árnastofnunar

Yfirlit yfir fylgiskjöl

Hér er tekið á móti skrám á eftirfarandi formi: doc, docx (Word), xls, xlsx (Excel), pdf, jpg, gif og png. Athugið ef um stórar skrár er að ræða getur tekið allt að nokkrar mínútur að hlaða þeim inn og fer þá eftir nettengingu og/eða netsambandi viðkomandi. Ekki er hægt að breyta umsókn eða bæta við fylgiskjölum eftir að umsókn hefur verið skilað

Viðhengi

Hér skal bæta við þeim viðhengjum sem við á hverju sinni. Þetta geta verið áætlanir, myndir eða annað sem umsækjandi telur styrkja umsóknina.

Myndbönd

Það getur styrkt umsóknina að senda inn stutt myndband sem tengist verkefninu. Þetta getur verið kynningarmyndband um verkefnið eða örstutt myndband þar sem umsækjandi kynnir hugmyndina fyrir fagráðinu. Athugið að því styttra og hnitmiðaðra sem myndbandið er, því betra!

Til að bæta inn myndbandi þarf umsækjandi að vera með aðgang að síðum eins og youtube.com eða vimeo.com þar sem myndbandi er hlaðið inn. Þá er linkurinn á myndbandið settur inní umsóknarformið. Athugið að viljir þú ekki hafa myndbandið opið á vefnum fyrir alla, er hægt að setja inn myndband á þessar síður sem er lokað nema fyrir þá sem eru með linkinn

Youtube leiðbeiningar:
Stofna aðgang 
Hlaða inn myndbandi:
Hafa myndband lokað (e. private)

Annað sem umsækjandi vill koma á framfæri

Langar þig að koma einhverju á framfæri sem þú hefur ekki haft tækifæri á að koma á framfæri? Hér er tækifærið!

„Umsækjandi hefur kynnt sér Úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands“

Það er ekki hægt að ítreka nógu oft á því hversu mikilvægt það er að hafa kynnt sér úthlutunarreglurnar til að auka líkur sínar á að fá úthlutað úr sjóðnum! Það skín í gegn hverjir hafa kynnt sér þær og hverjir ekki og því hvetjum við alla umsækjendur til lesa þær vel yfir og reyna eftir bestu getu að koma öllu því sem um er beðið á framfæri. Ef þú ert í vafa, ekki hika við að hafa samband við einn af okkar ráðgjöfum sem veitir þér ráðgjöf þér að kostnaðarlausu.

NÁNAR UM MARKMIÐ OG ÁHERSLUR UPPPBYGGINGARSJÓÐS

Markmið og áherslur uppbyggingasjóðs má finna í reglum sjóðsins hér.

Verkefni sem sótt erum styrk fyrir verða í öllum tilfellum að uppfylla að lágmarki markmið sjóðsins í þeim flokki sem sótt er um í.  Nóg er ef verkefnið uppfylli markmið sjóðsins en það styrkir verkefnið ef það uppfyllir einnig áherslur sjóðsins, eina eða fleiri. Það hvernig verkefnið fellur að markmiðum og áherslum sjóðsins hefur áhrif á mat þess. Það er því mikilvægt að það komi vel fram í umsókninni hvernig verkefnið fellur að þessum þáttum.

HVERNIG ERU UMSÓKNIR METNAR?

Í úthlutunarreglum segir að verkefni (umsóknir) skuli uppfylla eina eða fleiri áherslur sjóðsins. Skilyrði er að öll verkefni uppfylli að lágmarki markmið sjóðsins í hverjum flokki.

Hversu vel verkefni eru talin uppfylla markmið og áherslur sjóðsins eru hluti af mati fagráðs við sérhverja úthlutun.

Fagráðin lesa umsóknirnar yfir með matsþættina í huga, matsþættirnir koma fram í úthlutunarreglunum hér. Hverjum matsþætti gefa þau einkunn á bilinu 1-10 sem þá er margfölduð með vægi hvers þáttar (4-5) og þannig er fengin heildareinkunn fyrir umsóknina. Umsóknum er þá raðað upp eftir einkunnum sem síðan ákvarða úthlutun sjóðsins.

HVAÐ GERIR FAGRÁÐ UPPBYGGINGARSJÓÐS SUÐURLANDS?

Fagráð Uppbyggingarsjóðs sér um að lesa yfir umsóknir sem berast sjóðnum og meta þær m.v. matsþætti sjóðsins. Fagráðin eru tvö, annað les yfir umsóknir í flokki menningar og hinn les yfir umsóknir í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar. Nánari upplýsingar um fagráðin má finna hér.

 

NÁNAR UM RÁÐGJÖF SASS

Þú hefur aðgengi að ráðgjöfum sem aðstoðar þig í öllum skrefum ferlisins. Ráðgjafarnir eru með starfsstöðvar um allt Suðurland. Þjónustan er gjaldfrjáls upp að ákveðnu marki. Umsækjendur eru hvattir til að hafa samband við ráðgjafa á vegum SASS og fá aðstoð við gerð umsókna.

Ráðgjafi getur aðstoðað þig á margan hátt, allt frá mótun verkefnis yfir í að lesa yfir umsóknir. Þeir aðilar sem hafa sótt sér ráðgjöf eru almennt sammála um að sú þjónusta hafi komið þeim að góðu.

NOKKUR GÓÐ RÁÐ Í UMSÓKNARSKRIFUM

> Mikilvægt að byrja tímanlega á umsókninni – ekki draga fram á síðasta dag umsóknarfrests. Mikilægt að lesa yfir umsóknarformið og átta sig á hvers er óskað við umsóknarskrifin. Gott er að nota tíma í að móta og þróa hugmyndina að verkefninu áður en hafist er handa við umsóknarskrif. Að öllu jöfnu opnar fyrir umsóknarformið 6 vikum áður en umsóknarfrestur rennur út.

> Umsóknin vistast sjálfkrafa og alltaf er hægt að fara aftur inn í umsóknarkerfið og halda áfram umsóknarskrifum.  Hægt er að skrifa umsóknina í Word eða í öðru ritvinnslukerfi en alltaf þarf að lokum að færa ritaðan texta í umsóknarkerfið (afrita/líma, copy/paste). Hér er að finna vinnuskjal með öllum spurningum úr umsókn í Uppbyggingarsjóð. Athugið að allar umsóknir þarf að færa inn í rafrænt kerfi Uppbyggingarsjóðs og ekki dugar að senda inn vinnuskjalið. Einnig þarf að huga að því hver spurning hefur hámarks stafafjölda, þegar unnið er í vinnuskjali í Word eða öðru kerfi þarf að passa að fara ekki umfram þennan fjölda áður en textinn er límdur inn í rafrænt kerfi Uppbyggingarsjóðs.

> Úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands er að finna á vef SASS. Mikilvægt að byrja á að kynna sér reglurnar vel,  ásamt áherslum, markmiðum og matsþáttum sjóðsins. Við umsóknarskrifin er gott að leggja áherslu á þá þætti verkefnisins sem hægt er að fella að áherslum og markmiðum sjóðsins. Að kynna sér úthlutunarreglurnar vel getur því haft lykiláhrif á árangur umsóknarinnar.

> Ef verkefnið er viðamikið eða nær til lengri tíma er ráðlagt að áfangaskipta verkefninu, t.d. sækja um styrk fyrir þeim áfanga sem vinna  á næstu 6-12 mánuði. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári. Sækja má um fyrir verkefni oftar en einu sinni sé fyrra verkefni lokið eða búið sé að skila inn a.m.k einni áfangaskýrslu.  Þá er sótt um nýtt verkefni eða nýjan hluta verkefnisins.

> Það skiptir máli að vandað sé til verka, hugað sé að orðalagi og stafsetningu. Gott er að láta prófarkalesa umsóknina. Gott er að fá utanaðkomandi aðila til að lesa yfir umsóknina. Umsækjandi er oft orðinn djúpt sokkinn í eigin hugsanir og finnst sjálfsagt að allir skilji hinn ritaða texta á sama hátt og hann. Oftar en ekki kemur í ljós að ekki er allt svo augljóst eins og umsækjandi telur.

> Ráðgjafar SASS geta lesið yfir umsóknir, Hægt er að panta tíma  og/eða hringja í ráðgjafa og er æskilegt að hafa sambandnokkrum dögum  eða vikum áður en umsóknarfrestur rennur út þar sem mikið álag er á síðustu dögum umsóknarfrests.

> Farðu aftur yfir úthlutunarreglurnar, áherslur, markmið og matsþætti sjóðsins. Hefur allt komið fram sem  skiptir máli fyrir verkefnið? Það að gefa eigin umsókn „einkunn“ eftir matsþáttum sjóðsins getur gefið góða hugmynd að því hvað hugsanlega getur vantað í umsóknarskrifin.

> Hljóti verkefni styrk og hluti styrkhæfs kostnaðar er eigin vinna er þess krafist að áfanga- og lokaskýrslum fylgi tímaskýrsla. Hér má finna tímaskýrsluform sem nýta má til að halda utan um tímana annars vegar fyrir Excel og hins vegar fyrir Word. 

 

Hafðu samband við ráðgjafa SASS