fbpx

Fundagerð

Haustfundur 7. fundur ungmennaráðs Suðurlands haldinn 24. sept. 2020 klukkan 15:00 á Teams.

Mættir eru:

  1. Kristrún Ósk Baldursdóttir Rangárþing eystra
  2. Birna Sólveig Kristófersdóttir Vík,
  3. Maríanna Katrín Bjarkardóttir Skaftárhreppi,
  4. Daníel Hreggviðsson Vestmannaeyjar,
  5. Nói Mar Jónsson Hrunamannahreppi,
  6. Haukur Castaldo Jóhannesson Ölfusi
  7. Egill Hermannsson Árborg
  8. Írisi Mist Björnsdóttir Höfn

 

Eftirfarandi fulltrúar boðuðu forföll:

Sólmundur Sigurðarsson Bláskógabyggð, Haukur Davíðssom Hveragerði, Kristrún Urður Harðardóttir Grímsnes- og Grafningshreppi, Ástráður Unnar Sigurðsson Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Hólmar Höskuldsson Flóahreppi, Halla Erlingsdóttir Ásahreppi og Rebekka Rut Leifsdóttir Rangárþing ytra

Einnig eru mættir starfsmenn ráðsins, Gerður Dýrfjörð, Gunnar E. Sigurbjörnsson og Guðlaug Ósk Svansdóttir verkefnastjóri ráðsins.

 

Nói Mar Jónsson formaður ráðsins setti fund og stýrði honum.

Dagskrá:

  1. Ráðstefna og Umsókn Erasmus +
    Ákveðið að fresta umsókn fram í janúar 2021 vegna Covid- 19. Skoða plan A og B. Er hægt að hafa ráðstefnu á hefðbundum nótum eða þarf að finna nýja leið.
  1. SASS ársþing 2020
    Áhersla þingsins er nýsköpun. Umræður og tillögur að bókun, formanni falið að gera drög að bókun.
  1. Fulltrúi á Geopark ungmennaráðstefnu, 1st UNESCO GLOBAL GEOPARKS YOUTH FORUM
    Ráðið hvetur til þess að fulltrúi úr ráðinu og er jafnframt búsettur í jarðvanginum fari á ráðstefnuna. Skoða þetta betur þegar frekari upplýsingar berast.
  1. Covid -19 og sunnlensk ungmenni.
    Umræður um áhrif Covid – 19 á samfélagið og sérstaklega á nemendur. Ráðið telur að huga þurfi að ungmennum á Suðurlandi á þessum erfiðu tímum. Sértaklega þarf að huga að nemendum og brottfalli nemenda á framhaldsskóla- og háskólastigi. Einnig þarf að huga að úrræðum fyrir nemendur sem falla úr námi. Formanni falið að gera drög að bókun.
  1. Jafningjafræðsla – Áhersluverkefni Ungmennaráðs Suðurlands.
    Gunnar E. fór lauslega yfir verkefnið. Verkefnið verður kynnt á SASS þinginu 2020. Einnig mun ráðið fá kynningu á næsta fundi ráðsins í nóvember 2020. Ráðið sammála um mikilvægi jafningafræðslu á Suðurlandi og vill sjá verkefnið verða að framtíðarverkefni á Suðurlandi. Formanni og varaformanni falið að gera drög að bókun.

 

Drög að bókunum verða kynnt fyrir næstu mánaðarmót á facebookhópnum og höfð sem viðhengi með þessari fundagerð.

Fundi slitið kl. 16.25

 

 

Selfoss 01.10.2020

Bókanir ungmennaráðs Suðurlands – Haustfundur 2020

Til stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

 

Nýsköpun

Ungmennaráð Suðurlands styður áframhaldandi umræðu um nýsköpun á Suðurlandi. Mikilvægt er að bjóða börnum og ungmennum tækifæri til að kynna sér námsgreinar utan hins hefðbundna kjarna sem almennt tíðkast í dag. Við vörum við því að draga úr valgreinum í grunnskólum þar sem við teljum fjölbreytni mikilvægt tæki til að efla nýsköpun og sköpunargáfu nemenda.

Við viljum varpa þeirri spurningu fram hvort það sé næg hvatning og tækifæri til staðar á Suðurlandi fyrir frumkvöðla til nýsköpunar og hvað þurfi til, til að það verði að veruleika? Mikilvægt er að hafa núverandi fjármagnsstyrki og sjóði sýnilega og ávallt vera að minna á þá til að þeir gleymist ekki.

Við viljum skerpa á mikilvægi þess að auka störf án staðsetningar þar sem við teljum að mörg tækifæri felast í því. Við teljum að ungt fólk hafi löngun til þess að flytja á Suðurland eftir að hafa sótt sér sérhæfðari menntun og reynslu og teljum við að störf án staðsetninga sé þar mikilvægur hlekkur.

Núverandi ástand á Íslandi í kjölfar Covid-19 faraldursins hefur sannað mikilvægi fjölbreytileika í atvinnulífi á Íslandi. Þess vegna þurfum við að leggja enn meiri áherslu á að hvetja fólk til nýsköpunar.

 

Áhrif Covid 19 á ungmenni

Ungmennaráð Suðurlands vill skerpa á mikilvægi þess að hlúa að ungmennum á tímum Covid – 19 faraldursins, hvort sem þau eru á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi, háskólastig eða út á vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að ráðamenn verða í stöðugu sambandi við þennan hóp um þeirra heilsu, bæði andlega og líkamlega, og hvað má betur fara og gera. Þetta eru fordæmalausir tímar og þess vegna er mikilvægt að heyra hlið ungmenna á málum sem snerta þá, beint og óbeint. Fyrir ungmenni hefur ástandið reynst þeim misvel. Sumir hafa aðlagast nýjum námsaðferðum betur og hraðar enn aðrir. Erfitt er að meta brottfall nemanda í skólum þar sem rúmlega  mánuður er búinn af skólaári. Til að koma í veg fyrir að nemendur hverfa frá námi verður að halda áfram að gera ráðstafanir til að styðja við nemendur.

 

Jafningafræðsla ungmenna á Suðurlandi

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga lagði í fyrra til fjármagn í áhersluverkefnið ,,Jafningjafræðsla Suðurlands”. Jafningjafræðsluteymið var skipað fjórum einstaklingum á aldrinum 16-21 árs. Þau voru á ferð og flugi um Suðurland að heimsækja ungmenni í vinnuskólum, með það að markmiði að eiga uppbyggilegt samtal um lífið, tilveruna og hluti sem ekki eru ræddir nóg í kennslustofunni eða á heimilum.

Jafningjafræðararnir, tvær stelpur og tveir strákar, sóttu vorið 2020 þriggja vikna námskeið á vegum Hins Hússins í Elliðaárdal til að vera sem best undirbúin fyrir sumarið. Markmið jafningjafræðara er að fræða og vekja upp umræður hjá ungmennum varðandi allt það nýja sem þau upplifa á unglingsárunum. Fræðslur ganga nokkuð smurt fyrir sig og dagskráin er flæðandi, en jafningjafræðararnir þurfa að móta hana janfnóðum og fræðslan stendur yfir með því að lesa í hópinn og átta sig á hvað er nauðsynlegast að fara í gegnum hjá hverjum hópi fyrir sig.

Meðal mála sem tekin eru fyrir í fræðslum eru almenn lýðheilsa, styrking sjálfsmyndar, fræðsla um neyslu áfengis, tóbaks og vímuefna, samskipti kynjanna, kynlíf, kynheilbrigði, líkamsvitund og virðing, klám, réttindi ungs fólks, fíkn, geðheilsa, einelti og margt fleira sem getur komið upp í umræðum.

Þetta eru mál sem reynast ungmennum á margan hátt auðveldara að ræða við aðila sem er nær þeim í aldri og ótengdur þeim í dagleg lífi. Fræðslan í sumar gekk vonum framar en það liggur augum uppi að ungmenni á Suðurlandi eru sáralítið frædd um hluti eins og kynlíf, réttindi ungs fólks, fíkn og geðheilsu, og það sem ungmenni læra ekki í skóla læra þau af netinu sem getur reynst afar varasamt. Einnig er öðruvísi fyrir ungmenni að heyra annað ungmenni tala um hlutina, það vill oft vera þannig að ungmenni líti upp til jafnaldra frekar en foreldris eða kennara sem er einfaldlega vegna aldurs. Ungmenni á meira sameiginlegt með jafnöldrum.

Jafningjafræðslan náði ekki til allra ungmenna á Suðurlandi í sumar en því yrði náð með heimsóknum í grunnskólana í vetur. Skipulag og undirbúningur fyrir það stendur yfir og verður farið af stað um leið og hægt er vegna Covid-19.

Ungmennaráð Suðurlands telur mikilvægt að jafningafræðsluverkefnið haldi áfram þar sem komið hefur í ljós brýn nauðsyn á því á Suðurlandi. Með jafningjafræðslunni felst fjölbreytt forvörn fyrir ungmenni og með því að stuðla að áframhaldandi fræðslu getur Suðurland orðið brautryðjandi í slíkum forvörnum í heilum landshluta.

 

Virðingarfyllst

F.h. Ungmennaráðs Suðurlands

Nói Mar Jónsson formaður

Sólmundur Magnús Sigurðarson varaformaður

 

 

 

Sækja fundargerð hér