fbpx

 

Rannsókn og viðhorfskönnun meðal erlendra ríkisborgara í Rangárþingi eystra, Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði.

Út er komin skýrsla á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) sem fjallar um viðhorf og aðlögun erlendra íbúa í fjórum sveitarfélögum á Suðurlandi. Sveitarfélögin fjögur sem um ræðir eru Rangárþing eystra, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður. Skýrslan er hluti af verkefninu “Aðgerðaráætlun um sjálfbæra lýðfræðilega þróun miðsvæðisins” – sem vísar til þess að efla sjálfbæra íbúaþróun á svæðinu. Þar sem sérstæð íbúaþróun hefur fylgt uppgangi ferðaþjónustunnar á síðast liðnum árum.

Aðdragandi verkefnisins er greiningarvinna á vegum SASS. Sú greining gaf til kynna ákveðna þróun sem átt hefur sér stað og er í takt við erlendar rannsóknir um tengsl vaxtar í ferðaþjónustu og áhrifa á íbúaþróun. Helstu þættir eru mikil fjölgun erlendra íbúa á aldursbilinu 20 til 29 ára ásamt aukinni íbúaveltu. Hlutfall erlendra íbúa á rannsóknarsvæðinu telur nú um 30%. Samsetning íbúa sveitarfélaganna hefur því breyst til muna á skömmum tíma, hvort sem litið er til meðalaldurs, hlutfall barna, ríkisfangs eða fjölskylduforma. Mikilvægasta áskorunin er að erlendrir ríkisborgarar setjast hér síður að og skýrir að mestu aukna íbúaveltu á svæðinu. Vaknaði þá spurningin um sjálfbærni íbúaþróunar á svæðinu.

Fyrsti áfangi verkefnisins fólst í nánari greiningu á þessari þróun. Sú vinna skilaði af sér hönnun og uppsetningu á gagnatorgi yfir íbúaþróun á Íslandi, sem tók sérstaklega til þeirra þátta sem skoðaðar voru í greiningu SASS. Byggðastofnun tók í framhaldi við rekstri og umsjón gagnatorgsins. Er það nú aðgengilegt á vef Byggðastofnunar. Sjá hér á vef Byggðastofnunar; Gagnatorg íbúa sveitarfélaga og landshluta.

Annar hluti verkefnisins fólst í rannsókn meðal erlendra íbúa á rannsóknarsvæðinu og samantekt á niðurstöðum í útgáfu skýrslu. Rannsóknarsvæðið náði til áðurnefndra fjögurra aðliggjandi sveitarfélaga. Rannsóknin byggðist á könnun meðal erlendra ríkisborgara, vefkönnun og  37 einstaklingsviðtölum ásamt heimildarvinnu. Í skýrslunni eru dregnar fram helstu ábendingar og tillögur þátttakenda sem sveitarfélögin geta nýtt sér við áætlanagerð og stefnumótun.

Tilgangur verkefnisins var í megin atriðum að kanna hvernig sveitarfélögin geta laðað til sín íbúa með langtímabúsetu í huga og auka almennt á aðlögun erlendra íbúa. Með það að markmiði að draga úr íbúaveltu og þar með að auka sjálfbærni íbúaþróunar. Ákveðnar áskoranir komu fram frá þátttakendum, s.s. skortur á framboði á íbúðarhúsnæði, hvort sem er til sölu eða leigu, sem og takmarkað vöru- og þjónustuúrval. Skýrslan dregur í megin atriðum fram mikilvægi þess að sveitarfélögin móti skýrar og heildrænar móttökuáætlanir, í samvinnu og samtali við íbúa. Markmið rannsóknarinnar var þannig að draga fram helstu áskoranir og megin atriði sem hægt er að nýta sem grunn að aðgerðum sem móttökuáætlanir geta falið í sér.

Sveitarfélögin hafa öll unnið að aðlögun erlendra ríkisborgara á síðustu árum en vænta má að niðurstöður þessarar skýrslu geti enn frekar stutt við þá vinnu, sem og vinnu annara sveitarfélaga. Fyrirhugað er að vinna áfram með sveitarfélögunum að þessum málefnum og skoða frekari leiðir sem stutt geta við frekari samþættingu erlendra íbúa.

Verkefnið var fjármagnað af Byggðaáætlun (C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða) og Sóknaráætlun Suðurlands. Samstarfsaðili var Kötlusetur í Mýrdalshreppi ásamt hlutaðeigandi sveitarfélögum.

Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri þróunarsviðs SASS

Skýrsluna má nálgast hér (.pdf)