fbpx

Lýsing

Markmið þessa verkefnis er að vekja nemendur til umhugsunar um gildi fjölbreytileika, fá þá til að skiptast á skoðunum eða rökræða og velta fyrir sér mismunandi hliðum mála í síbreytilegum heimi. Við erum öll hluti af fjölmenningarlegu samfélagi, sem við höfum áhrif á og verðum einnig fyrir áhrifum af, þvert á öll landamæri þjóðríkja.
Mannréttindi eru víða fótum troðin, kvenna, karla og barna og því mikilvægt að stuðla að umburðarlyndi og framþróun og leggja áherslu á að styrkur fjölbreytileikans sé virtur.

Námsefnið miðar við safnheimsóknir bekkja þar sem farið verður í samráði við kennara í valda þætti úr sögunni/nærsamfélaginu þar sem þverþjóðlegar tengingar koma við sögu og hinar ýmsu birtingarmyndir þeirra. Nemendur og safnkennari hugleiða og ræða sín á milli um ákveðna þætti námsefnisins á markvissan, krefjandi og skapandi hátt. Leitast er við að auka skilning á viðhorfum og skoðunum annarra, styrkja sjálfsmynd, auka sjálfstraust og samábyrgð nemenda.

Markhópur

Verkefnið er ætlað nemendum 9.-10. bekkjar grunnskóla en einnig að hluta erlendum nemendum sem koma í auknum mæli, sem og innflytjendum.

Í aðalnámskrá grunnskóla 2013 segir að samfélagsgreinar skuli stuðla að skilningi nemenda á mörgum þeim hugmyndum og hugsjónum sem liggja til grundvallar viðhorfum okkar til umhverfis, auðlinda, menningar og sögu. Leitast skuli við að efla nemendur í að bregðast við áskorunum úr umhverfinu og nærsamfélaginu í krafti skynsemi sinnar og auka skilning þeirra fyrir eigin ábyrgð á þeim leiðum sem hver og einn velur sér til þess að fóta sig í félagi við annað fólk og umhverfi (195).

Aðalnámskráin hvetur einnig til þess að tengja nám í samfélagsgreinum við fyrri reynslu nemenda og gera þeim þannig kleift að sinna því sem þeir hafa áhuga á og ígrunda eigin reynslu og tengja viðfangsefnið við daglegt líf þeirra og samfélag (205).

Afurð

1. Gerður var spurningalisti fyrir kennara til að leggja fyrir nemendur. Spurt er um þverþjóðlegan bakgrunn, blóðbönd, búsetu, neyslu fæðu/menningar, íþróttagreinar. Þeir skora hæst þar sem áhrif þverþjóðleikans er mestur.
Spurningalistinn er góður grunnur til að skapa umræður og einnig góður upphafspunktur fyrir hin verkefnin.

2. Ratleikur um Sagnheima á íslensku þar sem farið er í gegnum sýningar safnsins með áherslur á erlend áhrif. 3-4 nemendur vinna saman.

3. Ratleikur um Sagnheima á ensku fyrir erlenda skólahópa eða innflytjendur. Aðrar áherslur en í íslenska hlutanum, þar sem hér er ekki gengið út frá neinni fyrirfram þekkingu á sögunni eða staðháttum. 3-4 nemendur vinna saman. Gott að blanda íslenskum nemendum í hópinn ef kostur er og fá þau til að vinna þetta saman. Báðir ratleikirnir, íslenski og enski, eru vistaðir á tölvu safnsins og bara prentaðir eftir þörfum. Þeir eru því lifandi gagn sem auðvelt er að breyta með komu nýrra sýninga eða ef áherslur breytast.

4. Nemendur gerðu leikna heimildamynd, stuttmynd, um innflytjendur til landsins sl. öld og áhrif þeirra á líf okkar og menningu. Myndina má nota í heild sinni, 30 mín, eða hluta hennar sem áhersluþætti í kennslu og grundvöll umræðna eða frekari verkefna.

Sagnheimar Vestmannaeyjum

Verkefnastjóri: Helga Hallbergdóttir
Tölvupóstur: helga@sagnheimar.is
Heimasíða: sagnheimar.is
Sími: 4882045

Hvert og eitt safn kynnti verkefni sín á sameiginlegri kynningu 31. maí 2018 og má finna öll kynningarmyndböndin hér.