fbpx

 

595. fundur stjórnar SASS

Austuvegi 56 Selfossi  
5. maí 2023, kl. 12:30-15:16

 

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson, Einar Freyr Elínarsonog Brynhildur Jónsdóttir. Njáll Ragnarsson og Grétar Ingi Erlendsson boðuðu forföll og í þeirra stað komu Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Sigurbjörg Jónsdóttir. Jóna Sigríður og Arnar Freyr tengjast fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. Einnig taka þátt Þórður Freyr Sigurðsson sviðstjóri Þróunarsviðs SASS og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. 

Formaður býður fundarmenn.

1. Fundargerð
Fundargerð 594. fundar staðfest og undirrituð. 

2. Ársreikningur SASS 2022  

Framkvæmdastjóri kynnir drög að ársreikningi SASS fyrir árið 2022. Rekstrarafkoma samtakanna af reglulegri starfsemi er neikvæð um 6,6 m.kr. til samanburðar við neikvæða afkomu af reglulegri starfsemi að fjárhæð ríflega 40 m.kr. á árinu 2021. Mestu munar um gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga samtakanna sem var ríflega 21 m.kr á rekstrarárinu en hún var 54 m.kr. árið 2021. Samkvæmt efnahagsreikningi er bókfært eigið fé neikvætt um tæplega 45,5 m.kr. í lok ársins. Ársreikningur staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra en hann verður formlega frágenginn með rafrænum undirritunum um miðjan maí.  

3. Staða verkefna

Sviðsstjóri þróunarsviðs kynnir heildaryfirlit yfir stöðu verkefna sem samtökin og aðrir á þeirra vegum eru að vinna að. Samtals kynnir hann stöðu 23 verkefna en þar á meðal eru 19 ný og eldri áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands og fjögur önnur verkefni sem tengjast byggðaáætlun og erlendur samstarfsverkefni.  

4. Byggðaþróunarfulltrúi 

Framkvæmdastjóri kynnir minnisblað tengt áherslubreytingum við gerð nýrra samstarfssamninga tengt byggðarþróunarfulltrúum en gert er ráð fyrir einum fulltrúa í mismiklu starfshlutfalli, á sjö skilgreindum atvinnuvinnusóknarsvæðum á Suðurlandi. Hann kynnir einnig fjárhag verkefnisins og hver staðan sé í samningaviðræðum við samstarfsaðila.

Samhliða breytingunni er lagt til að ráða verkefnisstjóra í starf hjá samtökunum. Fyrirhuguð verkefnavinna er talin það fjölbreytt og viðvarandi að ekki er séð að það verði hagkvæmt eða skilvirkt að gera það með öðrum hætti. Verkefnin eru einnig flest þess eðlis að þau eru almenn. Þeim er ætlað að styðja við starf samtakanna í landshlutanum um að efla kynningarstaf, upplýsingamiðlun, styðja við hlutverk byggðaþróunarfulltrúa, efla frekari verkefnaþróun og viðhaldið góðum árangri í að sækja styrki í sértæk verkefni.

Stjórn felur framkvæmdastjóra útfærslu sem taki mið af fjárhagslegu svigrúmi skv. fjárhagsáætlun 2023 og umræðum á fundinum. 

5. Ársþing SASS 2023

Formaður kallar eftir hugmyndum að yfirskrift eða þema fyrir komandi ársþing. Fram kom hugmynd um að áhugavert geti verið að skoða gerð svæðisskipulags fyrir Suðurland eða að farið verði í gerð heldstæðrar landnýtiingaráætlunar í landshlutanum. Þema ársþingsins verður rætt nánar á vinnufundi stjórnar 17. – 18. ágúst nk. 

Formaður kynnir hugmyndir um vinnu og verklag milliþinganefnda fyrir ársþing. Gert er ráð fyrir að senda nefndunum erindisbréf með umræðupunktum og leiðbeiningum um verklag fyrir sumarleyfi. Í byrjun október skili nefndir niðurstöðum sem hægt verður að senda á þingfulltrúa með öðrum fundargögnum. Lögð er áhersla á að nefndir forgangsraði verkefnum, að tillögurnar séu skýrar og ef stofna eigi til útgjalda hjá samtökunum fylgi tillaga um hvernig fjármagna eigi verkefnið. Varðandi ályktanir þá eiga þær að vera skýrar og markmiðið er að þær séu tilbúnar til afgreiðslu á ársþinginu. 

Formaður fjallar sérstaklega um starf samgöngunefndar en fyrir fundinum liggur erindisbréf nefndarinnar um að uppfæra samgönguáætlun SASS 2023-2032. 

Stjórn samþykkir að nefndir séu skipaðar sömu formönnum og leiddu vinnu þeirra 2022 en þeir koma úr stjórn samtakanna. Að 3-5 manna hópur leiði vinnu hverrar nefndar en fulltrúar í milliþinganefndum geti fylgst með framvindunni og komið með ábendingar. Milliþinganefndir verða svo kallaðar saman í september nk. en þær verða skipaðar þingfulltrúum með slembiúrtaki. Komi fram sérstök ósk getur þingfulltrúi óskað eftir að verða fluttur í aðra nefnd.

6. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerðir 554.- 556. funda stjórnar SSH, fundargerðir 8.-9. fundastjórnar SSA, fundargerðir 134.-137. funda stjórnar Austurbrúar, Fundargerðir 93.-94. funda stjórnar SSNV, aðalfundargerð SSV 2023, fundargerðir 50.-51. funda stjórnar SSNE, fundargerð 88. funndar stýrihóps Stjórnarráðsins og fundargerðir 921.-924. funda stjórnar sambandsins. 

b. Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni og hvað framundan er en meðal atriða má nefna að: Gerð samstarfssmninga um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf. Rafræn úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Samráðsfundur sambandsins og landshlutasamataka en þar var farið yfir fjármál sveitarfélaga, stafrænt ráð sambandsins, fjallskil og förgun dýrahræja. Námskeið tvö hjá sveitarfélagaskóla sambandsins á Suðurlandi. Lofstslangsstefna sveitarfélaganna. Fundarröð forsætisráðherra um sjálfbæra þróun á Íslandi en tveir fundir voru haldnir á Suðurlandi. Fundarröð um orkuskipti og samtal um nýtingu vindorku sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur haldið en einn fundur var á suðurlandi. SASS og önnur landshlutasamtök hafa gengið frá samningi við Íslandsstofu um samstarf vegna fjárfestingaverkefna.

Málefni í innra starfi SASS er fært í trúnaðarbók. 

c. Katla jarðvangur

Formaður kynnir erindi frá framkvæmdastjórn Global Geoparks Network (GGN) en samtökin hafa áhyggjur af þróun mála varðandi fjármögnun Kötlu jarðvangs en rekstur jarðvangsins hefur hingað til verið fjármagnaður af ríki og sveitarfélögum.

UNESCO vottun á Kötlu jarðgarði má rekja til alþjóðlegrar viðurkenningar á framúrskarandi jarðfræðilegri arfleið svæðisins og sem styður við landsvæðisþróun þess.

Framkvæmdastjórn GGN og aðrir UNESCO jarðavangar lýsa yfir stuðningi við áframhaldandi rekstur Kötlu jarðvangs og vona að fljótt verði fundin lausn til að hægt verði að halda áfram rekstri hans og því árangursríka starfi sem staðið hefur síðan 2011.

Stjórn SASS tekur undir áhyggjur samtakanna Global Geoparks Network og hvetur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að finna leið til að fjármagna rekstur jarðvangsins eda gegnir hann mikilvægu hlutverki og heldur utan um stórbrotna jarðfræðilega minjastaði. 

d. Markaðsstofa Suðurlands

Grétar Ingi Erlendsson óskar, vegna anna, eftir lausn sem aðalmaður í stjórn Markaðsstofu Suðurlands. Stjórn verður við því. Skv. ársþingi SASS 2022 verður varamaður hans Ása Valdís Árnadóttir aðalmaður í stjórn MSS og Árni Eiríksson verður áfram varamaður. 

e. Stafrænt ráð sambandsins

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir verður áfram fulltrúi SASS í stafrænu ráði sambandsins.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn sem fjarfundur föstudaginn 2. júní nk. kl. 12:30.

Fundi slitið kl. 15:16
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Einar Freyr Elínarson
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Brynhildur Jónsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson
Árni Eiríksson 
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 

 

595. fundur stjórnar SASS (.pdf)