fbpx
9. nóvember 2021

Vísisjóðir eru mikilvægur þáttur í fjármögnun ungra fyrirtækja sem eru að stækka, en fimm íslenskir vísisjóðir upp á rúma 40 milljarða kr. hafa verið stofnaðir í ár og erlendir fjárfestar horfa í síauknum mæli til landsins.

Crowberry Capital stofnaði í september stærsta vísisjóð Íslands, Crowberry II, upp á 11,5 milljarða kr. og býst við að fjárfesta honum til helminga á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Brunnur Ventures stofnaði 8,3 milljarða sjóðinn Brunnur II, Kvika eignastýring stofnaði 7,3 milljarða kr. sjóðinn Iðunni, Frumtak stofnaði 7 milljarða kr. sjóðinn Frumtak III og Eyrir Venture Management stofnaði 6 milljarða kr. sjóðinn Eyrir Vöxtur.

 

  • Crowberry II er með 10 ára líftíma og fjárfestir í norrænum tækni sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjámögnunar.
  • Brunnur vaxtarsjóður II er með 10 ára líftíma og 3-5 ára fjárfestingartímabil. Lögð er áhersla á fyrirtæki sem búa yfir skalanelegu og gjaldeyrisskapandi tekjumódeli í hugbúnaði, interneti, afþreyingariðnaði, hátækni, líftækni, orkuiðnaði, sjávarútvegstækni og matvælaframleiðslu.
  • Iðunn framtakssjóður er með 5 ára fjárfestingartímabil og leggur áherslu á fjárfestingar á sviði lífsvísinda og heilsutækni. Inna þess falla ýmis konar atvinnugreinar og svið t.a.m. framleiðsla lækninga- og greiningatækja, lyfjaþróun, stafræn læknisþjónusta, heilbrigðisþjónusta auk stuðningsfyrirtækja í virðiskeðjur eða þróun lífvísinda- og heilbrigðistækni.
  • Frumtak III er með 5 ára fjárfestingatímabil og starfstíma 10 ár. Frumtak III sérhæfir sig ekki í einstökum greinum og mun fjárfesta með svipuðu sniði og fyrri Frumtakssjóðir með áherslu á hugvitsdrifin tæknifyrirtæki.
  • Eyrir vöxtur er með 4 ára fjárfestingartímabil og líftíma upp á 10 ár. Eyrir vöxtur mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og horfa til þess að vaxa hratt aðlþjóðlega. Fyrirtæki sem Eyrir vöxtur fjármestir í munu fara inn í viðskiptahraðalinn MIT DesignX til að hraða vaxtarferlinu.

 

Auk þessa lagði ríkið átta milljarða í Kríu – sprota og nýsköpunarsjóð á árinu. Kría mun fjárfesta í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarsjóðum (vísisjóðum).  Kría mun því verða einn af fjárfestum í nýstofnuðum vísisjóðum auk lífeyrissjóða og fagfjárfesta og styðja þannig við vaxtarfyrirtæki.

Það er því ljóst að það verður samkeppni um fjárfestingar, í fyrirtækjum sem telja sig eiga mikla möguleika til vaxtar, næstu 3-5 árin. Það er ákveðin áhætta að fjárfestingartímabilum sjóðanna lýkur á svipuðum tíma og þannig gæti skapast skortur á fjármagni eftir að því lýkur. En miðað við áætlanir sjóðanna um fjárfestingar eru spennandi tímar framundan í íslensku atvinnulífi.