fbpx

Í gær mánudaginn 3. maí var undirritaður Menningarsamningur fyrir 2010 á milli mennta-og menningarmálaráðherra og Sambands sunnlenskra sveitarfélaga. Auk þess var úthlutað menningarstyrkjum til liðlega 90 verkefna. Hæsta styrkinn að þessu sinni féll í skaut Friðriks Erlingssonar og Gunnars Þórðarsonar fyrir verkefnið "Ragnheiður"  ný íslensk ópera í fullri lengd. Dagskráin fór fram við hátíðlega athöfn í ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Lúðrasveit Þorlákshafnar lék nokkur  lög í upphafi athafnarinnar, Jóna Sigurbjartsdóttir formaður Menningarráðs Suðurlands flutti ávarp. Katrín Jakobsdóttir mennta-og menningarmálaráðherra afhenti verkefnastyrkina ásamt Dorothee Lubecki, menningarfulltrúa Suðurlands. Einnig lék tónlistarhópurinn Mandal nokkur lög og að síðustu söng unglingakór Selfosskirkju. Sveitarfélagið Ölfus bauð öllum upp á kaffi og meðlæti að athöfn lokinni.