fbpx

Helgina 19. – 20. október er boðið til íbúaþings í Skaftárhreppi á vegum Byggðastofnunar, Skaftárhrepps, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Háskólans á Akureyri.  Þingið hefst kl. 11 á laugardegi og stendur til kl. 16 og síðan frá kl. 11 – 15 á sunnudeginum.  Þátttakendur á þinginu móta sjálfir dagskrána.  Allt er til umræðu, staða og framtíð Skaftárhrepps, atvinnumál, umhverfismál og málefni samfélagsins.  Fyrirkomulagið er þannig að allir hafa jafna möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Fyrri daginn eru dregnar fram hugmyndir, þær vegnar og metnar og síðari daginn er gengið frá forgangsröðun verkefna og rætt um næstu skref.

En hvers vegna tveggja daga íbúaþing?  Nú var haldið íbúaþing í Skaftárhreppi árið 2000 og hverju hefur það breytt?  Munurinn á þessu þingi og hinu sem haldið var fyrir 13 árum, er meðal annars sá að nú standa fleiri stofnanir á bak við þingið og eftirfylgnin ætti því að verða markvissari.  Aðferðin er líka önnur og nú eru það alfarið íbúar og aðrir þátttakendur sem ákveða hvað verður rætt.  Á þinginu er tækifæri til að stinga upp á einhverju af þeim umræðuefnum sem einkenna samræður við eldhúsborðin, fá fleiri sjónarmið og hugmyndir og taka hluti lengra. Það er líka alltaf gagnlegt fyrir íbúa í hverju samfélagi að koma saman og ræða um stöðu og möguleika, út frá sínum áhugasviðum.

Verkefnið Skaftárhreppur til framtíðar!  er hluti af stærra verkefni sem tekur til þriggja annarra byggðarlaga og hlotið hefur nafnið „Brothættar byggðir“. Í verkefninu er lögð áhersla á samtal íbúa í byggðum sem búa við erfiða stöðu, um hvað þarf til að efla byggð og ekki síður, hvað samfélagið sjálft getur gert.

Verkefnið var kynnt á íbúafundi þann 7. október, ásamt kynningu á ýmsum málum, s.s. stöðu sveitarfélagsins og verkefnum hjá Friði og frumkröftum, Kötlu jarðvangi, Búnaðarsambandi og fjarnámsverkefni á vegum SASS.

Nú er komið að íbúaþingi, sem verður, eins og áður sagði, haldið helgina 19. – 20. október, í Kirkjuhvoli.  Þingið hefst á laugardeginum kl. 11 og stendur til kl. 16.  Síðan verður haldið áfram á sunnudeginum frá kl. 11 til 15.  Veitingar eru í boði Skaftárhrepps.  Boðið  er upp á barnagæslu í Leikskólanum Kærabæ.

Á kynningarfundinn þann 7. okt., var gríðarlega góð mæting og lýstu íbúar ánægju með væntanlegt íbúaþing.  Fólk er hvatt til að láta boð út ganga, t.d. til ungra námsmanna eða annarra sem vilja koma heim þessa helgi og taka þátt.  Því er vænst góðrar þátttöku á þingið.