fbpx

Á ársþingi SASS var undirritaður samningur 13 sveitarfélaga á Suðurlandi um sameiginlegt þjónustusvæði fyrir fatlaða, en um næstu áramót flytjast málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.  Þjónustusvæðið nær til allra sveitarfélaganna í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V- Skaftafellssýslu. Samningurinn er ítarlegur og felur í sér að framkvæmdin verður í höndum einstakra sveitarfélaga en Sveitarfélagið Árborg mun sjá um ráðgjöf og sameiginleg þjónustuúrræði fyrir svæðið allt.  Yfirstjórn samningsins verður þó í höndum stjórnar þjónustusvæðisins en hana skipa  þeir fimm fulltrúar í stjórn SASS sem koma frá sveitarfélögum á þessu svæði.

Sjá samninginn í heild:

Sveitarstjórnir Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Hveragerðisbæjar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfuss, Flóahrepps, Ásahrepps, , Rangárþings eystra, Rangárþings ytra,  Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps,

gera með sér samning um:

Sameiginlegt þjónustusvæði Suðurlands
um þjónustu við fatlaða

1. Forsendur

1.1.       Þann 1. janúar 2011 taka sveitarfélög við þjónustu ríkisins við fatlaða, enda hafi lögum þá verið breytt og samkomulag verið gert um tilfærslu þjónustunnar milli ríkis og sveitarfélaga.

1.2.       Til að tilfærslan verði árangursrík þurfa sveitarfélögin að hafa faglegan og fjárhagslegan styrk á sviði félagsþjónustu.

1.3.       Við allan undirbúning tilfærslunnar hefur verið miðað við að  þjónustusvæði hafi  að lágmarki átta þúsund íbúa.

1.4.       Aðildarsveitarfélög þessa samnings eru staðráðin í að takast á við ný verkefni og áskoranir af metnaði og fagmennsku.

1.5.       Í ljósi þessa hafa sveitarfélögin ákveðið að sameinast um þjónustu við fatlaða á grundvelli samstöðu og samábyrgðar.

2. Þjónustusvæði Suðurlands

2.1.       Þrettán aðildarsveitarfélög Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) mynda sameiginlegt þjónustusvæði Suðurlands um þjónustu við fatlaða.  Þjónustusvæðið er ekki sjálfstæður lögaðili.

2.2.       Félagsþjónustusvæðin fimm á Suðurlandi mynda grunneiningar þjónustusvæðisins.

2.3.       Þjónusta við fatlaða verður samþætt félagsþjónustu sveitarfélaganna, þannig að fatlaðir njóti heildstæðrar nærþjónustu hjá félagsþjónustu lögheimilissveitarfélags.

2.4.       Þjónusta innan svæðisins er veitt á jafnræðisgrundvelli og byggja ákvarðanir um veitingu hennar á mati á þjónustuþörf. Sá sem metinn er í mestri þörf fyrir búsetuþjónustu á sambýlum eða þjónustu- og íbúðakjörnum skal að öllu jöfnu hafa forgang að slíkri þjónustu, óháð búsetu. Félagsþjónustur og skjólstæðingar þeirra hafa jafnan aðgang að sérhæfðri þjónustu einstakra félagsþjónustusvæða, sbr. grein 5.2.

3. Stjórn þjónustusvæðisins

3.1.       Fulltrúar aðildarsveitarfélaga samningsins í stjórn SASS  mynda stjórn þjónustusvæðisins á grundvelli sérstaks umboðs, annast almenna stjórnun hans og bera ábyrgð á framkvæmd hans gagnvart aðildarsveitarfélögunum.

3.2.       Framkvæmd samningsins er í höndum félagsþjónusta sveitarfélaganna:

3.2.1.           Félagsþjónustu Sveitarfélagsins Ölfus.

3.2.2.           Félagsþjónustu Hveragerðisbæjar.

3.2.3.           Félagsþjónustu Sveitarfélagsins Árborgar.

3.2.4.           Félagsþjónustu uppsveita Árnessýslu og Flóa.

3.2.5.           Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu.

3.3.       Dagleg stjórnun og samhæfing vegna samningsins er í höndum þjónusturáðs sem  starfar á grundvelli erindisbréfs og gerir tillögur um stærri ákvarðanir og stefnumörkun til stjórnar þjónustusvæðisins.

3.4.       Þjónusturáðið er skipað forstöðumönnum félagsþjónustunnar á þjónustusvæðinu eða staðgenglum þeirra. Um störf þeirra á vettvangi þjónusturáðs gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og annarra laga um opinbera stjórnsýslu eins og nánar er rakið í erindisbréfi. Ráðið kýs sér sjálft formann.

3.5.       Verkefni þjónusturáðs eru:

3.5.1.           Umsjón með daglegri stjórnun samningsins. Í þessu felst meðal annars: (a) umsjón og forgangsröðun innan ramma þjónustusamnings við Sveitarfélagið Árborg, (b) samráð vegna samninga við sjálfstæða þjónustuaðila og (c) stefnumótun í samvinnu við sveitarfélög, notendur og hagsmunaaðila.

3.5.2.           Samhæfing þjónustu innan þjónustusvæðis. Í þessu felst meðal annars: (a) samhæfing um hlutverk, verkaskiptingu og nýtingu þjónustueininga, (b) umfjöllun um málefni þjónustuþega, sérstaklega þeirra sem þurfa þjónustu út fyrir eigið félagsþjónustusvæði (c) umsjón og samhæfing þjónustumats og (d) samráð vegna biðlista á þjónustusvæðinu.

3.5.3.           Verkefni á sviði árangurstjórnunar og eftirlits. Í þessu felst meðal annars: (a) samhæfing árangursmats, (b) samhæfing gæðastjórnunar, (c) samhæfing innra eftirlits, (d) upplýsingaöflun og skýrslugerð, (e) eftirlit með framkvæmd samninga við sjálfstæða þjónustuaðila.

3.5.4.           Verkefni á sviði fjármála: Í þessu felst meðal annars: (a) áætlanagerð og eftirlit vegna rekstrarsjóðs þjónustusvæðis, (b) umsjón með gerð sameiginlegs ársreiknings þjónustusvæðisins, (c) tillögur um jöfnunarframlög og verklagsreglur í því sambandi, (d) tillögur um framlög vegna ófyrirséðra útgjalda og verklagsreglur í því sambandi.

3.6.       Þjónusturáðið setur sér starfsreglur sem stjórn þjónustusvæðisins staðfestir.

3.7.       Heimilt er að bjóða hagsmunaaðilum setu á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétti, þó ekki þegar fjallað er um málefni einstaklinga.

3.8.       Haft skal virkt samráð við fatlaða, aðstandendur og samtök þeirra við stefnumótun og framkvæmd þjónustu.

4. Markmið og stefnumótun

4.1.       Markmið samningsins eru einkum að:

4.1.1.           Tryggja fötluðum samþætta og heildstæða nærþjónustu.

4.1.2.           Laga þjónustu að þörfum og óskum fatlaðra með hliðsjón af ólíkum aðstæðum og stuðla þannig að auknu sjálfstæði þeirra.

4.1.3.           Efla félagsþjónustu á svæðinu.

4.1.4.           Þróa samstarf sveitarfélaga á svæðinu.

4.1.5.           Stuðla að hagræðingu í rekstri með samþættingu þjónustu- og rekstrarþátta.

4.2.       Þjónustusvæðið mun móta sér formlega stefnu um þjónustu við fatlaða á svæðinu í samvinnu við sveitarfélögin, notendur og hagsmunaaðila.

5. Verkefni og rekstrareiningar

5.1.       Félagsþjónustur annast almenna þjónustu við fatlaða, hver á sínu starfssvæði:

5.1.1.           Ráðgjöf og aðra stuðningsþjónustu við fatlaða og fjölskyldur þeirra.

5.1.2.           Rekstur sambýla, þjónustu- og íbúðakjarna (búsetuþjónustu).

5.1.3.           Þjónustu til stuðnings sjálfstæðri búsetu.

5.1.4.           Stuðningsfjölskyldur.

5.2.       Félagsþjónusta Árborgar annast rekstur sérhæfðra þjónustueininga fyrir allt þjónustusvæðið:

5.2.1.           Félagsþjónusta Sveitarfélagsins Árborgar: Skammtímavistun og VISS, vinnu- og hæfingarstöð.

5.3.       Félagsþjónusta Sveitarfélagsins Árborgar annast sameiginleg verkefni þjónustusvæðisins samkvæmt þjónustusamningi við það og sem aðildarsveitarfélögin staðfesta:

5.3.1.           Sérhæfða ráðgjöf, samkvæmt nánari skilgreiningu þjónustusamningsins.

5.3.2.           Stuðning við þjónusturáð vegna sameiginlegra verkefna á sviði stefnumótunar, eftirlits, gæðastjórnunar, árangursmats, upplýsingasöfnunar og skýrslugerðar.

5.3.3.           Samninga við sjálfstæða þjónustuaðila.

5.3.4.           Þjónustu við stjórn þjónustusvæðisins og þjónusturáð, ásamt umsýslu rekstrarsjóðs þjónustusvæðisins.

5.4.       Félagsþjónustusvæði geta gert samninga sín á milli eða við aðra aðila um frekari samvinnu eða samrekstur en samningur þessi kveður á um.

5.5.       Aðildarsveitarfélögin í gegnum félagsþjónustur munu bjóða starfsmönnum þeirra rekstrareininga sem þær taka við störf og hafa einnig samstarf innan þjónustusvæðisins um að bjóða starfsmönnum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Suðurlandi störf.

6. Fjármögnun

6.1.       Aðilar þjónustusvæðisins bera sameiginlega ábyrgð á fjármögnun þjónustu innan svæðisins eins og nánar er kveðið á um í samningum.

6.2.       0,125% af útsvarsstofni sveitarfélaga renna til viðkomandi félagsþjónustusvæðis.

6.3.       Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem byggja á mati á þjónustuþörf tiltekinna einstaklinga renna, að frádregnum 5%, til þeirra félagsþjónustusvæða sem veita viðkomandi einstaklingum þjónustu.

6.4.       Tekjur af rekstri einstakra þjónustueininga renna til rekstraraðila.

6.5.       Til rekstrarsjóðs þjónustusvæðisins renna eftirfarandi tekjur:

6.5.1.           Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna einstaklinga sem njóta þjónustu sjálfseignarstofnana og annarra sjálfstæðra þjónustuaðila.

6.5.2.           5% af  öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þjónustusvæðisins.

6.5.3.           0,125% af útsvarsstofni aðildarsveitarfélaga þjónustusvæðisins.

6.6.       Byggi framlög Jöfnunarsjóðs tímabundið og að hluta til á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010, mun skipting þeirra framlaga byggja á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010 innan einstakra félagsþjónustusvæða.

6.7.       Þjónusturáð tekur ákvarðanir um ráðstöfun sérstakra framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, til dæmis vegna breytingakostnaðar.

6.8.       Heimilt er að breyta hlutfallstölum samkvæmt þessum kafla samningsins með samþykki allra samningsaðila.

7. Útgjöld

7.1.       Félagsþjónustusvæði bera sjálf kostnað vegna almennrar þjónustu við fatlaða, sbr. gr. 5.1.

7.2.       Félagsþjónustusvæði bera kostnað vegna reksturs sérhæfðra þjónustueininga í hlutfalli við notkun og skal nánar kveðið á um þjónustu og greiðslur í samningum einstakra félagsþjónustusvæða við rekstraraðila.

7.3.       Fasteignir sem nýttar eru vegna þjónustu við fatlaða sem og tekjur og útgjöld vegna þeirra eru á forræði einstakra félagsþjónustusvæða.  Þetta ákvæði er þó með fyrirvara um endanlegt fyrirkomulag fasteignamála við yfirfærslu þjónustunnar.

7.4.       Rekstrarsjóður þjónustusvæðisins ber kostnað vegna eftirfarandi þátta:

7.4.1.       Greiðslna til sjálfstæðra þjónustuaðila á grundvelli þjónustusamninga.

7.4.2.       Framlaga vegna jöfnunar og ófyrirséðs kostnaðar.

7.4.3.       Árlegrar greiðslu til Sveitarfélagsins Árborgar vegna sameiginlegra verkefna, sbr. gr. 5.3.

8. Jöfnun og ófyrirséður kostnaður

8.1.       Árlega skal verja ákveðnum hluta rekstrarsjóðs þjónustusvæðisins til jöfnunar milli félagsþjónustusvæða.

8.2.       Jöfnunin skal fyrst og fremst byggja á fjölda og þjónustuþörf fatlaðra einstaklinga sem ekki falla undir jöfnunarframlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, að teknu tilliti til íbúafjölda félagsþjónustusvæða.

8.3.       Árlega skal verja ákveðnum hluta rekstrarsjóðs þjónustusvæðisins til að mæta ófyrirséðum kostnaði einstakra félagsþjónustusvæða sem leitt getur af skyndilegum þjónustuþörfum notenda.

8.4.       Framlög skulu fyrst og fremst mæta skyndilegum og ófyrirséðum kostnaði vegna einstaklinga sem fyrirsjáanlegt er að muni verða grundvöllur jöfnunarframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

8.5.       Stjórn þjónustusvæðisins setur verklagslegur vegna jöfnunar og ófyrirséðs kostnaðar.

8.6.       Þjónusturáð tekur ákvarðanir um framlög innan ramma verklagsreglna.

9. Samningar við sjálfstæða þjónustuaðila

9.1.       Stjórn þjónustusvæðisins er heimilt að fela sjálfstæðum aðilum, s.s. sjálfseignarstofnunum og einkaaðilum, að veita þjónustu á þjónustusvæðinu.

9.2.       Samningar við sjálfstæða aðila skulu m.a. innihalda ákvæði um magn og gæði þjónustu, gæðatryggingu, réttindi notenda, fjármál, endurskoðun, skýrslugjöf, eftirlit og mat á árangri.

9.3.       Sveitarfélagið Árborg er samningsaðili þjónustusvæðisins í  umboði annarra aðildarsveitarfélaga í samráði við stjórn þjónustusvæðisins og þjónusturáð þjónustusvæðisins.

9.4.       Samningur skal staðfestur af stjórn þjónustusvæðisins fyrir undirritun.

10. Eftirlit, mat á árangri og skýrslugerð

10.1.   Komið skal á innra eftirliti með þjónustu sem skal að lágmarki uppfylla opinberar kröfur sem gerðar eru til slíks eftirlits.

10.2.   Árangur þjónustunnar skal metinn reglulega og skal matið meðal annars byggja á viðhorfum notenda þjónustunnar og aðstandenda þeirra.

10.3.   Gefa skal út sameiginlegan ársreikning þjónustusvæðisins sem inniheldur ársreikning rekstrarsjóðs og lykiltölur úr rekstri einstakra félagsþjónustusvæða.

10.4.   Gefa skal út ársskýrslu um starfsemi þjónustusvæðisins, þar sem m.a. skal gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum sem lýsa eðli, umfangi og kostnaði þjónustunnar.

10.5.   Á ársþingi SASS skal gerð grein fyrir ársreikningi og ársskýrslu ásamt fjárhagsáætlun næsta árs.

11. Meðferð ágreinings

11.1.   Rísi ágreiningur um túlkun og framkvæmd á samningi þessum, sem ekki tekst að leysa innan stjórnar þjónustusvæðisins, skal skipa sáttanefnd til að fjalla um ágreininginn og leita lausna á honum.

11.2.   Í sáttanefnd skulu sitja þrír einstaklingar og skal einn tilnefndur af stjórn þjónustusvæðisins einn af félags- og tryggingamálaráðuneyti og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skal hann vera formaður.

11.3.   Sáttanefnd leggur fram tillögu til stjórnar þjónustusvæðisins um lausn ágreiningsins.

11.4.   Samþykki stjórn þjónustusvæðisins ekki sáttatillögu skal sáttanefndin skera úr um ágreininginn.

12. Gildistími og endurskoðun

12.1.   Samningur þessi tekur gildi 1. janúar 2011 og gildir til 31. desember 2014. Samningurinn er ekki uppsegjanlegur.

12.2.   Breytist forsendur samningsins geta samningsaðilar farið fram á endurskoðun hans. Breyttar forsendur teljast m.a.:

12.2.1.       Verulegar breytingar á ákvæðum laga um málefni fatlaðra um umfang og gæði þjónustu við fatlaða.

12.2.2.       Sameining sveitarfélaga eða breytingar á mörkum félagsþjónustusvæða.

12.2.3.       Áætlanir um breytingar á mörkum þjónustusvæðisins.

12.2.4.       Umtalsverð röskun á högum aðildarsveitarfélags sem gerir því ókleyft að efna ákvæði samningsins.

12.3.   Samningsaðilar skulu ákveða sameiginlega fyrir 1. september 2014 hvort stefna skuli að endurnýjun samningsins.

 

Selfossi,  14. september 2010

 

f.h.  Bláskógabyggðar                                  f.h.  Grímsness- og Grafningshrepps

____________________________                ____________________________

 

f.h. Hrunamannahrepps                              f.h. Hveragerðisbæjar

____________________________                ____________________________

 

f.h.Skeiða- og Gnúpverjahrepps                Sveitarfélagsins Árborgar

____________________________                ____________________________

 

f.h. Sveitarfélagsins Ölfuss                         f.h. Flóahrepps

____________________________                ____________________________

 

f.h. Ásahrepps                                              f.h. Rangárþings eystra

____________________________                ____________________________

 

f.h. Rangárþings ytra                                   f.h. Mýrdalshrepps

____________________________                ____________________________

 

f.h. Skaftárhrepps

____________________________