fbpx

Markaðsmál er lykilatriði þegar kemur að rekstri fyrirtækja. Hér verður farið yfir helstu atriði sem tengjast markaðssetningu þó listinn verði seint tæmandi. 

SASS veitir ráðgjöf um markaðsmál.

MARKAÐSSETNING

Tilgangur markaðsstarfs er að auðvelda sölu, kynna og auka þekkingu neytenda á þinni vöru og þjónustu. Allt gengur markaðsstarf út á að selja og það sem selt er getur verið hugmynd, þjónusta, vörur og fleira.

Með markaðsstarfi eru fyrirtæki að reyna að hafa áhrif á viðhorf og þekkingu neytanda. Aukin þekking og jákvætt viðhorf gagnvart vöru og þjónustu eykur líkurnar á því að neytendur kjósi þína vöru umfram aðrar. Mikilvægt er að nálgast öll verkefni á markaðslegan hátt og að fyrirtæki tileinki sér markaðslega hugsun í ákvarðanatöku sinni. Markaðsstarf er lykilþáttur í rekstri fyrirtækja og er mikilvægt að öll vinna sé vel samræmd til að vel takist til og fyrirtæki nái til markhópa sinna.

STP-MIÐUÐ MARKAÐSSETNING

Grunnatiði í markaðsstarfi er að kunna STP og fyrir hvað viðkomandi stafir standa fyrir. STP stendur fyrir Markaðshlutun (Segmenting), Markaðsmiðun (Targeting) og staðfærslu (Positioning).

 

Markðashlutun er skipting ólíks, sundurlauss markaðar í smærri samstæðari markaðshluta til að geta betur náð til viðkomandi hópa, þjónað þeim með vörum og þjónustu sem kemur til móts við þarfir þeirra. Fyrirtæki skilgreina sína markhópa og getur það verið út frá alls konar breytum, s.s. aldri, kyni, lífstíl, viðhorfum, o.s.frv. Gott getur reynst að gera markaðsrannsóknir til að skilgreina einn markhóp frá öðrum. Þetta þarf ekki endilega að vera einn markhópur heldur geta þetta verið ólíkir hópar fyrir mismunandi vörur og þjónustu.

Við val á markhópum þarf að hafa í huga hversu fýsilegt er að sækja á viðkomandi hópa. Hópurinn þarf að vera nægilega stór svo það sé hagkvæmt að þjónusta hann. Það verður einnig að vera raunverulegur munur á milli hópa svo unnt sé að sníða skilaboð að hverjum markhóp. Val á markhóp þarf líka að vera hagkvæmt og að markhópurinn skili fyrirtækinu arðsemi. Að lokum þarf fyrirtækið einnig að geta átt aðgengi að þeim markhópum.

Staðfærlsa vísar til þess staðar sem þú vilt að vörumerkið þitt eigi í hugum neytenda. Hvar ætlar fyrirtækið/varan/þjónustan að vera í hugum neytenda. Vara þarf að vera eftirsóknarverð og markhópurinn þarf að hafa skýra mynd í huga sér af því sem hún hefur umfram aðrar sambærilegar vörur á markaði. Hafa þarf í huga hvað er það sem aðgreinir okkar vörur frá vörum samkeppnisaðila og hvernig ætlum við að skapa vörunni þann sess í huga markhópsins sem við sækjumst eftir?

Allar markaðsaðgerðir fyrirtækja verða að snúa að því að koma staðfærslu þinni í huga neytenda. Það þarf að þróa staðfærsluna fyrir hvern hluta og vinna það samhliða söluráðunum fjórum (4P‘s) og móta þannig þína staðfærslu.

Samval söluráða = 4 P‘s

Samval söluráða er betur þekkt sem 4 P‘s og það sem markaðsfólk er alltaf að vinna með. Söluráðarnir eru:

  • Vara (e. Product)
  • Verð (e. Price)
  • Vettvangur (e. Place)
  • Vegsauki (e. Promotion)

Varan getur verið hvað sem er. Áþreifanleg hlutur, óáþreifanleg, hugmynd eða þjónusta. Allt það sem hægt er að bjóða á markaði í þeim tilgangi að þjóna þörfum eða löngunum. Það að breyta hegðun eða viðhorfi gagnvart, getur talist sem vara.

Verð er það gjald sem tekið er fyrir vörur eða þjónustu. Verð er afstætt, það sem einum finnst dýrt finnst öðrum kosta kjör. Verð tekur almennt mið af þremur þáttum:

  • Viðskiptavininum
  • Samkeppninni
  • Kostnaðinum

Mikilvægt er að jafnvægi sé á milli þessara þriggja þátta. Oft er sagt að verð sé mikilvægasta P-ið af söluráðunum. Það virði sem fyrirtæki bjó til með hinum söluráðunum, þ.e.a.s. vörunni, vettvangnum og vegsaukanum, verður það að ná til í verðlagi sínu. Öll fjárfesting fyrirtækja í viðkomandi vöru/þjóunstu verður það að ná til baka í verðlagningu sinni.

Vettvangur á við hvernig fyrirtæki gera vöru og þjónustu sína aðgengilega. Hvar geta neytendur keypt vöruna eða þjónustuna þína. Geta þeir keypt vöru og þjónustu á netinu, í þinni verslun og/eða í verslunum annarra. Það geta verið margar leiðir til að nálgast vörur og þjónustu.

Upplifun neytenda hvar og hvernig fyrirtæki selja vörur og þjónustu getur líka haft mikil áhrif á hvernig neytendur verðleggja hana. Lykilatriði í vali á dreifileiðum er kostnaður, tryggingar og samkeppni.

Sú starfsemi fyrirtækja sem miðar að því að koma vöru/þjónustu/hugmynd á framfæri við valinn markhóp og hvetur til kaupa eða aðgerða. Mjög margar leiðir standa til boða til að eiga samskipti. Algengustu eru auglýsingar, almannategsl (PR), bein markaðssetning, vef markaðssetning og persónuleg sölumennska.

MARKAÐSSTEFNA

Markaðsstefna er langtíma plan fyrirtækja og algengt er að hún nái yfir 3 til 5 ár. Markaðsstefna er almenn, lýsandi og leiðbeinandi. Markaðsstefna má segja að sé framtíðarsýn fyrirtækja til næstu 3 til 5 ára.

MARKAÐSSÁÆTLUN

Markaðsáætlun er áætlun sem segir til um hvernig fyrirtækið ætlar að fylgja eftir markaðsstefnu sinni og ná markmiðum sínum. Áætlunin er sett upp til skamms tíma og inniheldur þau skref sem þarf að taka til að þokast nær markmiðum fyrirtækisins. Markaðsáætlun er brotin niður og getur verið brotin niður í daga, vikur og mánuði. Hún segir til um hver á að gera hvað, hvers vegna og tilgreinir kostnað. Allt er sett nákvæmlega fram í áætluninni. Fyrirtæki þurfa einnig að sinna eftirliti með markaðsáætlun sinni og athuga stöðuna með 2 – 3 mánaða millibili til þess að endurskoða sett markmið og gang mála.

Einföld uppsetning:

Markaðsstefna – 3-5 ár                 

  • Samantekt fyrir stjórnendur
  • Núverandi markaðsaðstæður
  • SVÓT greining
  • Markmið 
  • Markaðsstefna
  • Áætlaður rekstrarreikningur 
Markaðsáætlun til 12 mánaða

  • Samantekt fyrir stjórnendur
  • Markmið
  • Markaðsstefna
  • Aðgerðaráætlun
  • Áætlaður rekstrarreikningur
  • Eftirlit

VÖRUMERKI

Vörumerki og mótun þess er öflugasta stefnumótunartæki sem stjórnendur fyrirtækja hafa. Sterk vörumerki er afrakstur öflugrar staðfærslu og markaðsstarfs til lengri tíma. Vörumerki segja okkur hvernig við bregðumst við breytingum, hvernig við þjónum viðskiptavinum, hvernig við högum okkur og hvernig við tjáum okkur.

Vörumerki er ekki einungis myndmerkið sem við stimplum framan á umbúðir eða merkjum skrifstofurnar okkar með. Vörumerki eru allar tengingarnar sem býr í hugum neytenda og hvernig við tengjum það myndmerki. Það hefur áhrif á hvernig við seljum vöruna, hvernig við ráðum og þjálfum fólk. Árangur fyrirtækja ræðst af því hversu vel vörumerki þeirra ná að tala við neytendur og viðskiptavini.

Hafðu samband við ráðgjafa SASS