fbpx

Fyrsti hluti nýrrar 5.256 fermetra viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi var formlega tekin í notkun 24. janúar sl.. Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna. Framkvæmdir við bygginguna hófust síðla árs 2004. Núverandi húsnæði sjúkrahússins er um 4.500 fermetrar, þannig að um tvöföldun er að ræða með tilkomu nýju byggingarinnar.

Fanný Sigurðardóttir, 95 ára í dag,  vistmaður á Ljósheimum klippir á borða og henni til aðstoðar eru Guðlaugur Þ. Þórðarson, heilbrigðisráðherra og Magnús Skúlason, forstjóri HSu

Í kjallara verður fundaaðstaða og kennslurými. Þar verður einnig staðsett kapella og tæknirými ásamt fullkominni endurhæfingaraðstöðu. Á 1. hæð verður heilsugæslustöð og á 2. og 3. hæð verða tvær hjúkrunardeildir fyrir aldraða. Hvor deild mun hafa yfir að ráða tuttugu rúmum. Heimilisfólk á hjúkrunardeildinni Ljósheimum á Selfossi munu nú um mánaðamótin flytjast yfir í nýju bygginguna.  Þessi fyrsti áfangi sem nú er verið að taka í notkun kostar um 860 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins. Áætlaður kostnaður við næsta áfanga sem tekur til þess að ljúka við 3. hæðina er metinn á um 330 milljónir króna. Lokaáfanginn, þar sem lokið verður við kjallara og 1. hæð er er metinn á um 300 milljónir króna. Samtals er því reiknað með að kostnaður við viðbygginguna verði 1.500 milljónir króna. Inni í þessum tölum er allur búnaður og miðast upphæðin við bygginguna fullgerða. Þessi niðurstöðutala er í fullu samræmi við þær áætlanir sem lagt var upp með þegar hafist var handa við bygginguna. Uppreiknaður kostnaður er jafnvel ívið lægri en búist var við.

Með tilkomu nýju byggingarinnar fjölgar hjúkrunarrýmum fyrir aldraða úr 26 í 40 á Selfossi, eða um tæp 60%. Öll herbergi á hjúkrunardeildunum eru einstaklingsherbergi. Heilsugæslan fær nýtt og rúmbetra húsnæði á 1. hæð, endurhæfingaraðstaða verður stórbætt, auk þess sem stofnunin fær nýjan og stórglæsilegan aðalinngang og anddyri. Í eldri byggingunni verður efld aðstaða fyrir rannsóknadeild, læknamóttökur og skrifstofur.

Stefnt er að því að bjóða út framkvæmdir við að ljúka 1. hæð og kjallara, á fyrri hluta ársins. Jafnframt er eftir að ráðast í nauðsynlegar breytingar á eldri byggingunni en ekki liggur fyrir tímasetning hvenær þær breytingar verða boðnar út.

Starfsemi HSU skiptist í meginatriðum í þrennt: Heilsugæslu, sjúkrahús og hjúkrunardeildir aldraðra. Heilsugæslustöðvar eru átta, frá Þorlákshöfn og Hveragerði í vestri til Kirkjubæjarklausturs í austri. Sjúkrahús er á Selfossi þar sem m.a. er veitt þjónusta í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum, skurðlækningum, lyflækningum, barnalækningum, myndgreiningu, rannsóknum og sjúkraþjálfun. Í nýbyggingunni verða síðan tvær hjúkrunardeildir fyrir aldraða, samtals 40 rúm. Þá annast stofnunin alla sjúkraflutninga á Suðurlandi, ásamt því að reka Réttargeðdeildina að Sogni þar sem vistaðir eru ósakhæfir einstaklingar. Alls eru um 220 stöðugildi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.