fbpx

Menntaverðlaun Suðurlands 2016 voru afhent í níunda sinn á hátíðarfundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í gær. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, veitti verðlaunin. Alls bárust tilnefningar um tíu verkefni og voru þær mjög fjölbreyttar. Úthlutunarnefnd á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fjallaði um umsóknirnar. Verðlaunin hlaut Framhaldsskólinn í Austur – Skaftafellssýslu.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi sem um leið er hvatning til frekari dáða.

Framhaldsskólinn í Austur – Skaftafellssýslu hefur unnið markvisst að náttúrufarsrannsóknum með nemendum sínum allt frá árinu 1990. Nemendur skólans kynnast náttúrurannsóknum með vettvangsferðum, mælingum og rannsóknarúrvinnslu. Rannsóknirnar snúa að jökulsporðum, framvindu gróðurs á Skeiðarársandi, viðgangi álftastofns í Lóni og fuglum í fólkvanginum Óslandi á Höfn.

Skólinn er í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands og nemendur öðlast þannig mikilvæga þekkingu á náttúrunni og fá leiðsögn í vísindalegri úrvinnslu sem nýtist áfram í lífinu og frekari námi.

Það er mat úthlutunarnefndar að náttúrurannsóknir skólans eru einstakar á margan hátt og eiga ekki sinn líka á framhaldsskólastigi. Þær eru einstakt framlag til rannsóknarvinnu og kennslu á náttúrunni í nærsamfélagi skólans sem nýtist m.a. nemendum, fræðasamfélaginu og sögu lands og náttúru á Íslandi. Nánari upplýsingar um náttúrufarsrannsóknir í FAS má sjá á slóðinni www.nattura.fas.is

 

Á myndinni er Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson ásamt þeim Hjördísi Skírnisdóttur og Hildi Þórsdóttur, sem tóku á móti verðlaununum fyrir hönd Framhaldsskólans í Austur–Skaftafellssýslu.

 

Aðrir sem hlutu tilnefningu voru:

  • Leikskólinn Leikholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir metnaðarfullt og gott starf í leikskólanum, m.a. á sviði umhverfismála. Þá er gott samstarf á milli skóla og foreldra.
  • Jökulmælingar á Sólheimajökli í Hvolsskóla fyrir merkilegt verkefni um jökulmælingar sem hefur verið unnið að í 6 ár. Kennsla fer fram á mælingatæki og unnið er að úrvinnslu.
  • Foreldrafélag leikskólans Undralands á Flúðum fyrir öflugt foreldrasamstarf sem og góðan stuðning foreldra við leikskólann á margan hátt.
  • ART verkefnið á Suðurlandi fyrir að skila börnum og unglingum betri sjálfsmynd, auknu sjálfsöryggi, betri líðan og aukinni færni í félagslegum samskiptum.
  • Dagur íslenskrar tungu í Hvolsskóla fyrir metnaðarfulla hátíðardagskrá í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem hefur verið haldin undanfarin 12 ár með opnu húsi og heiðursgesti.
  • Kristín Gísladóttir kennari við Þjórsárskóla fyrir að vera m.a. öflugur og framsækinn kennari sem er óhrædd við að fara óhefðbundnar leiðir í kennslu.
  • Samborg, samtök foreldrafélaga í leik- og grunnskólum Árborgar fyrir að efla samstarf foreldrafélaga í skólum sveitarfélagsins í Árborg, m.a. með foreldrafræðslu og að beita sér í málefnum er varða börn og skólastarf í sveitarfélaginu.
  • Hvolsskóli fyrir nám í hestamennsku í landbúnaðarhéraði – Knapamerki 1 og 2 en Knapamerkin eru valáfangar fyrir nemendur skólans á elsta stigi.
  • Edda Guðlaug Antonsdóttir, forstöðumaður skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, fyrir áratuga starf við menntamál og frumkvöðlastarf við stofnun sérfræðiþjónustu fyrir leik- og grunnskóla á svæði skólaþjónustunnar.