fbpx

 

Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Byggðarannsóknasjóði til rannsókna á sviði byggðamála. Umsóknir þurfa að berast eigi síðar en miðvikudaginn 28. febrúar n.k. Til úthlutunar eru 10 m.kr.

Í umsóknum skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á rannsókninni, markmiðum hennar, ávinningi, nýnæmi og hvernig hún styður við tilgang sjóðsins. Við mat á umsóknum er meðal annars litið til hvernig verkefnið styður við markmið sjóðsins, vísindalegs- og hagnýts gildis þess og hæfni umsækjenda.

Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnanir eða aðrir lögaðilar.

Styrkir verða veittir til eins árs. Sjóðurinn hefur allt að 10 milljónir króna til úthlutunar. Samkvæmt reglum sjóðsins er miðað við að styrkirnir séu ekki færri en þrír og ekki fleiri en fimm í hvert sinn.

Umsóknum skal skila í umsóknargátt Byggðastofnunar.

Reglur um sjóðinn má nálgast hér.
Einnig má sjá hér starfsreglur stjórnar Byggðarannsóknasjóðs.

Frekari upplýsingar um Byggðarannsóknasjóð er að finna á vef Byggðastofnunar. Byggðastofnun hefur veitt styrki úr Byggðarannsóknasjóði allt frá árinu 2015. Alls hafa 32 verkefni hlotið styrk á árunum 2015-2022 að heildarfjárhæð 78,9 m.kr. Á árinu 2022 fengu fjögur verkefni styrk:
– Háskólinn á Hólum: Ráðandi tungumál í íslenskri ferðaþjónustu. Skoðað verður hver staða íslensku er í íslenskri ferðaþjónustu. Einnig á að skoða hvernig íslenskan er notuð í markaðssetningu í ferðaþjónustu og vekja athygli á þeim menningararfi sem felst í
tungumálinu.
– Háskólinn á Akureyri: Working class women. Rannsaka á andlega og líkamlega heilsu kvenna með lágar tekjur, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Finna á út hvernig velferðarstefna stjórnvalda virkar fyrir þennan hóp eða virkar ekki, en rannsóknir á þessum þjóðfélagslega hópi skortir.
– Háskóli Íslands: The Role of Cultural Institutions. Skoða á hlutverk menningarstofnana og samfélagsmiðstöðva á landsbyggðinni gagnvart innflytjendum og hvort þær eru í stakk búnar til að leggja sitt af mörkum til aðlögunar þeirra. Starfsemin í dreifbýlinu verður sérstaklega til skoðunar. Verkefnið er unnið í samstarfi við nokkur bókasöfn á landinu, en staðirnir voru valdir út frá hlutfalli íbúa af erlendum uppruna.
– Háskóli Íslands: Sjálfboðaliðar í brothættum byggðum. Varpa á ljósi á hverjar helstu ástæður eru fyrir ráðningu erlendra sjálfboðaliða í dreifbýli og hver áhrif þess eru á atvinnumál og afkomu nærsamfélagsins.

Nánari upplýsingar veitir Hanna Dóra Björnsdóttir
Netfang: hannadora@byggdastofnun.is
Sími 455 5454 og 898 6698