fbpx

Samtök ferðaþjónustunnar afhentu þann 11. nóvember sl. Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar 2021, að þessu sinni var það Icelandic Lava Show sem hlaut verðlaunin. Er þetta í 18 skipti sem verðlaunin eru veitt. Eru þau afhent fyrir athyglisverðar nýjungar, með það að markmiði að hvetja fyrirtæki til nýsköpunar.

Það eru frábærar fréttir að fyrirtæki á Suðurlandi hafi hlotið þessi verðlaun og sýnir þau tækifæri til nýsköpunar sem eru til staðar í landshlutanum. Auk þess er ánægjulegt að geta þess að Uppbyggingarsjóður Suðurlands studdi við verkefnið á upphafsstigum þess áður en að það kom til að opna sýninguna í Vík. Fengu þau m.a. styrk vorið 2018 og var sýningin opnuð 1. september sama ár.

Icelandic Lava Show er einstök sýning, en um er að ræða einu hraunsýningu í heiminum þar sem hægt er að sjá bráðið hraun. Hraun frá Kötlugosinu 1918 er brætt í 1100 gráðu hita og því hellt inn í sýningarsal. Áhorfendur fá þannig tækifæri til að komast í návígi við bráðið hraun.

Við óskum Icelandic Lava Show innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.

Nánar má sjá um Icelandic Lava Show hér.