fbpx

Eirný Vals hefur verið ráðin „ Verkefnisstjóri  Brothættra byggða – Skaftárhreppur til framtíðar“,  hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.  Eirný mun hafa búsetu í Skaftárhrepp og hefja störf um næstu mánaðarmót.

Alls bárust 28 umsóknir. Sex umsækjendur voru teknir í viðtal og í framhaldinu var Eirný Vals ráðin.

Eirný hefur mikla þekkingu og reynslu af byggðamálum og starfi á vettvangi sveitarstjórna og verður góður liðsauki fyrir SASS, Byggðastofnun og Skaftárhrepp í krefjandi verkefni næstu missera.

Eirný segir að starfið leggist vel í sig, hún hlakki til að kynnast íbúum Skaftárhrepps og vinna með þeim að verkefninu. Hún er með meistarapróf í verkefnastjórnun, MPM frá HÍ,  auk MBA frá sama skóla, einnig er hún rekstrarfræðingur frá Bifröst.

Hún hefur víðtæka reynslu af störfum fyrir sveitarfélög og ríki. Árin 1979 -1983 starfaði hún hjá Ölfushreppi (sem síðar varð Sveitarfélagið Ölfus) síðar var hún hjá Ísafjarðarbæ, Akraneskaupstað og Sveitarfélaginu Vogum.  Þá vann hún lengi hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, og auk þess var hún um tíma hjá Landsbanka Íslands og Íslandsbanka á Akranesi.

Áhugamál  hennar til margra ára hefur verið hvernig búseta þróast og hvað þarf til svo byggðarlög dafni og eflist. Einnig hefur hún gaman af bókmenntum, tónlist, útiveru og ferðalögum.

Hún er gift Sigmundi Grétarsyni og á uppkomin son og barnabarn sem fæddist 15. febrúar 2015.

Föðurforeldrar Eirnýjar voru Pálína Benediktsdóttir frá Einholti á Mýrum og Einar Sigurðsson frá Slindurholti á Mýrum, þau bjuggu seinast í Einholti í Ölfusi.  Móðurættin er frá Færeyjum.