fbpx

Blóm í bæ Blom 3 Blóm í bæ Blom 1 Blóm í bæ Blom 2

„Blóm í bæ“ – stórsýning græna geirans í Hveragerði um helgina

Garðyrkju- og blómasýningin „Blóm í bæ“  verður  haldin í fimmta sinn í Hveragerði dagana 27. til 30. júní eftir mikla velgengni síðastliðinna ára. Tugir þúsunda hafa sótt hátíðina heim, veðrið hefur ávallt  leikið við Hvergerðinga og gestir hátíðarinnar, sem  hafa því notið fjölbreyttrar sýningar í yndislegu umhverfi. Sýningasvæðið er í alfaraleið fyrir ferðamenn enda í aðeins um 30 mínútna fjarlægð frá  höfuðborginni.

Formleg setningarathöfn er á föstudeginum kl. 16 og þar með hefst viðburðarrík helgi í blómabænum. Allt sem tengist garðyrkju, umhverfismálum, íslenskri framleiðslu og handverki verður á sýningunni. Sýningar, markaðir og ýmsar keppnir verða allan  sýningartímann.

Þema sýningarinnar í ár er „Regnboginn“ og taka skreytingar mið af því en einnig keppnir hátíðarinnar en keppt er til dæmis um regnbogaköku ársins. Lögð verður áhersla á að gera yngstu kynslóðinni hátt undir höfði.  Sirkus, leiktæki og uppákomur verða fyrir börnin þannig að engum ætti að leiðast. Góð aðstaða til gistingar er í boði á tjaldsvæði.

Meðal stærstu viðburða eru:

LandArt: Erlendir blómaskreytar munu dvelja í bæjarfélaginu í nokkra daga og töfra fram skreytingar úr náttúrulegum efnum í og við Varmárgljúfur.

Boðið verður uppá garðasúpu í nokkrum völdum glæsilegum görðum á laugardag milli  klukkan 17:30 og 19. Um leið og gestir gæða sér á gómsætri súpunni geta þeir skoðað garða gestgjafanna sem allir eru einstaklega fallegir.

Leitað verður að blómálfum í Lystigarðinum á sunndeginum. Allan tímann verður  keppni í plöntugreiningu og fyrirlestrar um garðrækt, fjársjóðsleit og fræðslugöngur, víkingar og handverksfólk. Strandblaksmót verður alla helgina og þrautabrautin er uppi í  sundlauginni í Laugaskarði.

Útbúið hefur verið veglegt sýningarsvæði fyrir garðplöntur þar sem virða má fyrir sér sumarblóm, berjarunna, matjurtir og fjölæringa.  Risa sölu- og sýningarsvæði verður á sýningunni. En svæðið skiptist í útisvæði og  markaðstjöld. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja sýna þar og selja vörur sínar. Lífleg  markaðsstemning í sölutjöldum verður allsráðandi með skemmtilegum uppákomum. Veitingar verða seldar í tjöldum en miðbær Hveragerðis verður allur lagður undir sýningarsvæðið. Íbúar Hveragerðisbæjar munu taka virkan þátt í sýningunni en þeir hafa verið hvattir til að skreyta innkeyrslur sínar með blómum og öðru og ennfremur munu þeir taka virkan þátt í þeim samkeppnum sem haldnar verða.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.blomibae.is og á facebook.

Sýningin hefst á föstudag kl. 12 en henni lýkur á sunnudeginum kl. 17.