fbpx

Undanfarið hafa sveitarfélögin fjögur í Uppsveitum Árnessýslu, þ.e. Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur unnið að stefnumótun um atvinnumál. Vinnan var unnin í samvinnu við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og höfðu þau Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri þróunarsviðs SASS og Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúa Uppsveita umsjón með stefnumótunarvinnunni.

Hvert sveitarfélag lagði til tvo fulltrúa í vinnuhóp sem fundaði reglulega frá hausti 2022 fram á vorið 2023. Atvinnumálastefnan var unnin á grunni handbókar SASS um gerð atvinnustefnu fyrir sveitarfélög og svæði. Stefnan tekur mið af Sóknaráætlun Suðurlands og unnin á grunni tölulegra upplýsinga sem tengjast atvinnu- og byggðamálum á svæðinu, íbúakönnun og atvinnumálaþingi sem haldið var með íbúum á svæðinu.

Drög að atvinnumálastefnu Uppsveita fyrir 2023-2027 voru lögð fram til kynningar í mars s.l. og íbúum boðið að koma með athugasemdir eða tillögur. Nokkrar ábendingar bárust sem munu nýtast við innleiðingu og framkvæmd stefnunnar. Lokadrög voru lögð fyrir í maí og stefnan að lokum samþykkt af öllum sveitarfélögum nú í júní.

Eigandi og ábyrgðaraðili atvinnumálastefnunnar eru sveitarfélögin fjögur. Þau mynda jafnframt eitt atvinnusóknarsvæði og hafa sveitarfélögin ýmissa sameiginlegra hagsmuna að gæta í málaflokknum. Í stefnunni er lagt til að sameiginlegur byggðaþróunarfulltrúi, sem unnið er að því að ráða í samvinnu sveitarfélaganna í Uppsveitum og SASS, muni annast innleiðingu og árlegt stöðumat stefnunnar. 

Atvinnumálastefna-Uppsveita-samthykkt-juni-2023

Hægt er að nálgast stefnuna hér (PDF).