fbpx

 

594. fundur stjórnar SASS

Austuvegi 56 Selfossi  
24. mars 2023, kl. 12:30-16:05

 

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson og Brynhildur Jónsdóttir. Njáll Ragnarsson tengist fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Einar Freyr Elínarson og Grétar Ingi Erlendsson boðuðu forföll og í þeirra stað komu Jóhannes Gissurarson og Sigurbjörg Jónsdóttir. Undir dagskrárlið tvö taka þátt Sýslumaðurinn á Suðurlandi Kristín Þórðardóttir og Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum Arndís Soffía Sigurðardóttir. Undir dagskrárlið þrjú taka þátt Ása Valdís Árnadóttir formaður Orkusveitarfélaga og oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps og Haraldur Þór Jónsson oddviti og sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Einnig taka þátt Þórður Freyr Sigurðsson sviðstjóri Þróunarsviðs SASS og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. 

Formaður býður fundarmenn og gesti fundarins velkomna.

1. Fundargerð
Fundargerð 593. fundar staðfest og undirrituð. Einnig voru eldri fundargerðir undirritaðar.

2. Starfsemi sýslumannsembætta á Suðurlandi  

Kristín Þórðardóttir og Arndís Soffía Sigurðardóttir sýslumenn kynna þróun, starfsemi og skipulag embættanna. þær fara yfir helstu áskoranir sýslumanna í landshlutanum en auk lögbundinna verkefna sinna embættin einnig ýmsum sérverkefnum á landsvísu en í Vestmannaeyjum er t.d. séð um löggildingu skjalaþýðenda og dómtúlka, auðkennahreinsun og birting úrskurða dómsmálaráðuneytisins, rafræn útgáfa reglugerðasafns, verkefni tengd staðfestingu og stofnunar hjúskapar. Hjá Sýslumanninum á Suðurlandi tengjast sérverkefnin m.a. útgáfa stærri happdrættisleyfa, færslu bókhalds fyrir íslensk sendiráð, útgáfa Lögbirtingablaðsins og útgáfa ýmissa annarra leyfa. Þær kynna einnig stafræna vegferð sýslumanna á landsvísu og breytingar sem eru í farvatninu. Þær svara spurningum og hugleiðingum stjórnarmanna. 

3. Orkusveitarfélög

Ása Valdís Árnadóttir og Haraldur Þór Jónsson kynna tilgang samtaka Orkusveitarfélaga, helstu álitamál sem snúa að málefnum þeirra og verkefni sem unnið er að. Orkusveitarfélögin hafa skipað starfsnefnd sem Haraldur Þór fer fyrir. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að vinna tillögur að breytingum hvað varðar tekjur sveitarfélaga af orkuframleiðslu, nýjum lögum um orkuvinnslu og til að koma á virkara samtali hagaðila í samráði við stjórn samtakanna. 

Haraldur Þór kynnir stöðu vinnunnar en gert er ráð fyrir að tillögur hennar liggi fyrir í lok mánaðarins. Ása Valdís og Haraldur Þór svara spurningum og hugleiðingum stjórnarmanna. 

Stjórn SASS tekur undir bókun Samtaka orkusveitarfélaga um mikilvægi þess að arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu skiptist með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar við orkuvinnslu. Tryggja þarf að nærumhverfið, þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti sanngjarns ávinnings. Lögð er áhersla á að sveitarfélög fái hlutdeild í auðlindagjaldi og að fasteignaskattar verði greiddir af öllum fasteignum, þ.m.t. Öllum mannvirkjum sem tengjast virkjunum og flutningi rafmagns. Er það í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022-2026 um styrkingu og breikkun tekjustofna sveitarfélaga svo stuðla megi að fjárhagslegri sjálfbærni þeirra. 

Auk þess árétta stjórn SASS mikilvægi þessa að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli. 

4. Sóknaráætlun Suðurlands – Uppbyggingarsjóður Suðurlands fyrri úthlutun 2023.

Þann 4. mars rann út umsóknarfrestur í Uppbyggingarsjóð Suðurlands í fyrri úthlutun 2023. Alls bárust 120 umsóknir, sem eru töluvert fleiri umsóknir en síðustus ár. umsóknri skiptust þannig; 73 umsóknir í flokk menningarverkefna og 47 umsóknir í flokk atvinnu- og nýsköpunarverkefna.

Þórður Freyr kynnir vinnu fagráðanna tveggja og forsendur sem liggja til grundvallar tillögum þeirra. Fagráðin gera tillögu að úthlutun alls 38,7 m.kr. til samtals 63 verkefna.

Fagráð menningar gerir tillögu um að veita 50 verkefnum af 73 styrk eða 68%, samtals að fjárhæð 21,4 m.kr. Úthlutun reyndist vandasöm fyrir fagráðið þar sem gæði umsókna voru mikil og mörg verkefnin verðug styrks.

Stjórn samþykkir tillögur fagráðs menningar með einni breytingu en það verkefni hefur hlotið styrk sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands. Stjórn SASS áréttar að ekki verði gerðir nýir samningar nema fyrri verkefnum styrkþega sé lokið.

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar gerir tillögu um að veita 13 verkefnum af 47 styrk eða 28%, samtals að fjárhæð 17,3 m.kr. Ekki voru gerðar fleiri tillögur sökum þess að aðrar umsóknir uppfylltu ekki formskilyrði eða var á annan hátt ábótavant. Stjórn SASS hvetur umsækjendur við gerð umsókna að leita sér aðstoðar eða yfirlesturs hjá byggðaþróunarfulltrúum.

Stjórn samþykkir tillögu fagráðs atvinnuþróunar- og nýsköpunar óbreytta.

Fyrir næstu úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands verður skerpt á úthlutunarreglum sjóðsins um að umsóknir verði ekki teknar til efnislegrar meðferðar sé fyrri verkefnum ekki lokið, áfangaskýrslu hafi verið skilað eða sótt sé um of háan styrk.

Stjórn SASS þakkar umsækjendum fyrir áhugaverðar og vel unnar umsóknir.

Miðvikudaginn 5. apríl nk. verða niðurstöður styrkúthlutunar birtar á rafrænni úthlutunarhátíð sem hefst kl. 12:15, sjá betur hér.  

5. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerð 553. fundar stjórnar SSH, fundargerð 50. fundar stjórnar Vestfjarðastofu, fundargerð 786. fundar stjórnar SSS, fundargerð 7. fundar stjórnar SSA, fundargerðir 91. – 92. funda stjórnar SSNV, fundargerðir 173. – 174. funda stjórnar SSV, fundargerðir 48. – 49. funda stjórnar SSNE, fundargerð 87. fundar stýrihóps Stjórnarráðsins og fundargerðir 919. – 920. funda stjórnar sambandsins.

b. Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni og hvað framundan er en meðal atriða má nefna að: Áfram er unnið að gerð samstarfssamninga um byggðaþróun og atvinnuráðgjöf; Samráðsfundur sambandsins og landshlutasamataka fór fram 10. mars sl.; Námskeið tengt Sveitarfélagaskóla Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á Hótel Selfossi 14. mars sl. og gert er ráð fyrir öðru á Suðurlandi 25. apríl nk.; Lokadagur hraðalsins „Sóknarfæri í nýsköpun“ var haldinn 16. mars sl. í Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi að viðstöddum fjölmennum hópi áhugasamra. Þá kynntu átta teymi sunnlenskra frumkvöðla sín verkefni; Þrjú verkefni af Suðurlandi taka þátt í fjárfestahátíðinni Norðanátt á Siglufirði en það eru: Frostþurrkun, Melta og Vínland Vínekran; Magnús Yngvi Jósefsson hefur verið ráðinn í starf verkefnisstjóra hjá Orkídeu; Á næstu vikum verður umhverfisfræðingur SASS, með vinnufundi með fulltrúum sveitarfélaganna til að vinna að gerð loftslagsstefna fyrir sveitarfélögin; Hugrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, hefur verið ráðinn til Kötluseturs í Vík sem verkefnastjóri fjölmenningar á miðsvæðinu.

c. Hvatning til sveitarstjórna vegna tillagna verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Lagt fram til kynningar bréf frá innviðaráðherra og formanni sambandsins dags. 15. mars sl. en þar eru sveitarstjórnir hvattar til að kynna sér tillögur verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa.

d. Greinargerð SSV um förgun dýrahræja og sláturúrgangs

Ráðstöfun dýraleifa (eða aukaafurða dýra) hefur lengi verið eitt helsta vandamálið í úrgangsstjórnun á Íslandi, en með dýraleifum er átt við sláturúrgang, dýrahræ og hvers konar úrgang annan sem til fellur vegna meðhöndlunar eða úrvinnslu dýraafurða.

Stefán Gíslason hjá Environice hefur unnið minnisblað fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og er það aðgengilegt hér.

e. Byggðaþróunarfulltrúi

Sveitarfélögin Rangárþing eystra og Rangárþing ytra óska eftir að gerður verði samningur við SASS um verkefni byggðaþróunarfulltrúa í Rangárvallasýslu en sveitarfélögin hafa verið að skoða möguleika á því að ráða sameiginlega fulltrúa sem væri þá í 50% starfshlutfalli í verkefnum fyrir SASS og 50% starfshlutfalli í verkefnum fyrir sveitarfélögin tvö. Starfssvæði byggðaþróunarfulltrúa yrði öll Rangárvallasýsla. Aukin þjónusta sem fengist fyrir mótframlag sveitarfélaganna færi til að sinna öðrum mikilvægum byggðaþróunar-verkefnum.

Samstofna erindi liggur fyrir frá oddvitum fjórum í Uppsveitum en sveitarfélögin fjögur hafa um langt árabil átt mikið samstarf á mörgum sviðum. Oddvitarnir óska eftir SASS geri samning við eitt sveitarfélaganna um rekstur á byggðarþóunarfulltrúa en öll fjögur tækju þátt í rekstri hans með 50% mótframlagi. Markmiðið með því að semja við eitt sveitarfélag um þjónustuna er að yfirbygging sé í lágmarki og stjórnsýsla einföld.

Niðurstaða stjórnar er að fela formanni og framkvæmdastjóra að skoða þetta nánar með Byggðastofnun sem samtökin er með samning við. Endanleg útfærsla byggi á umræðum fundarins.

Farið var yfir mönnun á ráðgjafaþjónustu og hugmynda um breytingu á skipulagi. Niðurstaða stjórnar er að fela framkvæmdastjóra að taka saman minnisblað um stöðuna. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

 

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 5. maí nk. kl. 12:30. 

Fundi slitið kl. 16:05
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Brynhildur Jónsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson
Árni Eiríksson 
Njáll Ragnarsson 
Jóhannes Gissurarson
Sigurbjörg Jónsdóttir 

 

594. fundur stjórnar SASS (.pdf)