fbpx

569. fundur stjórnar SASS 
Haldinn í fjarfundi 
7. maí 2021, kl. 13:00 – 15:00

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Helgi Kjartansson, Lilja Einarsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir, Einar Freyr Elínarson, Brynhildur Jónsdóttir og Jón Páll Kristófersson. Ari Björn Thorarensen og Grétar Ingi Erlendsson boðuðu forföll. Einnig tekur þátt Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. Fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundarhugbúnað.

Formaður setur fundinn og býður fundarmenn velkomna.

1. Fundargerð
Fundargerð 568. fundar staðfest en hún verður undirrituð síðar.

2. Ársreikningur SASS 2020
Framkvæmdastjóri kynnir drög að ársreikningi SASS fyrir árið 2020. Rekstrarafkoma samtakanna af reglulegri starfsemi er neikvæð um 2,5 m.kr. Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga samtakanna var ríflega 21 m.kr. á rekstrarárinu. Samkvæmt efnahagsreikningi er bókfært eigið fé jákvætt um 1,4 m.kr. í lok ársins.

Ársreikningur staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra en hann verður formlega frágenginn með undirritun 26. maí n.k.

3. Áfangastaðastofa
Formaður kynnir minnisblað sem ráðgjafi hefur tekið saman að ósk SASS um helstu valkosti við uppbyggingu áfangastaðastofu í landshlutanum ásamt kostum þeirra og göllum. Minnisblaðið er hugsað sem umræðugrunnur um valkosti stjórnar SASS. Fram kemur í samningi á milli SASS og ANR um uppbyggingu áfangastaðastofu að markmiðið er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi ferðaþjónustu á Suðurlandi. Í samningnum er gert ráð fyrir að áfangastaðastofan búi yfir sérhæfðum mannauði, þekkingu og reynslu til að sinna hlutverki sínu. Þar er jafnframt áréttað að áfangastaðastofa starfi í umboði sveitarfélaga á Suðurlandi, sé vettvangur þeirra, ríkis og atvinnugreinarinnar á svæðinu. Einnig er tiltekið að það skuli vera ákvörðun SASS og sveitarfélaganna hvernig þessu hlutverki verði best sinnt.

Niðurstaða stjórnar er að áfram verði unnið að gerð samnings við Markaðsstofu Suðurlands (MSS) um að hún, í umboði sveitarfélaga á Suðurlandi, sinni rekstri áfangastaðastofu. Til að tryggja betur hagsmuni og aðkomu sveitarfélaganna á Suðurlandi að þessu nýja verkefni er ákveðið að mynda fimm manna stýrihóp um verkefnið. Í honum sitja aðal- og varamenn sem tilnefndir eru ár hvert á ársþingi SASS í stjórn MSS og oddamaður. Í stýrihópnum verða því: Grétar Ingi Erlendsson, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Ása Valdís Árnadóttir og Friðrik Sigurbjörnsson sem tilnefnd voru á nýliðnu ársþingi. Oddamaður er Jóna Sigríður Guðmundsdóttir en hún er skipuð af stjórn SASS fram að næsta ársþingi. Stjórn samþykkir jafnframt að málið verði til frekari umræðu á komandi ársþingi samtakanna.

Formanni og framkvæmdastjóra falið að uppfæra drög að samningi við MSS í samræmi við umræður á fundinum.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

  1. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka.
    Lagðar fram til kynningar, fundargerðir 522. – 524. funda stjórnar SSH, fundargerðir 24. og 25. funda stjórnar SSNE, fundargerðir 767. – 768. funda stjórnar SSS, fundargerðir 159. – 160. funda stjórnar og fundargerð aðalfundar SSV, fundargerð aðalfundar og 65. fundar stjórnar SSNV, fundargerðir 32. – 35. funda stjórnar Vestfjarðastofu, fundargerðir 116. – 117. funda stjórnar Austurbrúar, fundargerð 896. og 897. funda stjórnar sambandsins og fundargerð 70. stýrihóps stjórnarráðsins.

  2. Rekstur hjúkrunarheimila
    Lilja fer yfir ný útkomna skýrslu sem ber heitið Greining á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila og fjallar um rekstur hjúkrunarheimila, stöðu og horfur. Skýrslan er unnin af verkefnastjórn sem heilbrigðisráðherra skipaði og hana má finna á vef heilbrigðisráðuneytisins.

    Stjórn samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) fagnar framkominni skýrslu. Í skýrslunni koma fram mikilvægar upplýsingar og skapast nú tækifæri til að bregðast við þeim.

    Nauðsynlegt er að standa vörð um rekstur hjúkrunarheimila á landinu öllu og tryggja með þeim hætti samfellda heilbrigðisþjónustu við íbúa landsbyggðarinnar allrar til æviloka. Þrátt fyrir að nokkur sveitarfélög hafi sagt sig frá rekstri hjúkrunarheimila, nauðbeygð vegna óviðunandi rekstarumhverfis, er það ekki sameiginleg stefna sveitarfélaganna. Nauðsynlegt að gera þeim rekstraraðilum sem ekki hafa farið þá leið eða eru að taka við kleift að halda áfram rekstri þessarar mikilvægu þjónustu.

    Þó að niðurstöður skýrslunnar bendi til þess að mesta rekstrarhagræðingin sé hjá stærstu einingunum er það óvinnandi vegur að öll hjúkrunarheimili verði af þeirri stærðargráðu, ef veita á þjónustuna víðs vegar um landið. Taka þarf tillit til rekstrarhagkvæmni á grundvelli stöðugilda viðkomandi stofnunar og fjölda rýma, en gríðarlegt óhagræði getur skapast við breytingu á fjölda rýma með tilliti til mönnunar á minni hjúkrunarheimilum með tilheyrandi rekstaráhrifum.

    Einnig kemur fram í skýrslunni að stærstu heimilin séu með mestu hjúrkurnarþyngdina. Í því samhengi þarf að taka inn í myndina að stærstu heimilin eru rekin við þær aðstæður að um sólarhringsþjónustu heimahjúkrunar fyrir íbúa sem búa í eigin húsnæði er að ræða, alla daga ársins. Þessi þjónusta af hálfu ríkisins er ekki veitt í hinum dreifðari byggðum og því eðlilegt að íbúar þar geti ekki búið eins lengi í eigin húsnæði eins og stefna ríkisins er, því þurfa þau fyrr á þjónustu hjúkrunarheimila að halda. Úr þessu þarf að bæta, ellegar að taka tillit til þess að hjúkrunarþyngd heimila sé lægri þar sem íbúar búa við þessar aðstæður.

    Rekstur allra hjúkrunarheimila er erfiður og víða aðstæður óviðunandi, þar sem daggjöld sjúkratrygginga endurspegla ekki kröfulýsingu um lágmarks- og æskileg viðmið mönnunar og þá launaþróun sem orðið hefur sl. ár. Það að heimilum sé ekki gert kleift að uppfylla þá kröfu vegna lágra daggjalda er óásættanlegt og augljóst að vandinn vex enn frekar nú með breyttum vinnutíma frá 1. maí 2021 enda launakostnaður nú þegar um 70% af rekstrarkostnaði heimilanna. Þess ber einnig að geta að taka verður tafarlaust tillit til breyttrar hjúkrunarþyngdar samkvæmt RUG stuðli og ótækt að þak sé þar á hækkun greiðslna við 2% á ári á sama tíma og ef um lækkun er að ræða skuli hún ekki hafa sama gólf, heldur kemur lækkun fram í greiðslum strax. Í ljósi þessa má leiða líkur að því að um skakka mynd sé að ræða hvað varðar rekstur og hjúkrunarþyngd í samræmi við RUG stuðul samkvæmt RAI mati.

    Að lokum ber að minnast á þá áréttingu skýrsluhöfunda að samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 ber sveitarfélögum ekki að sinna stuðningsþjónustu eða félagsþjónustu inni á stofnunum, svo sem sjúkrahúsum eða öldrunarstofnunum. Rekstur hjúkrunarheimila er óumdeilt á ábyrgð ríkisins og búa rekstraraðilar við gríðarlega þrönga stöðu gagnvart ríkinu. Ríkið og stofnanir þess ákveða fjárhæðir sem greiddar eru og setur regluverk, sem hjúkrunarheimilum er gert að fara eftir. Samtalið þarf að fara fram á jafnréttisgrundvelli og nauðsynlegt er að endurskoða þetta fyrirkomulag heilt yfir.

  3. Varða – Merkisstaðir á Íslandi
    Formaður kynnir verkefnið Vörðu, heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar sem nýlega var kynnt af ANR. Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru á Suðurlandi: Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón. Samkvæmt tilkynningu frá ANR verða með Vörðu lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

  4. Sumarstörf
    Stjórn SASS fagnar framtaki félags- og barnamálaráðherra og hvetur sveitarfélögin og fyrirtæki á Suðurlandi til þess að ráða inn starfsmenn undir atvinnuátakinu, Hefjum störf.

    Framkvæmdastjóri fer yfir þau tækifæri sem felast í því að ráða námsmenn í sumarstörf. Stjórn SASS tekur undir að tækifærin séu fjölmörg og veitir framkvæmdastjóra heimild til að sækja um stuðning um sumarstörf fyrir námsmenn, samkvæmt átaki ríkisins en Vinnumálastofnun hefur nýlega auglýst verkefnið.

  5. Kynningarfundur landshlutasamtaka með ráðherrum
    Formenn og framkvæmdastjórar allra landshlutasamtakanna funduðu nýverið með Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðmála-, nýsköpunar og iðnaðarráðherra. Fundurinn bar yfirskriftina Græn atvinnuþróun og nýsköpun um allt land.

    Á fundinum kynntu landshlutasamtökin víðtæka starfsemi sína, einnig var rætt um tækifæri til aukins samstarfs milli þeirra og ráðuneytanna. Sérstaklega var rætt um farvegi sóknaráætlana enda hafa þær reynst vel sem samstarfsvettvangur ráðuneyta og sveitarfélaga um hin ýmsu verkefni, m.a. Uppbyggingarsjóði, áhersluverkefni og verkefni á byggðaáætlun. Í því samhengi var einkum rætt um verkefni sem snúa að nýsköpun og umhverfismálum enda báðir málaflokkarnir áberandi í sóknaráætlunum allra landshlutanna. Byggðaáætlun bar líka á góma en endurskoðun hennar stendur nú yfir. Landshlutasamtökin hafa, eins og nefnt hefur verið, komið að framkvæmd nokkurs fjölda verkefna á þeirri áætlun sem nú er í gildi.

    Að mati landshlutasamtakanna er samtal sem þetta afar mikilvægt til að auka skilning og koma auga á tækifæri til aukinnar samlegðar verkefna sem og samþættingar við hinar ýmsu stefnur ríkisins. Þannig má hugsanlega ná fram bættri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni, og auknum árangri.

  6. Fjölmiðlar og landsbyggðin
    Formaður kynnir að landshlutasamtök sveitarfélaga standa fyrir fjarmálstofu um fjölmiðla og landsbyggðir miðvikudaginn 12. maí n.k. kl. 09:00 – 10:30.

    Fjallað verður meðal annars um vægi og birtingarmyndir íbúa á landsbyggðunum í frétta- og dagskrárefni, mikilvægi staðbundinna fjölmiðla, hlutverk og skyldur almannaþjónustumiðla gagnvart dreifðum byggðum og farið yfir dæmi frá Norðurlöndum.

    Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Byggðastofnun, RÚV, Háskólann á Akureyri og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

    Dagskrá:

    Setning – Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

    Horft út um glugga borgarmúrsins – Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi og formaður stjórnar SSNE

    Vandi staðbundinnar fjölmiðlunar – Birgir Guðmundsson dósent við fjölmiðlafræðideild Háskólans á Akureyri

    Hvítu blettirnir í fjölmiðlun – Lærdómur frá Norðurlöndunum um stöðu staðbundinna miðla og hlutverk ríkisfjölmiðla – Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar

    RÚV okkar allra – Stefán Eiríksson útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins

    Pallborðsumræður

    Málstofan verður haldin í menningarhúsinu Hofi en vegna sóttvarnareglna er ekki hægt að hafa viðburðinn opinn almenningi. Málstofunni verður streymt á Youtube og upptaka gerð aðgengileg að honum loknum.

  7. Heimavist við FSu
    Einar Freyr kynnir málið en rekstur heimavistar við FSu hófst að nýju á yfirstandandi skólaári 2020/2021. Stjórn SASS felur Einari Frey að ræða við skólayfirvöld um stöðu verkefnisins.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn 4. júní n.k. í Sveitarfélaginu Árborg.

Fundi slitið kl. 14:35.
Ásgerður Kristín Gylfadóttir
Helgi Kjartansson
Lilja Einarsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Jón Páll Kristófersson
Brynhildur Jónsdóttir

569. fundur stj. SASS