sass@sass.is 480-8200

Úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 2015-2019

Um sjóðinn

Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun Suðurlands og stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans. Sjóðnum er skipt í tvo flokka; Menning og Atvinnuþróun og nýsköpun. Verkefnastjórn Sóknaráætlunar á Suðurlandi fer með hlutverk úthlutunarnefndar samkvæmt samningi um sóknaráætlun Suðurlands. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Við mat á umsóknum skipar verkefnastjórn í tvö fagráð, eitt fyrir menningu og annað fyrir atvinnuþróun og nýsköpun. Fagráðin fara yfir umsóknir og skila tillögum til verkefnisstjórnar.


 

Almennar reglur og viðmiðanir

 1. Við mat á umsóknum er tekið mið af þeim upplýsingum sem fram koma í umsókn og meðfylgjandi gögnum. Umsókn skal útfyllt og skilað með rafrænum hætti skv. leiðbeiningum á vef SASS. SASS áskilur sér rétt til að hafna umsókn ef hún telst  ekki  útfyllt á fullnægjandi hátt skv. leiðbeiningum eða ekki talin falla að markmiðum sjóðsins, og er hún  þá ekki tekin til efnislegrar meðferðar. SASS áskilur sér rétt til að skilgreina hvort umsókn teljist sem menningar- eða atvinnuþróunar og nýsköpunarverkefni.
 2. Þeir sem geta sótt um styrk eru lögráða einstaklingar og lögaðilar. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum er sækja um styrk.
 3. Umsækjendum er heitið trúnaði varðandi umsóknir þeirra en birtur er listi yfir styrkþega, heiti verkefna og styrkupphæðir.
 4. Umsækjandi skal hafa skilað áfanga- og/eða lokaskýrslu vegna fyrri styrkveitinga áður en sótt er um styrk til framhaldsverkefnis eða styrks til nýrra verkefna.
 5. Mótframlag umsækjanda skal vera að lágmarki 50%. Mótframlag getur verið í formi vinnuframlags. SASS fjármagnar að hámarki 50% af styrkhæfum kostnaði.
 6. Verktími eða sá hluti verkefnis sem styrktur er skal að jafnaði ekki standa yfir lengur en í eitt ár. Sé um að ræða langtímaverkefni skal gera grein fyrir áföngum í verkefninu og óska einungis eftir styrk fyrir þeim hluta sem áætlað er að ljúka innan 12 mánaða.
 7. Samningur er gerður um sérhverja styrkveitingu. Hafi samningur ekki verið undirritaður við styrkþega að 6 vikum liðnum frá tilkynntri úthlutun fellur styrkveitingin  niður.
 8. Styrkir greiðast út eftir framvindu verkefna og skv. samningi. Forsenda útgreiðslna er að innsend áfanga- eða lokaskýrsla hafi verið samþykkt (sjá nánar leiðbeiningar og reglur um skil á áfanga- og lokaskýrslum á vef SASS). Lokagreiðsla skal ekki vera lægri en 250.000 krónur eða ekki undir 25% af heildar upphæð styrkveitingarinnar sé hún lægri en 1.000.000 króna.
 9. Þegar úthlutun hefur verið kunngjörð er um að ræða endanlega niðurstöðu. Ekki er hægt að fara fram á endurmat á einstökum umsóknum.
 10. Með umsókn í Uppbyggingarsjóð staðfestir umsækjandi, með vísan til reglugerðar ESB nr. 1407/2013 um minniháttaraðstoð (de minimis aid), að opinber stuðningur vegna verkefnisins fer ekki yfir 200.000 evrur samanlagt, að meðtöldum þeim stuðningi sem hér er sótt um, á tveimur næstliðnum reikningsárum og yfirstandandi reikningsári.
 11. Sé verkefni ekki styrkt að fullu skal verkáætlun endurskoðuð í samráði við SASS. Breyting á verkáætlun getur falist í að vinna einungis hluta verkefnis, hluta verkefnis sem SASS ákveður að styrkja eða gera breytingar á verkþáttum eða fjármögnun til samræmis við upphæð styrkveitingarinnar og markmið verkefnisins.


Styrkhæfur kostnaður

SASS fjármagnar að hámarki 50% af styrkhæfum kostnaði. Eftirfarandi leiðbeiningar fjalla um styrkhæfan kostnað;

Laun og launatengd gjöld

Aðeins verður tekinn til greina sá tími sem unnin er í verkefninu. Við mat á vinnuframlagi skal reikna hverja vinnustund á krónur 3.500. Tímaskýrslur skulu haldnar  og eru forsenda útgreiðslu. 
 

Ferða- og fundakostnaður

Gerð skal grein fyrir öllum ferðum með yfirliti, bæði utanlands og innanlands, hver sé tilgangur ferðanna og áætlun um ferðakostnað.
 

Annar styrkhæfur kostnaður

Lýsa þarf í umsókn hvers konar aðföng eru nauðsynleg fyrir verkefnið. Heimilt er að kaupa sérhæfðan búnað til vöruþróunar sem nauðsynlegur er fyrir framgang verkefnisins. Einnig er heimilt er að greiða fyrir stofnkostnað vegna menningarverkefna. 
 

Aðkeypt þjónusta

Í umsókn skal lýsa aðkeyptri þjónustu og af hverjum þjónustan verður keypt. Gera á grein fyrir hvað felst í hinni aðkeyptri þjónustu eða ráðgjöf, hvað þjónustan mun kosta og hver sé hinn skilgreindi afrakstur.
 

Eftirfarandi telst ekki til styrkhæfs kostnaðar:

 • Fjárfesting í eignarhlutum í fyrirtækjum, kaup á framleiðslutækjum, lóðum eða húsnæði.
 • Kostnaður sem fallið hefur til vegna verkefnisins áður en umsókn var send til SASS.
 • Skráning menningarminja, starfssemi íþróttafélaga, bæjarhátíðir eða almennar samkomur (sbr. tónleika eða sýningar án skilgreindrar sérstöðu), almennt safnaðarstarf eða hefðbundið menningarstarf innan skóla og að jafnaði ekki útgáfu bóka og geisladiska.

 

Markmið, áherslur og matsþættir

 

Atvinnuþróun og nýsköpun

Menning 

Markmið styrkveitinga:

 • Að styðja við atvinnuskapandi- og/eða framleiðniaukandi verkefni á Suðurlandi
 • Að styðja við verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs og jákvæða samfélagsþróun á Suðurlandi
 • Að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi

Áherslur styrkveitinga:

 • Vöruþróun og nýsköpun sem byggir á auðlindum svæðisins
 • Verkefni sem fela í sér atvinnusköpun sem stuðlar að sjálfbærni og jákvæðum umhverfisáhrifum
 • Samstarfsverkefni sem stuðla að markmiðum styrkveitinganna
 • Markaðssókn fyrir vörur og þjónustu inn á nýja markaði
 • Verkefni sem efla rannsóknir og þróun í uppbyggingu atvinnulífs á Suðurlandi
 • Verkefni sem fela í sér eða styðja við nýsköpunarstarf ungs fólks á aldrinum 16-25 ára
 • Tímabundin ráðning starfsmanna með sérþekkingu til að hagnýta möguleika fyrirtækis til vaxtar eða önnur verkefni á sviði nýliðunar innan atvinnugreina á Suðurlandi
 • Verkefni er lúta að sókn í samkeppnissjóði á alþjóðlegum vettvangi
 • Verkefni sem hvetja til samstarf milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og/eða uppsetning viðburða á fleiri en einum stað
 • Verkefni sem efla atvinnustarfsemi á sviði menningar og listaverkefni sem draga fram staðbundin eða svæðabundin menningareinkenni eða menningararf
 • Verkefni sem fela í sér eða styðja við listir og menningarstarf barna og ungs fólks á aldrinum 16-25 ára
 • Menningarverkefni sem styðja við aukna umhverfisvitund og sjálfbærni
 • Verkefni sem fela í sér samstarf við önnur lönd á sviði menningar og lista

Matsþættir:

Matsþættir: Í matsferli umsókna er stuðst við eftirfarandi viðmiðunarþætti. Vægi viðmiðunarþátta eru á skalanum 1 til 5. Einkunnir eru gefnar við hvern viðmiðunarþátt og eru þær einnig á skalanum 1 til 5. Einkunn hvers þáttar er margfölduð með vægi viðmiðunarþáttar og samanlögð niðurstaða er heildareinkunn hvers verkefnis.
 
 • Fellur vel að markmiðum og áherslum (vægi 4)
 • Atvinnusköpun til lengri tíma og á heilsárs grundvelli á Suðurlandi (vægi 5)
 • Mikil nýsköpun og/eða nýnæmi á Suðurlandi (vægi 4)
 • Forsendur og útfærsla raunhæf – þekking og reynsla til staðar (vægi 5)
 • Styrkveiting hefur mikil áhrif á framgang verkefnis (vægi 4)
 • Fellur vel að markmiðum og áherslum (vægi 4)
 • Hefur jákvæð áhrif á samfélag, mannlíf og menningu á Suðurlandi (vægi 5)
 • Felur í sér aukin fjölbreytileika í menningarlífi á Suðurlandi (vægi 5)
 • Forsendur og útfærsla raunhæf – þekking og reynsla til staðar (vægi 4)
 • Styrkveiting hefur mikil áhrif á framgang verkefnis (vægi 4)

 

 

Breytingar samþykktar af SASS 17. febrúar 2017

Sjá prentvæna úgáfu hér (.pdf)