Tólf nýsköpunarteymi luku nýverið viðskiptahraðlinum Startup Landið 2025, sem er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna utan höfuðborgarsvæðisins. Markmið hraðalsins er að styðja frumkvöðla víðs vegar af landinu í að þróa hugmyndir sínar, efla viðskiptahæfni og byggja upp tengslanet.

Frá hugmynd að framkvæmd á sjö vikum

Startup Landið stóð yfir í sjö vikur og fengu þátttakendur fræðslu um ferli frumkvöðlastarfs og hin ýmsu tæki og tól til að nýta sér í stofnun og rekstri fyrirtækja. Haldnar voru vinnustofur og boðið upp á mentorafundi með reynslumiklum aðilum úr atvinnulífinu.

Hugmyndirnar fóru margar frá því að vera rétt svo skrifaðar á blað yfir í næstum fullmótaða viðskiptahugmynd eða framkvæmd á þessu 7 vikna tímabili.

Lokaviðburður Startup Landsins fór fram með pompi og prakt fimmtudaginn 30. október í Hofi á Akureyri. Þar stigu tólf nýsköpunarteymi á svið og kynntu verkefni sín fyrir boðsgestum. Um 70 manns sóttu viðburðinn og hlýddu á kraftmiklar kynningar teymanna.

Fjölbreytt teymi víðsvegar að

Verkefnin að þessu sinni voru afar fjölbreytt og komu úr öllum landshlutum. Frá Suðurlandi tóku tvö öflug teymi þátt í hraðlinum að þessu sinni. Andrés Bragason og Auður Mikaelsdóttir kynntu verkefnið Festivus, sem þau lýsa sem „Fjalli af súkkulaði“, en hugmyndin er að framleiða hornfirskt gæðasúkkulaði og skapa ævintýralegan áfangastað. Þær Unnur Hagalín og Særún Eva Hjaltadóttir kynntu Hundaveislu, sem er nýstárleg lausn þar sem þær nýta lífrænan úrgang sláturhúsa til að framleiða hrátt heilfóður fyrir hraustari hunda.

Hér má sjá lista yfir öll teymin sem tóku þátt 2025:

  • Mundialis – Malað frostþurrkað grænmeti beint í hollustudrykkinn. (Vesturland)
  • Festivus – Hornfirskt gæðasúkkulaði og ævintýralegur áfangastaður. (Suðurland)
  • Snældur – Íslensk hönnunar- og gjafavara úr íslenskum við fyrir börn á aldrinum 0–4 ára. (Norðurland eystra)
  • Ahsig ehf. – Dagsferðir fyrir ferðamenn í Skagafirði. (Norðurland vestra)
  • Fast and Affordable – Ný byggingartækni sem lækkar kostnað og styttir byggingartíma steinsteyptra húsa. (Suðurnes)
  • Cannarctica – Orkusparandi heildarlausn fyrir gróðurhús í köldu loftslagi. (Vestfirðir)
  • Lífrænt vottaðar íslenskar lækningajurtir – Framleiðsla og sala lífrænna lækningajurta. (Vesturland)
  • HundaVeisla – Lífrænt heilfóður fyrir hraustari hunda, unnið úr úrgangi sláturhúsa. (Suðurland)
  • Böggvisbrauð – Lífrænt súrdeigsbrauð; næringarríkt og umhverfisvænt. (Norðurland eystra)
  • Brekka Ferðaþjónusta – Ómönnuð verslun á Þingeyri með veitingasölu. (Vestfirðir)
  • Sólbrekka Mjóafirði – Ævintýraleg vetrarferð með áherslu á friðsæld og náttúrufegurð. (Austurland)
  • Litli Gúri ehf. – Upplifðu náttúruna og undur hafsins á RIB Safari á Skagaströnd. (Norðurland vestra)

Samstarf um nýsköpun á landsbyggðinni

Startup Landið er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna SSNV, SSNE, Vestfjarðastofu, Austurbrúar, SASS, SSS og SSV, sem saman vinna að því að efla nýsköpun og byggðafestu á landsbyggðinni.

Hægt er að kynna sér hraðalinn frekar og teymin sem í honum tóku þátt á heimasíðunni https://www.startuplandid.is/. Áhugasömum þátttakendum næsta árs er bent á að fylgjast þar með næsta umsóknarfresti, og á síðum landshlutasamtakanna á Facebook.

SASS óskar öllum teymunum innilega til hamingju og áframhaldandi góðs gengis með verkefni sín.

Sunnlensku þáttakendurnir á lokaviðburðinum