Suðurland var í sviðsljósinu þegar Íslensku menntaverðlaunin 2025 voru afhent á Bessastöðum á þriðjudag. Tveir af fimm verðlaunahöfum komu úr landshlutanum: Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi kennslu og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum fékk verðlaun fyrir framúrskarandi framlag til iðn- og verkmenntunar.
Forseti Íslands flutti ávarp við athöfnina og sagði mikilvægt að „lyfta því upp sem vel er gert og beina sviðsljósinu að styrkleikum í skólastarfi.“
Örvar Rafn er heiðraður fyrir einstakan árangur í íþróttakennslu og árangur Flóaskóla í Skólahreysti undir hans leiðsögn. Í umsögnum var hann sagður einstaklega laginn við að ná til allra nemenda, hvort sem væri að hvetja vatnshrædd börn til fyrstu sundtaka eða hvetja öfluga unglinga til dáða.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf í kennslu málm- og vélstjórnargreina þar sem námi hefur verið umbreytt í atvinnulífstengt ferli þar sem nemendur vinna raunhæf verkefni sem endurspegla aðstæður í atvinnulífinu.
Aðrir verðlaunahafar voru:
- Framúrskarandi skólastarf: Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar.
- Framúrskarandi þróunarverkefni: Lítil skref á leið til læsis (Húsavík).
- Hvatningarverðlaun: Starfsfólk Háaleitisskóla í Reykjanesbæ.
Ítarlegri umfjöllun um alla verðlaunahafa og rökstuðning dómnefndar má finna á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun.
Frétt af vefsíðu forseta Íslands

Örvar Rafn Hlíðdal

Fulltrúar Framhaldsskólands í Vestmannaeyjum



