fbpx

Lokaskýrsla

Þegar verkefni hefur verið lokið og áfallinn kostnaður hefur numið að lágmárki 500.000 kr. er unnt að innheimta lokagreiðslu og skila inn lokaskýrslu. Lokaskýrslu skal skilað inn í síðasta lagi 30. nóvember 2020. Með innsendingu lokaskýrslu er styrkþegi á sama tíma að staðfesta lok verkefnisins og kalla eftir útgreiðslu á lokagreiðslunni, 60% styrkveitingarinnar eða 300.000 kr.

Í lokaskýrslu er kallað eftir uppgjöri á verkefninu. Ásamt grunnupplýsingum um styrkþega er kallað eftir staðfestingu á áföllnum kostnaði, aðkeyptri þjónustu og/eða vinnuframlagi styrkþega. Aðkeypt þjónusta skal skilgreind og afrit af reikningum hlaðið inn á skýrsluna. Þegar vinnuframlag er skilgreint skal tímaskýrsla fylgja með sem sem viðhengi. 

Þegar líður að áramótum og öllum verkefnum hefur verið lokið mun SASS senda öllum styrkþegum spurningarkönnun. Styrkþegar hafa þá tækifæri til að horfa til baka og meta nánar þann árangur sem náðst hefur með verkefninu.

 

Í upphafi skal endinn skoða! 

Upphafsskýrsla er fyrsta skref styrkþega í Sóknarfærum ferðaþjónustunnar. Henni skal skila inn fyrir 26. júní. Eftir innsendingu á upphafsskýrslu og þegar skýrslan hefur verið samþykkt af SASS greiðast út 40% styrkupphæðar eða 200.000 kr.

Verkefnið þarf ekki að vera farið af stað þegar upphaf skýrslu er skilað. Í megin atriðum er einungis kallað eftir þremur þáttum í skýrslunni; markmiði verkefnis, verkefnaáætlun og kostnaðaráætlun. Hér er ekki verið að fara fram á mikla skýrslugerð, heldur gefst hér tækifæri á að endurmóta verkefnið frá því að umsókn var send inn og upplýsa SASS um raunáætlun fyrir verkefnið. Horft er framhjá öllum minniháttar breytingum á verkefnum, svo lengi markmið verkefnisins halda sér og þau eru innan marka úthlutunarreglna Sóknarfæra ferðaþjónustunnar.

Markmið verkefnisins ættu að liggja fyrir. Við óskum eftir að fyrirtæki skilgreini nánar markmiðin til þess að geta í framhaldi metið ávinning af verkefninu. Hér gefur ólympíufarinn Ásdís okkur góð ráð um markmiðasetningu. Við fáum einnig lánaðar frá henni útskýringar á hvað felst í raunhæfum markmiðum:

  • Hvað er það sem þú vilt gera?
  • Hvernig ætlar þú að mæla árangurinn?
  • Er markmiðið raunhæft?
  • Er þetta rétta markmiðið fyrir þig?
  • Hvenær vilt þú hafa náð markmiðinu?

 

Að ræða markmið verkefnisins við ráðgjafa á vegum SASS getur verið góð leið til skerpa á verkefninu. Ráðgjöf á vegum SASS stendur öllum til boða og er þjónustan gjaldfrjáls.

Varðandi verkefnisáætlanir, að þá er einungis verið að horfa til þess að gefa betri innsýn í verkefnið með því að sundurliða það í nokkra verkþætti, ef það á við. Á þessum tímapunkti ættu styrkþegar að hafa nokkuð raunhæfar hugmyndir um áætlaðan kostnað. Styrkveitingin er upp á 500.000 kr. og því ætti kostnaðaráætlun ekki að vera undir þeirri upphæð. Ef fyrirtæki hefur þegar fengið tilboð eða verðhugmyndir í kostnaðarþætti er upplagt að setja það fram í kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun getur falið í sér að öllu leyti áætlaðar tölur á þessum tímapunkti, en er áætlun engu að síður. Hafa ber í huga að styrkhæfur kostnaður er einungis aðkeypt þjónusta og/eða vinnuframlag styrkþega sem fellur að markmiðum sjóðsins eins og kemur fram í úthlutunarreglum sjóðsins.

Ef styrkþegi ætlar sér að nýta styrkveitinguna að hluta eða öllu leyti í vinnuframlag styrkþega, þarf að skila tímaskýrslu með lokaskýrslunni.

Við mælum með að styrkþegar hlaði niður tímaskýrslu (.xls) hér af síðunni og skrái jafnóðum tíma hjá sér við vinnu í verkefninu.

Námskeið

Allir þátttakendur í Sóknarfærum ferðaþjónustunnar stendur til boða þátttaka í ýmsum námskeiðum. Unnið er að frekari útfærslu og verður nýjum námskeiðum bætt við eins og við á og styrkþegum tilkynnt um ný námskeið í tölvupósti.