Drög að Sóknaráætlun Suðurlands 2025–2029 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er nú hægt að senda inn umsagnir til og með 28. maí.
> Sjá drögin í samráðsgáttinni hér
Sóknaráætlun Suðurlands er sértæk byggðaáætlun landshlutans og sameiginleg framtíðarsýn sveitarfélaga á Suðurlandi um sjálfbæra þróun. Hún er jafnframt leiðarljós í störfum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), byggðaþróunarfulltrúa og annarra hagaðila sem vinna að framþróun samfélagsins á svæðinu.
Áætlunin byggir á víðtæku samráði við íbúa, sveitarfélög, atvinnulíf og stofnanir, og mótar sameiginlega stefnu um forgangsmál í byggða- og samfélagsþróun. Hún er hluti af formlegu samstarfi ríkis og sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 69/2015 og fjármögnuð í gegnum Uppbyggingarsjóð Suðurlands og áhersluverkefni sem skilgreind eru í samningnum við ríkið.
Sóknaráætlunin spannar fjórar meginstoðir:
-
Atvinna og nýsköpun
-
Samfélag
-
Umhverfi
-
Innviðir
Innihald hennar styður við sjálfbærni, samkeppnishæfni og aukin lífsgæði íbúa. Þá byggir áætlunin á meginmarkmiðum byggðaáætlunar ríkisins, landsskipulags- og loftslagsstefnu, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og svæðisbundnum áherslum Suðurlands. Hún tekur einnig mið af stefnumörkun norrænu ráðherranefndarinnar og viðmiðum OECD í byggðamálum.
Við hjá SASS viljum þakka öllum sem tóku þátt í samráðsferlinu, meðal annars með þátttöku á fundum og í könnunum. Við hvetjum sem flesta til að kynna sér drögin og koma á framfæri umsögnum.