Næstkomandi laugardag, klukkan 16:00, verður sköpunarkraftinum sleppt lausum í Íþróttahúsinu í Þorlákshöfn þegar hæfileikakeppnin Skjálftinn fer fram í fimmta sinn. Keppnin, sem er eitt af áhersluverkefnum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir ungmenni á Suðurlandi til að koma listsköpun sinni á framfæri.

Skjálftinn er hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8.–10. bekk og er sannkölluð veisla fyrir augu og eyru. Markmiðið er að efla skapandi hugsun og sjálfstraust ungmenna. Þátttakendur í ár koma víða að og stíga hópar á svið frá grunnskólunum í Hveragerði, Þorlákshöfn, Reykholti og Vestmannaeyjum, auk þess sem Vallaskóli og Sunnulækjarskóli á Selfossi senda sína fulltrúa.

Draumurinn um sameinað Suðurland rættist

Skjálftinn er oft kallaður „litli bróðir Skrekks“ og var stofnaður að fyrirmynd þeirrar keppni í samstarfi við Reykjavíkurborg. Keppnin var haldin í fyrsta sinn árið 2021 fyrir skóla í Árnessýslu en draumur aðstandenda var alltaf að ná til alls landshlutans. Sá draumur rættist árið 2023 þegar öllum grunnskólum á Suðurlandi var boðin þátttaka og hefur viðburðinum vaxið fiskur um hrygg síðan.

Stjörnum prýdd dómnefnd

Til að leggja mat á atriði kvöldsins hefur verið skipuð öflug dómnefnd. Í henni sitja Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Tómas Jónsson og Mikael Emil Kaaber, sem nýverið tók við hlutverki Íþróttaálfsins. Þá mun tónlistarkonan Diljá sjá um að keyra upp stemninguna og flytja lag keppninnar í ár, Power.

Aðstandendur Skjálftans hvetja Sunnlendinga til að fjölmenna og styðja við bakið á unga fólkinu okkar. Nánari upplýsingar má nálgast á www.skjalftinn.is.

 

Verðlaunagripur