Mannamót Markaðsstofa landshlutanna, fjölmennasti tengslaviðburður ársins í íslenskri ferðaþjónustu, fór fram í Kórnum í Kópavogi þann 15. janúar síðastliðinn. Sunnlendingar voru áberandi á sýningunni en 77 fyrirtæki af þeim 260 sem tóku þátt voru af Suðurlandi. Gestir Mannamóta voru um 1200 í ár og um 500 manns voru í húsi sem sýnendur og því má segja að þetta voru ein fjölmennustu Mannamótin hingað til.

Tilgangur Mannamóta er að kynna fjölbreytileika landsbyggðarinnar fyrir ferðaskrifstofum á höfuðborgarsvæðinu. Sýningarsvæðinu var skipt upp eftir landshlutum sem gerði gestum kleift að „ferðast um landið“ og kynnast því besta sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða á einum stað. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi Markaðsstofa landshlutanna, Isavia og Icelandair.

Kraftur í samstarfinu

Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, segir

Ingunn framkvæmdastjóri SASS og Ragnhildur framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands

þátttökuna undirstrika styrk svæðisins:

„Mannamót eru einn mikilvægasti vettvangur ársins fyrir samstarfsfyrirtæki okkar til að byggja upp tengsl og kynna sínar vörur beint fyrir fagaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Að sjá 77 öflug fyrirtæki af Suðurlandi mæta til leiks sýnir þann mikla kraft og þau gæði sem einkenna ferðaþjónustu í okkar landshluta. Við leggjum sérstaka áherslu á að sýna hve fjölbreytt og spennandi Suðurland er heim að sækja allan ársins hring, ekki síst yfir vetrartímann, og það er dýrmætt að sjá hve vel samstarfið skilar sér í jafn öflugri mætingu og raun bar vitni.“

Suðurland leiðir vöxtinn

Hin mikla mæting sunnlenskra fyrirtækja á Mannamót kemur ekki á óvart þegar litið er til nýjustu gagna um atvinnutekjur á landinu. Suðurland hefur sýnt meiri vöxt í heildaratvinnutekjum en nokkur annar landshluti síðan 2017, eða um 33% aukningu. Árið 2024 nam hlutdeild reksturs gististaða og veitingareksturs um 10% af heildaratvinnutekjum í fjórðungnum, sem sýnir hve þýðingarmikil greinin er fyrir efnahag sunnlenskra samfélaga.

Fulltrúar SASS voru á staðnum að kynna sér starfsemi ferðaþjónustuaðila. Það var

Byggðaþróunarfulltrúarn og starfsfólk SASS tóku hring um svæðið

samdóma álit þeirra að sýningin sýndi glögglega hversu mikilvægt það er fyrir fagaðila í greininni að koma saman, skiptast á ráðum og styrkja samstarf til framtíðar.

 

Undirbúningur skilaði sér

Aðeins samstarfsfyrirtækjum Markaðsstofa landshlutanna gefst kostur á að sýna á Mannamótum. Markaðsstofurnar stóðu fyrir sérstökum undirbúningsfundum fyrir sýnendur þar sem farið var yfir gerð kynningarefnis og hvernig best væri að ná til gesta á viðburðinum. Sú vinna skilaði sér í faglegri og glæsilegri framsetningu á sunnlenskri ferðaþjónustu á Mannamótum.