fbpx

SASS veitir ráðgjöf um fjármögnun verkefna. Verkefni geta verið af ýmsum toga, s.s. nýsköpunarverkefni á vegum frumkvöðla og fyrirtækja eða menningarverkefni á vegum einstaklinga, stofnana eða félagasamtaka.

Þegar kemur að fjármögnun verkefna þarf að útfæra verkefnin og leita að fjármögnunarleiðum. Hér er farið yfir helstu þætti og vísað á upplýsingar um stuðningsefni og fjármögnunarleiðir.

AÐ MÓTA VERKEFNI

Verkefni eiga það flest sameiginlegt hafa upphaf og endir. Þau afmarkast af tíma og kostnaði, sem gjarnan er einskiptiskostnaður, þ.e. útgjöld sem koma bara fyrir einu sinni en eru ekki reglubundin. Verkefni skiptast síðan oftast upp í verkþætti. Þegar fjármagna á verkefni þurfa þessir þættir að liggja fyrir og þá koma verkefnisáætlanir að góðum notum. Algengt er að það sé krafa hjá sjóðum að verkefni séu framsett í verkefnisáætlun. Hér gefur að líta dæmi um form verkáætlunar (.xls) sem hægt er að styðjast við þegar setja á verkefni fram í verkefnisáætlun.

Ráðgjafar SASS geta aðstoðað við mótun verkefna. Hér er yfirlit yfir ráðgjafa á vegum SASS. Með því að smella á einstaka rágjafa, þá birtast ýtarlegri upplýsingar um viðkomandi s.s. sérsvið viðkomandi.

SJÓÐIR

SASS heldur utan um upplýsingar um ýmsa sjóði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningarmála.

Uppbyggingarsjóður Suðurlands:
SASS heldur utan um og veitir styrki úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands. Styrkir eru veittir í tveimur flokkum, annars vegar á sviði atvinnuþróunar- og nýsköpunar og hins vegar á sviði menningarmála.  Á síðustu árum hefur nokkrum tugum milljóna verið úthlutað á hverju ári.  Styrkir eru veittir úr sjóðnum tvisvar á ári, í mars og október. Opnað er fyrir umsóknir á vef SASS u.þ.b. 6 vikum áður en umsónkarfrestur rennur út á vef SASS um leið og auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn. Utan umsóknartímabils er lokað fyrir umsóknir í sjóðinn. Miðað er við að birta niðurstöður úthlutunar innan mánaðar frá því að umsóknarfrestur er liðinn.

GERÐ UMSÓKNA

Til eru mörg góð ráð við gerð umsókna. Stundum er boðið upp á námskeið í gerð umsókna hjá fræðsluaðilum og mælt er með slíku fyrir gerð stærri umsókna. Einnig halda sjóðirnir gjarnan kynningarfundi eða hafa aðgengilegar kynningar á vefsíðum sínum í tengslum við viðkomandi sjóð. Ráðgjafar SASS veita einnig ráðgjöf við gerð umsókna og kemur samtal við þá oft að góðum notum við mótun verkefna.

Verkefni sem sótt er um fjármagn fyrir getur tengst öðrum verkefnum umsækjenda eða jafnvel rekstri fyrirtækis. Reynið eftir fremsta megni að fjalla einungis um það verkefni eða þann verkþátt sem sótt er um styrk fyrir. Ef þörf er á að fjalla um annað sem verkefninu tengist, reynið að aðgreina það í texta svo lesandinn missi ekki sjónar af verkefninu sjálfu. Við að skilgreina verkefni er oft gott að notast við verkefnisáætlanir. Í sumum sjóðum er kallað eftir viðskiptaáæltun.

Flestir sjóðir taka það fram að umsókn sé einungis metin út frá þeim upplýsingum sem koma fram í umsókninni. Þá er átt við að aðilar sem meta munu umsóknirnar, eiga ekki að þurfa afla sér annara upplýsinga. Það er ekki nóg að segja eftirá; “það kom allt fram á heimasíðunni” eða “þeim hefði mátt vera ljóst að…”. Umsókn stendur að jafnaði ein og sér og þar þurfa allar upplýsingar að koma fram telja má að geti skipt máli.

Ef sækja á um styrki á fleiri en einum stað er sérstaklega gott að setja verkefnið fram í verkefnisáætlun sem nota má með fleiri en einni umsókn. Hafið þó í huga að markmið sjóða eru ólík og því er ekki alltaf verið að leita eftir sömu upplýsingunum í öllum sjóðum. Verið því sveigjanleg með að aðlaga texta að þeim sjóði sem sótt er um í.

Það er gott að gefa sér góðan tíma í umsóknarskrif. Sá tími getur skilað sér til baka í upphæðum. Það kemur mörgum á óvart hvað það getur tekið langan tíma að vinna að góðri umsókn. Þess vegna er mjög mikilvægt að vera ekki á síðustu stundu og senda frá sér hálfklárð verk. Það getur einnig verið gott að standa upp frá slíku verkefni, leita upplýsinga eða ráða hjá öðrum. Að vanda til verka getur skilað verkefni langt í átt að styrkveitingu.

Sjóðir eru að jafnaði allir samkeppnissjóðir. Það merkir að umsóknir eru metnar og raðast upp eftir einkunnum út frá matsþáttum. Hæfustu umsóknirnar ná í gegn eða er úthlutað styrk. Það að vanda sig getur skilað sér í fjármunum.

Hafið úthlutunarreglurnar til hliðsjónar þegar unnið er að umsókn og lesið þær vel yfir. Í þeim koma að jafnaði fram upplýsingar um hvernig umsóknir eru metnar, áherslur og markmið sjóðsins o.fl. Það er mikilvægt að hafa slíkt til hliðsjónar svo textinn miði að því að skýra hvernig þitt verkefni fellur að þeim matsþáttum.

Að vera hafnað um styrk eru ekki skilaboð um að þú eigir að hætta við eða ekki sækja um aftur. Taktu samtal við forsvarsmenn sjóðsins og kallaðu eftir frekari skýringum ef það er í boði. Fáðu svo ráðgjöf um næstu skref. Það kann að vera að framsetningin ein og sér hafi verið þess valdandi að ekki fékkst styrkur. Einnig kann að vera að umsóknir í tiltekinn sjóð hafi verið sérstaklega margar í þetta skiptið og fjármagn hafi verið af skornum skammti. Eins kann að vera að verkefnið eigi frekar heima í öðrum sjóði.

NÝSKÖPUNARVERKEFNI

Ýmsar skilgreiningar eru til á nýsköpun. Flestar ganga þær út að að það sé verið að skapa eitthvað nýtt eða gera einhverskonar endurbætur á því sem er til staðar. Nýsköpunin getur snúið að fjölmörgum þáttum s.s. vöru, þjónustu, framleiðsluaðferðum, tækni, markaðssetningu, svo fátt eitt sé nefnt.  Mikið er til af áhugaverðu efni um nýsköpun sem gott getur verið að kynna sér.

Nýsköpun er í eðli sínu áhættusöm. Vinnuframlag og fjármagn kann að verða að engu, öðru en reynslu þeirra sem eiga hlut að máli. Sjóðir hafa það að markmiði að styrkja verkefni sem eru vænleg til að ná árangri og að sama skapi geta sjóðir “tapað” á að styrkja verkefni sem ekki skila viðunandi árangri. Það er því mat þeirra sem fara yfir umsóknir og þitt sem umsækjanda að koma trúverðugri leið þinni að markmiðum á framfæri.

Til eru ýmis verkfæri til að móta og skilgreina nýsköpunarverkefni. Öll vinna sem lögð er í mótun slíkra verkefna, hvort sem það er við að stilla upp verkáætlun, viðskiptaáætlun eða kynningu, getur stutt við mögulega fjármögnun á verkefninu. Ekki síður getur slík vinna nýst eigendum verkefnisins til að meta raunhæfi og útfæra leiðir til að hámarka árangur og takmarka fjárhagslega áhættu.

NÝSKÖPUN Í STARFANDI FYRIRTÆKJUM

Sömu lögmál eiga við um starfandi fyrirtæki og frumkvöðla þegar kemur að nýsköpunarverkefnum. Hins vegar kann að vera að meiri sameiginleg þekking sé til staðar innan fyrirtækisins. Fyrirtæki eiga jafnan möguleika á fjölbreyttari leiðum þegar kemur að fjármögnun verkefna. Þá skapast tækifæri til að fá inn hluthafa eða sækja um lán í tengslum við þau verkefni. Nánar er fjallað um það á vefnum undir stofnun og fjármögnun fyrirtækja.

Hins vegar stendur fyrirtækjum til boða að nýta sér skattaafslátt vegna fjárfestingar í nýsköpunarverkefnum. Sótt er um það á vef Rannís. Einnig veita ráðgjafar SASS ráðgjöf í tengslum við slíkar umsóknir.

Ráðgjafar SASS veita ráðgjöf um mótun nýsköpunarverkefna og leiðbeina við gerð viðskiptaáætlana og annarra greininga sem stutt geta við mótun og fjármögnun nýsköpunarverkefna. 

MENNINGARVERKEFNI

Markmið menningarverkefna eru oftast nær að efla menningu og listir, á ákveðnum sviðum eða á ákveðnum svæðum. Menningarverkefni geta hins vegar verið atvinnuskapandi en fela þá oftast í sér tímabundna atvinnusköpun á verkefnatíma.

Ráðgjafar SASS veita ráðgjöf um mótun menningarverkefna og leiðbeina við gerð umsókna um styrki.

AÐRAR FJÁRMÖGNUNARLEIÐIR

Á síðustu árum hefur orðið töluverð þróun í fjármögnun verkefna. Svokölluð “hópfjármögnun” hefur orðið vinsæl. Hún hefur einna helst skilað árangri í fjármögnun við ýmiskonar uppbyggingu, við vörusölu eða hverskyns útgáfu. Þar sem unnt er að “selja” ákveðinn fjölda eininga eða vara áður en varan er framleidd eða hún tilbúin til sölu. Þeir sem standa að verkefninu geta þá “tryggt” sér sölu sem getur staðið að hluta eða öllu leiti undir stofnkostnaði og þar með svarað spurningunni um hvort “fara eigi af stað” í verkefnið áður en framleiðsla hefst. Þannig er hægt tryggja að eftirspurnin sé til staðar. Dæmi um slíkar hópfjármögnunarsíður eru Karólína fund.

Vísisjóðir

eru mikilvægur þáttur í fjármögnun ungra fyrirtækja sem eru að stækka. Vísisjóðir eru frábrugðnir öðrum hefðbundnum fjárfestingarsjóðum að því leiti að þeir hafa sprotafjárfestingar að meginstarfi og hafa meiri aðkomu og rekstri og stefnumótum þeirra fyrirtækja sem þeir fjárfesta í en almennt gerist.

Nokkrir vísisjóðir voru stofnaðir árið 2021 og eru þeir með fjárfestingartíma næstu 3-5 árin. Þessir sjóðir eru:

Crowberry II er 11,5 ma.kr. sjóður með 10 ára líftíma sem fjárfestir í norrænum tækni sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjármögnunar.

Brunnur vaxtarsjóður II er  8,3 ma.kr. sjóður með 10 ára líftíma og 3-5 ára fjárfestingartímabil. Lögð er áhersla á fyrirtæki sem búa yfir skalanlegu og gjaldeyrisskapandi tekjumódeli í hugbúnaði, interneti, afþreyingariðnaði, hátækni, líftækni, orkuiðnaði, sjávarútvegstækni og matvælaframleiðslu.

Iðunn framtakssjóður er 7,3 ma.kr. sjóður með 5 ára fjárfestingatímabil og leggur áherslu á fjárfestingar á sviði lífvísinda og heilsutækni. Innan þess falla ýmis konar atvinnugreinar og svið, t.a.m. framleiðsla lækninga- og greiningatækja, lyfjaþróun, stafræn læknisþjónusta, heilbrigðisþjónusta auk stuðningfyrirtækja í virðiskeðjur eða þróun lífvísinda- og heilbrigðistækni.

Frumtak III er 7 ma.kr. sjóður með 5 ára fjárfestingatímabil og starfstíma 10 ár. Frumtak III sérhæfir sig ekki í einstökum greinum og mun fjárfesta með svipuðu sniði og fyrri Frumtakssjóðir með áherslu á hugvitsdrifin tæknifyrirtæki.

Eyrir vöxtur er 6 ma.kr. sjóður með 4 ára fjárfestingartímabil og líftíma upp á 10 ár. Eyrir vöxtur mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og horfa til þess að vaxa hratt aðlþjóðlega. Fyrirtæki sem Eyrir vöxtur fjármestir í munu fara inn í viðskiptahraðalinn MIT DesignX til að hraða vaxtarferlinu.

Hafðu samband við ráðgjafa SASS