„Ölfus hefur fest sig í sessi sem raunhæfur og spennandi kostur til uppbyggingar ferðaþjónustu,“ var meðal þess sem kom fram á fjölsóttum kynningarfundi um stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu sem haldinn var í Ráðhúsi Ölfuss fimmtudaginn 20. nóvember.

Framkvæmdastjóri SASS var meðal þátttakenda á fundinum, en markmið hans var að efla samstarf og samhæfa uppbyggingu innan greinarinnar á svæðinu. Fundurinn markaði tímamót þar sem undirritað var samkomulag um inngöngu Ölfus Cluster í Íslenska ferðaklasann.

Vaxandi afl á mörkum landshluta

Á fundinum var farið yfir þá miklu grósku sem einkennt hefur ferðaþjónustuna í Ölfusi á undanförnum árum. Bent var á að staðsetning svæðisins, á mörkum Suðurlands og Reykjaness og í stuttri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, skapi einstök tækifæri.

Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss, kynnti uppbyggingu verkefna á svæðinu, en fram undan eru spennandi áfangar á borð við ný hótel, baðlón og uppbyggingu gestastofa. Þá er unnið að því að tengja saman útivist og hjólreiðaleiðir milli Ölfuss, Hveragerðis og Hengilssvæðis, sem styrkir svæðið sem heilsársáfangastað.

Samstarf er lykillinn að árangri

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, ræddi mikilvægi stefnumótunar og samstarfs. Innganga Ölfus Cluster í Íslenska ferðaklasann er stórt skref í þá átt að tengja ferðaþjónustuaðila á svæðinu við stærra net og auka samkeppnishæfni þeirra.

Hallgrímur Kristinsson, þróunarstjóri Icelandia, deildi reynslu sinni og ræddi ný tækifæri, en til umræðu var meðal annars mögulegt „systurverkefni Gullna hringsins“ sem miðar að því að kortleggja tækifæri til vöruþróunar á Suðurlandi og Reykjanesi.

Mikilvægt að sjá sveitarfélögin á Suðurlandi nýta sérstöðu sína

SASS fagnar þeim krafti sem einkennir uppbygginguna í Ölfusi. Mikilvægt er að sveitarfélögin á Suðurlandi nýti sérstöðu sína til að skapa verðmæti og atvinnu. Öflugt samtal milli sveitarfélaga, klasa, fyrirtækja og stoðkerfis er forsenda þess að ná árangri í þeim stóru verkefnum sem fram undan eru.

Fundinum lauk með opnum umræðum þar sem fundargestir fengu tækifæri til að ræða saman og móta næstu skref. Meðal annars ræddi Vala Hauksdóttir, fulltrúi Markaðsstofu Suðurlands, hvernig Markaðsstofan gæti komið að því að vinna með sveitarfélaginu að þessari uppbyggingu, en Markaðsstofan stýrir áfangastaðaáætlun fyrir allt Suðurland. Ljóst er að bjart er fram undan í ferðaþjónustu í Ölfusi og samstaða er um að nýta þann meðbyr sem nú ríkir.

Fundargestir