KLAK – Icelandic Startups, Íslandsstofa, Tækniþróunarsjóður og Vísindagarðar HÍ blása til opins kynningarfundar mánudaginn 19. janúar á milli kl 11:00 og 13:00 í Fjölheimum á Selfossi í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Háskólafélag Suðurlands og Orkídeu. Viðburðurinn er liður í hringferðinni „Nýsköpun & Ný Tengsl“ þar sem markmiðið er að tengja frumkvöðla og fyrirtæki á Suðurlandi við lykilaðila í íslensku nýsköpunarumhverfi.
Suðurland hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum og mældist með mesta vöxt heildaratvinnutekna allra landshluta á tímabilinu 2017–2024, eða um 33%. Árið 2024 hélt landshlutinn áfram að leiða vöxtinn á landsvísu með 2,1% aukningu. Þessi uppgangur kallar á öflugt stuðningsnet fyrir nýjar hugmyndir og vöxt fyrirtækja í héraði.
Hnitmiðuð dagskrá fyrir fólk með hugmyndir
Á fundinum verða flutt fjögur stutt og hnitmiðuð 15 mínútna erindi þar sem farið verður yfir þau tækifæri og þann stuðning sem stendur sunnlenskum frumkvöðlum til boða:
- KLAK kynnir sín verkefni en félagið heldur úti metnaðarfullri dagskrá árið um kring fyrir einstaklinga með hugmyndir og fyrirtæki í vexti, þátttakendum að kostnaðarlausu.
- Tækniþróunarsjóður kynnir styrki fyrir nýsköpunarverkefni – frá hugmynd að markaði.
- Íslandsstofa segir frá aðgangi að alþjóðamörkuðum, erlendum fjármögnunartækifærum og hvernig byggja má upp öflugt tengslanet fyrir vöxt fyrirtækja.
- Vísindagarðar HÍ kynna stuðningsumhverfi sitt, nýsköpunarsamfélagið Mýrina og uppbyggingu nýs djúptækniseturs.
Samtal og ráðgjöf í brennidepli
Að loknum erindum gefst góður tími fyrir samtal, spurningar og tengslamyndun. Gestir fá tækifæri til að ræða eigin verkefni milliliðalaust við fulltrúa stofnananna og fá ráðgjöf um næstu skref í sínum rekstri eða hugmyndavinnu.
Fyrir hverja er viðburðurinn?
Viðburðurinn er hluti af hringferðinni „Nýsköpun & Ný Tengsl“ sem skapar vettvang fyrir samtal, miðlun upplýsinga og tengslamyndun milli frumkvöðla, fyrirtækja og lykilaðila í nýsköpunarumhverfinu. Hann er opinn öllum og ókeypis, en er sérstaklega ætlaður þeim sem eru með nýsköpunar- eða viðskiptahugmynd í farteskinu, eru að stíga sín fyrstu skref í rekstri eða vilja þróa verkefni sín áfram og sækja á nýja markaði.

