fbpx

Hugmyndin „Black Beach Lagoon“ (Lón á svörtum sandi)  eftir Martein Möller og Reynar Ottósson, fékk fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um nýtingu varmaorku á Suðurlandi. Það voru Orka náttúrunnar, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem stóðu að hugmyndasamkeppninni.

Úrslitin voru kunngerð nýlega við hátíðlega athöfn í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði og kom það í hlut Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála að afhenda verðlaunin.

Tilgangur samkeppninnar var að fá fram hugmyndir um nýtingu varmaorku sem finnst víða á Suðurlandi og býður upp á fleiri tækifæri en nýtt eru í dag. Markmiðið er að nýta betur verðmætin sem eru í orkunni, auka fjölbreytni í atvinnulífi með umhverfismál að leiðarljósi og vinna að nýsköpun í orkutengdri starfsemi.

 

Á myndinni má sjá verðlaunahafa, ráðherra og dómnefnd

 

Verðlaunahugmyndin

Verðlaunahugmyndin snýst um að byggja upp ferðamannalón með heitu vatni í svörtum fjörusandinum á suðurströndinni. Í umsögn dómnefndar um Black Beach Lagoon segir: „Um er að ræða aðdráttarafl fyrir ferðamenn með samspili sjávar, fjöru og jarðhita í umhverfi þar sem myrkur, norðurljós og íslensk náttúra njóta sín. Auk þess býður tillagan upp á vaxtartækifæri með frekari tengingu við heilsueflingu, vellíðan og íþrótta- og útivistarfólk.  Tillagan er vel unnin og samnýtir á áhugaverðan hátt staðbundnar auðlindir. Tillagan er hvorutveggja í senn frumleg og raunhæf. Gert er ráð fyrir stóraukinni jarðvarmanýtni og minni sóun.“

Dómnefnd hefur ákveðið að veita vinningstillögunni verðlaun að upphæð 1.500.000 kr. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun auk þess veita höfundum tillögunnar aðstoð við frekari þróun viðskiptahugmyndarinnar.  Orka náttúrunnar mun einnig bjóða höfundum vinningstillögunnar upp á ráðgjöf frá sérfræðingum Veitna sem er systurfyrirtæki Orku náttúrunnar.

Grunnskólanemar á Hellu fengu sérstök verðlaun

Tillaga frá nemendum 9. bekkjar grunnskólans á Hellu vakti sérstaka athygli dómnefndar. Þeir lögðu til að brennisteinsvetni sem kemur upp með heitri gufu á jarðhitasvæðum verði nýtt til að framleiða brennistein. Um leið myndi magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti minnka.

Þrjár aðrar tillögur fengu aukaverðlaun:

Jarðorkueldavélar eftir Ólaf Inga Reynisson

Fyrsta tillagan af þremur sem fær aukaverðlaun er tillagan: Tillagan er áhugavert innlegg í nýtingu jarðvarma þar sem hveraorka er nýtt í margs konar matargerð. Um er að ræða frumlega, raunhæfa og óhefðbundna aðferð við að framleiða og elda matvæli. Tillagan gefur ferðamanninum innsýn í fjölbreytta notkunarmöguleika jarðvarma með  sérstöðu íslenskrar náttúru er í aðalhlutverki.

Lág gróðurhús og ræktun nýrra tegunda eftir Hafstein Helgason og Eflu verkfræðistofu

Tillagan felur í sér nýbreytni í ræktun afurða þar sem sérhæfð gróðurhús nýrrar gerðar nýta lághita jarðvarma. Um er að ræða sveigjanlega og heildstæða tillögu sem getur dregið úr innflutningi matvæla og býður upp á vinnslu sérhæfðra afurða. Gera má ráð fyrir aukinni fjölbreytni í atvinnulífi og jákvæðum samfélagslegum áhiifum.

Hampræktun eftir Hinrik Jóhannesson

Í umsögn dómnefndar segir:  „Tillagan er frumleg og gerir ráð fyrir nýstárlegri nýtingu gróðurhúsa til ræktunar á hampi með fjölbreytta notkunarmöguleika á áframvinnslu s.s. í matvæli, eldsneyti og ýmsan iðnað. Tillagan er heildstæð, býður upp á þverfaglega starfsemi og möguleika á fjölbreyttari atvinnustarfsemi með samfélagslegum ávinningi.

Nánar um tillögur og verðlaun (.pdf)