Mikill áhugi var á kynningarfundum Eyjaganga ehf. sem haldnir voru í Höllinni í Vestmannaeyjum í síðustu viku og í Hvolnum á Hvolsvelli s.l. þriðjudag. Á fundunum kynntu fulltrúar félagsins næstu skref í einu stærsta innviðaverkefni Suðurlands: 18 kílómetra löng jarðgöng sem gætu tengt Eyjar við meginlandið innan tíu ára.

 

Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri Eyjaganga ehf.

Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri Eyjaganga ehf., fór yfir metnaðarfull markmið félagsins en stefnt er að því að hefja ítarlegar rannsóknarboranir strax í vor. Félagið, sem er stofnað af einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum, vinnur eftir svipuðu módeli og gert var við gerð Hvalfjarðarganga á sínum tíma. 

Gríðarlegir hagsmunir fyrir Suðurland í heild

Þótt verkefnið snúist í grunninn um samgöngutengingu milli lands og Eyja var rík áhersla lögð á að ávinningurinn nái til Suðurlands alls en verkefnið felur í sér gríðarlega hagsmuni fyrir landshlutann í heild. Með tilkomu ganganna verður til eitt stórt og öflugt atvinnusóknarsvæði þar sem fjarlægðir verða ekki lengur hindrun fyrir íbúa, vinnuafl og fyrirtæki. Greiðara aðgengi að útflutningshöfn í Vestmannaeyjum mun styrkja útflutningsgreinar á borð við fiskeldi og sjávarútveg um allt Suðurland og á sama tíma munu samfélagslegir innviðir, líkt og heilbrigðisþjónusta og framhaldsskólinn í Eyjum, nýtast íbúum á fastalandinu mun betur og öfugt. Þá munu greiðari samgöngur ýta undir verslun og þjónustu ásamt því að skapa fjölmörg ný tækifæri í ferðaþjónustu á svæðinu öllu.

Tæknilegar útfærslur: 18 kílómetrar á 220 metra dýpi

Samkvæmt áætlunum munu göngin verða um 18 kílómetra löng.

Þau munu liggja frá bænum Krossi í Landeyjum og koma upp á Heimaey. Til að tryggja að göngin séu grafin  í föstu bergi er gert ráð fyrir að þau þurfi að ná niður á 220 metra dýpi undir sjávarmáli Á Heimaey hafa áform um gangamuna breyst lítillega. Í stað þess að göng opnist við Hástein er nú miðað við að göngin komi upp í Hánni, á svæði sunnan við Sprönguna. Þau munu tengjast gatnakerfi Vestmannaeyjabæjar rétt sunnan við Friðarhöfn, undir Klifinu Sérstaklega var tekið fram að gætt yrði að því að Sprangan héli sér, svo Eyjamenn og gestir geti áfram sprangað í kaðlinum.                                                                                                   

Rannsóknir forsenda ákvarðanatöku

Þótt nýjustu skýrslur bendi til þess að gangagerðin sé tæknilega raunhæf ríkir enn óvissa um endanlegan kostnað. Áætlanir spanna allt frá 60 milljörðum króna upp í 140 milljarða.  

Á þessum tímapunkti snýr verkefni Eyjaganga ehf. að því að áætla raunhæfi verkefnisins og í framhaldinu hver kostnaður verður ef framkvæmdin er möguleg. Kjarnaholur verða boraðar bæði í Eyjum og í Landeyjum til að fá skýrari mynd af berglögunum.

 

Fjárhagsleg rök og framtíðarsýn

Forystumenn Eyjaganga telja verkefnið fjárhagslega skynsamlegt þegar litið er til þess hversu háar fjárhæðir ríkið leggur nú þegar í rekstur Herjólfs og viðhald Landeyjahafnar. Þótt stofnkostnaður sé mikill séu líkur á góðri arðsemi þegar til lengri tíma er litið.

Árni Sigfússon stjórnarformaður Eyjaganga ehf

Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri SASS

Ívar Atlason Svæðisstjóri vatnssviðs HS Veitna í Vestmannaeyjum