„Það er ljóst að framtíðin er í góðum höndum ungs fólks á Íslandi.“ Þetta var samdóma álit þeirra sem fylgdust með hæfileikakeppni sunnlenskra ungmenna, Skjálftanum 2025, sem fór fram um helgina við hátíðlega athöfn. Þetta var í fimmta sinn sem keppnin er haldin og var uppskeran sannkölluð hæfileikaveisla.
Ungmenni úr 8.–10. bekk grunnskóla víðs vegar af Suðurlandi stigu á stokk og sýndu fjölbreytt sviðsverk sem einkenndust af miklum töfrum, sköpunargleði og fagmennsku. Skjálftinn hefur fest sig í sessi sem mikilvægt samfélagslegt verkefni á Suðurlandi þar sem sjálfbærni, menntun ungmenna og efling samkenndar eru höfð að leiðarljósi.
Sterkur boðskapur og samfélagsleg vitund
Hátíðin í ár einkenndist af samkennd, hugrekki, vináttu og samstöðu. Verkin voru hvert öðru áhrifaríkara og veigraði unga fólkið sér ekki við að taka fyrir stór ádeilumál samtímans. Raddir þeirra voru sterkar og öflugar þegar þau túlkuðu tilfinningalitróf manneskjunnar, ýmist á spennuþrunginn eða kómískan hátt, en ávallt með samkenndina að vopni.
Vallaskóli sigurvegari Skjálftans 2025
Að lokinni keppni var það Vallaskóli sem fagnaði sigri við gífurleg fagnaðarlæti með verkinu Litríkir skuggar. Verkið þótti afar sterkt að mati dómnefndar.
„Verkið speglar bakslagið sem dynur á hinsegin samfélaginu og eflir þá vonarbaráttu um viðsnúninginn að ljósinu sem beinir okkur í rétta átt.“

Önnur verðlaun:
- sæti: Grunnskólinn í Hveragerði með verkið Þori, get og vil.
„Verkið fjallar um kvenréttindabaráttu sögunnar og það ferðalag sem konur hafa farið í til að ná jafnrétti.“

- sæti: Reykholtsskóli með verkið Steríótýpur.
„Verkið fjallar um það að vilja falla inn í hópinn en þurfa þess ekki. Fögnum fjölbreytileikanum, einstaklingnum sem einstökum og gleðinni við það að vera maður sjálfur.“

Glæsileg umgjörð
Dómnefndin var ekki af verri endanum en hana skipuðu Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir söngkona, Mikael Emil Kaaber leikari, Ágústa Eva Erlendsdóttir söng- og leikkona, og Tómas Jónsson tónlistarmaður. Þá sá Dansakademían á Selfossi um opnunaratriðið með verkinu Housewives, sem vakti athygli á heimsmeistaramótinu Dance World Cup á Spáni síðastliðið sumar ásamt því að DILJÁ flutti skjálftalag ársins, POWER.
SASS óskar öllum þátttakendum til hamingju með frábæra frammistöðu. Það er ómetanlegt fyrir samfélagið á Suðurlandi að eiga svo hugrakkt og hæfileikaríkt ungt fólk.
Hægt er að horfa á Skjálftann 2025 í heild sinni á vef RÚV. Smelltu hér til að horfa á Skjálftann á RÚV
Nánari upplýsingar má finna á www.skjalftinn.is og á Instagram síðu keppninnar @skjalftinnsud.



