Vinnumálastofnun hefur, í samstarfi við evrópska samstarfsaðila, opnað nýjan og öflugan námsvef undir heitinu New Beginnings. Vefurinn er sérstaklega hannaður til að styðja við fólk af erlendum uppruna sem vill hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd, efla sjálfstraust sitt og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
Verkefnið hefur verið í vinnslu undanfarin tvö ár undir forystu Vinnumálastofnunar í samstarfi við aðila frá Frakklandi, Spáni og Hollandi. Markmiðið er að virkja þá miklu hæfileika, reynslu og menningarauð sem innflytjendur búa yfir og hjálpa þeim að skapa sín eigin tækifæri.
Hagnýtt efni á fimm tungumálum
Margir innflytjendur mæta hindrunum á borð við flókna stjórnsýslu, tungumálaerfiðleika eða skort á tengslaneti. New Beginnings mætir þessum áskorunum með hagnýtum tækjum og tólum sem byggja á jákvæðri sálfræði og styrkleikamiðaðri nálgun.
Námsvefurinn, sem nú er tilbúinn, er aðgengilegur á fimm tungumálum: ensku, íslensku, frönsku, spænsku og hollensku.
Á vefnum má finna efni sem hjálpar þátttakendum að:
- Kortleggja styrkleika sína og færni.
- Þróa viðskiptahugmyndir með módelum eins og Ikigai og TIMED.
- Byggja upp tengslanet og skapa sér persónulegt vörumerki.
- Öðlast skilning á rekstrarumhverfi og reglugerðum í nýju landi.
Ókeypis og opið öllum
Aðgangur að vefnum er opinn öllum að kostnaðarlausu. SASS hvetur einstaklinga af erlendum uppruna til að kynna sér efnið. Jafnframt eru ráðgjafar og aðrir sem vinna með markhópnum hvattir til að nýta vefinn sem verkfæri í sinni ráðgjöf.
Hægt er að skrá sig og byrja strax á slóðinni: www.newbe.is