fbpx

1. Inngangur

Hér á eftir fer skýrsla stjórnar SASS fyrir starfsárið 2000 – 2001. Eins og undanfarin ár er um að ræða sameiginlega skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Í stjórn SASS sátu á því starfsári sem nú er að ljúka; Ingunn Guðmundsdóttir Árborg, formaður, Valtýr Valtýsson Holta- og Landsveit, varaformaður, Aldís Hafsteinsdóttir Hveragerðisbæ, Ágúst Ingi Ólafsson Hvolhreppi, Hafsteinn Jóhannesson Mýrdalshreppi, Geir Ágústsson Gaulverjabæjarhreppi, Sigurður Bjarnason Ölfusi, Sveinn Sæland Biskupstungnahreppi, og Torfi Áskelsson Árborg.

Alls hélt stjórn SASS 15 stjórnarfundi á liðnu starfsári.

2. Störf og ályktanir stjórnar

Hér á eftir verður stiklað á stóru um verkefni stjórnar á starfsárinu og getið helstu mála. Auk þeirra fjallaði stjórnin um fjöldamörg önnur mál og erindi sem henni bárust.

Suðurlandsskjálftar
Meðal helstu viðfangsefna stjórnarinnar voru jarðskjálftarnir, sem riðu yfir Suðurland 17. og 21. júní á síðastliðnu sumri, og afleiðingar þeirra. Strax 22. júní var haldinn fundur að tilhlutan þingmanna með sveitarfélögunum, þar sem farið var yfir þau vandamál sem við blöstu strax í kjölfar skjálftanna. Á næsta fundi stjórnarinnar var eftirfarandi samþykkt gerð: „Stjórn SASS hvetur eindregið til þess að brunabótamat húsa sem skemmdust í jarðskjálftum á Suðurlandi í júní s.l. verði fært að endurstofnverði þeirra eða því sem næst. Ljóst er að fólk sem misst hefur heimili sín vegna náttúruhamfara hefur ekki kost á því að koma sér upp sambærilegu húsnæði/heimili nema að bætur miðist við endurbyggingarkostnað þess húsnæðis sem eyðilagðist. Brunabótamat margra húsa sem eyðilögðust í jarðskjálftunum er byggt á gömlum forsendum sem virðast ekki endurspegla raunverulegan byggingarkostnað samskonar húsa. Nauðsynlegt er að þetta verði leiðrétt og með því tryggt að fólkið eigi þess kost að halda áfram búsetu á sama stað og fyrr við sem líkust skilyrði og það hafði fyrir jarðskjálftana. Stjórn SASS hvetur einnig til þess að kannað verði sérstaklega ástand húsa sem verið geta varasöm eða byggð úr varasömu byggingarefni, sbr. reynslu eftir síðustu jarðskjálfta. Kannað verði hvort öryggi íbúa svæðisins sé tryggt til frambúðar.“

Í september sl. var haldinn annar fundur með alþingismönnum, forsvarsmönnum sveitarfélaga og fulltrúum Viðlagatryggingar, þar sem reynt var að meta stöðu mála í kjölfar skjálftanna. Fram kom m.a. að endurskoða þyrfti matsreglur og að auka þyrfti svigrúm fyrir tjónabætur. Jafnframt var talið brýnt að kanna rækilega ástand lélegra og gamalla húsa á jarðskjálftahættusvæðum.

Á næsta fund stjórnar komu forsvarsmenn jarðskjálftamiðstöðar H.Í. í jarðskjálftaverkfræði þeir Ragnar Sigbjörnsson og Bjarni Bessason og lögðu fram greinargerð um starfsemi miðstöðvarinnar. Þar er gerð grein fyrir beinum og óbeinum áhrifum jarðskjálfta, rannsóknaáætlun fyrir tímabilið 1998 – 2000, eðli og áhrifum jarðskjálfta, líkanagerð og greiningu óvissu, áhættugreiningu og hönnun og forvörnum. Sérstök grein var gerð fyrir jarðskjálftanum 17. og 21. júní s.l. og nýjum verkefnum sem þarf að sinna í kjölfar jarðskjálftanna. Að mati forsvarsmanna Jarðskjálftamiðstöðvarinnar er brýnt að efla varnir og viðbúnað gegn jarðskjálftum þar sem megináhersla verði lögð á að fyrirbyggja manntjón, draga úr slysum og lágmarka skemmdir á byggingum, tæknikerfum og innanstokksmunum.

Lögð var fram og samþykkt eftirfarandi tillaga: ,,Stjórn SASS skorar á stjórnvöld að fela Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftafræðum á Selfossi, á grundvelli greiningar á því tjóni sem varð í jarðskjálftunum í sumar, að gera áhættugreiningu sem nær til allra jarðskjálftasvæða landsins. Á grundvelli hennar verði síðan svæði og byggingar flokkaðar í áhættuflokka. Þessar upplýsingar verði nýttar til þess að forgangsraða endurnýjun bygginga og setja fram hönnunarreglur og leiðbeiningar til stjórnar og almennings. Leggja ber áherslu á íbúðarhúsnæði, skóla og dvalarheimili. Jafnframt verði Rannsóknarmiðstöðinni falið að rannsaka eldri hús, ákveðnar byggingagerðir og illa byggð hús sem eru líkleg til að valda slysum og manntjóni á jarðskjálftasvæðum með það að markmiði að farga eða afskrifa sum þessara húsa og styrkja önnur“. Stjórn SASS telur augljóst að í kjölfar jarðskjálftanna þurfi að fara fram endurskoðun á ýmsum lögum og reglugerðum sem þessi mál varða.

Á fundi stjórnar SASS nú í mars var til umsagnar tillaga til þingsályktunar um rannsókn og úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum. Markmið rannsóknarinnar verði að efla varnir og viðbúnað gegn jarðskjálftum. Stjórn SASS mælti með samþykkt tillögunnar.

Samtökin hafa með ýmsum hætti komið á framfæri sjónarmiðum í þessu máli öllu við fjölmiðla, þingmenn og stjórnvöld. Formaður og varaformaður stjórnar ásamt Árna Johnsen fyrsta þingmanni Suðurlands áttu m.a. viðræður við forsætisráðherra um málið. Á þeim fundi var sérstaklega áréttuð óskin um fé til rannsókna á mannvirkjum samanber áðurnefnda samþykkt stjórnar. Forsætisráðherra fékk einnig upplýsingar um ýmis mál sem upp komu hjá þeim sveitarfélögum þar sem tjón varð .

Flutningur stofnana út á land
Á undanförnum árum hefur íbúaþróun á Íslandi verið flestum landsbyggðarsveitarfélögum í óhag og fjárhagsleg staða þeirra versnað vegna fækkunar íbúa. Atvinnulíf á landsbyggðinni er víða einhæft og skapar það m.a. því unga fólki sem fer burt frá heimahögunum í langskólanám, erfiðleikum með að snúa heim aftur og fá störf sem hæfir menntun þeirra. Það er því nauðsynlegt hverju héraði að skapa aðstæður til fjölbreyttari starfa.

Til að sporna gegn þessari þróun hefur m.a. verið gripið til þess ráðs, þó í allt of litlum mæli, að flytja ríkisstofnanir út á land. Samband íslenskra sveitarfélaga ætti á sama hátt að beita sér fyrir flutningi stofnana, sem það á aðild að, út á land ef það telst samræmast starfsemi viðkomandi stofnunar.

Í ljósi þessa og dökks útlits í atvinnumálum í vestanverðri Rangárvallasýslu á síðastliðnu ári, vegna fyrirætlunar um brottflutning stórs atvinnufyrirtækis, sendu Samtökin ásamt Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands og sveitarfélögum á svæðinu, stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga erindi þar sem óskað var eftir viðræðum um möguleika á flutningi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Hellu. Samþykkt var að verða við þeirri ósk, en viðræðum hefur verið frestað þar sem tekjustofnanefnd sveitarfélaga og ríkis setti fram þær hugmyndir að starfsemi Innheimtustofnunar yrði flutt alfarið til ríkisins. Það mál er nú í höndum nefndar á vegum Félagsmálaráðherra, en óskað verður eftir viðræðum ef þessi starfsemi verður áfram á hendi sveitarfélaga.

Mjög mikilvægt er að mati stjórnarinnar að flytja stofnanir út á land ef þess er kostur og jafnframt að Suðurland verði ekki sett hjá þegar slíkt kemur til greina, þar sem mikil þörf er á atvinnuuppbyggingu, sérstaklega á austanverðu svæðinu .

Sjúkrahús Suðurlands – kostnaðarþátttaka
Á Stjórn SASS fékk erindi frá Heilbrigðisstofnuninni Selfossi, dags. 3. nóvember 2000, ásamt afriti af bréfi stofnunarinnar, dags. 3. nóvember 2000, til Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra varðandi bætta húsnæðisaðstöðu stofnunarinnar og fyrirhugaða viðbyggingu.

Magnús Stefánsson framkvæmdastjóri kom á fund stjórnarinnar og gerði grein fyrir fyrirhuguðum byggingaframkvæmdum. Hönnuður hefur verið ráðinn og gerð nýtingaráætlun. Það sem liggur til grundvallar húsnæðisvanda stofnunarinnar er óviðunandi húsnæðisaðstaða í langlegudeildinni Ljósheimum og aukinn fólksfjöldi sem kallar á bætta aðstöðu heilsugæslustöðvarinnar.Gert er ráð fyrir 50 milljónum á fjárlögum næsta árs, en verkið mun kosta í heild um 600 til 700 milljónir króna. Húsið verður um 1100 m2 að grunnfleti á tveimur hæðum, auk tengibyggingar og endurbóta. Stefnt er að því að gera samning um málið í upphafi næsta árs á milli þeirra aðila sem því tengjast. Samkvæmt núgildandi lögum greiða sveitarfélögin 15 % stofnkostnaðarins.

Af þessu tilefni áréttaði stjórn SASS nauðsyn þess að komið verði á skýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessum málum og að saman fari framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð. Í bréfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem ritað er SASS í kjölfar ályktunar stjórnarinnar, segir m.a að tekjustofnanefndin sem skilaði niðurstöðum í október sl. legði til að þegar í stað yrði hafin vinna við að yfirfara verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það skoðað sérstaklega hvar ástæða væri til að draga úr sameiginlegum framkvæmdum. Nefnd á vegum félagsmálaráðherra er ætlað að fjalla um verkaskiptinguna og er sérstaklega ætlað að athuga hvort æskilegt sé að eftirtalin verkefni verði alfarið á hendi ríkisins: stofnkostnaður sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, stofnkostnaður framhaldsskóla þ.m.t. heimavista og Innheimtustofnun sveitarfélaga. Fram kemur síðan í bréfi Sambandsins að það telji óráðlegt fyrir sveitarfélög að binda til langs tíma hlutdeildarþátttöku í framkvæmdum við heilbrigðisstofnanir. Stjórn SASS telur brýnt að nefndin hraði störfum sínum sem mest, þannig að óljós staða þessara mála komi ekki í veg fyrir bráðnauðsynlegar framkvæmdir .

Þjóðlendumál
Eins og menn muna þá ályktaði síðasti aðalfundur um málefni þjóðlendna. Á fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var haldinn mánuði síðar komu sunnlendingar því til leiðar með stjórnarmennina Valtý Valtýsson og Svein Sæland í broddi fylkingar, að sá fundur ályktaði í svipuðum anda um þjóðlendumálin. Í framhaldi af því var óskað eftir fundi með forsætis- fjármála- og félagsmálaráðherrum með milligöngu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að ræða þessi mál. Sá fundur var loks haldinn í febrúar s.l. og sátu hann af hálfu SASS Ingunn Guðmundsdóttir, Valtýr Valtýsson og Sveinn Sæland. Fundinn sátu einnig formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri og bæjarfulltrúi frá Hornafirði.

Í grófum dráttum var umræðan á þá leið að fulltrúar sveitarfélaganna gagnrýndu þær aðferðir sem viðhafðar hafa verið í því skyni að ákvarða mörk þjóðlendna. Rætt var um þau viðhorf sem fram hefðu komið hjá mörgum þingmönnum og jafnvel ráðherrum þess efnis að ekki væri unnið í anda laganna og í framhaldi af því velt upp þeirri spurningu hvort pólitískt bakland málsins væri að veikjast eftir því sem það gengi fram. Áhyggjum var lýst yfir mögulegum afleiðingum ef úrskurður óbyggðanefndar yrði landeigendum í óhag. Afleiðingum sem gætu birst í ófriði og málaferlum næstu 30 árin. Spurt var hvort ráðherrar hefðu vilja eða möguleika til að hafa áhrif til þess að breyta vinnuaðferðum í málinu. Þá ósk fengu ráðherrarnir í nestið. Fundurinn stóð í rúmlega klukkustund, en ákveðið var að sami hópur skyldi koma saman þegar Óbyggðanefnd hefði úrskurðað í málum Árnesinga.

Kynningarmyndband um Suðurland
Stjórn SASS ákvað á síðasta ári að láta gera kynningarmyndband um Suðurland og fékk til þess Myndbæ hf. og var handritsgerð og umsjón í höndum Gissurar Sigurðssonar fréttamanns. Um er að ræða myndband sem sýnir Suðurland dagsins í dag, náttúrufar, landkosti, fyrirtæki og mannlíf, á fjölbreytilegan hátt. Kostnaður við verkið er kr. 1.500.000. og er myndbandið nú fullbúið. Eftirtaldir aðilar hafa styrkt gerð myndbandsins: K.Á, Selfossveitur, Set hf, MBF, Landsvirkjun, Kaupás og Samgönguráðuneytið.

Myndbandið mun verða sent öllum grunnskólum í landinu í gegnum Námsgagnastofnun, auk þess sem það verður sýnt á hótelrásum. Þá er fyrirhugað að hafa myndbandið á boðstólum í upplýsingamiðstöðvum og ferðamannaverslunum á Suðurlandi. Einnig verður óskað eftir birtingu þess á sjónvarpsstöðvunum. Þá geta fyrirtæki/stofnanir sem styðja verkefnið fengið myndbandið á kostnaðarverði. Myndbandið verður framleitt bæði með íslensku og ensku tali.

Starfsmannamál
Mikil eftirmál urðu vegna tímabundinnar ráðningar í starf forstöðumanns Skólaskrifstofu Suðurlands. Einn starfsmaður skrifstofunnar sætti sig ekki við þau málalok og kærði ráðninguna til Kærunefndar jafnréttismála og jaframt sendi hann stjórnsýslukæru til Félagsmálaráðuneytisins. Lyktir þessara mála voru þau að stjórnsýslukærunni var hafnað en úrskurður kærunefndar var sá að á starfsmanninum hefðu verið brotin jafnréttislög. Gerður hefur verið starfslokasamningur við starfsmanninn og hefur hann hætt störfum.

Þá hafa tveir fyrrum starfsmenn Skólaskrifstofunnar höfðað mál á hendur SASS vegna vangoldins orlofs á yfirvinnu. Samtökin féllust ekki á kröfur starfsmannanna, þar sem þeim hefur verið greidd föst yfirvinna og einnig í sumarleyfismánuðum og hefur það verið talið jafngilda orlofsgreiðslum á yfirvinnu. Hefur þessi háttur verið hafður á hjá öllum starfsmönnum á vegum SASS og tíðkast raunar hjá mörgum aðildarsveitarfélaganna. Því er um mjög mikilvægt mála að ræða og tók stjórnin þessa ákvörðun eftir ítarlega skoðun með lögmanni og að höfðu samráði við fulltrúa allra aðildarsveitarfélaganna á sérstökum fundi sem haldinn var í desember sl. Málið er nýlega dómtekið og því ekki ljóst hverjar lyktir þess verða.

Í kjölfar þessara mála hafa orðið mikil mannaskipti á skrifstofunni, eins og fram kemur hér á eftir. Nýr forstöðumaður, Kristín Hreinsdóttir , tók til starfa á Skólaskrifstofunni um sl. áramót.

Landshlutanefnd um málefni fatlaðra
Á árinu 1997 var skipuð sérstök landshlutanefnd á starfssvæði SASS að tilhlutan Félagsmálaráðherra sem skyldi taka þátt í undirbúningi á flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Þessi vinna hefur legið niðri þar sem undirbúningur málsins af hálfu ríkisins tók lengri tíma en áætlað hafði verið. . Nú hillir undir að ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga verði samþykkt á yfirstandandi þingi og líkur á að þau taki gildi 1. janúar 2003. Ef það verður samþykkt mun það hafa verulegar breytingar í för með sér, málefni fatlaðra færast til sveitarfélaganna og munu þau verða samþætt annri félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þetta mun þýða verulega uppstokkun og endurskipulagningu félagsþjónustunnar víðs vegar á Suðurlandi. Ný nefnd var skipuð í málið í desember sl. og skilar hún nú skýrslu til aðalfundarins.

Þátttaka í nefndum
Á starfsárinu hefur stjórn tilnefnt fulltrúa í eftirtaldar nefndir og ráð: Kristján Einarsson og Valtýr Valtýsson í skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands og Gunnar Þorgeirsson og Margrét Einarsdóttir í skólanefnd Menntaskólans að Laugarvatni. Þá var Guðmundur Rafnar Valtýsson tilnefndur í starfshóp um framtíðarnýtingu Héraðsskólahússins á Laugarvatni.

Framkvæmdastjóri hefur tekið þátt í störfum tveggja nefnda á síðasta starfsári tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga; samráðsnefnd um málefni grunnskólans en í henni sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, kennarasamtakanna og Menntamálaráðuneytisins,og úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála um grunnskólakostnað. Ingunn Guðmundsdóttir formaður SASS situr í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

3. Rekstur stofnana

Skrifstofa SASS
Rekstur skrifstofunnar hefur verið með hefðbundnum hætti. Skrifstofan sér um bókhald og annað almennt skrifstofuhald fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands, Sorpstöð Suðurlands, Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands og SASS auk launavinnslu vegna kennara fyrir 15 sveitarfélög. Mikið mæðir á í þeim efnum vegna nýrra kjarasamninga við kennara. Þá sér skrifstofan um allt almennt skrifstofuhald fyrir Kjötmjöl ehf. og Fræðslunet Suðurlands. Gjald er að sjálfsögðu tekið fyrir þessa þjónustu, eins og sést í ársreikningi og fjárhagsáætlun. Önnur þjónusta skrifstofunnar við sveitarfélögin hefur verið með hefðbundnum hætti, upplýsingagjöf ýmiss konar og aðstoð.

Afkoma úr rekstri SASS var góð á síðasta ári og samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir óbreyttum árgjöldum sveitarfélaganna.

Loks hefur náðst niðurstaða í ágreiningsmáli við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um eftirlaunaskuldbindingar og er því ekki lengur neitt til fyrirrtöðu að reikna út eftirlaunaskuldbindingar samtakanna, þannig að hægt verði að sjá þær skuldbindingar í efnahagsreikningi.


Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Afkoma Heilbrigðiseftirlits var á sléttu um áramót, en þrátt fyrir það var afkoman verri en gert hafði verið ráð fyrir. Ástæðan var sú að tekjur vegna eftirlitsgjalda voru lægri en áætlað hafði verið, en eftirlitsgjöld voru lögð á í fyrsta sinn í vestmannaeyjum.. Brugðist var við því með því að leggja aukagjald á sveitarfélögin upp á rúmlega 2 milljónir króna. Er það í samræmi við lög nr. 7/1998, sem kveða skýrt á um að sveitarfélög hafi heimild til að leggja á eftirlitsgjöld en þeim beri að greiða það sem upp á vantar í samræmi við íbúafjölda 1. desember næstliðins árs. Talið var skynsamlegra að loka dæminu strax fremur en að fresta því til þessa árs. Í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir lægri tekjum af eftirlitsgjöldum, en að sama skapi hærri framlögum sveitarfélaganna. Þess vegna er vonast til að ekki koma til neinna aukaframlaga á þessu ári.

Sameiginleg heilbrigðisnefnd fyrir allt kjördæmið tók til starfa á árinu 1998. Í henni sitja fjórir fulltrúar tilnefndir af SASS og einn fulltrúi frá Vestmannaeyjabæ. Atvinnurekendur eiga rétt á einum fulltrúa, en sæti þeirra er autt í nefndinni.. Í gildi er samningur á milli Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum um framkvæmd eftirlitsins í Vestmannaeyjum.

Skólaskrifstofa Suðurlands.
Miklar breytingar hafa orðið á meðal starfsamanna skrifstofunnar. Fjórir fastir starfsmenn hættu störfum og einn sem ráðinn var tímabundið. Ragnar S. Ragnarsson sálfræðingur gegndi starfi forstöðumanns á síðasta ári, í leyfi Jóns Hjartarsonar sem sagt hefur starfi sínu lausu og eru þeim báðum hér með þökkuð vel unnin störf. Ragnar gegnir áfram starfi sálfræðings vuið skrifstofuna Nýr forstöðumaður Kristín Hreinsdóttir var ráðinn frá og með síðustu áramótum. Tveir sálfræðingar og einn talmeinafræðingur hófu störf sl. haust og nú hefur verið gengið frá ráðningu tveggja kennsluráðgjafa frá og með næsta hausti. Stöðugildi við skrifstofuna verða því sjö frá næsta hausti og hefur fjölgað um eitt, í samræmi við heimild sem stjórn SASS veitti. Skrifstofan getur því áfram veitt góða þjónustu til hagsbóta fyrir skóla og þar með nemendur á Suðurlandi hér eftir sem hingað til.

Sorpstöð Suðurlands.
Samtökin sjá um um rekstur Sorpstöðvar Suðurlands. Starfsemi stöðvarinna, en hún rekur eins og kunnugt er sorpurðunarsvæði í Kirkjuferjuhjáleigu. Jafnframt starfar umhverfisfræðingur á vegum Sorpstöðvarinnar og sinnir m.a. ýmissi ráðgjöf við sveitarfélögin. Þá sér Sorpstöðin um rekstur nýrisinnar kjötmjölsverksmiðju í Hraungerðirhreppi. Reksturinn hefur lent í nokkrum hremmingum vegna kúariðufárs í Evrópu og innflutnings ,, írskra nautalunda“ Um verulegt framfaraspor er að ræða í umhverfismálum á Suðurlandi með tilkomu hennar og því nauðsynlegt að treysta starfsemi hennar með öllum tiltækum ráðum.

Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands.
SASS hefur séð um bókhald sjóðsins auk þess sem náin samvinna hefur verið við sjóðinn um ýmis mál sem varða sunnlensk sveitarfélög með einum eða öðrum hætti.

4. Lokaorð

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga starfsárið 2000 – 2001 þakkar starfsmönnum samtakanna og samstarfsstofnana fyrir gott starf á liðnu starfsári. Stjórnin þakkar einnig öllum sveitarstjórnum á Suðurlandi ánægjulegt samstarfið á starfsárinu.