fbpx

1. Inngangur

Hér á eftir fer skýrsla stjórnar SASS fyrir starfsárið 1999 – 2000. Sami háttur er hafður á og áður að flytja sameiginlega skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Í stjórn SASS sátu á því starfsári sem nú er að ljúka; Ingunn Guðmundsdóttir Árborg, formaður, Valtýr Valtýsson Holta- og Landsveit, varaformaður, Aldís Hafsteinsdóttir Hveragerðisbæ, Guðmundur Svavarsson Hvolhreppi, Hafsteinn Jóhannesson Mýrdalshreppi, Kristján Einarsson Árborg, Sigurður Bjarnason Ölfusi, Sveinn Sæland Biskupstungnahreppi, og Torfi Áskelsson Árborg.

Stjórn SASS hélt 14 stjórnarfundi á liðnu starfsári auk sameiginlegs fundar með stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og fundar með þingmönnum kjördæmisins.

2. Störf og ályktanir stjórnar

Hér á eftir verður stiklað á stóru um verkefni stjórnar á starfsárinu og getið helstu mála. Auk þeirra fjallaði stjórnin um fjöldamörg önnur mál og erindi sem henni bárust.

Kirkjubæjarstofa – Náttúrustofa Suðurlands
Mál Náttúrustofu Suðurlands og Kirkjubæjarstofu voru áfram á borðum stjórnar SASS en fyrir lágu óskir frá Náttúrustofu Suðurlands frá 1997 og Kirkjubæjarstofu frá 1998 um þátttöku aðildarsveitarfélaga SASS í rekstri þessara stofnana. Erfiðlega hefur gengið að fá botn í þau mál og til að ljúka þeim hélt stjórnin sérstakan fund til að fara yfir málið, ásamt forstöðumanni Náttúrustofunnar. Í kjölfarið samþykkti stjórnin eftirfarandi ályktun: „Stjórn SASS telur sér ekki fært að mæla með þátttöku aðildarsveitarfélaga SASS í rekstri Náttúrustofu Suðurlands og telur ekki skynsamlegt að blanda saman verkefnum ríkis og sveitarfélaga með þeim hætti. Því skorar stjórn SASS á ríkisstjórn og Alþingi að þetta verkefni verði í framtíðinni algjörlega á hendi ríkisins.“ Það kom fram í óformlegum samtölum við forráðamenn Umhverfisráðuneytisins að þar væru uppi hugmyndir um að færa Náttúrustofurnar alveg til sveitarfélaganna og er tækifærið hér með notað til að lýsa yfir andstöðu við slík áform, því um er að ræða rannsóknarstörf sem eðlilegra er að ríkið sjái um og í samræmi við aðra rannsóknar- og vísindavinnu, sem yfirleitt er á hendi ríkisins.

Suðurstrandarvegur
Suðurstrandarvegur hefur verið á dagskrá síðustu aðalfunda SASS, enda um mikilvægt mál að ræða. Málið var tekið upp á fundi með þingmönnum í haust og á sameiginlegum fundi stjórna SASS og SSS nú í febrúar var eftirfarandi ályktun samþykkt:
„Sameiginlegur fundur stjórna Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldinn í Eldborg við Svartsengi 25. febrúar 2000, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að gerð Suðurstrandarvegar á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur verði hraðað og litið verði á lagningu vegarins sem sérstakt verkefni í tengslum við fyrirhugaða kjördæmabreytingu, þegar Suðurland og Suðurnes renna saman í eitt kjördæmi. Ein meginforsenda slíkrar breytingar er að hið nýja Suðurkjördæmi verði ein samgönguleg heild. Þar sem aðeins 3 ár eru þar til kjördæmabreytingin tekur gildi er mjög mikilvægt að nú sem allra fyrst verði teknar ákvarðanir um framkvæmdina og fjármögnun hennar. Í því sambandi leggja stjórnirnar áherslu á að um sérstaka fjármögnun verði að ræða, utan hefðbundinna fjárveitinga til vegamála, þannig að það bitni ekki á þeim verkefnum sem nú eru á dagskrá.“ Þessi ályktun er hér með ítrekuð og þingmenn kjördæmisins eindregið hvattir til að koma málinu í höfn sem fyrst í samvinnu við þingmenn Suðurnesja.

Fræðslunet Suðurlands
Á síðasta aðalfundi SASS var gerð ítarleg grein fyrir undirbúningi að stofnun Fræðslumiðstöð Suðurlands, sem nefnd á vegum SASS vann að. Þeirri vinnu var haldið ötullega áfram. Undirbúningsstofnfundur var haldinn 31. maí 1999 og síðan var Fræðslunet Suðurlands stofnað formlega á degi símenntunar 28. ágúst á síðasta ári.

Fræðslunetið er sjálfseignarstofnun, sem 34 aðilar standa að, sveitarfélög, félagasamtök, hagsmunasamtök, stofnanir og fyrirtæki. Heildarstofnfé var kr. 2.726.500 og þess má geta að sveitarfélögin, samtök þeirra og stofnanir lögðu til ríflega helminginn af þeirri upphæð, þar af lagði SASS fram kr. 400.000.

Meginmarkmið stofnunarinnar, skv. stofnskrá hennar, er að efla aðgengi íbúa fjórðungsins að margs konar námi og símenntun og auka með því búsetugæði á svæðinu. Mikilvægt er að ná þessum markmiðum því fátt skiptir meira máli fyrir búsetuskilyrði á landsbyggðinni en aðgangur að menntun. Sérlega miklvægt er að tryggt verði að íbúar sem víðast um Suðurland eigi þess kost að stunda fjarnám og verður með öllum ráðum að skapa nauðsynleg tæknileg skilyrði til að það verði hægt.

Starfsemin hefur farið vel af stað, boðið er upp á margvíslegt nám og verið er að semja við háskólastofnanir um námstilboð sem verða á dagskrá á næsta hausti.

Vatnajökulsþjóðgarður
Stjórn SASS barst erindi frá starfshópi um Vatnajökulsþjóðgarð, þar sem óskað var umsagnar um hugmyndir starfshópsins. Eftirfarandi samþykkt var gerð:
„Stjórn SASS telur fram komnar hugmyndir um Vatnajökulsþjóðgarð vera of snemma á ferðinni m.t.t. þess að flest sveitarfélög sem hafa með stjórnsýslu á svæðinu að gera eiga ólokið skipulagsvinnu. Vísar stjórnin í því sambandi til fram kominna athugasemda hreppsnefnda Ásahrepps og Skaftárhrepps.“ Um þýðingarmikið mál er að ræða fyrir sveitarfélögin í landinu, því að í raun er með stofnun þjóðgarða verið að afnema stjórnsýslu sveitarfélaga á viðkomandi svæði. Að mati stjórnarinnar er brýnt að leita annarra leiða til að vernda náttúruverðmæti og þá í samstarfi við sveitarstjórnir og landeigendur.

Ráðstöfun Framtakssjóðs atvinnulífsins
Á síðasta ári tók stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins ákvörðun um úthlutun ráðstöfunarfjár Framtakssjóðs Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands og Markaðs- og atvinnumálskrifstofa Reykjanesbæjar sendu inn umsókn en hlutu ekki náð fyrir augum sjóðsstjórnarinnar. Af þessu tilefni samþykkti stjórnin eftirfarandi ályktun samhljóða:
„Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga lýsir furðu sinni á afgreiðslu stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um ákvörðun á úthlutun ráðstöfunarfjár Framtakssjóðs atvinnulífsins. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands var ásamt Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar og Sparisjóði Keflavíkur einn af umsækjendum um fjórðung ráðstöfunarfjár Framtakssjóðs, samtals kr. 250.000.000.- Umsókn þessara aðila var hafnað, þrátt fyrir að bæði þessi félög hafi að baki tveggja áratuga reynslu á sviði atvinnuþróunar og hafi verið leiðandi félög á því sviði á undanförnum árum.“

Í ljósi þessa og þar sem sjóðurinn virðist einkum hafa beitt sér á höfuðborgarsvæðinu telur stjórn SASS fulla þörf á að taka starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til endurskoðunar og styður hugmyndir sem fram hafa komið um slíkt.

3. Samstarf við aðra aðila

Fundur með þingmönnum kjördæmisins
Fundur var haldinn með þingmönnum Suðurlandskjördæmis í október um ýmis hagsmunamál kjördæmisins. Farið var rækilega yfir mál allra samstarfsstofnana sveitarfélaganna með þingmönnunum, m.a. ályktanir síðasta aðalfundar SASS. Sérstaklega var drepið á ályktanir um stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn, Suðurstrandarveg, íþróttahús við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Kirkjubæjarstofu og Náttúrustofu Suðurlands og menningarhús á Suðurlandi. Í máli þingmanna kom fram að ekki lægi fyrir ákvörðun um Suðurstrandarveg, vegurinn væri ekki inni á vegaáætlun, en ýmsar hugmyndir væru uppi um möguleika á lagningu vegarins vegna kjördæmabreytingarinnar.

Þá voru ræddar hugmyndir um að sveitarstjórnarmenn kæmu meira að stefnumótun um samgöngumál á Suðurlandi í samvinnu við þingmenn kjördæmisins og tóku sumir þingmenn undir þau sjónarmið. Sú hugmynd kom fram að komið yrði á kynningarfundi sveitarstjórnarmanna og þingmanna um vegamálin, t.d. fyrir aðalfund SASS. Sveitarstjórnarmenn töldu að verulega þyrfti að taka á í samgöngumálunum og hlutur Suðurlands væri þar ekki nægilega mikill.

Einnig var rætt að auka mætti samstarf þingmanna Suðurlands, sveitarstjórnarmanna og samstarfsstofnana sunnlenskra sveitarfélaga. Í því sambandi var nefnt að ýmsar gagnlegar upplýsingar væri að fá hjá sveitarfélagastofnunum á Austurvegi 56 og þingmenn hvattir til að hagnýta sér það.

Fundur með stjórn SSS
Þann 25. febrúar síðastliðinn var haldinn sameiginlegur fundur stjórna Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, í Eldborg við Svartsengi. Eins og kunnugt er, er áformað að starfssvæði þessara tveggja samtaka verði eitt kjördæmi við næstu alþingiskosningar. Fundurinn tókst vel og horfa stjórnirnar bjartsýnar til áframhaldandi samstarfs. Engar tillögur eru komnar um hvernig samstarfinu skuli háttað, en eins og nú horfir er ekki talin ástæða til róttækra skipulagsbreytinga.

Á fundinum kynntu framkvæmdastjórar starfsemi og hlutverk samtakanna og rædd voru ýmis sameiginleg hagsmunamál svæðanna s.s. fyrirhuguð kjördæmabreyting, samgöngumál og orkumál. Sérstök ályktun var samþykkt um Suðurstrandarveg eins og áður er getið.

Aðrir fundir
Formaður og framkvæmdastjóri hafa sótt ýmsa fundi og ráðstefnur fyrir hönd SASS. Þar má nefna fulltrúaráðsfund og fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og fundi með forráðamönnum annarra landshlutasamtaka.

Þátttaka í nefndum
Á starfsárinu hefur stjórn tilnefnt fulltrúa í eftirtaldar nefndir og ráð:
Guðni Pétursson skrifstofustjóri Sveitarfélagsins Ölfuss í starfsmatsnefnd sveitarfélaga á Suðurlandi, Ólafía Jakobsdóttir sveitarstjóri í starfshóp um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri í stjórn Fræðslunets Suðurlands.

Framkvæmdastjóri hefur tekið þátt í störfum þriggja nefnda á síðasta starfsári tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga; samráðsnefnd um málefni grunnskólans en í henni sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, kennarasamtakanna og Menntamálaráðuneytisins, nefnd um hlutverk svæðisbókasafna og úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála um grunnskólakostnað. Þá er ótalið að Ingunn Guðmundsdóttir formaður SASS situr í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

4. Rekstur stofnana

Skrifstofa SASS.
Nokkrar breytingar urðu á starfsemi skrifstofunnar á síðasta ári og gengið frá nýju skipuriti á skrifstofu. Ingibjörg Árnadóttir sem gegndi starfi rekstrarfulltrúa tók við nýju starfi skrifstofustjóra og Bóel Sigurgeirsdóttir var ráðin í nýtt starf aðstoðarbókara í hálfu starfi. Þá lét Hrönn Sigurðardóttir af störfum um síðustu mánaðamót og eru henni hér með þökkuð vel unnin störf. Í hennar starf hefur verið ráðin Alda Alfreðsdóttir, sem starfað hefur á skrifstofu Árborgar undanfarin ár. Rekstur skrifstofunnar hefur verið með hefðbundnum hætti, en þó hafa umsvif hennar nokkuð vaxið. Skrifstofan sér um bókhald og annað almennt skrifstofuhald fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands, Sorpstöð Suðurlands, Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands og SASS auk launavinnslu vegna kennara fyrir 15 sveitarfélög. Þá hefur skrifstofan tekið að sér allt almennt skrifstofuhald fyrir Atgeir, Kjötmjöl ehf. og Fræðslunet Suðurlands. Gjald er að sjálfögðu tekið fyrir þessa þjónustu, eins og sést í ársreikningi og fjárhagsáætlun. Önnur þjónusta skrifstofunnar við sveitarfélögin hefur verið með hefðbundnum hætti, upplýsingagjöf ýmiss konar og aðstoð.

Heimasíða SASS sem opnuð var fyrir einu og hálfu ári hefur verið töluvert notuð. Á síðunni eru allar helstu upplýsingar um samtökin og aðildarsveitarfélögin. Jafnfamt er þar að finna nytsamlegar vefslóðir opinberra stofnana og lagasafn. Vefslóð SASS er http://sudurland.is/sass. Nokkur sveitarfélög hafa komið sér upp vefsíðum og fleiri eru að bætast í hópinn. Ekki er raunhæft að minnstu sveitarfélögin setji upp vefsíður, en mjög gagnlegt væri að þau tengdust netinu og kæmu sér upp netföngum. Hér með er skorað á sveitarfélögin og sveitarstjórnarmenn að huga að þessu á næstu mánuðum. Hægt væri að nota netið í upplýsingamiðlun með mun markvissari hætti ef öll sveitarfélögin væru nettengd.

Afkoma úr rekstri SASS var góð á síðasta ári og samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir óbreyttum árgjöldum sveitarfélaganna.

Ekki hefur enn fengist niðurstaða í ágreiningsmál við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um eftirlaunaskuldbindingar og er með ólíkindum hve hægt hlutir ganga fyrir sig á þeim bæ.

Á starfsárinu var samþykkt ný starfsmannastefna SASS, sem tekur til starfsemi samtakanna, þar með Heilbrigðiseftirlits og Skólaskrifstofu. Einnig samþykkti stjórn Sorpstöðvarinnar að gerast aðili að starfsmannastefnunni. Markmið hennar er að skapa starfsmönnum góð starfsskilyrði, þannig að þeir geti veitt góða þjónustu og jafnframt notið sín í starfi.

Þá var einnig gengið frá skipuriti samtakanna, sem skilgreinir og skýrir tengsl stofnana og starfsmanna. Ekki var um neinar grundvallarbreytingar að ræða frá því sem verið hefur, en eigi að síður var um nauðsynlega aðgerð að ræða til að eyða allri óvissu og hugsanlegum misskilningi.

Einnig voru ræddar hugmyndir um að gera starfsemi stofnana á Austurvegi 56 að einni skipulagslegri heild við stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands, en ekki náðist samstaða um þær.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Afkoma heilbrigðiseftirlits var á sléttu um áramót, en þrátt fyrir það var afkoman verri en gert hafði verið ráð fyrir. Ástæðan var sú að tekjuhlið áætlunar brást, reiknað var með tekjum af sérverkefnum sem ekki skiluðu sér. Brugðist var við því með því að leggja aukagjald á sveitarfélögin upp á rúmlega 3 milljónir króna. Er það í samræmi við lög nr. 7/1998, sem kveða skýrt á um að sveitarfélög hafi heimild til að leggja á eftirlitsgjöld en þeim beri að greiða það sem upp á vantar í samræmi við íbúafjölda 1. desember næstliðins árs. Talið var skynsamlegra að loka dæminu strax fremur en að fresta því til þessa árs. Í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár er ekki gert ráð fyrir neinum sértekjum og framlög sveitarfélaganna verða því hærri en gert var ráð fyrir í fyrra. Þess vegna er vonast til að ekki koma til neinna aukaframlaga á þessu ári. Verkefni Heilbrigðiseftirlitsins eru einnig ærin við hið lögskipaða eftirlit, þannig að í sjálfu sér er ekki rúm fyrir mikil sérverkefni. Ný gjaldskrá sem samþykkt var í september á siðasta ári gerir jafnframt þær kröfur að eftirliti sé sinnt í samræmi við skilgreindar forsendur, annars eru tekjur af eftirlitsgjöldum í húfi. Umrædd gjaldskrá er mikil framför frá því sem var, bæði fyrir gjaldendur svo og rekstraraðila Heilbrigðiseftirlitsins.

Sameiginleg heilbrigðisnefnd fyrir allt kjördæmið tók til starfa á árinu 1998 og hefur góð reynsla verið af störfum hennar. Hún varð þó ekki fullskipuð fyrr en um síðustu áramót, þegar Vestmannaeyingar skipuðu sinn fulltrúa í nefndina. Áður höfðu atvinnurekendur skipað sinn fulltrúa. Samkomulag náðist á milli SASS og Vestmannaeyjabæjar um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlitsins og verður rekstur þess áfram í höndum SASS. Einnig var gerður samningur á milli Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum um framkvæmd eftirlitsins. Þessi lausn var e.t.v ekki sú ákjósanlegasta að okkar mati, en sú eina sem samkomulag gat orðið um.

Skólaskrifstofa Suðurlands.
Afkoma Skólaskrifstofunnar var aðeins neðan við strikið á síðasta árinu. Starfsemin er í föstum skorðum, gott starf er unnið með skólum og sveitarstjórnum á svæðinu og verulegur vaxtarbroddur hefur verið í endurmenntun og námskeiðahaldi skrifstofunnar. Nú hefur skrifstofan gert samning við Fræðslunet Suðurlands um framkvæmd endurmenntunarnámskeiða fyrir kennara, en eftir sem áður mun skrifstofan móta stefnuna í endurmenntunarmálunum. Á síðastliðnu ári fékk Jón Hjartarson forstöðumaður skrifstofunnar leyfi frá störfum til ársloka á þessu ári og var Ragnar S. Ragnarsson ráðinn til að leysa hann af. Þá var Guðrún S. Einarsdóttir sálfræðingur ráðin til sama tíma.

Sorpstöð Suðurlands.
Eins og hingað til hafa samtökin séð um rekstur Sorpstöðvar Suðurlands. Veruleg starfsemi er á hennar vegum og stóð hún ásamt öðrum aðilum að stofnun fyrirtækis um rekstur kjötmjölsverksmiðju. Nú standa yfir byggingaframkvæmdir við verksmiðjuhús í Hraungerðishreppi og er áætlað að verksmiðjan geti hafið starfsemi í lok júlí á þessu ári. Um verulegt framfaraspor er að ræða í umhverfismálum á Suðurlandi með tilkomu hennar.

Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands.
SASS hefur séð um bókhald sjóðsins auk þess sem náin samvinna hefur verið við sjóðinn um ýmis mál sem varða sunnlensk sveitarfélög með einum eða öðrum hætti.

7. Lokaorð

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga starfsárið 1999 – 2000 þakkar starfsmönnum samtakanna og samstarfsstofnana fyrir gott starf á liðnu starfsári. Stjórnin þakkar einnig öllum sveitarstjórnum á Suðurlandi ánægjulegt samstarf á starfsárinu.