fbpx

Orka og lífskjör

Stór hluti af lífskjörum þjóðarinnar á rætur í nýtingu fallvatna og jarðvarma, miklu stærri en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Gjaldeyrissparnaður er gríðarlegur vegna þessara innlendu orkugjafa og auðlindirnar eru einnig að mestu umhverfisvænar, og það sem kallað er sjálfbærar.

Suðurland býr yfir miklum hluta af orkuvinnslu landsins. Sunnlendingar hafa að sama skapi haft miklar tekjur og atvinnu af umsvifum við uppbyggingu virkjana og flutningslína allt frá því virkjun Sogsins hófst, til uppbyggingar á Þjórsársvæðinu, Nesjavallavirkjunar og fjölmargra stórra og smárra hitaveituframkvæmda.

Mikil vakning varð þegar raf- og hitaveituvæðing hófst í landinu og vatnaskil urðu á sjöunda og áttunda áratugnum þegar stóriðjan kom til skjalanna. Upp úr því var lokið hitaveitu-væðingu þorra bæja í kjölfar olíuverðshækkana um miðjan áttunda áratuginn.

Stóriðjan ræður ferðinni

Stóriðjan hefur ráðið ferðinni í orkusölu og við uppbyggingu virkjana, en meðalstórir og minni kaupendur eru færri. Ef verður af öllum þeim stórframkvæmdum sem nú er stefnt að, mun orkunotkun stóriðjunnar svara til um 90% heildarnotkunarinnar.

Hlutur smærri iðnfyrirtækja og annara atvinnugreina er þannig aðeins lítill hluti af framleiddri orku.

Samt sem áður felast fjölbreyttir nýtingarmöguleikar í notkun há- og lághitaorku jarðvarmans í iðnaði og raforkan kemur alls staðar við sögu.

Afhverju vantar millistóra eða minni orkunotendur inn í flóru orkukaupenda?

Ástæðurnar eru að mínu mati fyrst og fremst þær að annars vegar er Ísland að miklu leyti óiðnvætt samfélag með afar lítil alþjóðleg, tæknileg og viðskiptaleg tengsl í iðnaði og framleiðslu.

Hin ástæðan er einfaldlega sú að orka til hefðbundins iðnaðar er ekkert eða lítið ódýrari en víða gerist erlendis.

Smár iðnaður, veikt bakland

Sá almenni iðnaður sem er til staðar, er með fáum undantekningum að mestu sniðinn og aðlagaður að innanlandsmarkaði. Þetta eru fyrirtæki sem þróast hafa í kring um innanlandsþarfir fyrst og fremst og eru ekki í miklum útflutningi.

Allar líkur eru á að svo muni verða áfram á meðan efnahagsramminn er sniðinn að sjávarútvegi og óstöðugur gjaldmiðill okkar mun valda síbreytilegum forsendum, jafnt í samkeppnisstöðu á heimamarkaði sem og í útflutningi. Smærri iðnaður mun síður eflast við þær kringumstæður og baklandið heldur áfram að vera fremur veikburða til að takast á við nýsköpun.

Sala á iðnaðarorku

Markaðsskrifstofur orkufyrirtækja og ráðuneyta reyna að vekja áhuga og lokka erlenda aðila til að líta á ýmsa möguleika tengda hitaorku eða rafmagni. Mikið virðist hins vegar þurfa til að raunhæfir kostir liggi á borðinu hvað almennan iðnað og minni fyrirtæki varðar.

Þannig hefur stóriðjan reynst eini raunhæfi farvegurinn til orkusölu og allt miðast við magn og stórtækar framkvæmdir á virkjanasviðinu. Framkvæmdir sem farnar eru að vekja spurningar um hversu langt má ganga, hverju eigi að fórna í umhverfismálum og hversu stórum hluta virkjanlegs afls eigi yfir höfuð að ráðstafa á lágverðsmarkaði stóriðjunnar. Óumdeilt er hins vegar að í þessu felst skjótfenginn hagvöxtur og stöðug tekjuöflun.

Við erum að þessu leyti mjög ómarkaðsvæddir og miðstýrðir og lítið frumkvæði er að finna frá okkar litlu og einangruðu fyrirtækjum eða frá atvinnulífinu almennt.

Þannig erum við líkari minna þróuðum ríkjum sem við keppum við um raforkusöluna.

Orkunotkun atvinnugreina á Suðurlandi

Orkunotkun atvinnulífs á Suðurlandi er bundin hefðbundnum atvinnugreinum, fiskvinnslu og landbúnaði auk smærri iðnaðar og þjónustufyrirtækja.

Ylræktin hefur ákveðna sérstöðu og byggir afkomu sína á samspili raf- og hitaorku, hún kemst næst því sem atvinnugrein að teljast til stórnotanda og á eflaust sóknarfæri.

Ylræktin hefur einnig þróast í tengslum við hitaveitur sem eru í raun iðnfyrirtæki sem vinna orku úr iðrum jarðar og jafnast þannig á við olíu og gasframleiðendur annara þjóða.

Tækifæri Suðurlands

Því heyrist fleygt að Sunnlendingar hafi orðið af því að fá atvinnufyrirtæki tengd þeirri miklu orkuframleiðslu sem svæðið býr yfir. Það gleymist hins vegar stundum að við njótum þess að orkuvinnslu-fyrirtækin voru byggð hér upp, starfa hér og er viðhaldið.

Það er hins vegar merkileg staðreynd að engin stærri atvinnustarfsemi skuli hafa verið sett hér niður, þ.e. ef litið er til annarra þátta en staðsetningar virkjana einna og sér. Margt mælir nefnilega með því.

Þorlákshöfn

Það er mjög undarlegt hversu sjaldan Þorlákshöfn er nefnd sem valkostur í stóriðju, en þar eru margar mjög hagstæðar forsendur; Þar er nægt landrými og aðstæður til hafnargerðar eru góðar.

Nálægð við höfuðborgarsvæðið ásamt Suðurlandi gefur jafnara framboð vinnuafls en víða annars staðar.

Siglingaleið til Evrópu er til muna styttri og flutningslínur raforku yrðu að öllum líkindum ódýrari en við ýmsa aðra kosti.

Um tíma leit út fyrir að tækist að byggja steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn en af óskiljanlegum ástæðum var henni komið fyrir, næstum því eins óhönduglega og hægt var með tilliti til flutnings á markað.

Óhætt er að fullyrða að verksmiðjan hefði orðið mun hagkvæmari í rekstri, afurðin ódýrari og útflutningsmöguleikarnir e.t.v. betri með staðsetningu í Þorlákshöfn.

Núverandi hugmyndir um byggingu súrálsverksmiðju fyrir norðan minna óneitanlega á þetta.

Sunnlenskt samstarf um virkjanir

Fyrir um áratug var haldin ráðstefna um orkumál á Suðurlandi.

Þar reifaði ég hugmyndir um samstarf sveitarfélaga á Árborgarsvæðinu og Suðurlandi um að beisla þá gríðarlegu háhitaorku sem er til staðar við Hveragerði.

Virkjun hliðstæða Svartsengi, Hitaveitu Suðurnesja, háhita-virkjun sem þjónað gæti raf- og hitaveitu-markaðnum og skapað forsendur til stóriðnaðar-uppbyggingar í Ölfusi o.fl. sóknarmöguleika.

Á þeim tíma þurfti einnig að leysa ýmis mál svo sem hitalækkun innanbæjarkerfis í Hveragerði, vatnsöflun á Selfossi og fleira sem féll vel að stofnun orkuveitunnar. Forsendur hafa breyst og væntanlega verður þessi kostur ekki framkvæmdur nema með öðrum hætti.

Eignarhaldsbreytingar

Miklar sviptingar hafa verið á eignarhaldi veitna í aðdraganda fyrirhugaðrar nýskipunar í lagaumhverfi orkumála og fjárhagsstaða sveitarfélaga knýr menn jafnvel til sölu orkufyrirtækja.

Alls óljóst er um hlutverk og framtíð orkudreifingarfyrirtækisins Rarik sem ásamt hinum stærri fyrirtækjunum tekur þátt í uppskiptunum. Sunnlensk veitufyrirtæki hafa gengið í ýmsar áttir í þeim efnum og önnur hugsa sinn gang.

Þrátt fyrir góðan vilja allra sem að sveitarstjórnarmálum vinna á Suðurlandi hefur að mínu áliti ekki náðst að móta sameiginlegar áherslur í þessum málaflokki. Æskilegt væri að skilgreina svæðið m.t.t. þessara og miklu fleiri þátta. Samhæfa hagsmuni sem koma heildinni til góða í nokkurs konar stefnumótunar áætlun þar sem sýn yrði skerpt á framtíð og möguleika.

Verðmætasköpun og virðisaukandi starfsemi

Það virðast örlög okkar Íslendinga að vera hrávöru og magnútflytjendur fremur en að fást við fullvinnslu markaðsvinnu og virðisaukandi hluti. Þar eru auðlindalitlar þjóðir fremri. Þær huga með öðrum hætti að verðmætum, vinna betur úr hráefnum orku og mannafla og stunda markvissara vöruþróunar og markaðs-starf. Nærtækt er að nefna Dani.

Við förum þannig að mörgu leyti verr með auðlindirnar og erum óþróaðri að ýmsu leyti og eins og áður sagði minna alþjóðatengdir en gerist meðal iðnvæddra þjóða, e.t.v. þó helst að undanskilinni fiskvinnslunni.

Mikilvægt er að Sunnlendingar skynji ýmis tækifæri í atvinnusköpun innan þeirrar flóru sem fyrir er, því oft leynast sprotar í athöfnum og umhverfi okkar, jafnvel smávægilegum tilburðum til sköpunar.

Ýmis sóknarfæri

Ég tel að innan hefðbundinna atvinnugreina s.s. í ylrækt, fiskvinnslu, landbúnaði, matvælaiðnaði, fiskeldi, bygginga- og efnaiðnaði felist ýmis færi. Tækifæri tengd okkar matvælafyrirtækjum með hliðarframleiðslu-greinum yrðu afar áhugaverð og nefna má jákvæð teikn um slíkt.

Unnið er að tilraunaframleiðslu á hörtrefjum í Þorlákshöfn þar sem jarðhiti er nýttur og bændur hafa gert samninga um ræktun hráefnis til vinnslunnar. Trefjar þessar eru nýttar í vefjariðnaði erlendis o.fl.

Framleiðsla á kjötkrafti með nýtingu hitaorku hefur hafist í Hveragerði, en þar er einnig um afar athyglisverða tilraun að ræða sem tengist kjötvinnslunni.

Gríðarlegur útflutningur hefur verið á vikri frá Þorlákshöfn og e.t.v. mætti láta reyna á tæknilega og markaðslega samstarfsfleti við erlenda aðila um frekari fullvinnslu byggða á nýtingu raf- og gufuafls.

Vinna hefur verið lögð í þróun og vinnslu á polyolum úr fiskolíum og fitu til plast- og efnaiðnaðar. Ýmsir möguleikar felast einmitt í eimunartækni fyrir efnaiðnað þar sem jarðgufa gæti nýst.

Ég vil einnig benda á að mikil auðlind felst í hreinleika neysluvatns og lofts, þó ekki teljist til orku í hefðbundnum skilningi þess orðs. Landbúnaður, fiskeldi, matvælaframleiðsla, ferðaþjónusta, afþreyingariðnaður og heilsustarfsemi eiga þar mikla sóknarmöguleika. Þetta er einn áhugaverðasti kostur dreifðari og fjarlægari byggða svæðisins sem jafnframt eru í meira návígi við dýrmætar náttúruperlur.

Orð til alls fyrst

Um alla þessa þætti þarf að fjalla með skipulegum hætti á sviði samstarfsvettvangs sveitarfélaganna, jafnframt því að virkja framkvæmdavilja hugmyndir og bakgrunn sem flestra úr öllum geirum atvinnuflórunnar. Okkur hættir til að sjást yfir þau tækifæri sem bíða í handraðanum og fyllast vonleysi en staðreyndin er að við eigum mörg tækifæri ef vel er á málum haldið.

Niðurstaða mín af þessari umfjöllun er því þessi:

Sú orka á Suðurlandi sem skiptir mestu máli er okkar eigin orka til að takast á við ný verkefni.

Þar þarf að virkja.