Setning
Ingunn Guðmundsdóttir, formaður SAS setti fundinn og bauð fulltrúa velkomna. Síðan tóku við stjórn fundarins þeir Loftur Þorsteinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson og var gengið til dagskrár.
Fyrsta mál á dagskrá var skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra og flutti formaður hana. Árið Var að ýmsu leyti óvenjulegt og viðburðaríkt og bar hæst jarðskjálftana í vor, sem ollu miklum búsifjum á Suðurlandi. Einnig drap formaður á þróun byggðar og flutning stofnana út á land, málefni Heilbrigðisstofunarinnar Selfossi, þjóðlendumálefni, málefni fatlaðra og fleira. Ingunn lét þess einnig getið að hún gæfi ekki kost á sér áfram sem formaður SASS.
Þá tók til máls Aldís Hafsteinsdóttir og flutti skýrslu stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands, ásamt Kristínu Hreinsdóttur, forstöðumanni. Miklar starfsmannabreytingar hafa orðið hjá stofnuninni á árinu, en jafnvægi hefur náðst á þeim vettvangi og er horft til framtíðar með skýr markmið og dugmikla starfsmenn í góðu samstarfi við skóla og sveitarstjórnir. Þakkaði Kristín Aldísi góð Störf í þágu skrifstofunnar en hún hyggst láta af störfum á þeim vettvangi.
Elsa Ingjaldsdóttir, settur framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands flutti skýrslu Heilbrigðisnefndar Suðurlands fyrir síðastliðið ár, svo og störf Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Í byrjun árs 2000 var gerð úttekt á starfsemi heilbrigðiseftirlitsins, kom sú könnun ágætlega út þó var ljóst að endurskoða þurfti margt í rekstrinum aðallega reglubundið eftirlit og var allt kapp sett á að koma því í betra horf. Að lokum þakkaði Elsa nefndinni fyrir gott og ánægjulegt samstarf.
Skýrsla landshlutanefndar um yfirfærslu málefna fatlaðra var næst á dagskrá, en hana fluttu Sveinn Ingvarsson og Karl Björnsson. Fram kom í máli Sveins að ef frumvarpið um félagsþjónustu sveitarfélaga verði samþykkt muni það kalla á verulega uppstokkun og endurskipulagningu félagsþjónustu hjá mörgum sveitarfélögum á Suðurlandi. Karl fjallaði um óvissu við kostnaðarmat varðandi flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Álit nefndarinnar sem fjallaði um málið er í stuttu máli þetta: Með réttum undirbúningi og faglegri framkvæmd munu sveitarfélögin standa undir þeirri ábyrgð sem þeim er falið með flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélga. Með flutningnum mun sveitarstjórnarstigið eflast.
Fram kom tillaga um lagabreytingu frá stjórn SASS um breyttan aðalfundartíma ár hvert og var henni vísað til nefndar.
Einnig tillaga um að SASS beiti sér fyrir að lögum um skipulags- og byggingarmál og flutti Gunnar Þorgeirsson þá tillögu. Vísað til nefndar.
Margeir Ingólfsson mælti fyrir tillögu hreppsráðs Biskupstungnahrepps um uppbyggingu Gjábakkavegar samkvæmt vegaáætlun. Vísað til nefndar.
Loftur Þorsteinsson mælti fyrir umræðu um reglur um jöfnun námskostnaðar í formi dreifbýlisstyrks, en úthlutunarreglum var breytt á miðjum vetri öllum að óvörum. Vísað til mennta- og menningarmálanefndar.
Þorvarður Hjaltason fór yfir ársreikninga og fjárhagsáætlanir og skýrði nánar óljósa þætti. Vísað til fjárhagsnefndar.
Jón Hjartarson flutti skýrslu um starfsemi Fræðslunets Suðurlands . Árið 2000 sóttu 619 nemendur námskeið en námskeiðsstundir voru 16.680. Starfsemin er alltaf af aukast sérstaklega hafa auknir samstarfssamningar við aðra aðila aukið framboðið. Að loknu fyrsta starfsári Fræðslunets Suðurlands taldi Jón að það hafi komið ótvírætt í ljós að stofnun Fræðslunetsins hafi verið rétt ákvörðun.
Ingunn Guðmundsdóttir þakkaði Jóni sérstaklega fyrir störf hans á vegum Fræðslunetssins og telur rétt að fjalla um hugleiðingar hans og framtíðarsýn í endurmenntunarmálum í mennta- og menningarmálanefnd. Undir það tóku fleiri.
Að loknu hádegisverðarhléi var fundi fram haldið.
Ávörp:
Fyrstur tók til máls Páll Pétursson, félagsmálaráðherra. Drap hann á ýmis mál sem varða sveitarstjórnir, aukna og breytta tekjustofna til jöfnunar kostnaðar íbúa hinna dreifðu byggða og nefndi dæmi þar um, svo sem í húsnæðismálum, skattamálum ofl. Ræddi líka húsnæðismál og kom síðan að fyrirhugaðri yfirfærslu málefna fatlaðra. Að endingu vitnaði hann í samþykkt Framsóknarflokksins varðandi Þjóðlendumálið svokallaða, að óásættanlegt væri að úrskurður leiddi til eignaupptöku eða gengi á þinglýstar eignir manna.
Þá talaði Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann sagði landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband ísl. sveitarfélaga hafa gott samstarf, nú séu breytingar framundan þar sem til kæmi breytt kjördæmaskipan. Á árabilinu 1990 – 1998 fækkaði sveitarfélögum um 80 og síðan hafi þeim fækkað um 2. Hann taldi að með því að sameinast verði sveitarfélögin hæfari til að takast á við fleiri verkefni.
Árni Johnsen ,,1. þingmaður Suðurlandskjördæmis hins forna,, flutti ávarp fyrir hönd þingmanna. Tók hann undir orð félagsmálaráðherra um niðurstöðu í þjóðlendumálinu. Vék hann einnig að jarðskjálftunum og hvernig staðið hefur verið að því verkefni að meta og bæta tjón vegna þeirra. Drap hann á ýmis framkvæmdamál í kjördæminu, og sagði frá fyrirhugðum verkefnum í vegamálum.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra tók næst til máls, hann sagði miklar breytingar hafa átt sér stað í samgöngumálum síðustu ár, vegalengdir nokkuð miklar og vitnaði í orð Vilhjálms Hjálmarssonar, en eftir að hann fór um Suðurland hafði hann að orði ,, hvað sunnlendingar nýttu illa plássið því það væri svo langt á milli fjalla,,. Þá þakkaði Halldór f.h. þingmanna Austurlands að vera boðið á þennan fund.
Erindi:
a) Skipulag félagsþjónustu sveitarfélaga og málefni fatlaðra.
Albert Eymundsson, bæjarstjóri Hornafjarðar ræddi samþætta félagsþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði. Miklar breytingar urðu á stjórnsýslu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu í kjölfar sameiningarumræðu fyrir fáeinum árum, en öll sýslan var sameinuð 1998. Gerður var þjónustusamningur um félagsmálefni 1997 – Heilbrigðisstofnun Suðausturlands var þá til sem ein heild þessara málefna, að undangengnum tilraunaþjónustusamningi til eins árs.
Menn lögðu mjög hart að sér við að ná saman varðandi hina ýmsu þætti þessa máls, en Albert telur ótvíræðan ávinning af samningnum varðandi bætta þjónustu, enda enginn vafi á auknum kröfum í því sambandi, eftir að heimamenn tóku við rekstrinum og skipulaginu. Sagði hann mörg fleiri verkefni vera hugsanleg á sama grundvelli með fleiri störf og þjónustu við íbúa í huga. Hvatti hann sunnlendinga til að takast á við málin á svipuðum grundvelli.
Bjarni Þór Einarsson, framkvæmdastjóri landshlutasamtaka Norðurlands vestra. Hann ræddi um skipulag málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra, sagði frá þjónustusamningi sem gerður var með gildistíma 1. apríl 1999 til 31. desember 2001. Markmið samningsins er að færa þjónustu við fatlaða á Norðurlandi vestra yfir til sveitarfélaganna, stuðla að betri nýtingu á því fjármagni sem veitt er til málaflokksins og bætta þjónustu við fatlaða.
Fundarstjórar leyfðu stuttar fyrirspurnir og umræður um ofangreind málefni.
Helga Þorbergsdóttir velti vöngum yfir stórum verkefnum á herðum sveitarfélaganna á svæðinu þar sem eru byggingar á Sjúkrahúsi Suðurlands og Íþróttahúsi F.Su og hins vegar áhrifum byggðasamlaga um félagslega málaflokka og spurði nánar um samþættingu þjónustuþátta. Ólöf Thorarensen og Margrét Frímannsdóttir gerðu einnig fyrirspurn um einstaka þætti, þjónustumiðstöðvar og ferðamál fatlaðra eða m.ö.o tækifæri fatlaðra til að njóta sömu menningar- og tómstundamála og aðrir.
Bjarni og Albert svöruðu fyrirspurnum. Töldu báðir ávinning af sjálfstæði heimamanna, öll þjónusta hefði batnað og fólkið sjálft orðið meðvitaðra, bæði starfsmenn og notendur þjónustunnar. Karl Björnsson útlistaði einnig einstaka þætti þjónustu eins og þeir væru hugsaðir í samninganefndinni frá 3. jan. 2001.
b) Afleiðingar Suðurlandsskjálftanna.
Ragnar Sigbjörnsson, framkvæmdastjóri Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði flutti erindi. Lýsti hann ítarlega hvað gerist fræðilega við jarðskjálfta og fór yfir skemmdir af völdum þeirra í sumar. Er tjón metið tölvert á þriðja milljarð á öllu svæðinu, en ekki eru öll kurl komin til grafar. Setti hann fram markmið stofnunarinnar, sem eru í stuttu máli að reyna að ,,búast við,, skjálfta og lágmarka tjón þar af leiðandi bæði gagnvart mönnum og mannvirkjum.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson ræddi fyrstu aðgerðir eftir jarðskjálftann 17. júní sl., haft hafi verið samband við björgunarsveitir, athugað hvort orðið hefði manntjón eða slys á fólki, þá var farið af stað og reynt að ná til allra íbúa til að kanna þörf þeirra fyrir aðstoð, opnuð var fjöldahjálparstöð síðan komu opinberir aðilar að málinu og unnu með heimamönnum að úrlausn mála svo sem að útvega húsnæði, fara yfir tjón og meta forgang. Í dag eru mörg mál óleyst vegna afleiðinga skjálftanna og mikilvægt að útrýma veikbyggðum húsum.
c) Landskrá fasteigna og fyrirhugað endurmat á brunabótamati og fasteignamati.
Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins sagði áformað að endurskoða fasteigna- mat og brunabótamat í sumar, hann útskýrði hvernig staðið skyldi að þessari vinnu. Þetta væri nauðsynlegt því í ljós hefði komið ósamræmi milli fasteignamats og brunabótamats, niðurstaðan yrði sú að fasteignamatið myndi hækka en brunabótamatið lækka.
Jón Vilberg Guðjónsson, framkvæmdastjóri skráningar- og þróunarsviðs Fasteignamats ríkisins upplýsti að verið væri að breyta lögum um skráningar og þinglýsingar og yrði upplýsingum um þetta sent öllum sveitarfélögum á næstunni. Landsskrá fasteigna er gerð uppúr þinglýsingabókum sýslumanna, þjóðskrá Hagstofu Íslands, bókum Landmælinga Íslands og fasteignabók Fasteignamats ríkisins.
Margrét Frímannsdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason gerðu fyrirspurnir um bótareglur og fasteignagjöld á fasteignum sem búið væri að dæma ónýt. Haukur Ingibergsson svaraði fyrirspurnunum.
Nefndarstörf hófust. Fundi síðan frestað til morguns. Eftirtaldar nefndir þinguðu og skiluðu síðan áliti sem fundurinn fjallaði um:
- Allsherjarnefnd
Valtýr Valtýsson, formaður
María Sigurðardóttir
Brynjólfur Bjarnason
Ingibjörg Steindórsdóttir
Jónas Jónsson
Sigurður Bjarnason
Gyða Björk Jónsdóttir
Þrándur Ingvarsson
Guðmundur R. Valtýsson
María Hauksdóttir
Fjárhagsnefnd
Karl Björnsson, formaður
Engilbert Olgeirsson
Sesselja Jónsdóttir
Ágúst Ingi Ólafsson
Guðmundur Rúnar Svavarsson
Menntamálanefnd
Gunnar Þorgeirsson, formaður
Bjarki Reynisson
Pálína Björk Jónsdóttir
Guðjón Árnason
Árni Erlendsson
Margeir Ingólfsson
Guðjón Ægir Sigurjónsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Margrét Einarsdóttir
Ragnar Sær Ragnarsson
Kjartan Lárusson
Kjörbréfa- og kjörnefnd
Óli Már Aronsson, formaður
Kristján Einarsson
Loftur Þorsteinsson
Helga Þorbergsdóttir
Hjörleifur Brynjólfsson
Samgöngu- og atvinnumálanefnd
Gísli Páll Pálsson, formaður
Hjörleifur Brynjólfsson
Árni Magnússon
Geir Ágústsson
Árni Jón Elíasson
Viðar H. Steinarsson
Björn Gíslason
Bryndís F. Harðardóttir
Sveinn A. Sæland
Torfi Áskelsson
Kjartan Georgsson
Jón Hólm Stefánsson
Umhverfis- og heilbrigðisnefnd
Ólafía Jakobsdóttir, formaður
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson
Guðmundur Stefánsson
Heimir Hafsteinsson
Svavar Sveinsson
Helga Þorbergsdóttir
Sigurður Eggertsson
Árný Hrund Svavarsdóttir
Sesselja Pétursdóttir
Samúel Smári Hreggviðsson
Nefnd um tilflutning málefna fatlaðra
Sigríður Ólafsdóttir, formaður
Sveinn Ingvarsson
Sigurlaug Angantýsdóttir
Halldóra Gunnarsdóttir
Guðrún Þórðardóttir
Bjarni Einarsson
Guðrún Ósk Birgisdóttir
Jóna Sigurbjartsdóttir
Sigurður Ævar Harðarson
Hafsteinn Jóhannesson
Knútur Bruun
Fundi fram haldið kl. 10:00, 24. mars.
Hér á eftir fara samþykktir fundarins.
Hér fara á eftir samþykktir fundarins að loknum nefndarstörfum og umræðum um tillögur nefndanna.
Tillögur atvinnu- og samgöngunefndar.
1. Lýsing á Hellisheiði og um Þrengsli.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars 2001 lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform Vegagerðarinnar um lagfæringu og lýsingu vegarins um Hellisheiði og Þrengsli. Fundurinn hvetur til þess að verkið verði unnið þegar í ár og verði lokið fyrir áramót.
2. Suðurstrandarvegur.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars 2001 fagnar þeim áfanga að framkvæmdir við Suðurstrandarveg verða boðnar út nú í sumar. Vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis styrkir til muna allt atvinnu- og mannlíf í kjördæminu.
3. Uppbygging tengivega.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars skorar á þingmenn Suðurlands að beita sér fyrir auknu fjármagni til tengivega. Tengivegir eru hlutfallslega stór hluti vegakerfis á Suðurlandi og eru í mörgum tilvikum forsenda eðlilegrar byggðaþróunar ekki síst á jaðarsvæðum. Ástand þessara vega er víða í engu samræmi við umferðarþunga. Í ljósi þessa eru óbreyttar fjárveitingar til vegaflokksins algjörlega óásættanlegar.
4. Vegamál í uppsveitum Árnessýslu.
Aðalfundur SASS, haldinn 23. – 24. mars fullyrðir að gæði vegakerfis hafa grundvallaráhrif á atvinnu- og búsetuþróun. Það er nauðsynlegt að haldin séu gefin loforð í vegaáætlun og henni ekki breytt án samráðs við heimamenn.
Fundurinn telur brýnt að nú þegar verði hafist handa við byggingu brúar á Hvítá og uppbyggingu Gjábakkavegar til að bæta samgöngur og tengingu milli sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu. Tengingar þessar eru forsendur sameiningar, grunnur að atvinnuuppbyggingu, menningarlífi og hagkvæmari þjónustu.
5. Hestamiðstöð að Gaddstaðaflötum.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars telur uppbyggingaráform að Gaddstaðaflötum mikilvægt framtak fyrir hestamiðstöð á Suðurlandi. Fundurinn lítur svo á að Gaddstaðaflatir hafi upp á allt að bjóða sem framtíðarmiðstöð fyrir hestamennsku og hafi mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi.
6. Uppbygging matvælaiðnaðar.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars fagnar áhuga matvælafyrirtækja á staðsetningu á Suðurlandi. Framleiðsla hráefnis og úrvinnsla matvæla er einn styrkasti þátturinn í atvinnulífi fjórðungsins og efling greinarinnar hér því afar mikilvæg.
7. Stuðningur stjórnvalda við atvinnuuppbyggingu – ný byggðastefna.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að við mótun nýrrar byggðastefnu verði lögð áhersla á að tryggja Byggðastofnun nægjanlegt fjármagn til að hún geti m.a. stutt af meira afli við bakið á atvinnuþróunarfélögunum sem sinna atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni. Stuðningur stjórnvalda er forsenda þess að rekin sé öflug atvinnuráðgjöf heima í héraði.
8. Fjarskipti og gagnaflutningur.
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars skorar á Landsímann að hraða uppbyggingu gagnaflutningskerfis um allt land þannig að það uppfylli þarfir nútímans, á sambærilegu verði um allt land. Jafnframt skorar fundurinn á Landsímann að byggja upp GSM farsímakerfið þannig að það þjóni því öryggishlutverki sem því er ætlað sem boðkerfi viðbragðsaðila. Í dag er ljóst að víða á Suðurlandi er kerfið ekki virkt og þjónar því ekki öryggishlutverki sínu.
Tillögur fjárhagsnefndar
1. Ársreikningar 2000
a) SASS
b) Heilbrigðiseftirlit Suðurlands
c) Skólaskrifstofa Suðurlands
Lagt er til að reikningarnir verði samþykktar.
2. Fjárhagsáætlanir 2001
a) SASS
b) Heilbrigðiseftirlit Suðurlands
c) Skólaskrifstofu Suðurlands Lagt er til að áætlanirnar verði samþykktar.
Aðalfundur SASS, haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, fagnar auknum árangri við innheimtu heilbrigðiseftirlitsgjalda undanfarna mánuði. Fundurinn leggur jafnframt áherslu á að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hagi starfsemi sinni þannig að grundvöllur sé til innheimtu allra álagðra eftirlitsgjalda innan fjárhagsársins.
3. Heilbrigðisstofnunin Selfossi.
Aðalfundur SASS, haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, styður hugmyndir um að létt verði af sveitarfélögunum 15% kostnaðarhlutdeild í meiriháttar viðhaldi og stofnkostnaði sjúkrastofnana. Jafnframt telur fundurinn óeðlilegt að ríkið krefji sveitarfélögin um greiðslu kostnaðar vegna meiriháttar viðhalds, sem einhliða er ákveðið af hálfu þess og ekki er til skilgreining á í reglugerð, sem setja átti samkvæmt lögum nr. 97/1990. Aðalfundurinn beinir því til stjórnar SASS að kallað verði eftir upplýsingum um greiðslur sveitarfélaga vegna meiriháttar viðhalds sjúkrastofnana sl. fjögur ár.
4. Laun fyrir stjórnarsetu.
Aðalfundur SASS, haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, samþykkir að laun fyrir fundarsetu verði 3 % af þingfararkaupi á mánuði fyrir hvern fund í stjórn SASS, Heilbrigðisnefnd Suðurlands og stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands, en 2 % fyrir áheyrnarfulltrúa og aðrar nefndir á vegum þessara stofnana. Formenn stjórna og nefnda fái 50 % álag.
5. Tillaga frá Grímsnes- og Grafningshrepps.
Aðalfundur SASS, haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, samþykkir að vísa tillögu oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps um kostnað vegna deiliskipulags, ásamt greinargerð, til stjórnar SASS til frekari úrvinnslu.
Tillaga allsherjarnefndar.
Suðurlandsskjálftar.
Í kjölfar Suðurlandsskjálfta vill aðalfundur SASS, sem haldinn er að Flúðum dagana 23. og 24. mars 2001 hvetja stjórnvöld til að:
- beita sér fyrir því að hraðað verði úttekt á húsum á jarðskjálftahættusvæðum, sem talin eru ótrygg eða byggð úr varasömu byggingarefni, þannig að öryggi íbúa verði sem best tryggt til frambúðar.
- endurskoða lög um Viðlagatryggingu. Brunbótamat tekur ekki á öllu tjóni sem verður í náttúruhamförum og endurspeglar ekki raunverulegan byggingarkostnað við slíkar aðstæður. Tjónabætur vegna náttúrhamfara verða að gera fólki kleift að koma sér upp sambærilegri aðstöðu og fyrir var og tryggja því áframhaldandi búsetuskilyrði
- endurskoða aðgerðaráætlanir varðandi náttúruhamfarir og útbúnað almannavarnar-miðstöðvar á Suðurlandi t.d. með tilliti til fjarskipta.
Tillaga um lagabreytingu frá stjórn SASS.
Lagt er til að grein 2.1 hljóði svo:
Aðalfund SASS skal halda að hausti fyrir lok nóvember ár hvert, heimilt er að halda hann fyrr á kosningaári sveitarstjórna, þó en eigi fyrr en 15 ágúst.
Greinin komi í stað eftirfarandi greinar 2.1:
Aðalafund SASS skal halda fyrir 1. maí ár hvert en æskilegt er að hann sé haldinn í byrjun árs vegna afgreiðslu fjárhagsáætlana aðildasveitarfélaganna, heimilt er þó að halda hann síðar á kosningaári sveitarstjóna en þó eigi síðar en 1. október.
Ályktun varðandi Þjóðlendumál.
Aðalfundur SASS haldinn að Flúðum 23. og 24. mars 2001 átelur harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við kröfugerð ríkisins í svokölluðu þjóðlendumáli. Aðalfundurinn skorar á fjármálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að koma í veg fyrir frekara uppnám og skaða af völdum kröfugerða um mörk þjóðlendna.
Þá telur aðalfundur SASS mikilvægt að úrskurður Óbyggðanefndar í Árnessýslu liggi fyrir áður en lengra er haldið vegna fordæmisgildis hans.
Samkvæmt þjóðlendulögum, nr. 58/1998, tekur ríkið að sér að greiða allan kostnað af málarekstri fyrir Óbyggðanefndinni. Þegar hefur verið lagt í umtalsverðan kostnað af hálfu sveitarfélaga í Árnessýslu og verður að teljast óeðlilegt að sveitarfélög beri þann kostnað svo lengi sem raun er orðin. Aðalfundur SASS krefst þess að Óbyggðanefnd úrskurði strax um þennan þátt málsins og taki tillit til fjármagnskostnaðar við þann úrskurð.
Fundurinn krefst þess að Alþingi setji Óbyggðanefnd skýrari verklagsreglur og komi í veg fyrir að kvaðir verði þinglýstar á eignarlönd. Jafnframt verði þinglýstar kvaðir af hennar völdum máðar úr veðmálabókum.
Breyting á sveitarstjórnarlögum.
Aðalfundur SASS sem haldinn er að Flúðum dagana 23. og 24. mars 2001 telur óeðlilegt að Alþingi breyti sveitarstjórnarlögum með það að markmiði að þvinga sveitarfélög til sameiningar. Eðlilegra verður að telja að sveitarfélög hafi sjálf frumkvæði að þeim málum, enda er allt ytra umhverfi í rekstri sveitarfélaga sem þrýstir á um sameiningu sveitarfélaga. Sveitarfélög eiga og verða að hafa þann sjálfsákvörðunarrétt að ráða sínum málum sem best verður talið á hverjum stað og á hverjum tíma.
Tillaga nefndar um flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001 ályktar eftirfarandi: Verði frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga að lögum, telur aðalfundur að mjög mikilvægt að allt málið verði vandlega frágengið áður en til yfirfærslunnar kemur. Í því sambandi er vísað í samþykkt frá landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga 1998, en ýmsu er enn ólokið af því sem þar kemur fram.
Fundurinn tekur undir tillögur landshlutanefndar SASS um yfirfærslu málefna fatlaðra hvað varðar stærð þjónustusvæða ef af samþykkt laganna verður.
Einnig tekur fundurinn undir lokaorð í skýrslu landshlutanefndar SASS um framhald á vinnslu málsins.
Tillaga menntamálanefndar.
Árskýrsla Skólaskrifstofu Suðurlands.
Aðalfundr SASS að Flúðum 23.-24. mars 2001, þakkar vel unna skýrslu og lítur framtíð faglegrar ráðgjafar í grunn- og leikskólum á Suðurlandi björtum augum.
Stofnsamþykktir skólaskrifstofu.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. 24. mars 2001, beinir því til stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands að hún skoði hvort breyta þurfi ákvæðum í stofnsamþykktum Skólaskrifstofunnar. Tillögur verði lagðar fyrir næsta reglulega aðalfund SASS.
Dreifbýlisstyrkir framhaldsskóla.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. – 24. mars 2001 skorar á menntamálaráðherra að úthlutun dreifbýlisstyrks vegna skólaársins 2000-2001 verði endurskoðaðar, þar sem reglur um úthlutanir lágu ekki fyrir við upphaf skólaárs. Afturvirk skerðing á úthlutunum er óviðunandi fyrir nemendur og forráðamenn þeirra. Jafnframt er því beint til stjórnar SASS að hún fylgi því eftir að úthlutunarregur um dreifbýlisstyrk tryggi jafnrétti til náms. Mikilvægt er að tekið sé tillit til þeirra nemenda sem eiga lögheimili langt frá stofnvegi þar sem skólaakstur er fyrir hendi.
Sálfræðingur heilsugæslustöðvar.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. – 24. mars 2001, skorar á stjórnvöld að fjármagn til stöðu sálfræðings við heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi verði tryggt til frambúðar.
Endurmenntunarmál.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. – 24. mars 2001 tekur undir fram komna hugmynd um stofnun sérstaks fræðsluhóps vegna endurmenntunarmála starfsfólks sveitarfélaga og vísar framkvæmdinni til stjórnar Fræðslunets Suðurlands.
Tillögur umhverfis- og heilbrigðisnefndar.
1. Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars, fagnar framkominni skýrslu KPMG endurskoðunnar um úttekt á starfsemi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og þeim árangri sem þegar hefur náðst við framkvæmd á tilllögum KPMG varðandi bætt skipulag á starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins. Þá lýsir fundurinn yfir ánægju með störf Heilbrigðisnefndar Suðurlands og styður hana við endurskipulagningu starfseminnar.
2. Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, fagnar fyrirhuguðum framkvæmdum vegna viðbyggingar við Heilbrigðisstofnunina Selfossi (Sjúkrahús Suðurlands).
3. Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, lýsir yfir undrun sinni á þeim vinnuaðferðum sem viðhafðar eru af hálfu stjórnvalda við undirbúnig að stofnun „Matvælastofu“ án nokkurs samráðs við Samband ísl. Sveitarfélaga og heilbrigðisnefndir/eftirlit Sveitarfélaga.
4. Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, leggur áherslu að náttúruperlur Suðurlands verði varðveittar, en jafnframt að ekki verði gengið of langt í kröfum um aðbúnað sem hefta eðlilega umgengni manna við náttúruna. Sérstaklega er bent á að drög að reglugerð um náttúrulega baðstaði gæti gengið óeðlilega langt í kröfum sínum til hreinleika.
Tillögur kjörbréfa- og kjörnefndar.
Farið yfir kjörbréf. Fulltrúar frá 25 sveitarfélögum, alls 56 fulltrúar með gild kjörbréf þar af 54 mættir.
Stjórn SASS:
Formaður:
Valtýr Valtýsson, Holta- og Landsveit
Varaformaður:
Hafsteinn Jóhannesson, Mýrdalshreppi
Ingunn Guðmundsdóttir, Árborg.
Ágúst Ingi Ólafsson, Hvolhreppi.
Sveinn Sæland, Biskupstungnahreppi.
Torfi Áskelsson, Árborg.
Geir Ágústsson, Gaulverjabæjarhreppi
Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerði.
Sigurður Bjarnason, Sveitarfél. Ölfus.
Varamenn í stjórn SASS:
Jóna Sigurbjartsdóttir, Skaftárhreppi.
Sveinbjörn Jónsson, V-Eyjafjallahreppi.
Heimir Hafsteinsson, Djúpárhreppi.
Guðmundur R. Valtýsson, Laugardalshreppi.
Samúel Smári Hreggviðsson, Árborg.
Guðjón Sigurjónsson, Árborg.
Bjarki Reynisson, Villingarholtshreppi.
Hafsteinn Bjarnason, Hveragerði.
Hjörleifur Brynjólfsson, Sveitarfél. Ölfus
Fulltrúi í stjórn Fræðslunets Suðurlands:
Margrét Einarsdóttir, Austur-Eyjafjallahr.
Til vara:
Jóna Sigurbjartsdóttir, Skaftárhreppi.
Stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands:
Gunnar Þorgeirsson, Grímsnes- og Grafningshr.
Svanhvít Sveinsdóttir, Mýrdalshreppi.
Sigríður Sveinsdóttir, Ásahreppi.
Stefán Guðmundsson, Sveitarfél. Ölfus
Ingimundur Sigurmundsson, Árborg.
Varamenn:
Sveinbjörg Pálsdóttir, Skaftárhreppi.
Guðjón Árnason, Vestur-Eyjafjallahreppi.
Margeir Ingólfsson, Biskupstungnahreppi.
Bjarki Reynisson, Villingaholtshreppi.
Ásmundur Sverrir Pálsson, Árborg.
Ársfundur Landsvirkjunar:
Jóna Sigurbjartsdóttir, Skaftárhreppi.
Guðmundur I. Gunnlaugsson, Rangárvallahr.
Kristján Einarsson, Árborg.
Hafsteinn Bjarnason, Hveragerði.
Varamenn:
Hafsteinn Jóhannesson, Mýrdalshreppi
Jónas Jónsson, Ásahreppi.
Loftur Þorsteinsson, Hrunamannahreppi
Hjörleifur Brynjólfsson, Sveitarfél. Ölfus
Skoðunarmenn:
Ólafía Jakobsdóttir, Skaftárhreppi.
Jón Hólm Stefánsson, Sveitarfél. Ölfus
Til vara:
Kristján Mikkelsen, V-Eyjafjallahreppi.
Guðmundur Stefánsson, Hraungerðishreppi.
Framangreindar tillögur voru samþykktar að undangengnum ítarlegum umræðum um ýmsa þætti þeirra og einstaka liði.
Knútur Bruun tók til máls um orkumál. Taldi hann nauðsynlegt að Sunnlendingar hugleiddu mjög alvarlega að móta sameiginlega stefnu í orkumálum, ekki síst vegna sérstöðu fjórðungisins í orkuframleiðslu í ljósi breytts umhverfis í orkumálum.
Ingunn Guðmundsdóttir fráfarandi formaður SASS sagðist fagna því sem Knútur Bruun hefði sagt um að margt væri órætt því það sýndi að samtökin væru þörf. Hún óskaði nýkjörnum formanni Valtý Valtýssyni til hamingju, þakkaði þingfulltrúum fyrir góða fundarsetu, Hrunamönnum fyrir höfðinglegar móttökur, fundarstjórum, fundarriturum, starfsmönnum SASS og fjölmiðlafólki fyrir vel unnin störf.
Nýkjörinn formaður Valtýr Valtýsson tók til máls og þakkaði fundarmönnum traust sér sýnt. Fór hann fögrum orðum um fráfarandi formann Ingunni Guðmundsóttur og leit björtum augum til framtíðar. Að lokum þakkaði hann góðar mótttökur í Hrunamannahreppi.
Loftur Þorsteinsson fundarstjóri þakkaði fundarmönnum ánægjulega samvinnu og mjög góðan fund og kvaðst vona að hann yrði að miklu gagni, en ekki síst þakkaði hann skemmtilega samveru og sagði fundi slitið kl. 15:00.
Halla Guðmundsdóttir, fundarritari
Guðrún Hermannsdóttir, fundarritari