fbpx

Lýsing á Hellisheiði og um Þrengsli
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars 2001 lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform Vegagerðarinnar um lagfæringu og lýsingu vegarins um Hellisheiði og Þrengsli. Fundurinn hvetur til þess að verkið verði unnið þegar í ár og verði lokið fyrir áramót.

Suðurstrandarvegur
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars 2001 fagnar þeim áfanga að framkvæmdir við Suðurstrandarveg verða boðnar út nú í sumar. Vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis styrkir til muna allt atvinnu- og mannlíf í kjördæminu.

Uppbygging tengivega
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars skorar á þingmenn Suðurlands að beita sér fyrir auknu fjármagni til tengivega. Tengivegir eru hlutfallslega stór hluti vegakerfis á Suðurlandi og eru í mörgum tilvikum forsenda eðlilegrar byggðaþróunar ekki síst á jaðarsvæðum. Ástand þessara vega er víða í engu samræmi við umferðarþunga. Í ljósi þessa eru óbreyttar fjárveitingar til vegaflokksins algjörlega óásættanlegar.

Vegamál í uppsveitum Árnessýslu
Aðalfundur SASS, haldinn 23. – 24. mars fullyrðir að gæði vegakerfis hafa grundvallaráhrif á atvinnu- og búsetuþróun. Það er nauðsynlegt að haldin séu gefin loforð í vegaáætlun og henni ekki breytt án samráðs við heimamenn.

Fundurinn telur brýnt að nú þegar verði hafist handa við byggingu brúar á Hvítá og uppbyggingu Gjábakkavegar til að bæta samgöngur og tengingu milli sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu. Tengingar þessar eru forsendur sameiningar, grunnur að atvinnuuppbyggingu, menningarlífi og hagkvæmari þjónustu.

Hestamiðstöð að Gaddstaðaflötum
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars telur uppbyggingaráform að Gaddstaðaflötum mikilvægt framtak fyrir hestamiðstöð á Suðurlandi. Fundurinn lítur svo á að Gaddstaðaflatir hafi upp á allt að bjóða sem framtíðarmiðstöð fyrir hestamennsku og hafi mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Uppbygging matvælaiðnaðar
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars fagnar áhuga matvælafyrirtækja á staðsetningu á Suðurlandi. Framleiðsla hráefnis og úrvinnsla matvæla er einn styrkasti þátturinn í atvinnulífi fjórðungsins og efling greinarinnar hér því afar mikilvæg.

Stuðningur stjórnvalda við atvinnuuppbyggingu – ný byggðastefna
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að við mótun nýrrar byggðastefnu verði lögð áhersla á að tryggja Byggðastofnun nægjanlegt fjármagn til að hún geti m.a. stutt af meira afli við bakið á atvinnuþróunarfélögunum sem sinna atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni. Stuðningur stjórnvalda er forsenda þess að rekin sé öflug atvinnuráðgjöf heima í héraði.

Fjarskipti og gagnaflutningur
Aðalfundur SASS haldinn 23. – 24. mars skorar á Landsímann að hraða uppbyggingu gagnaflutningskerfis um allt land þannig að það uppfylli þarfir nútímans, á sambærilegu verði um allt land. Jafnframt skorar fundurinn á Landsímann að byggja upp GSM farsímakerfið þannig að það þjóni því öryggishlutverki sem því er ætlað sem boðkerfi viðbragðsaðila. Í dag er ljóst að víða á Suðurlandi er kerfið ekki virkt og þjónar því ekki öryggishlutverki

Suðurlandsskjálftar.
Í kjölfar Suðurlandsskjálfta vill aðalfundur SASS, sem haldinn er að Flúðum dagana 23. og 24. mars 2001 hvetja stjórnvöld til að:

  • beita sér fyrir því að hraðað verði úttekt á húsum á jarðskjálftahættusvæðum, sem talin eru ótrygg eða byggð úr varasömu byggingarefni, þannig að öryggi íbúa verði sem best tryggt til frambúðar.
  • endurskoða lög um Viðlagatryggingu. Brunbótamat tekur ekki á öllu tjóni sem verður í náttúruhamförum og endurspeglar ekki raunverulegan byggingarkostnað við slíkar aðstæður. Tjónabætur vegna náttúrhamfara verða að gera fólki kleift að koma sér upp sambærilegri aðstöðu og fyrir var og tryggja því áframhaldandi búsetuskilyrði
  • endurskoða aðgerðaráætlanir varðandi náttúruhamfarir og útbúnað almannavarnar-miðstöðvar á Suðurlandi t.d. með tilliti til fjarskipta.

Þjóðlendumál.
Aðalfundur SASS haldinn að Flúðum 23. og 24. mars 2001 átelur harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við kröfugerð ríkisins í svokölluðu þjóðlendumáli. Aðalfundurinn skorar á fjármálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að koma í veg fyrir frekara uppnám og skaða af völdum kröfugerða um mörk þjóðlendna.

Þá telur aðalfundur SASS mikilvægt að úrskurður Óbyggðanefndar í Árnessýslu liggi fyrir áður en lengra er haldið vegna fordæmisgildis hans.

Samkvæmt þjóðlendulögum, nr. 58/1998, tekur ríkið að sér að greiða allan kostnað af málarekstri fyrir Óbyggðanefndinni. Þegar hefur verið lagt í umtalsverðan kostnað af hálfu sveitarfélaga í Árnessýslu og verður að teljast óeðlilegt að sveitarfélög beri þann kostnað svo lengi sem raun er orðin. Aðalfundur SASS krefst þess að Óbyggðanefnd úrskurði strax um þennan þátt málsins og taki tillit til fjármagnskostnaðar við þann úrskurð.

Fundurinn krefst þess að Alþingi setji Óbyggðanefnd skýrari verklagsreglur og komi í veg fyrir að kvaðir verði þinglýstar á eignarlönd. Jafnframt verði þinglýstar kvaðir af hennar völdum máðar úr veðmálabókum.

Lögþvinguð sameining sveitarfélaga
Aðalfundur SASS sem haldinn er að Flúðum dagana 23. og 24. mars 2001 telur óeðlilegt að Alþingi breyti sveitarstjórnarlögum með það að markmiði að þvinga sveitarfélög til sameiningar. Eðlilegra verður að telja að sveitarfélög hafi sjálf frumkvæði að þeim málum, enda er allt ytra umhverfi í rekstri sveitarfélaga sem þrýstir á um sameiningu sveitarfélaga. Sveitarfélög eiga og verða að hafa þann sjálfsákvörðunarrétt að ráða sínum málum sem best verður talið á hverjum stað og á hverjum tím

Heilbrigðisstofnunin Selfossi.
Aðalfundur SASS, haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, styður hugmyndir um að létt verði af sveitarfélögunum 15% kostnaðarhlutdeild í meiriháttar viðhaldi og stofnkostnaði sjúkrastofnana. Jafnframt telur fundurinn óeðlilegt að ríkið krefji sveitarfélögin um greiðslu kostnaðar vegna meiriháttar viðhalds, sem einhliða er ákveðið af hálfu þess og ekki er til skilgreining á í reglugerð, sem setja átti samkvæmt lögum nr. 97/1990. Aðalfundurinn beinir því til stjórnar SASS að kallað verði eftir upplýsingum um greiðslur sveitarfélaga vegna meiriháttar viðhalds sjúkrastofnana sl. fjögur ár.

Dreifbýlisstyrkir framhaldsskóla.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. – 24. mars 2001 skorar á menntamálaráðherra að úthlutun dreifbýlisstyrks vegna skólaársins 2000-2001 verði endurskoðaðar, þar sem reglur um úthlutanir lágu ekki fyrir við upphaf skólaárs. Afturvirk skerðing á úthlutunum er óviðunandi fyrir nemendur og forráðamenn þeirra. Jafnframt er því beint til stjórnar SASS að hún fylgi því eftir að úthlutunarregur um dreifbýlisstyrk tryggi jafnrétti til náms. Mikilvægt er að tekið sé tillit til þeirra nemenda sem eiga lögheimili langt frá stofnvegi þar sem skólaakstur er fyrir hendi.

Sálfræðingur heilsugæslustöðvar.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. – 24. mars 2001, skorar á stjórnvöld að fjármagn til stöðu sálfræðings við heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi verði tryggt til frambúðar.

Endurmenntunarmál.
Aðalfundur SASS á Flúðum 23. – 24. mars 2001 tekur undir fram komna hugmynd um stofnun sérstaks fræðsluhóps vegna endurmenntunarmála starfsfólks sveitarfélaga og vísar framkvæmdinni til stjórnar Fræðslunets Suðurlands.

Félagsþjónusta sveitarfélaga og málefni fatlaðra
Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001 ályktar eftirfarandi: Verði frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga að lögum, telur aðalfundur að mjög mikilvægt að allt málið verði vandlega frágengið áður en til yfirfærslunnar kemur. Í því sambandi er vísað í samþykkt frá landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga 1998, en ýmsu er enn ólokið af því sem þar kemur fram.

Fundurinn tekur undir tillögur landshlutanefndar SASS um yfirfærslu málefna fatlaðra hvað varðar stærð þjónustusvæða ef af samþykkt laganna verður.

Einnig tekur fundurinn undir lokaorð í skýrslu landshlutanefndar SASS um framhald á vinnslu málsins.

Úttekt á starfsemi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands
Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars, fagnar framkominni skýrslu KPMG endurskoðunnar um úttekt á starfsemi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og þeim árangri sem þegar hefur náðst við framkvæmd á tilllögum KPMG varðandi bætt skipulag á starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins. Þá lýsir fundurinn yfir ánægju með störf Heilbrigðisnefndar Suðurlands og styður hana við endurskipulagningu starfseminnar.

Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina Selfossi
Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, fagnar fyrirhuguðum framkvæmdum vegna viðbyggingar við Heilbrigðisstofnunina Selfossi (Sjúkrahús Suðurlands).

Stofnun ,,Matvælastofu“
Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, lýsir yfir undrun sinni á þeim vinnuaðferðum sem viðhafðar eru af hálfu stjórnvalda við undirbúning að stofnun „Matvælastofu“ án nokkurs samráðs við Samband ísl. sveitarfélaga og heilbrigðisnefndir/eftirlit sveitarfélaga.

Umgengni við náttúruna
Aðalfundur SASS haldinn á Flúðum 23. – 24. mars 2001, leggur áherslu að náttúruperlur Suðurlands verði varðveittar, en jafnframt að ekki verði gengið of langt í kröfum um aðbúnað sem hefta eðlilega umgengni manna við náttúruna. Sérstaklega er bent á að drög að reglugerð um náttúrulega baðstaði gæti gengið óeðlilega langt í kröfum sínum til hreinleika.