Á  ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga,  sem haldið var 13. og 14.  september, 
vorusamþykktar fjölmargar ályktanir sem varða ýmis brýn  hagsmunamál sunnlendinga.  Þar má nefna samgöngumál, atvinnumál,  velferðarmál, skipulags- og byggingarmál auk ýmissa annarra.  Ályktanirnar fylgja hér með:  Ályktanir ársþings SASS 2010        Velferðarmál     Heilbrigðisþjónusta á Suðurlandi  Ársþing SASS, haldið á  Selfossi 13. og 14. september 2010, varar við því  að áframhaldandi niðurskurður í heilbrigðismálum muni að öllum líkindum koma niður á grunnþjónustu til almennings. Ársþingið  leggur áherslu á að staðinn verði vörður um þjónustu héraðssjúkrahúsanna og hún frekar efld frá því sem nú er.  Rekstur  þessara sjúkrahúsa er hagkvæmur samkvæmt úttekt Guðrúnar Bryndísar  Karlsdóttur, verkfræðings, og gæti orðið enn hagkvæmari með auknum  verkefnum.  Mikilvægt er að hafa í huga að  sjúkrahúsþjónustan og heilsugæslan eru samofin og niðurskurður á öðrum  þættinum hefur skaðleg áhrif á starfsemi hins. Ekki má heldur horfa fram  hjá þeim samfélagskostnaði og óþægindum sem fylgja því að flytja  verkefni frá þeim til Landspítalans eins og hugmyndir hafa verið uppi  um. SASS skorar á ráðherra heilbrigðismála og alþingismenn  að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og  um leið velferð og öryggi íbúa svæðisins.     Tilfærsla málefna fatlaðra  Ársþing  SASS fagnar þeirri samstöðu sem náðst hefur um myndun sameiginlegs  þjónustusvæðis fatlaðra á Suðurlandi. Hvatt er til þess að unnið verði  kappsamlega að undirbúningi tilfærslunnar um næstu áramót þannig að hún  gangi átakalaust fyrir sig og verði  sveitarfélögunum til sóma og notendum þjónustunnar til heilla.     Ársþing  SASS hvetur einnig Félags- og tryggingamálaráðuneytið til þess að  samþykkja beiðnir Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Vestmannaeyjabæjar um  rekstur málaflokksins vegna reynslu af rekstri hans og landfræðilegrar  sérstöðu.     ART verkefni  Ársþing SASS, haldið á  Selfossi 13. og 14. september 2010,  hvetur stjórnvöld og sveitarfélög til að tryggja starfsemi ART meðferðarteymisins á næstu árum. Hlutverk ART teymisins á Suðurlandi er tvíþætt.  Annars  vegar er það þjónustuúrræði í grunn- og leikskólum og þar unnið í  samvinnu við skólayfirvöld og foreldra og hins vegar er það  meðferðarúrræði fyrir þau börn og fjölskyldur sem vísað er til teymisins  í gegnum barnavernd.  Árangur af þessu starfi undanfarin ár hefur verið einstaklega góður.  Ársþingið  leggur til að gerður verði samningur til 5 ára á milli sveitarfélaganna  og ráðuneytanna þriggja; heilbrigðisráðuneytisins, félags- og  tryggingamálaráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins,  um starfsemi meðferðarteymisins.  Tryggja þarf greiðslur fyrir þau börn sem eiga lögheimili utan þjónustusvæðisins og nýta sér ART meðferðarúrræðið.     Ársþing SASS leggur  einnig til að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga varðandi  barnaverndarmál og meðferðarvinnu verði tekin til endurskoðunar.  Grunnskólar  og barnavernd eru á ábyrgð sveitarfélaganna og því telur fundurinn  mikilvægt að taka til endurskoðunar verkaskiptasamning ríkis og  sveitarfélaga og hlutverk Barnaverndarstofu í því samhengi.     Atvinnuleysi og  aðrar afleiðingar kreppunnar  Efnahagskreppan  hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda fólks.  Atvinnuleysi hefur stóraukist og hagur margra fjölskyldna er mjög erfiður.   Nú  eru um 700 manns atvinnulausir á Suðurlandi, flestir í neðanverðri  Árnessýslu, eða 5,3% vinnuafls. Álag á félagsþjónustu sveitarfélaganna  hefur því stóraukist.  Ársþing SASS, haldið á  Selfossi 13. og 14. september 2010, hvetur sveitarfélög og ríkið að  standa vörð um hagsmuni almennings og einstaklinga í erfiðum aðstæðum og  ekki síst barna og unglinga með öllum tiltækum ráðum.  Ársþing SASS skorar á heilbrigðisyfirvöld að tryggja skólahjúkrun  grunnskólabarna.     Þjónustusamningur Sveitarfélagsins Hornafjarðar og ríkis um heilbrigðis og öldrunarmál   Ársþing SASS, haldið á  Selfossi 13. og 14. september 2010, hvetur heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið  til  þess að ljúka við gerð þjónustusamnings við Sveitarfélagið Hornafjörð  um heilbrigðis- og öldrunarmál í sveitarfélaginu í samræmi við  ábendingar Ríkisendurskoðunar. Samningar hafa verið lausir frá 1. janúar  2007. Sveitarfélagið hefur annast reksturinn frá 1996 og mikilvægt er  að eyða óvissu um hann.        Umhverfis- og skipulagsmál     Sjálfbær þróun um nýtingu náttúruauðlinda  Ársþing SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  leggur áherslu á að andi sjálfbærrar þróunar verði leiðarljós í áætlunum um nýtingu auðlinda.  Suðurland  er ríkt af orkuauðlindum og er sjálfbærni og endurnýjun  grundvallarþáttur í útfærslu og framkvæmd áætlana um nýtingu  orkuauðlinda landsins.  Ennfremur leggur ársþing SASS áherslu á að orka er til verður í héraði verði nýtt til atvinnusköpunar á Suðurlandi.  Vatnajökulsþjóðgarður  Ársþing  SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. September, leggur áherslu á að í  uppbyggingu og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs verði uppbygging atvinnulífs  og efling byggðar höfð að leiðarljósi ásamt náttúruvernd og auknum  möguleikum til útivistar.  Frá því að umræða hófst um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið lögð megin áherslu á að þjóðgarðurinn verði  aflvaki fyrir jákvæða þróun byggðar á nærsvæði hans.  Ársþing SASS hvetur til þess að staðfest verði sú atvinnustefna sem fram kemur í verndaráætlun  Vatnajökulsþjóðgarðs við gildistöku hennar.  Ársþingið  ítrekar jafnframt að staðið verði við fyrirheit um fjárframlög sem  gefin voru við setningu laga um Vatnajökulsþjóðgarð.              Ný lög – meðferð skipulagsmála – staðfesting aðalskipulags  Ársþing  SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, fagnar því að ný  skipulagslög skuli nú loksins hafa hlotið samþykki Alþingis.  Með samþykkt þeirra mun meðferð skipulagsmála væntanlega falla í skýrari farveg en hingað til.  Sorpurðun Ársþing  SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, beinir þeim tilmælum  til nýrrar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands að allra leiða verði leitað  til að minnka umfang þess efnis sem sent er til urðunar. Jafnframt  hvetur ársfundurinn aðildarsveitarfélög til að skoða með opnum huga  möguleika á staðsetningu úrvinnslustöðvar í sveitarfélögunum sem þá gæti  jafnframt orðið miðstöð endurvinnslu og úrvinnslu á nýtanlegu hráefni  auk urðunar.  Þjóðgarðurinn á Þingvöllum  Ársþing SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  gerir  athugasemdir við að sérlög skuli gilda um þjóðgarðinn á Þingvöllum þar  sem hann er undanskilinn lögum um frístundabyggð. Ársþing SASS leggur  jafnframt  til að við 2. grein laganna verði bætt  ákvæði um að fulltrúi Bláskógabyggðar fái sæti í Þingvallanefnd til  viðbótar þeim 7 þingmönnum sem í henni sitja, eða  til vara,  fái áheyrnarfulltrúa í nefndinni.  Rökin eru augljós en  verkefni  nefndarinnar skarast að sumu leyti á við verkefni sveitarfélagsins skv.  lögum og því nauðsynlegt að fullt samráð sé á milli þessara aðila auk  þess sem  nauðsynlegt upplýsingaflæði verði tryggt.   Svifryksmælingar   Ársþing  SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, telur nauðsynlegt  fyrir velferð íbúa að SASS hafi forgöngu um fjármögnun á færanlegum  svifryksmæli og  í kjölfarið verði  Heilbrigðiseftirliti falin umsjón og vöktun mælinganna.  Horft verði til hagkvæmni og færanleika tækisins til nýtingar á þeim stað þar sem þörfin er mest hverju sinni.     Í  þeim náttúruhamförum sem gengu yfir Suðurland þegar eldgosið í  Eyjafjallajökli hófst, er ljóst að íbúar, sveitarfélög, Almannavarnir og  aðrir aðilar þurftu að takast á við afar erfitt verkefni.  Afleiðingar urðu margvíslegar fyrir samfélagið en helsta langtímaógnunin fyrir velferð íbúa svæðisins er svifryk/aska í lofti.     Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga  Ársþing  SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, ítrekar nauðsyn þess  að teknir verði upp styrkir til sveitarfélaga vegna fráveituframkvæmda.  Ljóst er að sveitarfélög munu eiga mjög erfitt með að uppfylla þær  lagaskyldur sem á þau eru settar nema með stuðningi. Sveitarfélög á  landsbyggðinni búa mörg hver við mjög viðkvæma viðtaka og verða því að  fara í mjög kostnaðarsamar aðgerðir til þess að koma sínum fráveitumálum  í lag. Ársþingið vill einnig árétta að málefnið er ekki hagsmunamál  einstakra sveitarfélaga heldur lífríkisins alls og þar með sameiginlegur  ávinningur allra.     Í  ljósi þess að íslenskum sveitarfélögum er gert að uppfylla strangari  kröfur í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp heldur en  tilskipun ESB gerir ráð fyrir, beinir Ársþing SASS þeim eindregnu  tilmælum til ríkisins að halda áfram að veita styrk vegna  fráveituframkvæmda.     Ársþing SASS bendir sérstaklega á  að  taka þurfi út úr reglugerðinni hið íslenska ákvæði sem snýr að því að  sveitarfélög við sjó þurfa að uppfylla mun strangari kröfur um  þynningarsvæði en gerist og gengur í löndum Evrópusambandsins.     Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna   Ársþing SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  hvetur ríkisstjórnina  til að setja sem fyrst reglugerð skv. lögum 9/2009 um uppbyggingu og  rekstur fráveitna og gefa þannig sveitarfélögunum tæki til útfærslu á  lögunum.  Með lögunum eru settar nýjar skyldur á sveitarfélögin auk útvíkkaðra skyldna á eldri verkefnum.  Þar  er heimild til reglugerðarsetningar um frekari útfærslu á þeim og telja  sveitarfélögin að slík reglugerð sé nauðsynlegt tæki til að vinna að  þessum málum á samræmdum og samhæfðum grunni.        Mennta- og menningarmál     Menntun fyrir alla   Ársþing  SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, leggur ríka áherslu á  uppbyggingu menntunar á öllum skólastigum og góðrar aðstöðu til  fjarkennslu í öllum fjórðungnum. Gott aðgengi að menntun er ein  mikilvægasta forsenda byggðar í landinu og stuðlar að nýsköpun í  atvinnulífi. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að efla aðgengi fólks að  endur- og símenntun.  ART verkefnið á Suðurlandi  Ársþing SASS,  haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  skorar  á ríkisvaldið að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til ART  verkefnisins á Suðurlandi. ART verkefnið hefur staðið frá árinu 2006. Nú  starfa 3 sérfræðingar í 2,5 stöðugildum við meðferð og ráðgjöf úti í  skólunum sjálfum. ART verkefnið skiptir miklu máli fyrir fjölmarga  einstaklinga og fjölskyldur auk þess að styrkja skólastarf á Suðurlandi í  heild.  Aðalfundur  felur stjórn SASS að skipa þriggja manna starfshóp sem hafi það  hlutverk að ná samningi við ríkið um framlag þess til verkefnisins.  Þekkingar- og háskólasetur á Suðurlandi  Ársþing SASS,  haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  telur  að efling háskóla- og fræðastarfs í fjórðungnum sé ein megin forsenda  jákvæðrar búsetuþróunar og aukinna lífsgæða. Ársþingið leggur því ríka  áherslu á að ríkisvaldið tryggi þessari starfsemi fjármagn til enn  frekari uppbyggingar í fjórðungnum. Víða er unnið gróskumikið starf á  þessu sviði, má þar nefna Nýheima á Höfn, Þekkingarsetrið í  Vestmannaeyjum og Háskólafélag Suðurlands. Ársþingið hvetur  sveitarfélög til að standa þétt að baki þessarar starfsemi og tryggja að allir íbúar fjórðungsins hafi aðgengi að þjónustunni.  Árþingið  hvetur þekkingar- og háskólasetur til að auka samstarf sín í milli  innan fjórðungsins og jafnframt skorar ársþingið á aðildarsveitarfélögin  að efla samstarf sitt við rannsóknarmiðstöðvarnar.  Mjög  mikilvægt er að greiða fyrir aðgangi  fullorðins fólks að framhalds- og  háskólanámi á Suðurlandi og ekki síst nú þegar kreppa ríkir í  atvinnumálum.  Þar gegna háskólafélagið og símenntunarmiðstöðvarnar  lykilhlutverki.  Ársþing SASS beinir því til stjórnar SASS að  kannaðir verði möguleikar á að Háskóli Íslands í samstarfi við  Háskólafélag Suðurlands, Nýheima og Visku komi á fót námi í matvælafræði  á Suðurlandi en það nám hefur átt undir högg að sækja við H.Í. á  undanförnum árum.  Bent er á í  þessu sambandi að á Suðurlandi er mikil  og fjölbreytt matvælaframleiðsla bæði í tengslum við landbúnað og  sjávarútveg. Matvælastofnun er staðsett á Selfossi og hefur Matís  starfstöðvar á Höfn og í Vestmannaeyjum og á Flúðum er starfsstöð  væntanleg.  Sjávarrannsóknamiðstöð í Vestmannaeyjum.   Ársþing SASS,  haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  skorar  á Alþingi að tryggja sjávarrannsóknamiðstöðinni sem hefur verið í  uppbyggingu í Vestmannaeyjum fjármagn til reksturs. Rannsóknarmiðstöðin  hefur þegar hafið störf en hún hefur verið í uppbyggingu frá árinu 2007 í  kjölfar mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á  þorskkvóta. Áætlað er að miðstöðin verði fullkláruð um mitt ár 2011 en  þá verður nauðsynlegt að tryggja stöðinni fjármagn til að halda úti  grunnrekstri. Miðstöðinni verður ætlað að sinna bæði vísinda- og  kennsluverkefnum og verður hún aðgengileg m.a. fyrir nemendur,  rannsóknarstofnanir og fyrirtæki á Suðurlandi.  Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði  Ársþing SASS haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010  skorar  á Alþingi að rekstur Rannsóknarmiðstöðvar H.Í. í  jarðskjálftaverkfræði, sem hefur verið starfrækt á Selfossi undanfarinn  áratug  með góðum árangri, verði tryggður. Jarðskjálftamiðstöðin hefur  að mestu verið rekin fyrir sjálfsaflafé en jafnframt notið framlags af  fjárlögum.  Líkur eru á því að ef það framlag fellur niður verði ekki  lengur grundvöllur fyrir starfseminni á Selfossi.  Mikill skaði væri ef  starfsemin legðist niður í ljósi þess gagns sem orðið hefur af henni.   Ársþing SASS skorar því á Alþingi að tryggja áframhaldandi framlag til  starfseminnar.  Verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands  Ársþing SASS,  haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  fagnar  undirritun samkomulags mennta- og mannréttindamálaráðuneytis við  sveitarfélögin um að hefja hönnun viðbyggingar við verknámshús  Fjölbrautaskóla Suðurlands á grundvelli þarfagreiningar sem liggur  fyrir. Sveitarfélögin hafa þegar lagt fram fé til verkefnisins. Stefnt  verði að því að verkið verði síðan boðið út og ríkið geri ráð fyrir  fjármögnun af sinni hálfu þannig að verkið geti hafist fyrir árslok  2011.        Nýtt samstarf  Ársþing SASS,  haldið  á Selfossi 13. og 14. september 2010, fagnar þeim möguleikum er hafa  skapast fyrir samstarf milli Vestmannaeyja og Suðurlands með tilkomu  Landeyjahafnar. Ársþingið hvetur samgönguráðherra til að endurskoða  siglingaráætlun Herjólfs með hliðsjón af þessum möguleikum. Ljóst er að  nauðsynlegt er að ríkið tryggi að minnsta kosti fjórar ferðir á dag yfir  vetrartímann til að hægt sé að sækja nám á milli þessara svæða.     Menntaþing  Ársþing SASS,  haldið  á Selfossi 13. og 14. september 2010, beinir því til stjórnar SASS að  standa fyrir menntaþingi á komandi vetri þar sem staða og framtíð  menntunar á Suðurlandi yrði til umfjöllunar. Þingið verði haldið í  samráði við Skólaskrifstofu Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands og aðrar  mennta- og rannsóknarstofnanir á svæðinu.     Einingarbært nám grunnskólanema í framhaldsskólum  Ársþing SASS,  haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  skorar  á mennta- og menningarmálaráðherra að fara að lögum um grunnskóla nr.  91/2008 og lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 sem tryggja  grunnskólanemendum sem lokið hafa grunnskólaprófi í einstökum greinum  rétt til að hefja nám á framhaldsskólastigi samhliða námi í grunnskóla  án kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin.  Enginn sparnaður er fólginn í því að halda aftur af bráðgerum nemendum í námi.     Menningarsamningar tryggðir  Ársþing SASS,  haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  hvetur  mennta- og menningarmálaráðuneytið annars vegar og iðnaðarráðuneytið  hins vegar til að ganga nú þegar frá samningum við sveitarfélögin um  framhald menningarsamninganna.  Enn fremur þarf að  tryggja fjármagn til að koma til móts við stækkun starfssvæðis  menningarsamnings Suðurlands með inngöngu Hornfirðinga í samninginn.  Að endingu leggur ársþingið til að samið verði til a.m.k. þriggja ára í senn.     Menningarhús á Suðurlandi  Ársþing SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  beinir  þeim tilmælum til stjórnar SASS að athugað verði hver staðan er á  nýtingu framlags til menningarhúss á Suðurlandi og hlutist til um að það  falli ekki niður heldur skapi atvinnu á svæðinu hið fyrsta.     Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi (landnotkunarsetur)  Ársþing SASS, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, skorar  á Alþingi að landnotkunarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi sitji við  sama borð og önnur fræðasetur á landsbyggðinni sem heyra undir  Stofnun  fræðasetra Háskóla Íslands hvað varðar fjárframlög.  Í fjárlögum 2009 og  2010 var veitt 5 m.kr til hvers og eins fræðasetranna nema  landnotkunarsetursins sem einungis hefur fengið árlegt framlag upp á 2  m.kr.        Atvinnumál      Atvinnuástand  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14. semptember 2010,  bendir  á að rúmlega 700 manns eru atvinnulausir á svæðinu. Þegar mest lét í  mars fyrr á þessu ári voru alls 1023 atvinnulausir. Mikilvægt er að  sveitarfélög og ríki vakti atvinnuástand og grípi til viðeigandi úrræða.  Einnig er mikilvægt að fá nánari greiningar á þeim atvinnutölum sem  Vinnumálastofnun gefur út.  Ársþing SASS telur mikilvægt að framkvæmd við Búðarhálsvirkjun verði hraðað.     Ferðaþjónusta allt árið  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14. september 2010,  hvetur  til aukins samstarfs á milli ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga og ríkis  til frekari uppbyggingar og markaðssetningar á heilsársferðaþjónustu.  Suðurland er nú þegar helsti viðkomustaður ferðamanna sem leggja leið  sína til Íslands. Ársþing SASS leggur áherslu á að bæta aðstöðu og  aðgengi fyrir ferðamenn á fjölsóttum ferðamannastöðum. Með tilkomu  Landeyjarhafnar, Geopark í Rangárvall- og Vestur – Skaftafellssyslu,  Vatnajökulsþjóðgarðs til viðbótar við Þingvallaþjóðgarð og aðrar  náttúruperlur skapast enn fleiri tækifæri í ferðþjónustu. Komi til  skattlagningar á komu ferðamanna til Íslands er mikilvægt að þeim  fjármunum sé varið til uppbyggingar á fjölförnum ferðamannastöðum.     Fullvinnsla matvæla  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14. september 2010,  telur  mikilvægt að stuðla að aukinni fullvinnslu matvæla og tryggja aðgengi  að ferskum íslenskum matvælum m.a. með sölu beint frá býli. Ársþing  leggur áherslu á að stutt verði við frekari uppbyggingu á matvælasmiðjum  og tengja þær enn frekar við framleiðendur alls staðar af svæðinu.     Orkunýting á Suðurlandi  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14. semptember 2010,  telur  mikilvægt að ríki og sveitarfélög á Suðurlandi standi saman að  atvinnuuppbyggingu á þeim svæðum þar sem landrými er fyrir hendi og  virkjanleg orka til staðar. Mikilvægt er að sveitarfélög á Suðurlandi  standi vörð um orkumál sérstaklega þegar höfð eru í huga þau áform  Landsnets að byggja upp línu frá Hellisheiði út á Reykjanes með  flutningsgetu frá 1600 – 2000 MW. Nái áform Landsnets fram að ganga er  ljóst að öll orka sem verður til á Suðurlandi í nánustu framtíð verður  flutt á annan landshluta til atvinnuuppbyggingar.  Ársþing SASS telur grundvallarforsendu fyrir nýtingu orku á Suðurlandi í framtíðinni að hún sé nýtt í héraði.        Skerðing á þjónustu ríkisins á landsbyggðinni.  Ársþing  Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14.  september 2010, gerir þá kröfu að við gerð fjárlaga verði jafnræðis gætt  á milli landshluta.  Sérstaklega sé horft til  þess að stór svæði utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar nutu að engu eða  að litlu leyti þess uppgangs sem var fyrir efnahagshrunið.     Breytingar  á sýslumannsembættum, embætta lögreglustjóra, héraðsdómara, skattstjóra  og skerðing á grunnþáttum í heilbrigðisþjónustu svo sem  sjúkraflutningum eru dæmi um vinnubrögð þar sem þessa jafnræðis er ekki  gætt. Slíkar aðgerðir munu hins vegar leiða af sér verra aðgengi að  þjónustu og aukinn kostnað við að fá þjónustu sem lenda mun á íbúum  svæðisins.  Veruleg hætta er á að störfum sem krefjast menntunar fækki við áformaðar aðgerðir.  Þingið bendir einnig á að rekstrarkostnaður á landsbyggðinni getur verið umtalsvert lægri en á höfuðborgarsvæðinu.     Ársþing  SASS telur nauðsynlegt að nánara samstarf verði við sveitarfélögin og  íbúa þegar ráðist er í breytingar á grunnþjónustu.     Raforkuverð til garðyrkjubænda  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14. september 2010, skorar  á þingmenn Suðurlands að beita sér fyrir því að fundin verði viðunandi  lausn á rafmagnsverði til garðyrkjubænda. Suðurland er vagga  matvælaframleiðslu á Íslandi og til þess að styrkja samkeppnisgrundvöll  blóma- og grænmetisframleiðenda á tímum sem þessum er mjög mikilvægt að  lækka rafmagnskostnað til framleiðenda til samræmis við það verð sem  selt er á til stórnotenda.     Þetta  alvarlega ástand gæti hæglega leitt til gjaldþrota í stórum stíl í  stéttinni með þeim afleiðingum að framleiðsla íslensks grænmetis mun  minnka í stað þess að aukast eins og mjög mikilvægt er að gerist með  tilliti til veikrar stöðu krónunnar.     Niðurgreiðslur til húshitunar  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14. september 2010,  skorar á þingmenn og ríkisstjórn að standa vörð um niðurgreiðslur til húshitunar.  Þingið telur að hækka þurfi fjárlagaliðinn við gerð fjárlaga árið 2011.  Þingið  bendir á að á sama tíma og raforkuverð hefur hækkað verulega, hefur  fjárlagaliðurinn og þar með taldar niðurgreiðslunnar, staðið í stað.  Á árinu 2010 eru 960 miljónum ráðstafað til niðurgreiðslna en hefðu þurfti að vera um 1.500 miljónir ef þær hefðu fylgt verðlagsþróun frá 2005.  Þingið  telur niðurgreiðslunnar mjög mikilvægt byggða- og réttlætismál, þar sem  húshitunarkostnaður vegna rafkyndingar hefur staðið mjög höllum fæti í  samanburði við jarðvarmaveitur.  Sá munur hefur farið vaxandi með verulegum hækkunum raforkuverðs á undanförnum misserum.           Áhrif hrossapestarinnar á hestamennsku á Suðurlandi  Ársþing  Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi dagana 13. og 14.  semptember 2010, lýsir yfir áhyggjum af afkomu hestamennsku sem  atvinnugreinar í ljósi þess ástands sem hrossapestin hefur skapað.  Ársþing SASS hvetur til að opinberir aðilar vakti atvinnugreinina og  komi til móts við hana eftir aðstæðum.          Samgöngumál     Haldið verði áfram uppbyggingu vegakerfisins á Suðurlandi   Ársþing  Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi, 13. og 14.  september 2010, leggur áherslu á að áfram verði haldið uppbyggingu og  samgönguúrbótum á Suðurlandi. Framkvæmdir við fyrsta áfanga tvöföldunar  Suðurlandsvegar hefjast innan nokkurra vikna og vænlega horfir um  viðræður við lífeyrissjóðina um fjármögnun þeirra á veginum í heild ásamt brú yfir Ölfusá við Selfoss. Áform um  að nýta brúarmannvirki yfir Ölfusá sem jöfnunarmannvirki vegna  raforkuvirkjunar eru framsæknar og ættu að styrkja þjóðhagslegan  ávinning af verkefninu enn frekar.  Framkvæmdum  er lokið við Landeyjahöfn og hún tekin í notkun. Framkvæmdir við brú  yfir Hvítá og veg á milli Flúða og Reykholts eru langt komnar  sama  gildir um Lyngdalsheiðarveg á milli Laugarvatns og Þingvalla og  Suðurstrandarveg á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Nauðsynlegt er  fyrir framtíðar- uppbyggingu samfélagsins að innviðir þess verði  styrktir  og þar eru samgöngur ein af grunnstoðunum.  Mikilvægt er einnig að sporna gegn samdrætti og atvinnuleysi með verklegum framkvæmdum hins opinbera.  Ársþingið vekur sérstaka áherslu á nauðsyn úrbóta í  samgöngumálum í Sveitarfélaginu Hornafirði og bendir á að engar stærri  vegaframkvæmdir  eru þar í gangi þrátt fyrir  mikinn fjölda einbreiðra brúa  á þjóðvegi 1 og brýna þörf fyrir nýtt vegstæði og brú yfir Hornafjarðarfljót.     Fjármögnun Suðurlandsvegar  Ársþing  Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi, 13. og 14.  september 2010, fagnar því að framkvæmdir eru að hefjast við tvöföldun  Suðurlandsvegar innan nokkurra vikna og leggur mikla áherslu á að  Suðurlandsvegur á milli Selfoss og Reykjavíkur verði tvöfaldaður allur   og viðræðum við lífeyrissjóðina  verði lokið sem fyrst um fjármögnun framkvæmdarinnar.  Til þess liggja fjölmörg rök.  Í fyrsta lagi er mjög mikil og vaxandi umferð um veginn. Í öðru lagi  er há slysatíðni  á veginum og í þriðja lagi liggur fyrir að arðsemi tvöföldunar er mjög mikil.  Einnig er ljóst skv. könnunum  að  almenningur telur þessa framkvæmd langbrýnasta úrlausnarefnið í  samgöngumálum þjóðarinnar. Ársþingið bendir á að áætlað hefur verið að  með tvöföldun Suðurlandsvegar geti sparast allt að 500 milljónir króna  árlega vegna færri slysa , þar af sparnaður tryggingafélaga um 300  milljónir króna og  ríkisins um 200 milljónir króna vegna  ýmiss kostnaðar sem af umferðarslysum hlýst.     Vegna   tillagna sem fram hafa komið um veggjöld í tengslum við tvöföldun Suðurlandsvegar  leggur  ársþing SASS áherslu á að sanngjarnara og ódýrara væri að legga á  sérstakt eldsneytisgjald til að fjármagna þessar framkvæmdir sem og  aðrar brýnar samgöngu- framkvæmdir annars staðar á landinu.  Með þeim hætti eru bein tengsl á milli notkunar og gjalda auk þess  sem allir vegfarendur greiða hvort sem farið er um  fáfarna eða fjölfarna vegi.  Þá  er augljóst að nokkur kostnaður verður vegna innheimtu veggjalda sem  hægt væri að komast hjá með álagningu sérstaks eldsneytisgjalds.     Tvíbreiðar brýr í stað einbreiðra  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   vekur sérstaka athygli á að enn er fjöldi einbreiðra brúa í vegakerfinu á suðursvæði Vegagerðarinnar.  Staðreyndin er að um 20 einbreiðar brýr eru á þjóðvegi 1 í Skaftafellssýslum, flestar í A-Skaftafellssýslu.  Á meðan þær eru við lýði er öryggi vegfaranda ógnað. Sú ógn fer vaxandi með aukinni  og þyngri umferð  stórra flutningabíla og einnig mikilli fjölgun ferðamanna.  Í  því sambandi er bent á að Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einn  vinsælasti ferðamannastaður landsins. Því er mikilvægt að gert verði  stórátak í tvöföldun brúa.     Nýtt vegstæði fyrir Hornafjörð  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   leggur  mikla áherslu á að farið verði að aðalskipulagi Sveitarfélagsins  Hornafjarðar þegar ráðist verður í gerð nýs vegstæðis yfir Hornafjörð      Sú leið sem aðalskipulag gerir ráð fyrir styttir vegalengdir innan  sveitar um tæpa 5 kílómetra en lengir þó ekki leið þeirra sem leið eiga  um þjóðveg 1.  Ársþingið leggur þunga áherslu á að gert verði ráð fyrir brúnni  í nýrri 4 ára samgönguáætlun.     Nýtt vegstæði yfir þornaðan farveg Skeiðarár.  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, bendir á að fylgjast þarf grannt með breytingum á farvegi  jökulfljóta  á Skeiðarársandi og að hefja þurfi rannsókn á vegstæði yfir farveg  Skeiðarár en hún fellur nú í Gígjukvísl og að öllum líkindum til  frambúðar.     Áhersla á tengivegi og safnvegi.   Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  leggur mjög mikla áherslu á að gerðar verði gagngerðar endurbætur á tengi- og safnvegakerfinu eftir tímasettri framkvæmdaáætlun.   Mikil  umferðaraukning hefur orðið á þessum vegum og þeir gegna mun stærra  hlutverki nú en áður vegna breyttra atvinnuhátta og stóraukins  ferðamannastraums. Ársþingið mótmælir ákvörðun Vegagerðarinnar um að  færa tengi- og safnvegi yfir á sveitarfélög sem héraðsvegi. Þá minnir  þingið á nauðsyn þess að meðan þessir vegir hafa ekki verið lagðir  bundnu slitlagi er mjög brýnt að framlög til viðhalds malarvega og  snjómokstur verði aukin.     Ný Vestmannaeyjaferja  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,  fagnar tilkomu nýrrar Landeyjahafnar.  Ekki er vafi á því að um stórkostlegt framfaraskref er að ræða í samgöngum við Vestmannaeyjar.  Mikilvægt  er að nýta þau nýju tækifæri sem gefast með tilkomu hafnarinnar og  jafnframt að hún verði eins öflug samgönguleið og kostur er.  Ársþingið bendir þó  á  mikilvægi þess að undirbúningur að smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju  hefjist sem fyrst.  Ljóst er að frátafir verða meiri á siglingum á meðan  núverandi Herjólfur verður í ferðum á milli Vestmannaeyja og nýrrar  hafnar.  Grundvallaratriði er að möguleikar til stórbættra samgangna við  Vestmannaeyjar verði nýttir til fulls.  Ársþingið  leggur áherslu á að  ferðatíðni verði nægileg og bendir á, miðað við þá reynslu sem komin er, að nauðsynlegt er að bjóða upp á a.m.k. 4 ferðir á dag.  Þá  leggur ársþingið áherslu á að Þorlákshöfn verði varahöfn ferjunnar og  skorar á Vegagerðina að semja við Sveitarfélagið Ölfus um framtíðar  hafnaraðstöðu.     Stórskipahöfn í Þorlákshöfn.  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   leggur áherslu á að ein af forsendum vaxtar og orkufrekrar starfsemi  á svæðinu er að stórskipahöfn sé í nágrenninu og að hafnir á Suðurlandi (þ.m.t. Vestmannaeyjum) taki mið af næstu kynslóð skipa.  Fyrir liggur að staðsetning orkufrekrar starfsemi  í Þorlákshöfn er einkar hagstæð af ýmsum ástæðum og því æskilegt  að þar verði í framtíðinni komið upp stórskipahöfn.  Þá er ljóst að verulegt hagræði gæti orðið með slíkri höfn fyrir vöruflutninga og ferjusiglingar  á milli Íslands og annarra landa vegna styttri siglingaleiðar. Verulegar endurbætur voru gerðar á  höfninni í Þorlákshöfn fyrir fáeinum árum. Þrátt fyrir framkvæmdirnar er  höfnin ekki  stórskipahöfn og því ákveðin takmörk sett. Því er mikilvægt  að kannaðir verði allir möguleikar á gerð stórskipahafnar í Þorlákshöfn.     Jarðgöng undir Reynisfjall  Ársþing  Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14.  september 2010, vekur athygli á því að vegurinn fyrir Reynisfjall er  einn erfiðasti faratálmi á þjóðvegi 1 allt austur á land. Leggur mikla  áherslu á að jarðgöngum um Reynisfjalli fari nú þegar á samgönguáætlun.     Fjarskiptamál  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010, leggur áherslu á  að allir landsmenn hafi aðgang að háhraða gagnaflutningskerfi. Þingið leggur áherslu á  að  fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði verði gert skylt að tryggja  fullnægjandi gæði á þeim svæðum þar sem þau bjóða þjónustu sína.  Sjái þau sér það ekki fært láti  Fjarskiptastofnun fara fram  útboð á þessum svæðum.     Hornafjarðarhöfn  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   telur  mikilvægt að vinna þurfi að framtíðarlausn í málefnum innsiglingar um   Hornafjarðarós.  Tryggja þarf skipum með djúpristu yfir 7 metra  nægjanlegt dýpi yfir Grynnslin og í höfninni sjálfri. Þetta er ein af  mikilvægum þáttum í áframhaldandi þróun á fiskveiðum.     Almenningssamgöngur   Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   telur mikilvægt  að stórefla almenningssamgöngur bæði á Suðurlandi og á milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins.  Efling  almenningssamgangna er þjóðhagslega hagkvæm, þær leiða til sparnaðar í  rekstri samgöngukerfisins, draga úr mengun og síðast en ekki síst draga  úr útgjöldum einstaklinganna.  Sveitarfélagið  Árborg og Hveragerðisbær kosta nú að mestu leyti rekstur  almenningssamgangna milli Selfoss, Hveragerðis og Reykjavíkur í samvinnu  við Strætó bs.  Verkefnið hefur gefist vel en  ljóst er að ríkið sem hefur einna mestra hagsmuna að gæta leggur aðeins  fram brot af hinum samfélagslega kostnaði  en viðkomandi sveitarfélög bera meginhluta hans.   Mikilvægt er að ríkið komi mun öflugar að þessu þjóðþrifamáli í framtíðinni.  Þá leggur ársþingið mikla áherslu að endurskoðun  á  almenningssamgöngum sem nú fer fram á á vegum samgönguráðuneytisins  verði hraðað og að lögð verði áherslu á betri nýtingu fjármuna sem renna  til almenningssamgangna með aukinni samnýtingu ferða.     Landbrot  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   telur mikilvægt  að  sporna við miklu landbroti af völdum sjávar og jökulfljóta sem ógna  byggð, vegum og brúm.  Brýnt er að fylgjast náið með landbrotið við  Jökulsá á Breiðamerkursandi þar sem stutt er orðið frá þjóðvegi niður í  fjöruborð. Árið 1994 var gerð áætlun af Siglingastofnun um sjóvörn í  Vík. Fjöruborðið er komið langt inn fyrir þau viðmiðunarmörk sem þá voru  sett.  Einungis eru 50 m frá fjörukambi að íþróttavelli og 180 m að  íþróttamannvirkjum.     Hornafjarðarflugvöllur  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   leggur  áherslu á að Hornafjarðarflugvöllur fái aftur löggildingu sem  millilandaflugvöllur með áherslu á ferju- og einkaflug. Staðsetning  flugvallarins gerir það að verkum að hann er fyrsti kostur í ferjuflugi  milli megnlands Evrópu og Íslands.     Hafnir  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   leggur áherslu á tryggt verði fé til rannsókna á sandburði í og umhverfis sunnlenskar hafnir   Hornafjarðarós, Landeyjarhöfn, Vestmannaeyjahöfn og Þorlákshöfn     Umferðaröryggi  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   bendir  á að með tilkomu Landeyjarhafnar hefur stór aukist umferð um þjóðveg 1 á  Suðurlandi. Nauðsynlegt er að huga vel að umferð kringum þéttbýlisstaði  samanber veginn í gegnum Hvolsvöll.        Aðrar ályktanir     Sameining sveitarfélaga á Suðurlandi.  Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,    telur  að eðlilegt sé að skoðað verði áfram með sameiningu sveitarfélaga á  Suðurlandi þannig að sveitarfélögin verði rekin í skynsamlegum og  hagkvæmum einingum en frumkvæðið eigi að koma frá sveitarfélögunum  sjálfum.  Allsherjarnefnd vill einnig benda á að  sveitarfélög sem vilja skoða sameiningarkosti geti sótt um styrk í  Jöfnunarsjóð Sveitarfélaga vegna þeirrar vinnur.     Jafnvægi í kynjahlutföllum.   Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Selfossi 13. og 14. september 2010,   vill vekja athygli á kynjahlutföllum í nefndum og stjórnum stofnana á vegum SASS.   Vill  nefndin benda sérstaklega á að af 7 formönnum í fastanefndum og stjórn  SASS eru 1 karl og 6 konur en í stjórnum stofnana SASS er þetta jöfn  skipti.
																														
