Umræðan um velferð og farsæld barna hefur verið áberandi í samfélaginu að undanförnu. Á síðasta ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var stigið sögulegt skref þegar öll 15 sveitarfélög landshlutans, ásamt lykilþjónustuveitendum, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um stofnun Farsældarráðs Suðurlands.

Með stofnun ráðsins var lagður grunnur að því að brjóta niður veggi milli kerfa og tryggja að börn á Suðurlandi fái rétta þjónustu á réttum tíma. Arna Ír Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Farsældarráðs Suðurlands, ritar hér grein ásamt kollegum sínum úr öðrum landshlutum. Þau benda á að lausnin við því ákalli um samvinnu sem nú heyrist sé nú þegar til staðar í farsældarráðunum. Lesa má greinina hér að neðan:

Sam­talið er hafið – farsældarráðin eru lykillinn

Undanfarið hafa málefni barna og ungmenna verið mikið til umræðu í samfélaginu. Áhyggjur af líðan, frammistöðu í skóla, ofbeldi og félagslegri einangrun hafa kallað fram háværar raddir um að eitthvað þurfi að breytast. Í umræðunni er ítrekað kallað eftir auknu samstarfi innan kerfisins og að ólíkar fagstéttir, foreldrar og ungt fólk leggist saman á árarnar við að móta lausnir og raunhæfar aðgerðir. Inga Sæland, nýskipaður mennta- og barnamálaráðherra og Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands ræddu einmitt þetta í Sprengisandi á Bylgjunni þann 25. janúar síðastliðinn. Þar var lögð áhersla á mikilvægi samtals og samvinnu á milli fagfólks og ólíkra þjónustukerfa. Þessi skilaboð eru mikilvæg og tímabær.

Samstarf þvert á kerfi er þegar hafið

Með nýstofnuðum farsældarráðum í öllum landshlutum hefur þegar verið skapaður formlegur og lögbundinn vettvangur fyrir samstarf þeirra sem koma að farsæld og velferð barna og fjölskyldna þeirra. Í farsældarráðum koma saman fulltrúar sveitarfélaga í skóla- og velferðarþjónustu, framhaldsskóla, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, íþrótta og tómstunda, foreldra, ungmenna auk annarra hagaðila. Þessir fulltrúar hafa það markmið að tryggja snemmtæka íhlutun og öflugt samstarf þvert á þjónustukerfin. Nú þegar fer fram mikil og markviss vinna í farsældarráðunum við að greina stöðuna í hverjum landshluta og móta sameiginlegar lausnir sem taka mið af raunverulegum aðstæðum barna, fjölskyldna og fagfólks.

Lausnin er nær en við höldum

Farsældarráðin eru ekki lengur hugmynd á teikniborðinu heldur lifandi vettvangur fyrir samtal, samhæfingu og aðgerðir. Til þess að ná árangri í málefnum barna og ungmenna þurfum við ekki alltaf að finna upp hjólið, heldur nýta betur það sem þegar hefur verið sett á laggir og tengja kerfin okkar saman. Með því að styrkja farsældarráðin, hlusta á þau og virkja þau enn frekar í stefnumótun og ákvarðanatöku er hægt að dýpka þann samstarfsvettvang sem svo oft hefur verið kallað eftir.

Breytum kerfinu – nú er tækifærið

Lausnin felst í sameiginlegri ábyrgð. Farsæld barna er ekki verkefni eins kerfis eða eins hóps, hún er samfélagslegt verkefni okkar allra. Undirrituð fagna því að mennta- og barnamálaráðherra skuli leggja áherslu á mikilvægi samtals og samvinnu. Farsældarráðin eru mikilvægur hlekkur hvað varðar áframhaldandi og aukið samstarf milli allra þeirra sem koma að málefnum barna. Nú er tækifærið – nýtum það.

Arna Ír Gunnarsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Suðurlands
Bára Daðadóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Vesturlands
Erna Lea Bergsteinsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Vestfjarða
Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins
Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Suðurnesja
Nína Hrönn Gunnarsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Austurlands
Sara Björk Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Norðurlands vestra
Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri farsældarráðs Norðurlands eystra