Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum í Byggðarannsóknasjóð. Sjóðurinn veitir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem hafa það að markmiði að efla þekkingargrunn byggðamála og stuðla að jákvæðri þróun byggðar.
Til úthlutunar að þessu sinni eru allt að 17,5 milljónir króna og eru styrkir veittir til eins árs. Umsóknarfrestur er til hádegis þann 4. mars 2026.
Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnanir eða aðrir lögaðilar.
Við mat á umsóknum er horft til eftirfarandi þátta:
- Hvernig verkefnið styður við tilgang sjóðsins og tengist byggðaþróun.
- Vísindalegt og hagnýtt gildi verkefnisins.
- Nýnæmi verkefnisins.
- Gæði umsóknar (skýr markmið, vönduð rannsóknaráætlun og hnitmiðaður texti).
Nánari upplýsingar, reglur sjóðsins og rafrænt umsóknarform má finna á vef Byggðastofnunar.



