Alþjóðlega samstarfsverkefninu INNOCAP, sem unnið var með styrk frá Interreg Norðurslóðaáætluninni, er nú formlega lokið. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa leikið lykilhlutverk í verkefninu með þróun á stafrænu lausninni Úrgangstorgi, sem varpar nýju ljósi á kostnað og magn úrgangs í sveitarfélögum.

Sem þátttakandi í INNOCAP þróaði SASS „Úrgangstorg“ – gagnasvæði sem sameinar upplýsingar um úrgangsmagn og kostnað sveitarfélaga í eitt aðgengilegt greiningarviðmót. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við þrjú sveitarfélög á Suðurlandi og fól meðal annars í sér umfangsmikla söfnun, samræmingu og greiningu gagna úr reikningum þjónustuaðila.

Dýrmætur lærdómur

Þrátt fyrir að  „Úrgangstorg“ sé enn á tilraunastigi hefur vinnan skilað mikilvægum upplýsingum. Verkefnið sýndi skýrt fram á þörfina fyrir samræmd gagnasnið, sjálfvirkt gagnaflæði og notendavænni framsetningu upplýsinga í málaflokknum.

Elísabet Björney Lárusdóttir, umhverfissérfræðingur SASS sem leiddi verkefnið, segir reynsluna nýtast vel til framtíðar:

„Verkefnið hefur sýnt okkur svart á hvítu hversu mikilvægt það er að hafa aðgengileg og áreiðanleg gögn í úrgangsmálum. Með Úrgangstorgi vildum við búa til tæki sem gefur sveitarfélögum raunverulega yfirsýn, ekki bara yfir kostnað heldur líka magn og flokkunarhlutfall. Þessi tilraunafasi leiddi í ljós að stafrænar lausnir og samræming gagna er nauðsynleg til að við getum tekið upplýstar ákvarðanir í umhverfismálum og stutt betur við hringrásarhagkerfið. Lærdómurinn úr INNOCAP er dýrmætur grunnur fyrir næstu skref.“

Hvað er INNOCAP?

Opinberar stofnanir á norðurslóðum standa frammi fyrir vaxandi kröfum um gæði og sjálfbærni í þjónustu en glíma oft við landfræðilegar og lýðfræðilegar áskoranir. INNOCAP verkefnið var sett á laggirnar til að mæta þessum áskorunum.

Í stuttu máli snýst INNOCAP um að:

  • Brúa bilið: Hjálpa dreifbýlum svæðum sem búa við óhagstæð skilyrði, s.s. vegna fólksfækkunar, mikilla fjarlægða og hás þjónustukostnaðar, að tileinka sér tækninýjungar.
  • Efla stafræna færni: Vinna gegn skorti á færni við innleiðingu stafrænna lausna.
  • Prófa nýjar lausnir: Verkefnið gengur út á að finna og prófa „snjallar lausnir“ (e. quick win initiatives) og nýsköpun sem leysir endurtekin vandamál í opinberri þjónustu.

Með því að veita opinberum aðilum stuðning til að leiða innleiðingu á nýrri tækni miðar INNOCAP að því að tryggja sjálfbæra og betri þjónustu fyrir íbúa á norðurslóðum.

Alþjóðlegt samstarf

Verkefnið var unnið af aðilum frá Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Írlandi. Samstarfið leiddi af sér fjögur tilraunaverkefni sem öll miðuðu að stafrænum lausnum fyrir loftslags- og umhverfismál, sjálfbæra þjónustu og nýsköpun í opinberum rekstri.

Nánari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess má finna á vef Interreg NPA hér.