Nú er slegið í Upptaktinn á nýjan leik og leitað að hugmyndum frá börnum og ungmennum í 5.–10. bekk sem hafa áhuga á að skapa sína eigin tónlist. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga eru stoltur samstarfsaðili verkefnisins og hvetja öll skapandi ungmenni á Suðurlandi til að taka þátt.

Upptakturinn er tónsköpunarverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja börn og ungmenni til tónsmíða. Verkefnið hefur verið haldið árlega frá árinu 2012 og hafa um 160 ný tónverk verið flutt á tónleikum þess frá upphafi.

Frá hugmynd að tónleikum í Hörpu

Börn og ungmenni senda inn hugmyndir að lögum eða tónsmíðum í því formi og stíl sem þau kjósa. Valnefnd tekur síðan við innsendum hugmyndum og velur úr þeim 13 tónsmíðar eða lagahugmyndir til áframhaldandi vinnslu.

Í kjölfarið vinna ungu lagahöfundarnir úr hugmyndum sínum í samstarfi við tónsmíðanemendur við Listaháskóla Íslands. Hápunktur verkefnisins er svo flutningur starfandi tónlistarfólks á nýju tónverkunum á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu þann 22. apríl 2026. RÚV tekur tónleikana upp og sendir þá út, ásamt því að birta viðtöl við ungu tónskáldin um sköpunarferlið.

Hvernig sæki ég um?

Umsóknarfrestur er til og með sunnudagsins 22. febrúar 2026. Umsóknir skal senda á netfangið upptakturinn@harpa.is. Lagahugmyndina má senda sem hljóðupptöku (mp3), á nótum eða í óhefðbundnu formi svo sem teikningu eða texta. Verkið skal vera á bilinu 1–5 mínútur að lengd.

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja umsókn:

  • Nafn, heimilisfang og sveitarfélag.
  • Skóli og bekkur.
  • Símanúmer og netfang forráðamanns.
  • Titill verks.

Nánari upplýsingar er að finna á harpa.is/upptakturinn.

Upptakturinn_A4_poster_226_05